Hreinlega fatta þetta ekki!
29.9.2010 | 06:45
Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna fyrrum forsætisráðherra er saknæmur í fjármálahruninu en fyrrum viðskiptaráðherra og fyrrum fjárálaráðherra eru það ekki? Ég veit svo sem ekki mikið um hver verkaskipting var nákvæmlega innan ríkisstjórnarinnar en hefði haldið að báðir þessir ósaknæmu ráðherrar hefðu haft eitthvað með fjármálin að gera. Eða hvað? Ef forsætisráðherra stýrir í raun fjármálunum, hvað höfðum við með fjármálaráðherra eða viðskiptaráðherra að gera? Eru þeir bara einhverjir leppar?
(Sá annars í viðtali við Skúla Helgason að hann telur muninn liggja í völdum. Það er auðvitað rétt að Geir hafði meiri völd en þeir hinir en ég get ekki ímyndað mér að þeir hafi ekki haft nein áhrif á það sem fram fór. Kommon...)
Samfylking réð úrslitum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Málfræðingurinn Chomsky
29.9.2010 | 02:51
Noam Chomsky er goð í heimi málvísindanna. Án efa þekktasti og virtasti málfræðingur sem uppi hefur verið og því finnst okkur málfræðingum alltaf svolítið skítt að hann skuli vera að vesenast í pólitík í stað þess að skrifa um málfræði. Ekki það að hann sé ekki góður í pólitíkinni - það sem ég hef séð frá honum er yfirleitt býsna gáfulegt, en í málfræði er hann snillingur og við söknum hans og hugmynda hans.
Annars hreifst ég svo sem aldrei að Minimalist kenningu hans sem var á hraðri uppleið um það leyti sem ég var að ljúka mastersnámi. Og því miður hefur það lengi verið þannig að Chomsky hefur ákveðinn áhangendahóp sem lepur upp hvert orð sem frá honum kemur og virðist aldrei efast. Þannig var það m.a. þegar Minimalisminn kom fram. Sumir skelltu sér þá beint í það að endurvinna gömlu hugmyndir sínar innan nýja kerfisins. Þannig var þetta ekki við HÍ. Þar var Miminalismanum tekið með varúð og við héldum áfram að vinna undir Stjórnunar- og bindikenningunni (Government and Binding) á meðan ég var þar við nám. Ég veit ekki hvað þeir gera núna en sjálf hef ég aldrei almennilega sætt mig við nýju kenninguna. Las greinar skrifaðar í því kerfi þegar ég byrjaði í doktorsnámi. Var ekki yfir mig hrifin. En núna er mér alveg sama því ég skrifa ekki lengur um setningafræði. Færði mig yfir í merkingarfræði þegar ég fór í doktorsnámið og núna eru stóru nöfnin frekar fólk eins og Barbara Partee, Angelika Kratzer, Greg Carlson, o.s.frv. En enginn í merkingarfræðinni er eins yfirgnæfandi og Chomsky er í setningafræðinni.
Of stór fyrirtæki til að mistakast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er þetta líka skoðun Morgunblaðsins
21.9.2010 | 16:04
Ógeðsleg framganga Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Svona á að borða spínat
21.9.2010 | 04:32
Ég man eftir sögunum um Stjána bláa sem borðaði spínat til að verða stór og sterkur. En ég vissi eiginlega ekki hvað spínat var. Slíkur matur var aldrei á boðstólum heima og ég er ekki viss um að það hafi yfir höfuð fengist á Íslandi. Ég lærði þó af sjónvarpinu að þetta væri eitt það versta sem börn í Bandaríkjunum gætu hugsað sér. Svo ég dró þá ályktun að spínat væri ákaflega vont. Það var röng ályktun. Spínat er nefnilega ákaflega gott og ég á það til að búa til alls kyns spínatsalat.
Snúum okkur nú að japönskum mat, en örvæntið ekki, við munum koma aftur að spínatinu. Áður en ég flutti til Kanada hafði ég aðeins tvisvar sinnum borðað japanskan mat. Annars vegar hráan hval sem japanskur viðskiptavinur frænku minnar "eldaði" handa þeim (og mér var boðið í mat) og hins vegar fékk ég einhvern teriyaki kjúklinarétt í Boston í fyrstu Bandaríkjaför minni. Þegar ég flutti til Winnipeg bætti ég fyrir þennan skort á japönskum mat með því að borða mikið af sushi og öðrum japönskum réttum. Það var lítill sushi staður í götunni þar sem ég bjó og við fórum þangað hérumbil í hverri viku. Það var þegar ég vann mér inn pening og deildi leigu og reikningum með öðrum. Nú leyfi ég mér af og til að fá mér tveggja dollara avokadorúllu en hef sjaldan efni á að fara á almennilegan japanskan veitingastað. Og það er varla þess virði að búa þetta til sjálfur handa einum. Alla vega ekki sushiið. En stundum sýð ég edamame og svo er það spínatið. Já, ég lofaði að koma aftur að spínatinu.
Frá upphafi hefur japanskt spínatsalat í sesamisósu (Horenso no goma ae) verið eitt af því besta sem ég fæ á japönskum veitingahúsum. Reyndar er það misgott eftir stöðum. Best er salatið með hnetusósu en hún má ekki vera of þykk. Verst er ef notað er of mikið af soyasósu og lítið af öðru. Ég hef aðeins prófað mig áfram með uppskriftir sem ég hef fundið á netinu og fundið út að það er nauðsynlegt að nota sakevatn eða edik dugir ekki, og hnetusmjör bætir sósuna. Hér er það sem ég geri:
Spínats goma ae
200-250 g spínat
4 msk sesame fræ
2 msk sake
2 msk sykur
1 1/2 msk soyasósa
1 msk hnetusmjör
Hitið vatn í potti. Þegar suðan er komin upp, setjið þá spínatið í vatnið og sjóðið í eina mínútu. Takið pottinn af hellunni, bætið köldu vatni í pottinn til að stoppa suðuna, hellið vatninu af og kreistið svo spínatið til að losna við vatnið. Sagt er að best sé að klippa spíntaið í tveggj tommu bita en ég nennti því nú ekki. Mér er alveg sama hversu stórir bitarnir eru því ég skúbba þessu öllu upp í mig.
Setjið sesame fræin á pönnu og þurrsteikið þar til þau fara að brúnast. Þá eru þau sett í mortar og kramin. Ég á ekki mortar svo ég setti þau bara á disk og kramdi með skeið. Það gekk ágætlega. Síðan blandaði ég saman fræjunum, sake, sykri, soyasósu og hnetusmjöri. Ég skelli þessu öllu í blandara vegna þess að annars á ég of erfitt með að ná hnetusmjörinu nógu mjúku.
Síðan hellir maður sósunni yfir spínatið.
Takið eftir að þetta nægir varla nema fyrir tvo í forrétt. Spínatið verður að engu þegar það er soðið.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 06:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Haustdagskráin að hefjast í sjónvarpinu
19.9.2010 | 22:15
Með haustinu hefst ný sjónvarpsvertíð. Fjöldinn allur af nýjum sjónvarpsþáttum hefur göngu sína og sumir munu varla lifa mikið lengur en sex þættina. Aðrir þættir slá í gegn og mun kannski eftir að vera á skjánum næstu árin. Gamlir þættir snúa til baka, en hætt hefur verið framleiðslu á öðrum. Þar á ég mest eftir að sakna Law and Order. Ég er alls ekki sátt við NBC. Þótt þættirnir hefðu tapað nokkrum vinsældum þá var enn fjöldi manns sem horfði í hverri viku. En þeim hefur líklega þótt nóg komið eftir sextán ár á skjánum. Ég held að þrennt hafi ráðið því að þættirnir döluðu í vinsældum síðastliðin ár: Brotthvarf Jerry Orbach (Lennie Briscoe), brotthvarf Jessy L. Martin (Ed Green) og minnkað hlutverk Sam Waterston (Jack McCoy). Þótt margir góðir hafi komið og farið þá voru þessir þrír aðalstjörnurnar í þáttunum, að mínu mati.
En ég ætlaði ekki að skrifa um Law and Order sérstaklega heldur sjónvarpsdagskrána sem framundan er.
Ég settist niður og skrifaði upp nokkurs konar eigin útgáfu af sjónvarpsvikunni. Bestu kvöldin hér í Kanada verða Sunnudagar, mánudagur og miðvikudagur. Þriðjudagar og fimmtudagar sem oft voru góð sjónvarpskvöld eru ekki svipur hjá sjón.
Sunnudagskvöld
Desperate Housewives (hefjast aftur í næstu viku)
The Glades - Ef þessir þættir eru ekki sýndir á Íslandi þá skulið þið hvetja stöðvarnar til þess að kaupa þá.
The Simpsons (hefjast í næstu viku)
Nýr þáttur sem ég ætla að tékka á: Weeds
Mánudagskvöld
House
How I met your mother
Chuck
Two and half men
Castle
Haven - spennandi þættir sem hafa verið í gangi í sumar.
Það er ljóst að ég get ekki horft á þetta allt. Þættirnir House, How I met your mother og Chuck eru allir sýndir klukkan átta. Og Castle og Haven báðir klukkan tíu. Ég get sleppt öllum þáttunum klukkan átta en vil helst horfa bæði á Catle og Haven. Veit ekki af hverju bestu þættirnir eru alltaf klukkan tíu.
Að auki er fjöldi nýrra þátta að hefjast á mánudögum: Lone Star, The Event, Hawaii five-O líta allir ágætlega út.
Glee
The Good wife
Law and Order: SVU
Enn og aftur stangast þættir á klukkan tíu. Mun væntanlega horfa á SVU. Glee er hins vegar klukkan átta. Ekkert merkilegt klukkan níu.
Hef ekki neinn sérlegan áhuga á neinu sem er að hefjast á þessum kvöldum.
Criminal minds
Hellcats
Shattered
Og nú eru það Criminal minds og Hellcats sem stangast á. Það verður Criminal minds sem ég horfi á. Hellcats eru þættir sem byrjuðu nú í september og er um klappstýrulið í háskóla í USA. Ég hef aðallega horft vegna þess að þættirnir eru teknir upp hér í Vancouver og nánar tiltekið í UBC, skólanum mínum. Ég þekki því umhverfi þáttanna vel. Þættirnir Shattered eru klukkan tíu og eru mjög athyglisverðir kanadískir þættir en ég er hrædd um að þeir verði ekki langlífir. Kanadískt sjónvarpsefni á yfirleitt erfitt uppdráttar vestra. Þeir þættir eru líka teknir upp hér í Vancouver.
Nýir athyglisverðir þættir á miðvikudögum eru þættirnir Undercovers, Better with you og The whole truth.
Aðeins tveir þættir þessi kvöld. Big bang theory klukkan átta og The Mentalist klukkan tíu. Klukkan níu má horfa á Bones eða Fringe en ég hef ekki heillast sérlega af þessum þáttum og mun líklega láta þá í friði.
Nýir þættir: Aðeins einn hefur vakið athygli mína: My dad says sem hefur snillinginn William Shatner í aðalhlutverki. Ég kíki á þá þætti þó ekki væri nema bara fyrir hann. Þar að auki eru þeir beint á eftir Big bang theory klukkan hálf níu þannig að það hentar ágætlega.
Föstudagskvöld
Medium eru einu þættirnir sem ég horfi á föstudögum, en ég er að vona að annað hvort Supernatural eða Ghost whisperer kæmu klukkan níu á föstudögum en CBC hefur hætt framleiðslu á Ghost Whisperer. Hef ekki hugmynd um af hverju. Þessir þættir fengu aftur og aftur flesta áhorfendur á föstudögum. Ekki nóg með það, þeir hafa líka hætt að framleiða Cold Case (eru þeir klikkaðir) og New Adventures of Old Christine.
Nýir þættir á föstudögum sem gætu verið ágætir: Outlaw, Blue Bloods, Body of proof.
Laugardagskvöld
Dauð. Ekkert sem horfandi er á.
----
Ólíkt því sem er algengt heima eru föstudags- og laugardagskvöld mjög léleg sjónvarpskvöld vestra. Líklega vegna þess að þá fara flestir í markhópunum á djammið.
Nú eiga fleiri og fleiri TiVo og svipuð tæki og geta horft á sjónvarpsþætti nær hvenær sem er. Ég hef ekki efni á svoleiðis apparati og verð því að horfa á sjónvarpið þegar þættirnir eru sýndir. Ég get ekki einu sinni horft á einu stöð og tekið upp á annarri því aðeins er hægt að fá eitt sjónvarpsmerki inn í einu. Reyndar fékk ég skilaboð frá kapalstöðinni minni um daginn að ég þyrfti að hringja í þá því þeir væru að breyta kerfininu og kannski lagast þetta þá. En í raun er þetta í lagi því það takmarkar sjónvarpáhorfið að þurfa að velja á milli þátta. Ef ég get tekið upp eina stöð á meðan ég horfi á aðra þá horfi ég bara meira á sjónvarp.
Og ef einhvern ætlar að skrifa athugasemd hér um það að ég horfi alltof mikið á sjónvarp - sleppið því.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Enn og aftur fótbolti
19.9.2010 | 07:42
Ný fótboltavertíð er ekki bara hafin í enska boltanum heldur líka hjá mér í mínu brölti. Við stelpurnar í Presto erum búnar að spila tvo leiki og höfum byrjað vel. Höfum unnið báða leikina okkar 4-2 og markastaðan er því 8-4 sem ég hef trú á að nægi til að sitja á toppnum. Það er reyndar hugsanlegt að eitthvert liðanna sem spila á morgun vinni stórt en miðað við markatölu fyrstu umferðar yrði liðið að vinna með meir en fimm marka mun til að sitja fyrir ofan okkur.
Dómarinn í dag var sama kona og dæmi hjá okkur í síðustu viku. Þá dæmdi hún býsna vel en í dag gerði hún nokkur mistök. Það versta kom í lok fyrri hálfleiks. Við fengum innkastkantmaðurinn okkar kastaði boltanum til framvarðar sem sendi boltann fyrir markið. Þar voru aðeins ég og einn varnarmaður og ég var á bak við varnarmanninn. Boltinn kemur til hennar en hún missir hann fram hjá sér, beint til mín. Ég er ein í boxinu með boltann beint fyrir framan mig og á bara eftir að pota honum inn...og þá flautar kerlingarálftin til hálfleiks. Ég er 99% viss um að dómari á að leyfa skotið.
Þegar sirka 15 mínútur voru eftir var staðan 3-1 fyrir okkur, og þá kom röð mistaka hjá dómara. Fyrst dæmdi hún hendi á leikmann í mínu liði sem datt og rak olnbogann í boltann rétt áður en hún lenti í grasinu. Algjörlega fáránlegt að dæma á það. Hafði engin áhrif á leikinn. Síðan sleppti hún að dæma á háskaleik þrátt fyrir að leikmaður hins liðsins hafi verið með takkana bókstaflega í andlitinu á leikmanni míns liðs, og stuttu á eftir dæmdi hún brot á okkar leikmann eftir að leikmaður hins liðsins steig á boltann og datt. Þær fengu aukaspyrnu sem leiddi til marks. Staðan 3-2. Sem betur fer skoruðum við stuttu síðar og tryggðum okkur sigurinn.
Benita hefur heldur betur verið á skotskónum. Skoraði þrjú mörk í síðasta leik og tvö í þessum. Ég skoraði ekkert í síðasta leik enda hundlasin og hafði ekkert þol. Setti samt upp tvö mörk. Skoraði eitt í þessum og setti upp eitt. Ég er eiginlega betri í að setja upp aðra leikmenn vegna þess að ég er ein af fáum í liðinu sem líta upp áður en við skjótum. Flestar stelpurnar þruma boltanum bara eitthvað. En það er svo sem ekki hægt að kvarta, þetta er fjórða deild og við erum að spila að gamni okkar. Og ég veit að ég á eftir að sakna þess ógurlega þegar ég flyt.
Það var annars vel við hæfi að vinna þennan leik í dag, á sama degi og Þórsarar komust upp í meistaradeild. Og það var enn skemmtilegra vegna þess að liðið sem við spiluðum við var í bláum buxum og gulri treyju. Ég sagði þjálfaranum í upphafi leiks að það ætti að vera auðvelt fyrir mig að spila vel gegn þeim fyrst þær spiluðu í litum aðalandstæðingsins!!!!
---
Á morgun er aðeins vika þar til ég hleyp hálfa maraþonið. Ég var búin að undirbúa mig svo vel - hljóp 18 kílómetra fyrir tveim vikum og átti svo að hlaupa 20 í síðustu viku. Nema hvað ég fékk mér flensu. Var reyndar orðin lasin daginn sem ég hljóp 18 kílómetrana. Flensuskömmin sat í mér í eina tíu daga og ég er rétt að skríða saman aftur. Þetta setti strik í reikninginn. Hef ekki hugmynd um hvernig hlaupið mun ganga í næstu viku. Ég get alla vega lofað því að tíminn verður ekki góður. En aðalatriðið hjá mér er hvort eð er bara að klára!
---
Úti er eins og hellt sé úr fötu. Regnið dynur á þakinu og úr verður ákaflega þægilegt suð. Það er í raun býsna notalegt að skríða undir sæng með góða bók þegar rignir úti. Maður getur alla vega þakkað fyrir að vera ekki úti. Vona að það rigni vel í nótt og verði svo þurrt á morgun svo ég verð ekki blaut í hlaupatúrnum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mín reynsla af Köben og sprengjum
11.9.2010 | 00:41
Þegar ég heyri af þessari sprengingu í Köben verður mér hugsað til hótelvistar í sömu borg fyrir einum átján eða nítján árum.
Dóra vinkona mín var rétt flutt til Kaupmannahafnar með mann og barn og var að auki ófrísk af barni númer tvö þegar maðurinn hennar sem var þar í námi þurfti í skólaferðalag. Dóra bað mig að koma og vera hjá henni á meðan, sem ég og gerði. Þau voru svo nýkomin út að þau voru ekki enn búin að fá íbúðina sína á háskólagörðunum og voru því með hótelherbergi á Vesterbrogade.
Á fjórða eða fimmta degi lenti ég í því að bakpokanum mínum var stolið fyrir framan nefið á okkur á McDonalds, með veski og alles, og því var dagurinn heldur dapurlegur enda fór hann í að hringja heim, láta loka vísakorti, tala við tryggingarnar o.s.frv. Við fórum snemma í rúmið. Um miðja nótt vöknum við upp við það að verið er að hlaupa um gangana, berja á hurðir og veggi og dimmar karlmannsraddir kallast á. Við erum skelfingu lostnar. Dóra klæðir sig í snatri og situr svo með barnið sitt í fanginu og ruggar því fram og aftur. Ég sat með hnén upp að höku og hreyfði mig ekki. Við þorðum ekki fyrir okkar litla líf að athuga hvað væri í gangi. Skyndilega róast allt á okkar hæð en við heyrum að það sama virðist nú í gangi á hæðinni fyrir ofan. Ég skríð fram úr rúminu og lít út um gluggann en þar er ekkert að sjá enda sneri glugginn út í garð. Að lokum róast allt og þegar húsið hefur verið hljótt í einhvern tíma förum við að lokum aftur að sofa.
Um morguninn eftir þegar við vorum á leið út, stoppaði ég í afgreiðslunni og spurði hvað hefði gengið á. Þá fréttum við að einhver hefði hringt inn og sagt að það væri falin sprengja á hótelinu. Víkingasveit þeirra Dana ákvað að ekki væri tími til að koma öllum gestunum út úr byggingunni og ákvað í staðinn að leita að sprengjunni - sem aldrei fannst. Ef glugginn okkar hefði snúið út að Vesterbrogade hefðum við séð lokaða götu og lögreglubíla, sjúkrabíla og slökkviliðsbíla með blikkandi ljós. Ég er ekki viss um að við hefðum nokkurn tímann náð að sofna ef við hefðum vitað hvers kyns var.
Þetta var ekki skemmtileg lífsreynsla - en á móti kemur að úr verður góð saga.
Ekki um hryðjuverk að ræða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að vera komin aftur í skóla
10.9.2010 | 01:42
Það var skrítið að sitja í kennslutíma í dag. Þótt ég hafi opinberlega hafið nám að nýju strax eftir Ólympíuleika fatlaðra þá þurfti ég ekki að sitja í tímum. Ég var búin að gleyma hversu syfjuð ég verð alltaf þegar ég þarf að sitja og hlusta í 90 mínútur, jafnvel þótt efnið sé áhugavert.
Kosturinn við þessa tíma er að kennarinn, Doug, er frábær og það er alltaf gaman að hlusta á hann kenna. Efnið er líka skemmtilegt. Svo kölluð Optimality Theory innan hljóðkerfisfræðinnar. Að mínu mati skemmtilegasta kenning greinarinnar. Að raða saman hljóðekerfum er eins og að sitja og púsla. Það eru tæplega 60 í áfanganum og ég vona að nokkrir heltist úr lestinni svo það verði ekki eins seinlegt að fara yfir heimaverkefnin. Jájá, ég veit, sjálfselskan að drepa mig.
Ég saknaði ekki margra úr deildinni þau tvö ár sem ég var að vinna fyrir Ólympíuleikana. Vinir mínir Jeremy og Leszek voru báðir í mastersnámi og útskrifuðust því á undan mér, enda masterinn mun styttri en doktorsnámið. Báðir búa í Bandaríkjunum eins og er. Jeremy í doktorsnámi í Rutgers og Leszek er að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Leora, sem alltaf var gaman að hanga með, var á fimmta ári þegar ég byrjaði og útskrifaðist því fyrir nokkrum árum, og Marion vinkona mín fluttist til Victoriu sama vor og ég byrjaði að vinna fyrir Ólympíuleikana, og tók síðasta hlutann í hálfgerðu fjarnámi, enda svo sem hægt að skrifa ritgerðina hvar sem er ef maður á þess tök að koma tvisvar í mánuði í bæinn til að hitta nefndarmenn. Þeir sem eftir voru skiptu mig minna máli.
En ég saknaði sumra kennaranna, sérlega Gunnars og Dougs. Gunnar sá ég reyndar af og til af því að við erum ekki margir Íslendingarnir á svæðinu, en Doug hitti ég lítið á meðan ég var ekki í skólanum. Að hluta til vegna þess að á síðasta ári var hann í vinnufríi frá skóla og dvaldist þann tíma í Ottawa. Áður en ég fór í fríið sá ég Doug reglulega því það var hann sem kom mér í klettaklifrið og fyrsta árið sem ég stundaði það klifraði ég mikið með honum. Þá var konan hans meidd á fingri og gat ekki klifrað og hann vantaði því klifurfélaga. Þegar fingurinn greri fór ég að klifra meira með Marion enda betra að tveir klifri saman en þrír. Þar að auki lágu dagar okkar Marion betur saman þar sem við vorum báðar farnar að skrifa ritgerðina og gátum farið á daginn þegar venjulegt fólk er að vinna.
Það var líka skemmtilegt að fara aftur að umgangast umsjónakennara mína, Lisu og Hotze, en þau hafa alltaf verið fyrst og fremst kennarar mínir en ekki beinlínis vinir á sama hátt og Gunnar og Doug. En nú er Hotze kominn í vinnufrí og er farinn til Hollands svo okkar vikulegu fundir verða að fara fram í gegnum netið. Þá kemur sér vel að hafa Skype. Annars er hann nýfarinn svo ég hef ekkert viljað trufla hann, en bráðum sendi ég honum lesefni. Þarf að vinna hratt næstu vikurnar svo ég nái að ljúka.
Og nú ætla ég að fara og gera eitthvað af viti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ný önn hafin
9.9.2010 | 05:06
Í dag er aðfangadagur skóla. Á morgun hefst kennsla. Reyndar hófst hún á þriðjudaginn en þá var kynningardagur í deildinni og ég slapp því. Ég er löngu búin að taka alla áfanga sjálf en maður þarf að vinna fyrir sér. Ég er aðstoðarkennari í áfanga 311 hljóðkerfisfræði. Ég hefði getað kennt áfangann því deildina vantaði kennara og ég hef aðstoðað við þennan áfanga tvisvar sinnum áður, en málið er að kennarinn fær sama og ekkert meir borgað en aðstoðarkennarinn. Og þótt aðstoðarkennarinn þurfi að fara yfir öll heimaverkefni og próf þá er það mun auðveldara en að þurfa að undirbúa fyrirlestra. Ef mig vantaði kennslureynslu hefði ég kannski tekið þetta að mér, en ég kenndi við Manitóbaháskóla í fjögur ár, við MA í eitt ár, og var stundarkennari við HÍ í nokkrar annir. Þannig að ég hef þokkalega starfsreynslu. Og af því að ég er að reyna að klára ritgerðina mína á þessari önn þá er mikilvægara að hugsa um tíma en reynslu.
Annars er kerfið býsna þunglamalegt. Maður þarf að skila inn ritgerðinni tveim mánuðum áður en maður fær að verja. Og tveim mánuðum þar á undan þarf að tilnefna utanaðkomandi dómnefndarmann. Ég hef lengi stefnt að því að verja í desember, og til þess að geta það þyrfti ég að skila inn ritgerðinni 15. október. Það er eftir aðeins fimm vikur. Óvíst að ég nái að klára ritgerðina fyrir þann tíma því frágangurinn einn og sér er seinlegur. Allt þarf að vera samkvæmt ákveðnum stöðlum. Í dag frétti ég svo að sá sem valinn var sem utanaðkomandi dómnefndaraðili er ekki tiltækur fyrir desembervörn. Það þýðir annaðhvort að velja nýjan aðila eða þá að verja í janúar. Síðari kosturinn er líklega betri því það gefur mér aðeins meiri tíma til ljúka skriftum án of mikils stress. Líka af því að það er ekki eins og ég þurfi að gera eitthvað annað í janúar. Sem sagt, stefnir í janúarvörn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Að borða nógu trefjaríkt fæði
5.9.2010 | 06:10
Ég fór til næringarfræðings um daginn. Ekki það að ég viti ekki heilmikið um slík fræði, en alltaf er hægt að læra meira. Sérlega hafði ég áhuga á að vita hversu margar kaloríur maður þarf að borða til þess að líkaminn fari ekki að endurskilgreina kaloríuþörfina og geymi meir og meir sem fitu. Það er hætta á slíku ef maður borðar of lítið. Ég hafði fitnað óþarflega mikið mánuðina fram að Ólympíuleikum, enda mikið að gera og lítill tími til að hreyfa sig, og þegar leikunum lauk ákvað ég því að losna við þessi kíló sem höfðu safnast utan á mig. En eina leiðin til þess að losna við þau var að telja kaloríur og borða helst ekki fleiri en 1200-1300 á dag, auk þess að hreyfa sig mikið. Það er of lítið.
Næringarfræðingurinn hafði margt að segja. Sumt vissi ég, annað ekki.
Eitt af því sem er mikilvægt þegar maður borðar er að fæðuflokkarnir séu í réttum hlutföllum. Best er að ímynda sér línur á disknum þannig að á helminginn setur maður grænmeti. Hinum helmingnum skiptir maður í tvennt. Á annan hlutann setur maður prótín, svo sem kjöt, fisk, egg, baunir, linsur o.s.frv. og á hinn helminginn sterkju, svo sem kartöflur, hrísgrjón, pasta, brauð, o.s.frv. Best er að þessi skipting sé til staðar í öllum máltíðum, og þar af leiðandi líka við morgunverðinn. Það er kannski erfiðast því helst vill maður bara morgunkorn eða ristað brauð á morgnana. Einhvern veginn langar mann ekki beinlínis í grænmeti þegar maður er nývaknaður. Þetta er það sem er kannski erfiðast fyrir mig.
Annað sem er erfitt er að fá nægar trefjar úr mat á náttúrulegan hátt. Kona á mínum aldri á borða 25 grömm af trefjum á dag og það er hrikalega erfitt. Sem dæmi, venjulegt epli hefur ekki nema 2.6 grömm af trefjum sem þýðir að maður þyrfti að borða hátt í tíu epli á dag til að fá nægjanlegar trefjar. Banani hefur heldur minna. Perur eru betri því meðalstór pera hefur 5 grömm af trefjum og eins má fá mikið af trefjum úr ýmsum berjum. En best er þó að borða trefjaríkt morgunkorn eins og All bran eða þá að borða baunir. All bran er hins vegar hér um bil óætt og baunir...fínar ef maður þarf ekki að umgangast fólk á eftir. Og hér lærði ég svolítið mjög gagnlegt. All bran framleiðir litla nugga sem þeir kalla All bran buds. Það eru ellefu grömm af trefjum í þriðjungi bolla. Og af hverju er þetta betra en venjulegt All bran? Af því að maður stráir því yfir uppáhaldsmorgunkornið sitt og þannig borðar maður það morgunkorn sem maður vill en fær trefjarnar úr All bran bud. Miklu betra en að svæla í sig fullri skál af All bran. Einnig er hægt að strá þessu yfir jógúrt eða mylja það út í smoothie.
En hér er hins vegar besta leiðin til að fá nægar trefjar:Í 2/4 bolla af Edamame eru 22.5 grömm af tefjum. Maður þarf bara að sjóða eða gufusjóða baunirnar, strá svolitlu salti á þær og svo er þetta fínt snakk fyrir framan sjónvarpið. Namm.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)