Endurnar unnu Stanley bikarinn
7.6.2007 | 05:14
Anaheim endurnar hreinlega rústuðu þingmönnum Otttawa í fimmt leik liðanna í kvöld, 6-2, og unnu þar með fjórða leikinn í baráttunni um Stanley bikarinn. Ottawa átti mjög slæman leik og náði ekki nema 13 skotum að marki. Þar að auki skorðu þeir sjálfsmark þegar pökkurinn þvældist um skauta markmannsins og inn (þegar engin önd var nálægt) og þeir brenndu líka af vítaspyrnu. Það var sem sagt allt gegn Ottawa í kvöld.
Anaheim var vel að sigrinum kominn enda eiga þeir frábæra leikmenn eins og Finnann Teemu Selanne (sem spilaði með Winnipeg Jets áður en liðið var selt til Bandaríkjanna), Svíann Samuel Pahlson og Kanadamennina Rob og Scott Niedermayer, Ryan Getslaf, Andy MacDonald og Chris Pronger. Reyndar er megnið af liðinu frá Kanada, og einnig þjálfarinn, Randy Carlyle, sem þjálfaði Manitoba Moose þegar ég fór á Moose leiki. Það er reyndar sniðugt að það var Alain Vigneault (þjálfari Cancucks) sem tók við af Carlyle með Manitoba liðið.
En nú verður bara að stefna að því að fá bikarinn til Kanada á næsta ári. Og fyrst hann er kominn á vesturströndina, í fyrsta sinn síðan 1925, þá er ekki úr vegi að skella honum bara beint í norður svo við fáum hann á næsta vori.
Á myndinni má sjá fyrirliðann Scott Niedermayer hampa bikarnum en eins og margar Endur hefur hann ekki rakað sig síðan úrslitakeppnin byrjaði. Scott var líka valinn mikilvægasti leikmaður keppninnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýja Michael Moore myndin - Sicko
6.6.2007 | 19:34
Ég var að enda við að horfa á viðtal við Michael Moore um nýju heimildamyndina hans, Sicko, sem fjallar um heilsugæslukerfið í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru í 37. sæti yfir bestu heilsugæslu í heimi, sem er all lélegt miðað við að þetta er ríkasta land í heimi. Margt af því sem Michael Moore sagði er sláandi. Hann tók t.d. sem dæmi að þegar árásin var á tvíburaturnana, 11. september 2001, tók fjöldi sjálfboðaliða þátt í að hreinsa svæðið, hjálpa sjúkum og látnum, o.s.frv. Stór fjöldi þessa fólks varð fyrir alvarlegum skaða af völdum eiturefnanna á svæðinu og eiga nú við alvarlega öndunarsjúkdóma að etja. Bandaríkjastjórn hefur ekkert gert til þess að hjálpa þessu fólki og harðneitar þeim um nokkra aðstoð, nema að það sé vel tryggt. Þetta fólk hætti lífi sínu til þess að bjarga samferðarmönnum sínum og nú er margt þeirra deyjandi.
Hryðjuverkamennirnir sem voru handteknir í kjölfar árásanna voru sendir til Guantanamo Bay á Kúbu þar sem þeir fá topp heilsugæslu. Michael Moore fannst það ósanngjarnt svo hann fór með nokkra sjálfboðaliða út að Guantanamo Bay (á bát) og kallaði svo yfir að fangelsinu að hann hefði með sér fólk sem væri veikt eftir að hafa hjálpað til 11. september og að það eina sem hann bæði um væri að það fengi sömu heilsugæslu og glæpamennirnir sem ollu árásinni. Þessu var ekki svarað og í stað þess að fara með fólkið til baka fór Michael með það til Kúbu þar sem það fékk toppþjónustu - ókeypis - frá kúbönsku læknunum.
Nú er Bandaríkjastjórn búin að kæra Michael Moore fyrir að fara til Kúbu, en Bandaríkjamönnum er ekki heimilt að koma þar. Og það eina sem hann gerði var að leita hjálpar fyrir fólk sem Bandaríkjastjórn hefur yfirgefið.
Þarna var líka sýnt frá yfirheyrslum yfir lækni sem lýsti því hvernig hún neitaði manni um aðgerð sem hefði bjargað lífi hans. Hann var ekki með sjúkratryggingu og átti ekki fyrir aðgerðinni. Hann dó stuttu síðar. Þetta voru tilmæli hennar frá yfirmönnum. Ef þú getur ekki borgað þá færðu ekki hjálp. Á hverju ári deyja þúsundir Bandaríkjamanna vegna þess að þeir geta ekki borgað fyrir læknaþjónustu. Og þetta á að vera besta land í heimi? Ég held að Íslendingar ættu að hugsa málið áður en þeir reyna að einkavæða heilsugæsluna. Eitt af því sem Moore sagði í viðtalinu var að Bandaríkjamenn ættu að taka önnur vestræn fyrirtæki sér til fyrirmyndar þar sem heilsugæslan er á ábyrgð stjórnvalda. Við ætlumst ekki til þess að slökkviliðið skili hagnaði af því að þeirra vinna er spurning um líf og dauða. Af hverju ættum við að ætlast til þess af heilsugæslunni.
Ég hlakka til að sjá myndina.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Húðflúrsaga
6.6.2007 | 15:39
Ég er ekki hrifin af stórum húðflúrum sem þekja stóran hluta líkamans, en minni húðflúr geta verið ótrúlega flott. Það eru mörg ár síðan mig fór að langa í eitt lítið á ökklann, en ég ákvað að hugsa málið vel og vandlega, enda er þetta ákvörðun sem ekki er auðveldlega tekin til baka. Þar að auki vildi ég velja húðflúrið sjálft vel. Mig langaði annað hvort í fótspor skógarbjarnar, eða fugl. Helst hrafn. En ég fann aldrei hrafn sem ég var sátt við en ég fann ágætt fótspor. Þegar ég talaði hins vegar við húðflúrsérfræðing var hann svolítið í vafa með að fótsporið yrði flott - það myndi svolítið líta út eins og klessa ef maður sæi það ekki mjög vel. Stakk upp á að ég setti þrjú lítil fótspor í staðinn fyrir eitt stærra. En það vildi ég ekki. Fann að lokum dásamlegan fugl (svolítið eins og skógarþröstur) og féll algjörlega fyrir honum.
Svo ég skellti mér til húðflúrmeistara þegar ég var í Ottawa í fyrra og lét skella þessu á. Ég var svolítið stressuð því þótt ég óttaðist ekki sársaukann svo mikið var ég hrædd um að ég fengi sjokk. Ég á það til, t.d. þegar ég gef blóð, að fara í einhvers konar sjokk þar sem ég verð hvít í framan, funhitna öll og missi tilfinninguna í fingrunum. Varð að hætta að gefa blóð út af þessu því hjúkkunum fannst svo leiðinlegt að þurfa að þekja mig með köldum tuskum til að kæla mig niður og fá lit í mig. Svo ekki sé talað um hversu kalt mér verður þegar ég fer að jafna mig og líkamshitinn lækkar. Þá snarlækkar hann af því að ég er orðin öll blaut. En það er önnur saga. Ég var sem sagt svolítið hrædd um að þetta myndi gerast því þetta hefur gerst þegar ég fór í ofnæmispróf, og þá er bara smárispað í húðina á manni.
Myndin gekk vel og ég spjallaði við meistarann á meðan hann skellti þessu á. En þegar ég fór að finna fyrir kunnuglegri dofatilfinningu í fingrunum bað ég hann að stoppa til að ég gæti fengið eitthvað að drekka. Ég var með vatn með mér en hann sagði að ég myndi þurfa sykurinn (sem er alveg rétt). Svo hann sótti mér kók sem ég drakk, skellti á mig blautri tusku og svo lagðist ég á bekkinn. Eigandinn kom að athuga með mig og eftir nokkrar mínútur leið mér betur og ég spurði meistarann hvort hann gæti klárað tattúið á meðan ég lægi á maganum. Það var ekkert mál og ég lá því á bekknum og spjallaði áfram við eigandann á meðan húðflúrið var klárað.
Eftir á fríkaði ég út því húðflúrið er nokkurn veginn varanlegt, og svo hélt ég að myndin væri kannski of lík fálka Sjálfstæðisflokksins (athugaði merkið á vefnum þegar ég kom heim og sá að líkindin voru ekki mikil).
Nú er ég himinlifandi. Er búin að hafa húðflúrið í um það bil ár og ég elska það.
P.S. Á myndinni er húðflúrið glænýtt og þakið kremi. Þess vegna er það svona glansandi.
![]() |
Elsta tískubóla mannkynsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Memory almost full
6.6.2007 | 01:14
Ég er að hlusta á nýja diskinn með Paul McCartney, Memory almost full, sem kom út hér vestra í dag (og er seldur á Starbucks). Ég er bara búin að heyra fyrstu fimm lögin þannig að ég er ekki farin að mynda mér skoðun ennþá, en platan lofar góðu. Hún minnir töluvert á Flaming Pie (sem mér fannst stórkostleg plata) og Chaos and creation in the backyard. Platan er afturlit til fortíðar, til bernskuáranna og það er því vel við hæfi að Paul leitar í gamlan tónlistararf. Það má heyra Bítlahljóð þarna en kannski enn frekar hljóm frá fyrstu árum sólóferils Pauls, svo sem frá Venus and Mars (sem er önnur stórkostleg plata).
Ég á eftir að hlusta á plötuna nokkrum sinnum áður en ég mynda mér almennilega skoðun.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Framhaldssagan um fartölvuna
6.6.2007 | 01:08
Þeir sem kíkja hér inn reglulega muna kannski eftir því að ég þurfti að fá nýtt geisladrif í fartölvuna mín eftir að hafa keypt nýtt í nóvember og varla notað það áður en það nýja hætti að virka. Eftir langt samtal við Apple hér í Kanada lofuðu þeir að láta mig hafa nýtt drif án kostnaðar. Það eina sem ég þyrfti að borga væri vinnan í Applebúðinni uppi í UBC. Ég hringdi í þá og sagði þeim að þeir mættu panta nýtt drif sem Apple myndi borga og ég þyrfti bara að borga þeim. Þeir lofuðu að rukka mig aðeins fyrir klukkutíma vinnu þar sem ég hafði þurft að bíða svo lengi. Klukkutíma vinna með skatti myndi vera um sjö eða átta þúsund krónur (heldur meira en ég fæ í tímakaup). Í dag hringdu þeir loksins og sögðu að tölvan væri tilbúin og ég mætti koma og sækja hana. Ég skellti mér upp í skóla, komst inn rétt fyrir fimm (lokun) og fékk loksins reikninginn: $0.
Þeir enduðu sem sagt á því að láta mig ekki borga neitt. Mér finnst það reyndar sanngjarnt að þeir sjái um þetta þar sem þeir létu mig ekki fá réttar upplýsingar á sínum tíma (sögðu mér aldrei hve löng ábyrgð væri á drifinu sem ég keypti), en ég bjóst samt ekki við því að þeir myndu ekki láta mig borga neitt.
Niðurstaðan úr öllu þessu geisladrifsævintýri er sem sagt sú að Apple fyrirtækið og Apple söluaðilinn sáu í sameiningu um að greiða fyrir allt og ég slepp við að borga krónu. Ég þurfti reyndar að vera án tölvunnar í rúmar fimm vikur en af því að ég er með iMac tölvu heima þýddi það aðeins að ég varð að vinna alla tölvuvinnu heima og gat aðeins tekið með mér bók á kaffihús, eða pappír og penna.
Það er byrjað að byggja húsið við hliðina. Þrír karlar búnir að vera að berja nagla í allan dag. Einn þeirra er býsna myndarlegur en hann er alltaf með sígarettu í kjaftinum sem gerir það erfitt að njóta útsýnisins. Verst þykir mér að klukkan er orðin sex og þeir eru enn að. Sá sem reif niður húsið og gróf grunninn vann bara til fimm þannig að maður fékk alla vega að njóta kvöldmatarins í friði. Það virðist ekki ætla að verða hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fann Íslending í fótboltabúð
5.6.2007 | 22:55
Áðan fór ég í fótboltaverslun til að kaupa nýjar legghlífar þar sem mínar eru farnar að detta í sundur. Ungur afgreiðslumaður kom að hjálpa mér og við spjölluðum svolitla stund um mismunandi gerðir af hlífum. Eftir smátíma spurði hann mig: Ertu þýsk? Nei, ég sagðist vera íslensk. Þá glaðnaði yfir honum, hann lyfti upp hægri hendi og sagði: Give me five! Me too. Hann leiðrétti sig reyndar strax og sagðist auðvitað ekki vera Íslendingur, en afi hans og amma hefðu verið það. Þetta leiddi til langrar umræðu um Ísland og Íslendinga og hann hefur greinilega áhuga á forfeðrunum því hann hefur lesið helling um landið og vissi margt. Hann sagði mér líka að hann langaði svo að kaupa íslensku landsliðspeysuna í fótbolta en hjá eina staðnum á netinu sem selur slíkar (og sem hann hafði fundið) var peysan uppseld. Ég sagði að mig hefði alltaf langað meir í landsliðspeysuna í handbolta sem er yfirleitt flottara en hana hef ég aldrei séð í almennri sölu. Fótboltapeysuna sá ég hins vegar í alla vega tveimur búðum í Reykjavík, ef ekki víðar. Spurningin er hins vegar hvernig hægt er að kaupa þær þegar maður býr erlendis.
Þetta var hinn notalegasti ungi maður og hann gaf mér afslátt af legghlífunum þegar ég borgaði, sem var auðvitað afbragð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vondar fréttir
4.6.2007 | 20:13
Rétt áðan fékk ég tölvupóst frá skorarformanni málvísindaskorar þar sem tilkynnt var um innbrot í Buchanan E álmuna (þar sem málvísindaskorin er). Brotist var inn í skrifstofu Lisu Matthewson, sem er umsjónarkennarinn minn, með því að brjóta gluggann fyrir ofan dyrnar og komast þar inn (hljóta að vera fimleikamenn). Þar var tölvunni hennar stolið, þrátt fyrir að tölvan væri læst niður með því sem á að vera traustur öryggisbúnaður.
Í hittifyrra var brotist inn í þrjár eða fjórar skrifstofur með því að spenna upp lásinn á hurðunum. Það sem er verst við þetta allt er að óviðkomandi eiga ekki einu sinni að komast inn húsið um helgar, hvað þá að komast alla leið inn á gangana, sem einnig eru kyrfilega læstir. Einhver hlýtur að hafa skilið hurðirnar eftir opnar.
Það er óþolandi að fólk geti ekki haft hluti sína í friði fyrir glæpamönnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óíþróttamannsleg framkoma
4.6.2007 | 18:52
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orðið nógu heitt
4.6.2007 | 00:40
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvað hefur orðið um sjómannadaginn?
3.6.2007 | 18:11
Hvað er eiginlega að gerast með sjómannadaginn? Ég var að tala við mömmu og pabba og þau sögðu mér að það hefði akkúrat EKKERT verið um að vera á Akureyri. EKKERT. Engin róðrakeppni, engin sundkeppni, engar ræður, ekkert. Og ekkert á Dalvík, ekkert á Árskógssandi.
Þegar ég var barn var sjómannadagurinn einn skemmtilegasti dagur ársins, ja eiginlega skemmtilegasta helgi ársins. Á laugardeginum var vanalega róðrakeppni. Ég mætti með pabba áður en keppnin byrjaði og hann tók rúðurnar úr glugganum á skipaafgreiðslunni á Torfunefsbryggjunni og þar var starfræktur veðbanki. Keppt var í þremur flokkum; sjómenn í einum flokki, landmenn í öðrum og konur í hinum þriðja. Fyrst var keppt á tveimur bátum, Eldingu og Leiftri, en síðan var Blossa bætt við og enn síðar fjórða bátnum sem ég veit ekki hvað heitir...Funi? Þetta var æsispennandi og allir komu til að horfa. Ég fékk alltaf ís þennan dag. Um kvöldið var svo haldið ball.
Á sunnudeginum var haldin skemmtun uppi í sundlaug með keppni í björgunarsundi, stakkasundi, reiptogi, koddaslag og fleiru. Auk allra ræðnanna. Þá voru líka sjómenn heiðraðir fyrir þeirra störf. Þetta var alltaf skemmtilegt.
Það er eins og verkamenn skipti engu máli lengur, sjómenn skipta engu máli...bráðum verða þessir dagar lagðir niður og í stað farið að halda upp á bankadaginn. Fjármálamennirnir virðast vera þeir einu sem skipta máli í dag.
P.S. Við þetta má bæta að áhöfnin á Akureyrinni var víst heiðruð í gær þannig að dagurinn er ekki alveg gleymdur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)