Mikilvægi gúmmíhanska

Þetta hefur verið góður dagur. Við höfðum okkar árlega grillpartý í fótboltanum sem hófst á hádegi leik gegn eiginmönnum, kærustum og vinum. Við höfðum tveimur fleiri stelpur en stráka en það veitti ekkert af því sumir þessa stráka eru feikna góðir og allir nema einn spila fótbolta reglulega. En rétt eins og í fyrra stóðum við í þeim og leikurinn endaði með jafntefli. Við  vorum býsna stoltar af okkur. Og eiginlega ættum við að spila meira á móti strákunum því ef við lærum að leika á strákana þá getum við tekið hvaða stelpu sem er í fjórðu deild.

Við spiluðum í venjulegan tíma, 2x45 mínútur og fórum svo sveitt og þreytt heim til Daves þjálfara og Lucy konu hans þar sem við átum langt fram á kvöld. Klukkan er að nálgast miðnætti og ég er nýkomin heim. Reyndar tekur næstum klukkutíma að keyra alla leið vestur í bæ úr New Westminster þar sem Dave og Lucy búa. En þetta var mjög skemmtilegt. Margt var rætt og mikið hlegið.

Sonya átti bestu söguna svona undir lokin þegar flestir voru farnir heim. Fyrir rúmri viku lokaðist hún inni í lyftu í tæpa tvo tíma. Alein. Það versta við þetta var að hún var alveg að pissa á sig þegar hún fór í lyftuna. Hún var sífellt að hringja í viðgerðarmennina og biðja þá um að flýta sér nú í guðana bænum en það tók sinn tíma að komast á staðinn. Að lokum gat hún ekki meira því hún var komin í keng á gólfinu. í töskunni sinni er hún alltaf með svolítið sjúkraskrín og í því eru gúmmíhanskar. Sonya vippaði sem sagt út öðrum gúmmíhanskanum og pissaði í hann. Þetta vakti mikla umræðu og við komumst að því að nú væri klósettvandamál liðsins leyst. Á veturnar þegar klósettin á völlunum eru læst, þá munum við bara rífa fram gúmmíhanska og gera okkar þarfir í þá. Minnst mál. Nú mæli ég með að allir fari að ferðast um með gúmmíhanska í töskunni.


Nokkrar stórkostlegar plötur

Af því að ég var aðeins að tala um Sgt. Peppers um daginn fór ég að hugsa um hvaða plötur eru hrein stórvirki - svona plötur þar sem allt eða nær allt er fullkomið. Ég hef alltaf verið sannfærð um að Brothers in Arms með Dire Straits ætti að vera á slíkum lista, en hvaða plötur aðrar?

Hér er listinn (í engri sérstakri röð) sem ég kom upp með þegar ég fór að hugsa um þetta. Tek fram að ég er viss um að ég er að gleyma plötum sem mér sjálfri finndist að ættu að vera þarna (plús öllum plötunum sem ykkur finnst að ættu að vera þarna). Tek líka fram að ég sleppi Bítlaplötum og Paul McCartney plötum því það er of erfitt að takmarka sig við eina eða tvær slíkar.

R.E.M. - Automatic For The People/ Out of time
Radiohead - OK Computer
Nirvana – Nevermind
Jefef Buckley – Grace
Oasis - (What's The Story) Morning Glory?
Blur – Parklife
Fleetwood Mac – Rumours
Pink Floyd – The dark side of the moon/The wall
U2 – The Joshua tree
Barenaked Ladies – Stunt
Muse – Black holes and revelations/Absolution
Red Hot Chili Peppers – Californication/By the way
Dire Straits – Brothers in arms
Alanis Morisette – Jagged Little Pill
Creed – Weathered/My own prison
System of a down - Mezmerize 

Hér er engin Stones plata þótt mér þyki Stones frábærir. Það hefur bara aldrei nein ein plata með þeim staðið upp úr hjá mér. 


Sól sól skín á mig

Svona er veðurspáin hjá mér fyrir næstu daga: 

   Partly Sunny     Partly Sunny       Partly Sunny     Partly Sunny   

Og hitinn í kringum tuttugu og þrjár gráður.  Mikið er ég fegin að vera í Vancouver núna. 

 


Morgunsvefninn rofinn

Ég er vitlausari en ég lít út fyrir að vera. Ég sver það. Ég hélt í einfeldni minni að af því að svefnherbergið mitt er í austari hluta hússins, og grunnurinn sem er verið að grafa er vestan við mig, þá myndi ég ekki vakna þegar byrjað yrði að vinna í morgun. Doh! Hálfátta komu vélarhljóð og einhver undarleg högg, sem reyndust vera þegar grafan rakst á stórgrýti, í gegnum drauma mína og það var ekki hægt að hunsa þetta lengi. Ég reyndi auðvitað að gera þessi hljóð hluta af draumunum en það gengur ekki endalaust. Ég varð að játa mig sigraða og fara á fætur.

Þið vorkennið mér sjálfsagt ekkert að þurfa að skríða á lappir um hálfátta leytið, enda þið sjálfsagt farin að vinna á þeim tíma, en ég vinn heima og þarf því ekki að fara neitt. Svo mér þykir ákaflega notalegt að sofa til átta. Lesa svo blaðið í rólegheitum til níu og fara þá að vinna. Í dag fór þetta allt í köku því í stað þess að borða morgunverð og lesa blöðin fór ég að lesa bloggsíður og svo að skrifa þessa færslu. Sko, svefninum er rótað og þá hrynur allt.

En nú ætla ég að fara og fá mér kaffi, hálfa beyglu og fulla skál af ávaxtasalati (melónur, ananas, vínber - jamm). 


Sumarið er komið

Í dag fór ég í sund. Ég hef ekki farið í sund í langan tíma - ekki síðan ég var á Íslandi um jólin. Það er bara ekki það sama að fara í sund hérna. Annars var laugin fín í dag. Ekki eins köld og hún var í Manitoba þar sem ég þurfti að synda fjórar ferðir áður en ég hætti að skjálfa. Í sag var svolítið kalt að fara ofan í en að öðru lagi fínt. Ég synti í innisundlauginni. Þar voru miklu færri en úti og mér leiðis að synda með mörgum. Þótt skipt sé í hægsund, meðalsund og hraðsund þá virkar það aldrei. Ef ég syndi í hægferð þarf ég alltaf að vera að taka fram úr, en ef ég fer yfir í meðalhraðann þá er alltaf verið að fara fram úr mér. Ég er ekki góð í sundi. Eina íþróttagreinin sem ég var alltaf léleg í í skóla. Fékk alltaf tíu í leikfimi og svona fimm eða sjö í sundi. Nema í níunda bekk, þá fékk ég níu. Skil ekki enn hvernig það gerðist.

Eftir sundið fór ég inní stúdentamiðstöðina, fékk mér avokadórúllu og Edamame og lærði rökfræði á meðan ég borðaði. Sat þarna í um tvo klukkutíma og las um afleiðslur. Labbaði svo heim í gegnum skóginn. Þar var alveg yndislegt. Sól hátt á lofti og hiti. Heldur kaldara í skóginum sem var gott.

Í kvöld fórum við Marion svo og horfðum á ultimate liðið hans Ryans. Þeir töpuðu en það var gaman að horfa á. Einn strákurinn í liðinu, Jason, vinnur við kvikmyndagerð og hefur komið að mörgum stórmyndum. Hann er núna að vinna að mynd með Penelope Cruz og Ben Kingsley. Í frítíma sínum er hann svo að vinna að handriti að kvikmynda ásamt félaga sínum, leikstýrir tónlistarmyndböndum, ofl. Það var býsna athyglisvert að tala við hann.  


Hafnarbolti

Ég sá núna áðan að það mun ekki kosta nema átta dollara (400 kr.) að fara og sjá Vancouver Canadiens spila í hafnarbolta. Ég held ég þurfi að skella mér á leik. Mér fannst alltaf gaman þegar ég fór að sjá Winnipeg Goldeyes spila. Hafnarboltinn er kannski ekki mest æsandi leikur í heimi en það er eitthvað við stemninguna sem er smitandi. 

Aðeins meira um hokkí

Ég hef ekkert skrifað um hokkí undanfarið (og flestir sennilega guðslifandi fegnir) en það er fyrst og fremst vegna þess að Vancouver datt út úr bikarnum fyrir tæpum mánuði. Ottawa Senators hafa hins vegar farið alla leið í úrslitaseríuna sem nú er í fullum gangi. Flestir veðjuðu á Ottawa sem hefur beinlínis slátrað andstæðingum sínum hingað til og þurfti yfirleitt ekki nema fjóra til fimm leiki til að fá þess að sigrja fjórum sinnum. Nú er hins vegar svo komið að Anaheim (sem sló Vancouver úr keppninni) hefur sigrað fyrstu tvo leikina og er með spaðann á hendinni. Það hefur aðeins einu sinni gerst í sögu Stanley bikarsins að lið hafi tapað fyrstu tveimur leikjunum og síðan náð að vinna mótið. Það voru Montreal Canadians sem það gerðu. Það lítur því ekki vel út fyrir Ottawa.

Þetta minnir mig á grein sem ég las fyrir einhverjum mánuðum þar sem greinarhöfundur kvartaði yfir því að deildinni væri einfaldlega misskipt. Liðin í vesturriðlinum væru almennt mun betri en þau í austurriðlinum. Það er í raun ekkert hægt að gera í þessu því liðunum er skipt eftir staðsetningu (austur og vestur - nema hvað Detroit er með vestur sem er mjög undarlegt) og því verður auðvitað ekki breytt. Þetta þýðir hins vegar að Ottawa, sem er með langbesta liðið í austurriðlinum, hefði ekki átt öruggan sigur gegn neinu af fjórum bestu liðinum vestra (Anaheim, Vancouver, San Jose og Detroit). Ég held reyndar að Ottawa liðið sé tæknilega betra en öll þessi lið, og ætti að geta unnið þau öll (og myndi örugglega hafa slegið Vancouver út), en serían núna á móti Anaheim er sú fyrsta þar sem Ottawa hefur virkilega þurft að leggja á sig. Þeir spiluðu ekki vel fyrsta leikinn og þurfa augljóslega að gera betur. Nú er bara að vona að tapið í Anaheim hafi verið spark í rassgatið á þeim og að þeir taki sig nú til og vinni leikina sem eftir eru. Við þurfum að fá titilinn til Kanada.


Flugnanet, moldarryk og rökfræði

Í gær negldi ég flugnanet fyrir eldhúsgluggann eftir að stærsti geitungur sem ég hef nokkurn tímann séð flaug inn til mín. Ég greip skordýrasprey og lét vaða á kvikyndið sem hrundi niður og flaug ámáttlega yfir að eldavélinni og hálfdatt ofan í helluna (þessi hringaða af gamla taginu). Það kvarflaði að mér að kveikja undir en ég vildi ekki eldaðan geitung svo ég lét það ógert. Greip í staðinn handfylli af tissjú og þegar ég náði góðu lagi (þ.e. þegar flugan var ekki lengur á hellunni) marði ég hana með tissjúnni og skellti svo öllu í ruslið. Þetta var hins vegar flugnanetið sem ég hef vanalega í svefnherberginu á sumrin svo nú verð ég að fara út í búð og kaupa net fyrir svefnherbergisgluggann því þess verður varla langt að bíða að ég þurfi að fara að sofa með gluggann galopinn.

Nú er búið að hreinsa spýtnabrakið við hliðina á mér og farið að grafa grunn að nýja húsinu. Það hafa sem sagt verið hávaði og læti hér í allan dag og stundum svo að húsið mitt skelfur. Ég sem hafði hugsað mér að grilla kannski í kvöld. Af því verður ekki því hér er moldarryk og drulla. Það er ekki einu sinni hægt að sitja úti í garði fyrr en þessu lýkur sem vonandi verður fljótlega. Ég var reyndar í skólanum í morgun þannig að þetta angraði mig ekki þá, og ég hefði líklega átt að grípa bók og fara niður á strönd þegar ég kom heim úr skólanum. ég er hins vegar að hugsa um að fara með Marion á eftir að horfa á manninn hennar spila ultimate leik. Hann hefur verið að reyna að fá mig til þess að ganga í liðið. Ég hef aldrei spilað ultimate en þá vantar svo sárlega stelpur að þeim er alveg sama þótt ég hafi enga reynslu. Það er hugsanlegt að ég spili með þeim þegar fótboltinn er búinn í lok júní því þá þarf ég að finna mér eitthvað að dunda mér við.

Á þriðjudaginn fer ég í þriðja prófið í rökfræðinni. Mér hefur gengið vel hingað til; fékk 38 af 40 mögulegum úr fyrsta prófinu og 40 af 40 mögulegum úr því næsta. Prófið á þriðjudaginn verður hins vegar mun erfiðara því við þurfum að gera afleiðslur og ég hef aldrei séð þær áður. Þetta er svona eins og munurinn á venjulegum stærðfræðidæmum annars vegar og sönnunum hins vegar. Við þurfum í raun að sanna afleiðslurnar okkar. Þetta er mjög stærðfræðilegt, nema skemmtilegra. 


Þrekvirki Bítlanna

Engin hljómsveit jafnast á við Bítlana og ég stórefa að nokkur hljómsveit muni nokkurn tímann ná með tærnar þar sem þeir hafa hælana. Hljómurinn, textarnir (á seinni plötunum), laglínan... allt var þetta eitthvað svo frumlegt og nýtt. Ekki var aðeins að þeir breyttu tónlist þess tíma - þeir eru enn þeir tónlistarmenn sem hafa mest áhrif á aðra tónlistarmenn.

Sgt. Peppers platan var auðvitað stórvirki út af fyrir sig. Lögin höfðu þennan tengda hljóm (þótt platan hafi kannski ekki náð að vera eins mikið 'concept' og Paul hafði viljað) og þarna eru lög eins og t.d. A day in the life, sem er algjör gullmoli. Plötuumslagið var svo bylting út af fyrir sig. Ekki bara myndin, sem sýnir fjöldann allan af frægu fólki; ekki bara 'Paul is dead' vísbendingarnar sem eru svo margar; heldur kannski fyrst og fremst fyrir það að textarnir eru prentaðir á baki plötunnar - í fyrsta sinn sem það var gert á  nokkurri plötu. Þar að auki er umslagið tvöfalt.

Ég elska þessa plötu - ekki bara lögin heldur líka umslagið. Þetta er eitt af þeim dæmum um hvernig gamla platan var fremri geisladisknum. Það er bara ekki alveg það sama að halda á hulstrinu af Sgt. Peppers geisladisknum og það var að halda á plötuumslaginu sjálfu.  

Reyndar verð ég að segja að ég hef alveg jafngaman af að hlusta á Abbey Road, Revolver, Let it be og Rubber Soul. En það þýðir bara að Sgt. Peppers var ekki eina frábæra platan með Bítlunum. 


mbl.is 40 ár frá útkomu Sgt. Pepper's
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir nýir sjónvarpsþættir

Ég horfði á tvo nýja sjónvarpsþætti í kvöld. Flestar vetrarseríurnar eru komnar í sumarfrí og þá reyna sjónvarpsfyrirtækin að halda áhorfendum föngnum með nýjum sumarseríum. Slíkar seríur hafa af og til slegið í gegn en oftar en ekki hverfa þær eftir eitt sumar.

Fyrri þátturinn sem ég horfði á kallast Hidden Palms. Hugsið OC, bara verra. Þetta er um ríkan unglingsstrák sem flytur til Palm Springs með mömmu sinni og nýjum stjúpföður. Pabbi stráksins drap sig og sjálfur var strákurinn kominn á kaf í eiturlyf og drykkju. Strax fyrsta daginn kynnist hann nágrannastráknum sem hefur óhreint mjöl í pokahorninu, og nágrannastelpu sem hegðar sér eins og skógardís, hlaupandi í hvítum sumarkjól innan um úðarana á golfvellinum sem liðið býr við. Hún á hins vegar líka dimma fortíð sem tengist dauða kærasta hennar. Þetta var alveg ótrúlega lélegur þáttur með leiðinlegum karakterum, fullur af klisjum og ótrúverðugri rómantík. Það er nokkuð ljóst að ég mun ekki fylgjast með þessum þáttum.

Hin serían byrjar mun betur. Hún heitir Traveler og er tvo stráka sem leigðu saman hús, ásamt þeim þriðja, á meðan þeir voru í framhaldsnámi í háskóla. Að námi loknu ákveða þeir að keyra þvert yfir Bandaríkin áður en þeir þurfa að fara að vinna fyrir sér. En þeir komast ekki lengra en til New York. Þar virðist sem þriðji félaginn hafi leitt þá í gildru því áður en þeir vita að þér eru þeir eftirlýstir fyrir hryðjuverk (fyrir að sprengja upp listasafn). Við tekur þvílíkur eftirleikur þar sem ekki bara FBI er á eftir þeim heldur einhverjir aðrir líka - hugsanlega þeir sem standa á bakvið sprengjurnar. Fólk hrynur niður í kringum þá og þeir geta ekkert gert nema reyna að bjarga sér. Tveir þættir voru sýndir í kvöld og ég sat límd við sjónvarpið. Ég er hrædd um að ég muni eiga stefnumót við imbann á miðvikudagskvöldum.

Mín skilaboð til íslenskra sjónvarpsstöðva: Krækið í Traveler en sleppið Hidden Palms.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband