Niðurrif
30.5.2007 | 22:42
Þegar ég kom heim úr klifurhúsinu í dag blasti við mér spýtnabrak þar sem áður var hús. Nánar tiltekið húsið við hliðina á mér. Þetta þýðir væntanlega að ég þarf að fá mér gardínur fyrir baðherbergisgluggann. Áður var veggurinn á húsinu við hliðina það eina sem sást út um gluggann (og þar af leiðandi sást ekkert inn). Nú verður þarna væntanlega fjöldi karlmanna að vinna...og í þessum hita, fjöldi hálfnaktra karlmanna...bíddu, ég fer ekki að fá mér gardínur. Maður þarf augljóslega ótakmarkað útsýni!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Baráttan við kóngulærnar
30.5.2007 | 17:27
Áðan sá ég stóra svarta kónguló í loftinu hjá mér. Ég greip flugnaspaðann sem nú er alltaf við höndina, steig upp á stól og reyndi að drepa kvikindið en náði ekki alveg svo kóngulóin datt niður á gólf og hvarf. Ég leitaði nokkra stund en varð að játa mig sigraða. Um fimmtán mínútum síðar var kóngulóin komin upp í loftið á ný, nema hvað hún var neðar núna (ég bý í risíbúð og hún var neðarlega á hallanum). Nú klikkaði ég ekki og endaði á að skrapa dauða kónguló af spaðanum ofan í ruslið. Þýðir þetta að nú muni fara að rigna aftur?
Ég fylgist betur með kóngulónum núna eftir að ég heyrði að við hefðum svörtu ekkjuna hér í BC. Ég hélt að hún fyndist bara í suðurhluta Alberta en það var víst ekki rétt. Hún finnst hér líka. Þannig að nú tek ég enga sénsa og hlífi engum kóngulóm. Nú skal barist upp á líf og dauða (kóngulónna).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Berklar á kreik á ný
30.5.2007 | 04:46
Ég heyrði í fréttum að maður í Bandaríkjunum hefði greinst með alvarlegt afbrigð af berklum og að hann hafi verið settur í sóttkví. Maðurinn flaug frá Prag til Montreal, í gegnum Frakkland, og keyrði síðan áfram yfir til Bandaríkjanna. Hætta er á að allt að 200 manns sem hann komst í návígi við gætu hafa smitast.
Við skulum vona að ekki sé annað HABL dæmi í uppsiglingu. Ég bjó í Winnipeg þegar sú sótt geisaði og ég man eftir því að hafa hlustað á morgunfréttirnar á hverjum morgni og fylgjast með nýju tilfellunum sem komu upp. Mjög snemma var sagt frá því að tilfelli hefðu greinst víða í Kanada, þar á meðal í Vancouver, og þar sem ég var um það bil að flytja til Vancouver var ég að sjálfsögðu býsna áhyggjufull yfir þessu. Hér er líka einn mesti fjöldi fólks frá Asíu í öllu Kanada, og þaðan kom sjúkdómurinn. Það var ekki rétt að hann hefði borist til landsins með aðeins einni manneskju. Tilfellin í Toronto mátti rekja til einnar manneskju en annars staðar á landinu kom sjúkdómurinn með öðru fólki. Þegar tilfellum fór að fjölga í Toronto var eins og önnur tilfelli hefðu gleymst og við heyrðum aldrei neitt frekar um hvernig staðan væri á öðrum stöðum þar sem tilfelli höfðu greinst. Að sjálfsögðu mátti draga þá ályktun að það þýddi að náð hafi verið að stöðva sjúkdóminn annars staðar en í Toronto, en ég man hversu pirruð ég var yfir því að heyra ekkert. Ég beið alltaf eftir því að heyra eitthvað jákvætt, eins og tilkynningu um að nú væri búið að koma í veg fyrir sjúkdóminn í Vancouver, í Alberta...(man ekki hvar annars staðar hann kom upp). Ég held að allt hafi verið reynt til að láta eins lítið fara fyrir þessu og hægt var til þess að koma í veg fyrir að túristar hættu við að ferðast norður yfir landamærin. En það var ekki hægt að láta sem ekkert væri. Landsmenn voru virkilega skelkaðir enda trúðu margir því að við værum að fá yfir okkur faraldur á við þann sem sem kom með bólusóttinni. Og svo þegar þetta var búið, og sjúklingarnir annað hvort dánir eða orðnir frískir, þá trúðum við því varla að ógninni skyldi hafa verið afstýrt.
Eitt berkladæmi mun að sjálfsögðu ekki skapa miklar áhyggjur, en ef fleiri tilfelli greinast á næstu dögum þá gæti farið svo að maður sæti aftur límdur fyrir framan útvarpið og biði frétta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moskíturnar komnar á stjá
30.5.2007 | 03:42
Jæja, þá er moskítótímabilið byrjað. Í kvöld labbaði ég niður á Alma til að skila vídeóspólu og náði mér í eitt moskítóbit á upphandlegginn. Og núna sá ég eina inn í stofu. Á meðan ég fór að sækja flugnaspaðann hvarf hún mér sjónum en ég mun hafa augun opin. Vona að ég finni hana áður en ég fer að sofa því annars veit ég hvernig nóttin verður: Ég reyni að sofa, þegar ég er um það bil að sofna heyri ég suð við eyrun. Ég kveiki ljósin og fer að leita að moskítunni. Finn hana ekki. Fer aftur að reyna að sofa...og svo hefst leikurinn á ný. Í fyrra eyddi ég einu sinni bróðurpartinum af nóttunni í að drepa moskítóflugur. Veit ekki hversu mörg morð voru framin þá nótt en dugði ekki til fyrr en um fjögur leytið um morguninn.
Ég verð að fara að tjasla saman heimatilbúna flugnanetinu og festa það á gluggana með teiknibólum (hér í Vancouver eru nær aldrei flugnanet fyrir gluggum, ólíkt Winnipeg). Gallinn er að það er ekki auðvelt að opna og loka gluggum þegar búið er að koma slíku verki upp. Og það er enn of kalt á morgnana til að hafa gluggana opna allan sólarhringinn. Vona að hlýni fljótt svo ég geti leyst moskítuvanda minn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Glaðningur frá skattinum
29.5.2007 | 20:14
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Carlota Smith látin
28.5.2007 | 18:24
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í nafni trúar
28.5.2007 | 05:58
Ég hef verið að horfa á sjónvarpsþættina um Elísabetu fyrstu, með Helen Mirren og Jeremy Irons í aðalhlutverkum (stórleikarar bæði tvö). Nýlokið er atriðinu þar sem María Stuart Skotlandsdrottning er hálshöggvin. Ég get ekki annað en hugsað um hversu margt slæmt í veröldinni er afleiðing af því að fólk getur ekki þolað öðrum að hafa aðrar trúarskoðanir. Hversu margir hafa verið drepnir í nafni Guðs?
Fyrir nokkrum árum hringdi í mig vottur Jehóva og spurði mig: Finnst þér ekki hræðilegt hversu mikið er um stríð í veröldinni? Jú, sagði ég, vissulega. Þá sagði hann: Veistu, að trúin getur hjálpað okkur að binda enda á þessi stríð. Ég gat ekki annað en svarað (og var ekki að reyna að vera fyndin): Mér sýnist trúin hafa skapað flest þessi stríð.
Ég uni öðru fólki þess vel að vera ekki sammála mér um trúmál. Af hverju geta aðrir það ekki? Trú á að vera fólki til huggunar, á að vera af hinu góða. Ekki að skapa dauða og skelfingu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þátturinn eftir hádegið
28.5.2007 | 02:31
Þegar ég var bara pínulítið skott drógum við Gunni bróðir stundum fram gamla segulbandstækið hans pabba (þetta með stóru spólunum sem maður þræddi saman) og bjuggum til okkar eigin útvarpsþætti. Sumir þessa þátta eru enn til á bandinu og það er alveg stórskemmtilegt að hlusta á þá.
Vinsælastur var Þátturinn eftir hádegið með Jóni Gunnlaugssyni. Fyrir þá sem ekki muna var þetta einn af þeim þáttum þar sem hlustendur gátu hringt inn og beðið um óskalag. Af því að þurfti að fara og finna viðkomandi lag í plötusafni útvarpsins spjallaði Jón við gesti á meðan og í minningunni voru þetta helst spurningar um hvað viðkomandi borðaði í hádegismat (þátturinn var jú eftir hádegið). Alla vega voru þættir okkar Gunna þannig. Gunni var Jón og ég var hlustendur. Svo hringdi ég inn og bað um lag, og á meðan Gunni þóttist leita að því spurði hann mig hvað ég borðaði í hádeginu, og hvað ég héti o.s.frv. Hugmyndaflug mitt var nú ekki meira en svo að ég hét vanalega Jóhann (sem er nafn pabba - og var þá auðvitað uppáhalds strákanafnið mitt). Ég borðaði svo kannski graut eða rúgbrauð. Eftir smáspjall söng Gunni lagið og var ekki endilega að vanda sig. Eitt af þeim lögum sem ég bað mikið um var lagið Pétur af öllum pissaði, sem Gunni söng fyrir mig af ánægju. Textinn var svona:
Pétur af öllum pissaði
pungurinn á honum rifnaði
saumað'ann saman með seglgarni
sárt er að koma við hann.
Ég fékk líka stundum að heyra útgáfu af Jamaican Farewell sem var á þessa leið:
Eitt sinn kom til mín yngismær
með loðnar tær, hún bað mig að kyssa þær.
Ég gerðist bráður og beit þær af,
biddu fyrir þér þær voru eitraðar.
Á einni upptökunni höfum við snúið við hlutverkum og ég fæ að vera Jón Gunnlaugsson. Gunni biður þá um lagið 'How do you do', sem var vinsælt 1971 með hollenska dúóinu Mouth and MacNeal. Fyrir nostalgíusakir set ég þetta lag inn hér að neðan og þið sem eruð komin um eða yfir fertugt ættuð að muna eftir því:
Það skal tekið fram að á upptökunni geri ég laginu býsna góð skil þótt ég hafi varla verið nema fimm eða sex ára og að greinilega séu þarna nokkur ár liðin frá því lagið var sem vinsælast (þar sem ég var bara tveggja ára 1971).
Á einni upptökunni má líka heyra Geira bróður koma inn í herbergið, stríða okkur eitthvað og hlæja svo (þótt hláturinn virðist uppgerður). Þetta er alveg hrikalega fyndið vegna þess að Geiri er í kringum fjórtán ára þarna og í mútum. Röddin er því þessi fyndna brostna rödd sem einkennir stráka á þessum aldri. Gunni, sem er ári yngri, var ekki byrjaður í mútum og hafði því enn krakkarödd á þessum upptökum.
Mér þykir alveg ótrúlega skemmtilegt að hlusta á þessar upptökur og hálföfunda krakka í dag sem síðar meir geta fengið að horfa á æsku sína meira og minna á vídeói - meira að segja fæðinguna.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sýningar og sjávarútvegur
27.5.2007 | 17:53
Í dag ætla ég niður í bæ á matarhátíð. Þar eiga allir bestu kokkar Vancouver að vera til að kynna veitingastaði sína (þar á meðal Iron Chef Rob Feenie), vörur verða kynntar, smökkun verður í gangi ofl. ofl.
Það er oft gaman að svona kynningum og fólk ótrúlega sækið í þær. Ég man bara hversu margir komu alltaf á sjávarútvegssýningarnar í Reykjavík, þótt fæstir stæðu í kaupum á trollum eða utanborðsmótorum. Ég fór þangað alla vega tvisvar því ég var að vinna fyrir frænda minn og frænku sem voru þar með bás. Ég man líka hvað ég varð pirruð þegar ég fékk pásu og labbaði um svæðið til að skoða uppá hvað aðrir byðu (og í leit að æti). Af því að ég var ekki miðaldra karl með bindi var ég vanalega hunsuð. Mér finnst það auðvitað ekkert óeðlilegt - það var alveg augljóst að ég ætlaði ekki að kaupa fiskleitartæki. En mér sárnaði nú samt. Ég hefði vel getað verið upprennandi útgerðarmaður. Pabbi átti t.d. einu sinni trillu sem hann seldi ári áður en kvótinn var settur á (fjandans!).
Annars hefur öll fjölskyldan meira og minna verið tengd sjávarútvegsiðnaðnum. Báðir afar mínir, pabbi og elsti bróðir minn voru/eru sjómenn (svo og föðurbróðir minn og móðurbróðir minn og alla vega tveir langafar). Afi, föðurbróðir minn og ég unnum öll við netagerð (ég bara í eitt sumar), Pabbi, mamma, ég og allir bræður mínir, auk elsta bróðursonar míns höfum öll unnið við Slippstöðina á Akureyri og þar náð yfir jafnmargar atvinnugreinar og trésmíði, vélsmíði, plötusmíði, rafvirkjun, lagervinnu, skrifstofustörf, veitingastörf og almenna verkamannavinnu. Mamma vann að auki í frystihúsi, eins og mágkona mín, og afar mínir, ömmur og pabbi unnu öll við síldina á Siglufirði. Við höfum því komið að næstum öllum greinum sjávarútvegs - nema að eiga kvóta!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tvær frábærar bíómyndir
27.5.2007 | 05:45
Ég fer ekki oft á vídeóleigu enda vanalega nóg að horf á í sjónvarpinu þegar mann langar að eyða kvöldi fyrir framan imbann. En í dag tók ég þrjár myndir á leigu (af því ég þarf ekki að skila þeim fyrr en á mánudag). Ég er búin að horfa á tvær og fannst þær báðar alveg magnaðar.
Fyrri myndin sem ég horfði á er finnska myndin FC Venus. Það er vel hugsanlegt að hún hafi komist í íslensk kvikmyndahús þar sem myndin fjallar um fótbolta, en ég vissi ekki af henni fyrr en í kvöld. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri finnsk fyrr en ég fór að horfa á myndina. Þetta er mynd um eiginkonur karla í sjöundu deildar knattspyrnuliði og veðmál sem þær gera við karlana sína. Konunum finnst líf karlanna snúast of mikið um knattspyrnu og þær fá alveg nóg þegar þær komast að því að karlarnir eru búnir að kaupa miða á leiki í Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og ætla að vera þar í þrjár vikur. Þar með er sumarfríið upptekið, fyrir utan nú peninginn sem þetta kostar. Konurnar stofna því sitt eigið fótboltalið með það að markmiði að spila gegn körlunum síðar það sumar. Veðmálið er að ef konurnar vinna leikinn þá mega karlarnir ekki horfa á eða spila fótbolta framar. Auk þess verða þeir að láta konurnar fá miðana sína. Ef karlarnir vinna verða konurnar að hætta að kvarta yfir fótboltanum og verða þar að auki að borga undir karlana. Karlarnir halda að þetta verði létt verk og löðurmannlegt en þeir vita ekki að ein kvennanna æfði knattspyrnu í mörg ár, besta vinkona hennar er atvinnumanneskja í knattspyrnu (og þarf bara að sofa hjá einum karlanna til að komast í liðið) og þar að auki er pabbi hennar atvinnuþjálfari. Með þetta að vopni, og heilt sumar til að æfa, ná konurnar að komast í býsna gott form. Þetta er ofsalega skemmtileg mynd sem tekur sig ekki of alvarlega. Þarna eru margir góðir brandarar en þess á milli er tekist á við alvarlegri mál. Ég held ég hafi aldrei áður séð finnska mynd sem er ekki eftir Kaurismäki.
Seinni myndin er jafnvel enn betri. Það er kanadíska myndin Bon Cop, Bad Cop. Söguefnið hefur verið margtuggið í bandarískum bíómyndum. Tvær löggur eru látnar vinna saman að máli þrátt fyrir að líka illa hvor við annan. Þá hafa þeir mjög ólíkar vinnuaðferðir. Málið er hins vegar að þessi mynd tekur á þessu allt öðruvísi og ég hreinlega engdist um af hlátri yfir mörgum atriðunum. Í byrjun myndarinnar, t.d. finnst lík sem hangir á skilti sem skiptir Ontario og Quebec. Löggurnar tvær vilja báðar losna við málið (önnur er frá Toronto og hin frá Montreal) og rífast um hvor hluti líkamans eigi að gilda. Þetta leiðir til mjög athyglisverðra atburða sem enda á að líkið rifnar í tvennt. Og nei, þetta er ekki slapstick fyndni, þótt kannski megi lesa það út úr því sem ég skrifa hér. Mikið er gert úr tungumálamuninum þótt báðar löggurnar séu tvítyngdar og skipti stöðugt á milli mála (það kallast CodeSwitching og er mjög spennandi fyrirbæri). Til dæmis er þarna atriði þar sem frankofón löggan er að útskýra blótsyrði fyrir anglófón löggunni og byrjar á flóknum útskýringum um hvað gerist þegar orðið er sett í karlkyn, o.s.frv. Málfræðingurinn í mér hafði hina bestu skemmtun af.
Þessi mynd fékk nær öll kanadísk kvikmyndaverðlaun sem hægt er að fá nú í vetur og margir eru sammála um að þetta sé besta kanadíska mynd sem gerð hafi verið (betri en Porky's hehe). Ég hef auðvitað ekki séð það margar kanadískar myndir, en ég get trúað því að þetta sé rétt. Eina myndin sem kannski kemst nálægt þessari er Rauða Fiðlan sem gerð var fyrir sirka tíu árum.