Skrekkur þriðji
26.5.2007 | 16:47
Í gær fór ég að sjá Shrek 3 og hafði bara gaman af. Ég er reyndar sammála því sem ég las í einhverjum dómi að þessa mynd vanti hjartað og standi þannig að baki hinum tveim fyrstu, en ég held það hafi verið alveg jafnmargir brandarar í þessari. Ég hló hjartanlega í fjölmörg skipti.
Það hefur einkennt Shrek myndirnar frá upphafi að þær eru jafnmikið gerðar fyrir fullorðna og fyrir börnin. Ekki á sama hátt og myndir eins og ToyStory sem setti inn fullorðinsbrandara hér og þar til að halda hinum fullorðnu ánægðum, heldur eru brandararnir fyrir þá fullorðnu líklega enn fleiri en þeir eru fyrir börnin. Það er eins og börnin fái að njóta sögunnar og teiknimyndanna og við hin fáum grínið og glensið. Alla vega hlógu þeir fullorðnu mun oftar í bíóinu en börnin. Stundum var þetta mjög hulið grín, eins og þegar Shrek og Artie eru um það bil að ná saman á viðkvæmu nótunum, þá byrjar galdrakarlinn Merlin að spila upphafstónana úr "That's what friends are for" með Diane Warwick. Maður þarf að þekkja lagið og muna textann til þess að njóta þessa fullkomlega. Þetta er auðvitað langt fyrir ofan þekkingu og skilning þeirra sex ára. En þau fengu líka nokkra piss og kúk-brandara handa sér.
Ég myndi segja að sagan í heild sé ekki eins góð og sú úr fyrstu myndinni (og líklega ekki heldur eins góð og sagan í mynd tvö sem þó stóð að baki þeirri fyrstu), og nýjabrumið er auðvitað farið, en myndin er alveg jafnfyndin og mér fannst þetta hin besta skemmtun.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Samband mitt við Apple
26.5.2007 | 05:41
Í fyrra fór diskadrifið í fartölvunni minni að haga sér illa og ég varð að lokum að horfast í augu við að það var bilað. Svo ég fór að lokum með tölvuna í Apple búðina uppi í skóla og fékk þann dóm að drifið væri búið að vera. Ég varð að fá nýtt, og af því tölvan var orðin eins og hálfs árs varð ég að borga fullt verð fyrir drifið og vinnuna, $425 CA (tæplega 30.000 krónur). Um jólin tók ég tölvuna með mér til Íslands enda nota ég hana fyrst og fremst þegar ég ferðast. Allt gekk vel þangað til ég kom til Ottawa eftir jólin. Þá fór drifið að hegða sér álíka undarlega og gamla drifið. Ég endurræstu tölvuna og allt var í lagi. Ég hélt að þetta væri bara svona PC vandræði - nóg að endurræsa tölvuna og þá allt í lagi. Ég notaði tölvuna mína ekki aftur í þó nokkrar vikur því ég ferðaðist ekkert og þá nota ég bara iMac tölvuna heima. Það kom þó að því að ég ætlaði að spila einhvern tölvuleik í fartölvunni og þá virkaði ekki drifið. ég endurræsti og drifið var í lagi en næst þegar ég reyndi að nota það var allt komið í köku. Tölvan fann ekki einu sinni drifið og ég gat ekki einu sinni tekið diskinn út úr því. Að lokum fór ég með tölvuna aftur í Apple búðina. Þrjár vikur eru liðnar og ég hringdi loksins í búðina í dag til að forvitnast um afdrif tölvunnar. Fékk að vita að drifið væri ónýtt (fékk greinilega gallað drif) og að það hefði aðeins verið þriggja mánaða ábyrgð á því - sem rann út í febrúar. Mér var bent á að hringja í Apple fyrirtækið sem ég og gerði. Þar talaði ég við hinn vænsta mann sem lofaði að sjá hvað hann gæti gert. Hann kom mér í samband við yfirmann og eftir að hafa útskýrt stöðuna, vælt svolítið og spilað út fátækur-námsmaður-kortinu, sagði hann að Apple myndi láta mig fá nýtt drif, mér að kostnaðarlausu. Ég þyrfti bara að borga vinnuna. Ég var ákaflega þakklát og sagði manninum frá því að ég væri ákaflega trúr og dyggur Apple-notandi og ég væri ánægð með að heyra að viðskiptin mín væru virt nóg til þess að þeir væru tilbúnir til þess að sveigja reglurnar aðeins þegar upp kæmu svona sérstök dæmi. Þeir hafa auðvitað bara mín orð fyrir því að tölvan hafi lítið sem ekkert verið notuð á þessu síðasta hálfa ári, en jafnvel þótt ég hefði notað hana daglega ætti drifið augljóslega að endast lengur. Og í raun fór það að hegða sér illa rúmum mánuði eftir að ég keypti það, eftir að ég hafði kannski notað tölvuna fimm sinnum.
En það er gott að Apple metur trygglyndi mitt við vörumerkið.
Bloggheimur er algjör gullnáma
25.5.2007 | 19:10
Bloggheimar er alveg yndislegur staður fyrir málfræðing eins og mig. Þar fær maður aðgang að því sem í raun er miklu fremur talmál en ritmál, enda ekki miklar áhyggjur hafðar af því að fylgja málfræðireglum til hlítar. Það þýðir líka að ég fæ betri hugmynd um hvernig íslenskan er í raun, þegar fólk er ekki að ritskoða sig of mikið.
Doktorsritgerðin mín fjallar um dvalarhorf í íslensku (Jón er að lesa, Guðrún er að borða, o.s.frv.) og eitt af því sem þar er spennandi er breytt notkun dvalarhorfsins nú á síðustu árum. Annars vegar er að fólk er farið að nota dvalarhorf með ástandssögnum (elska, vita, kunna, o.s.frv.) sem áður var yfirleitt ekki gert, og hins vegar þegar vísað er til endurtekinni atburða eða endurtekins ástands, sem einnig var ekki gert. Bara nú á síðustu dögum hef ég fundið setningar eins og:
- Í sambandi við ráðherra og hæfileika. Þá er ég ekki heldur að kaupa það að hæfileikaríkari einstaklingar séu í efri sætum framboðslista heldur en í þeim neðri.
- Þessir dreifbýliskúkar eru ekkert að gera glimrandi hluti á því sviði.
- Þetta þýðir að Kristján Möller verður samgöngumálaráðherra, fólk er ekki að fatta hvað það er alvarlegt.
- Loksins er Samkeppniseftirlitið að virka.
- Frekar óbreytt ástand hjá Sjöllunum og Samfó því miður ekki að standa við stóru orðin.
- Vá, hvað ég er að skilja þig vel........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heimsóknir til annarra landa
25.5.2007 | 04:27
Pétur Björgvin var að tala um það á blogginu síðu hvernig alls konar próf tröllríða netinu og hver apar upp eftir öðrum. Mér þykja svona próf svo skemmtileg og dett stundum í þau. Eitt af því sem Pétur benti á, og sem ég hafði ekki séð, var landakortið sem sýnir hvar maður hefur verið. Þetta er í rauninni enn betra til að sýna manni hvar maður hefur ekki verið. Ekki það að ég viti það ekki. En þegar ég sé það svona á kortinu þá átta ég mig á því hvað ég á eftir að sjá mikið. Hér kemur landakortið mitt:
create your own visited country map or check our Venice travel guide
Eins og þið sjáið þá er það bara Vestur-Evrópa og Norður Ameríka sem ég hef heimsótt.
Það er hægt að gera sérstök kort fyrir Kanada og Bandaríkin og af því að ég er að safna fylkjum og stjórnsýslueiningum þá gerði ég þau kort líka.
create your personalized map of europe or check out our Barcelona travel guide
create your own personalized map of Canada or check out ourVancouver travel guide
Í Kanada hef ég sem sagt heimsótt suðrið meira og minna allt. Mig vantar ennþá Newfoundland/Labrador af þeim sem kallast province, og svo Nunavut, Yukon og NorthWest Territories af norðrinu. Í Bandaríkjunum er þetta eiginlega öfugt því þar hef ég séð mest af norðurfylkjunum:
create your own personalized map of the USA or check out ourCalifornia travel guide
Að lokum get ég sett inn Evrópukortið svo betur sjáist að ég allan eystri hlutann eftir.
create your personalized map of europe or check out our Barcelona travel guide
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rotnir tómatar
25.5.2007 | 02:46
Ef ske kynni að það væri einhver sem ekki þekkir kvikmyndasíðuna Rotnir tómatar (Rottentomatoes) þá ákvað ég að setja hér inn tengingu á síðuna: http://www.rottentomatoes.com/
Þessi síða er að mínu mati gagnlegasta kvikmyndasíðan á netinu því þarna er safnað á einn stað ótrúlegum fjölda kvikmyndadóma. Maður þarf því ekki að treysta á smekk eins gagnrýnanda heldur fær maður gott yfirlit yfir hvað gagnrýnendum almennt finnst um myndina, auk þess að fá upplýsingar um leikara o.s.frv. Þá er líka hægt að lesa dómana sjálfa.
Mynd sem fær jákvæðan dóm í 60% tilfella fær tómat en myndirnar þar fyrir neðan fá tómatklessu. Þannig er hægt að fá í fljótu bragði að sjá hvort það er þess virði að fara og sjá myndina. Ég hef reyndar haft gaman af mynd sem fer jafnneðarlega og í 40% en ég held ég hafi aldrei séð neitt gott fyrir neðan það, þá sjaldan ég hef farið á þannig mynd. Nútildags hef ég ekki efni á að fara of oft í bíó þannig að það er gott að fara og kíkja á hvaða dóma myndirnar fá. Stundum fer ég þótt dómar séu lélegur. T.d. fær Shrek aðeins 42% en ég ætla samt að sjá myndin. Bara af því að fyrstu tvær voru svo skemmtilegar.
Áðan skrapp ég út að sækja smá kínverskan mat. Það er orðið svo langt síðan ég hef fengið uppáhaldið mitt, mongolian beef og Seszhuan beans. Á bakaleiðinni stoppaði ég á vídeóleigu því nú eru allir sjónvarpsþættir komnir í sumarfrí. Rakst þar á A little trip to heaven. Finnst ég verð að sjá allar myndir frá Íslandi. Þar að auki eru Peter Coyote og Forrest Whittaker í myndinni. Á Rottentomatoes eru of fáir dómar um myndina til þess að hún fái prósentutölu en hún hefur fengið þrjá ferska tómata og einn rotinn (tómatklessu). Það lofar þokkalegu.
Miklu áorkað
25.5.2007 | 00:02
Ég hef áorkað heilmiklu í dag.
- í morgun tók ég próf númer tvö í rökfræði og ég verð hissa ef ég fæ ekki fullt fyrir það, eða nálægt því (fékk 48 af 50 mögulegum fyrir fyrsta prófið).
- Síðan fór ég að klifra og búið var að endursetja leiðirnar í hellinum, sem var frábært, og ég stóð mig bara ágætlega þar.
- Þegar ég kom heim kláraði ég loksins endurbæturnar á umsókn minni um breytta stöðu innan Kanada (sótti um fyrir tveimur árum og þeir ætla loksins nú að fara að líta á hana - en heimta þá auðvitað öpdeit á öllu), og ....KOM ÞVÍ Í PÓST! Varð reyndar að senda það með hraðpósti (sem kostar helling), því ég hefði átt að vera búin að þessu fyrr.
- Setti líka í póst uppgjör mitt við Manitóbaháskóla. Þeir hafa viljað losna við lífeyrinn minn í nokkurn tíma en vilja ekki bara láta mig fá peningana heldur varð ég að opna sérstakan lokaðan reikning sem þeir síðan leggja inn á. Það reyndist all flókið og gekk ekki fyrr en ég fékk útibússtjórann minn í lið með mér. Þetta er sem sagt komið í póst og ætti að vera af dagskrá.
En því miður er margt enn ólokið sem ég þarf að sinna af leiðinlegum verkum.
- Ég þarf að skrifa lokaskýrslur um Kispiox vinnuna mína og senda til þeirra tveggja sjóða sem styrktu verkið. Það þýðir að ég þarf líka að brenna geisladiska með öllum upptökum og ég þarf að skrifa upp allar setningar sem ég vann með. Ég er búin að skrifa upp flestar setningarnar, en þarf að brenna geisladiskana og skrifa fjárhagsreikninginn og skýrsluna sjálfa. Verð að koma þessu í verk fljótlega.
- Þarf að hringja í leigusalann og fá leyfi til þess að setja inn stafrænt box fyrir sjónvarpið. Ég er búin að draga þetta í tvær vikur því ég þoli ekki að tala við karlinn (eða kerlinguna hans). Þau eru svona týpískir nískir ríkisbubbar sem eiga allt til alls en tíma samt ekki að láta gera við neitt í húsinu.
- Skipuleggja blaðabunkana tvo sem sitja á gólfinu í svefnherberginu. Skóla fylgir ótrúlegt magn af pappír.
- Skrifa doktorsritgerð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á tónleikum með Björk
24.5.2007 | 22:14
Í gær hélt hún Björk okkar tónleika hér á StórVancouversvæðinu, nánar tiltekið í Deer Lake Park í Burnaby. Á miðanum mínum stóð 5pm svo ég skellti mér í strætó klukkan fjögur og kom því að garðinum um fimm leytið. Þetta er nokkuð langt ferðalag sem samanstendur af strætó-lest-strætó-finna leið að garðinum frá stoppistöðinni. Það var risaröð fyrir framan hliðið þegar þangað kom og þegar ég labbaði meðfram röðinni í leit að endanum var kallað í mig. Í röðinni reyndist vera Heidi Maddess, fyrrverandi íslenskunemandi minn. Hún var ein líka svo ég skellti mér í röðina hjá henni og það reyndist heillaráð því í ljós kom að þótt hliðið opnaði klukkan fimm (reyndar ekki fyrr en tuttugu mínútur yfir fimm) þá hóst ekki upphitunaratriðið fyrr en korter í sjö. En veðrið var fallegt og við sátum þarna í aflíðandi brekkunni og spjölluðum. Ég fékk meðal annars fréttir af Nýsjálendingnum John sem einnig var nemandi minn á sama tíma og Heidi, og sem nú hefur flutt aftur til Nýja Sjálands.
Korter í sjö steig á sviðið enginn annar en Einar Örn Benediktsson, gamli moli, og ávarpaði lýðinn á alveg ágætri ensku með sterkum íslenskum hreim. Tvær gamlar kerlingar voru ekki langt frá okkur (við Heidi vorum sannfærðar um að þær væru af íslenskum ættum því við eigum erfitt með að trúa því að aðdáendahópur Bjarkar nái eins hátt og aldur þeirra). Þær fengu næstum hjartaáfall þegar Einar og félagar byrjuðu að spila (vissi ekki að hann væri í Gostdigital) enda komu af og til ótrúleg óhljóð af sviðinu sem skáru í eyrun. Ég hafði nú glettilega gaman af. Einar var fyndinn og þótt þetta sé kannski ekki sú tónlist sem ég almennt hlusta á þá fannst mér þetta skemmtilegt upphitunaratriði. Ekki síst þegar maður horfir til sögunnar og sambandsins sem svo lengi hefur verið milli Bjarkar og Einars. Ég varð að segja Heidi frá því þegar ég fór einhvern tímann á 22 með fólki af Gamla Garði og bað um vatn. Einar var að vinna á barnum og fannst alveg ómögulegt að ég drykki bara vatn. Ég sagðist ekki drekka áfengi og mér þætti gos alltaf svo vont úr vél, svo vatn yrði það að vera. Honum fannst það samt alveg ómögulegt svo hann gaf mér sódavatn og seti sneið af sítrónu út í. Mér þótt það mjög sætt af honum (guði sé lof að ég drakk sódavatn).
Björk steig sjálf á sviðið um átta leytið og hóf dagskránna á Earth Introducers, sem er glettilega gott lag. Takturinn er flottur og erfitt að hreyfa sig ekki með. Hún skellti sér síðan í Hunter, og síðan tóku lögin við hvert af öðru. Ég hafði aldrei séð Björk áður á tónleikum (nema í sjónvarpi) og verð að segja að hún frábær á sviði. Hreyfingar hennar eru engu öðru líkar og orkan ótrúleg. Það verður líka að segjast að tónlistin er enn betri þegar maður heyrir hana á tónleikum en þegar maður situr heima og hlustar á plötu. Og það er ekki hægt að segja um alla.
Mér fannst brasssveitin alveg frábær og ég held að hluti ástæðunnar fyrir því hversu magnaðir tónleikar þetta voru, hafi einmitt verið hljóðfæraskipanin. Björk hefur greinilega valið góða tónlistarmenn með sér.
Fólkið á svæðinu var töluvert öðruvísi en ég á að venjast. Ég kem ekki alveg orðum af því en það var eins og hópurinn skipist í þrennt. Í fyrsta lagi svona nokkurs konar feral ungmenni (ástralskt heiti yfir ákveðna menningu, sjá hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Feral_%28subculture%29). Annars vegar samkynhneigðir. Annað hvort er Björk vinsælli meðal samkynhneigðra en aðrar hljómsveitir sem ég farið að sjá, eða aðdáendur hennar sýna væntumþykju sína betur. Það var alla vega mjög mikið um að tveir strákar eða tvær stelpur héldust í hendur. Í þriðja lagi svona sama einsleita liðið og sést annars vegar. Feral liðið var langskemmtilegast enda dansaði það öðru vísi og klæddi sig öðruvísi (mikið um föt úr náttúrulegum efnum og hárið í dreadlocks). Það var minna um grasreykingar en ég hefði haldið - svona miðað við hvað fólk í Vancouver reykir annars mikið af því.
Margir voru orðnir alveg pissfullir löngu áður en Björk steig á sviðið og voru því kannski farnir að sofa. Þessi á myndinni reis úr rekkju um miðja tónleika, var þá búinn að hvíla sig nóg og hoppaði um um eins og vitleysingur þar til hann tilkynnti að hann væri svangur og hvarf í leit að mat.
Það tók um einn og hálfan tíma að komast heim enda þurfti ég að bíða eftir strætó í 20 mínútur í Burnaby og svo aftur í 10 eða 15 mínútur á Commercial drive. Klukkan var því orðin ellefu þegar ég loksins komst heim og var ég þá bæði köld og þreytt.
En þetta voru hinir skemmtilegustu tónleikar. Skemmtilegast fannst mér að heyra Earth Intruders, Army of Me, Hunter, Declare Independence, Wanderlust og The dull flame of desire (ég held það heiti það - á plötunni er þetta dúett en hún söng það ein á tónleikunum...eða er ég að rugla saman lögum?).
P.S. Hér má sjá umsögnina um tónleikan úr Vancouver Sun.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vinstra heilahvel
23.5.2007 | 19:36
Ég tók heilahvelsprófið sem Gurrí benti á og í ljós kom að það er vinstra heilahvel sem er virkara hjá mér. Hér er það sem sagt var:

Most left-brained people like you feel at ease in situations requiring verbal ability, attention to detail, and linear, analytical ability. Whether you know it or not, you are a much stronger written communicator than many, able to get your ideas across better than others.
It's also likely that you are methodical and efficient at many things that you do. You could also be good at math, particularly algebra, which is based on very strict rules that make sense to your logical mind.
Þetta er ekki svo skrítið. Ég er málfræðingur og innan málfræði hef ég einbeitt mér að merkingarfræði sem er nokkurs konar rökfræði tungumálsins. Þetta bendir alla vega til þess að ég sé á réttri hillu.
Hér getið þið farið til að prófa sjálf: http://web.tickle.com/tests/brain/index_main.jsp
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Annar sigurinn í röð
23.5.2007 | 06:07
Í kvöld unnum við annan leikinn í röð í fótboltanum. Við byrjuðum ágætlega en svo kom lélegi kaflinn okkar sem alltaf virðist koma, og við lentum undir 0-2. Þá loks komumst við í gang. Ég tók boltann upp hægri vænginn, hljóp af mér varnarmann en var kominn alveg upp að endalínu þannig að ég sendi boltann til Jody sem var fyrir framan markið og hún þurfti ekki mikið til að renna boltanum inn. Staðan í hálfleik var því 1-2 fyrir Phoenix. Ég hefði átt að vera búin að skora þrjú mörg þarna en var óheppin. Skaut einu sinni framhjá, einu sinni beint á markvörðinn og einu sinni átti ég gott skot sem markmaðurinn varði glæsilega. Í seinni hálfleik komumst við fyrir alvöru í gang. Beníta tók boltann upp vinstri vænginn, lék á tvo varnarmenn og skoraði stórglæsilegt mark. Þriðja markið skoraði ég eftir mistök í vörn hinna, komst inn í sendingu, inn fyrir varnarmann og átti auðvelt með að skjóta boltanum yfir markmanninn og upp í innri slána. Beníta skoraði svo fjórða markið...ég held reyndar að ég hafi lýst því marki hér að framan. Ég man þá bara ekki hvernig fyrsta markið hennar var. en alla vega, leikurinn fór 4-2 fyrir okkur og við erum ofsakátar. Höfum þá tapað tvisvar og unnið tvisvar. Næsti leikur verður hins vegar á mót öðru toppliðinu, sem hefur ekki tapað leik hingað til, þannig að við verðum að taka á öllu okkar.
Ég gat leikið þrátt fyrir að hægri ökkli væri enn bólginn eftir síðasta leik. Nú er ég með ís á ökklanum og vona að ég jafni mig fljótt. Við eigum ekki að spila aftur fyrr en á sunnudagskvöld í næstu viku. Veit ekki hvernig þeim dettur í hug að hafa leiki á sunnudagskvöldum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Unaður
22.5.2007 | 23:57
Það er fátt betra en að skríða undir sæng þegar maður er nýkominn úr baði og rúmfötin nýþvegin. Þá er ég eitthvað svo hrein og fín.
Var að enda við að skipta á rúminu og í kvöld mun ég fara í heitt bað eftir fótoltann. Er þegar farin að hlakka til að fara í kojs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)