Mun það þýða styttingu framhaldsskólanna?
22.5.2007 | 23:20
Ég er nú ekki vön að krjúpa á kné og biðja, en nú er þörf: Kæra Þorgerður Katrín, EKKI EKKI EKKI stytta framhaldsskólann í þrjú ár.
Fyrir um þremur mánuðum kom frétt á mogganum um að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að stytta framhaldsskólann og þá bloggaði ég um málið og útskýrði af hverju ég held að best sé að hafa framhaldskólann áfram fjögur ár. Fyrir um mánuði heyrði ég svo að þeir væru aftur búnir að bakka með þetta og að enn stæði til að stytta framhaldsskólann. Ég vísa því á fyrri skrif mín um málið, og ég tek fram að ég hef nokkra reynslu því ég hef kennt á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi og á háskólastigi í Kanada.
Ég reyndi að setja hlekk á fyrri skrif um þetta mál en eftir að vera búin að setja hlekkinn inn fimm sinnum og vera alltaf send á sömu síðu (mína eigin admin síðu) þá ákvað ég að gefast upp og setja textann bara inn hér í staðinn.
Hér eru fyrri skrif:
Guði sé lof
Mikið er það huggandi að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að bakka með það að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Ég hef verið á móti því frá því ég heyrði fyrst af þessu en eftir að ég fór að kenna á háskólastigi í Kanada varð ég enn harðari í afstöðu minni. Hér byrja nemendur átján ára í háskóla og eru langt frá því að vera búnir að taka út þroskann. Fyrsta árinu, og hjá mörgum fyrstu tveimur árunum, er eytt í fyllerí og skemmtanahöld sem íslenskir krakkar taka vanalega út í menntaskóla. Það er alfrægt að nemendur í framhaldsnámi geta ekki verið á sömu stúdentagörðum og þeir sem eru á BA/BS stigi, vegna þess að það eru stöðugt drykkjulæti á vistum yngri nemenda, og hinir eldri vilja frið til þess að læra. Ég hef kennt fjórum árgöngum fyrsta árs nema í háskóla í Kanada og það var mjög áberandi hversu illa þeir voru undir það búnir að vera komnir í framhaldsskóla. Þetta voru átján ára grey sem ekki voru búin að ákveða hvað þau vildu læra, sem ekki voru búin að taka út nema brot þroskans og sem hreinlega voru á þeim aldri þar sem krakkar vilja fyrst og fremst skemmt sér. Enda var það ekki oft sem allur hópurinn kom undirbúinn í tíma. Þar að auki má benda á að hér er BA/BS námið vanalega fjögur ár, og fyrsta árið fer í það að taka áfanga úr ýmsum greinum til þess að kynna sér hvað þau vilja nú læra. Þannig að þegar til kemur eru þau aðeins ári yngri en íslensku ungmennin þegar þau útskrifast úr háskóla og sennilega með verra nám því þau hafa almennt færri einingar í aðalfagi og lærðu hvort eð er minna fyrstu tvö árin.
Ég er alveg hörð á því að kerfið er betra heima á Íslandi. Þegar íslensk ungmenni byrja í háskólanum tvítug að aldri hafa þau tekið út mun meiri þroska en fyrsta árs nemar vestra (enda þroskast fólk mikið á milli átján og tuttugu ára), taka námið alvarlegra og fá þar af leiðandi miklu meira út úr háskólanáminu.
Mér finnst allt í lagi að nemendur geti tekið menntaskólann á styttri tíma ef þeir eru tilbúnir til þess að leggja þannig vinnu á sig, enda held ég að þeir sem eru tilbúnir til að leggja harðar að sér til að klára menntó fyrr hafi sennilega þann aga sem þarf til þess að standa sig vel í háskóla, en það ætti ekki að vera gert að neinu keppnikefli fyrir hinn almenna nemanda, né ætti það að verða almenn breyting. Og hvað um það að grunnskólinn hafi lengst um tvö ár og framhaldsskólinn um eina önn? Það þýðir bara að við menntum börnin okkar betur.
![]() |
Þorgerður Katrín: Lagði áherslu á að vera áfram í menntamálaráðuneyti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Langar í mömmumat
21.5.2007 | 22:25
Allt í einu langar mig ógurlega mikið í lambakótelettur í raspi með kartöflum, Ora baunum og rabbabarasultu. Þetta kallast comfort food á ensku en hefur held ég ekkert nafn á íslensku. Huggunarmatur??? Stundum langar mig bara svo mikið í matinn sem ég fékk sem barn. Kannski er það ómeðvituð þrá eftir æskunni? Hvað segja sálfræðingar við því?
Af því að mér finnst kanadískt lambakjöt vont (og líka nýsjálenskt) og af því að klukkan er ekki orðin fjögur, ætla ég í staðinn að baka pönnukökur. Af því ég á engan rjóma þá mun ég rúlla sumar upp með sykri og setja nutella á hinar. Það er ótrúlega gott!
Bloggar | Breytt 22.5.2007 kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Talað við Bandaríkjamenn
21.5.2007 | 18:35
Ég sá að Bjarni var nýlega að kynna kanadískan húmor fyrir landanum með því að sýna myndband frá Kids in the hall. Eitt það fyndnasta sem ég hef séð í mörg ár var þegar grínistinn Rick Mercer ferðaðist um Bandaríkin og kannaði vitneskju þeirra um Kanada. Vanalega var það þannig gert að hann sagði þeim einhverja vitleysu um landið og spurði svo álits, eða fékk fólkið til að óska Kanadamönnum til hamingju með að hafa loksins breytt hlutunum þannig að þeir samræmdust Bandaríkjunum. Þarna má m.a. sjá hann segja fólki að Kanada hafi aðeins 20 tíma í sólarhring og spyrja hvort þeir ættu að breyta því. Einnig virðist fólk trúa því að ráðhúsið í Kanada sé gert úr ís, að vídeótæki hafi loksins verið lögleidd, o.s.frv. Fyndnast er auðvitað þegar hann talar við George Bush í kosningabaráttunni og biður um viðbrögð við ummælum forsætisráðherra Kanada, Jean Putin. Það fyndna er auðvitað að Putin var forseti Rússlands. Forsætisráðherra Kanada var Jean Crethien og það fyndist manni nú að verðandi forseti Bandaríkjanna ætti að vita. Í lokin er talað um að stór hluti Kanadamanna geti ekki fundið eigið fylki (state) á landakorti (sem hefur verið sagt um Bandaríkjamenn) og grínið hér er auðvitað að Kanada hefur ekki states. Stjórnsýslueiningarnar þar eru kallaðar Province. Það eru bara Bandaríkin sem hafa states (sbr. United States).
Myndgæðin eru léleg í myndbandinu hér að neðan, en hljóðið er fullkomið og það er það sem skiptir máli. Tek það fram í lokin að yfirleitt var Mercer ekki að týna til hvaða fólk sem var á götunni. Flestir sem hann talaði við voru annað hvort á háskólasvæðum hinna svo kölluðu Ivy league háskóla (Harvard, Stanford, Princeton o.s.frv.), svo og stjórnmálamenn (í þessu myndbandi, ekki svo mikið í öðrum þáttum).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Viktoríudagur
21.5.2007 | 18:20
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vancouver stemning
20.5.2007 | 23:40
Ég hef ekki tekið mikið af myndum undanfarið. Þegar ég var að renna í gegnum iPhoto möppuna mína sá ég að ég hafði aðeins einu sinni tekið myndir í maí og aðeins einu sinni í apríl. Sem er algjör synd því þetta er eiginlega einn fallegasti tíminn - vorið. Ég var aðeins duglegri í mars og kannski er ástæðan sú að í mars fór gróðurinn af stað í alvöru, þá fórum við líka að fá fallega daga af og til, o.s.frv. Alla vega tók ég töluvert af myndum þá.
Ég set inn örfáar hér, til að sýna ykkur aðeins stemninguna hér, en einhvern daginn ætti ég að setja saman svolitla sýningu með myndum frá Vancouver - svona til að sýna ykkur þarna heima að það er vel þess virði að skella sér á vestur ströndina.
Fyrsta myndin er tekin af lítilli bryggju á Lacarno ströndinni sem er um tíu mínútna gang frá heimili mínu. Ég bý uppi á hæðinni og þarf bara að labba þvergötuna mína niður að ströndinni. Þarna sést vel yfir í miðbæinn en það tekur mig um hálftíma að fara þangað með strætó. Mér fannst svo skemmtilegt að sjá mávinn sitja þarna á skiltinu.
Mynd númer tvö er líka af mávi. Bæði er að mér þykir gaman að taka myndir af fuglunum, en mér finnst líka mávarnir einhvern veginn svo mikið einkenni á Vancouver. Kannski er það vegna þess að ég sá ekki mikið af mávum þegar ég bjó í Winnipeg (þótt þeir hefðu vissulega verið þar) en þegar ég flutti vetstureftir heyrði maður gargið í þeim næstum því hvar sem var. Myndin er tekinn inn í sólsetrið í vestri og nesið sem skagar þarna út vinstra megin á myndinni er háskólasvæðið.
Þriðja myndin er tekin niður í False Creek, rétt við Ganville Island þar sem er stærsti markaður borgarinnar. Þar má fá ávexti, grænmeti, kjötmeti, fisk, blóm, o.s.frv. Kirsuberjatréð til vinstri er eitt af einkennum borgarinnar í mars því þau eru út um alla borg. Stundum bleik, stundum hvítleit, en alltaf falleg. Einnig má sjá glitta í Burrard brúna og þar á bakvið glerháhýsi miðbæjarins. Þetta eru almennt íbúðablokkir en ekki svo mikið skrifstofubyggingar eins og háhýsi flestra annarra borga. Einnig má sjá glitta í möstur seglbátanna sem á góðum vinddegi fylla sundið.
Síðasta myndin sýnir návígi við kirsuberjatré. Mér þykir þau svo falleg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Verð ég kóngulóarkonan?
20.5.2007 | 20:46
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mmmmmm sushi!
20.5.2007 | 00:42
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bikarinn til Kanada?
19.5.2007 | 23:42
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað kom fyrir bloggið mitt?
19.5.2007 | 20:14
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hið besta mál
19.5.2007 | 19:20
Það væri geysilega gott fyrir Ísland að fá fleiri kvikmyndir teknar upp á landinu.
Kvikmyndaiðnaðurinn er geysisterkur í Vancouver og hér er tekið upp nóg af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum til að halda stöðugt a.m.k. fjórum kvikmyndagengjum allan ársins hring. Þetta skapar gífurlega atvinnu; ekki bara þeirra sem hafa fullt starf af þessu heldur einnig þeirra sem leika aukahlutverk. Ég hef t.d. kennt náunga (íslensku) sem er ellilífeyrisþegi en fær alltaf svolítinn vasapening fyrir að vera aukaleikari í kvikmyndum og bíómyndum. Þar að auki segir hann að það sé ótrúlega skemmtilegt.
X-files þættirnir voru teknir upp hér á sínum tíma og sama má segja um Stargate seríurnar. Men in Trees þættirnir, sem hafa nýlokið fyrsta ári, voru teknir upp hér (en eiga að gerast í Alaska), Supernatural þættirnir hafa verið teknir upp hér tvö síðustu ár, og nýlega las ég að Criminal Minds þættirnir væru líka teknir upp hér. Og þetta er bara brot. Í vetur sýndu sjónvarpsstöðvarnar bandarísku um 46 sjónvarpsþætti sem teknir voru upp í Vancouver eða nágrenni, og fjöldi mynda sem er tekinn upp hér er hærri en það.
Þetta gerir það líka að verkum að ef maður er á réttu stöðunum getur maður oft séð fræg andlit. Ég er reyndar ekki mikið á réttu stöðunum því réttu staðirnir eru vanalega flottustu veitingahúsin niðri í bæ - sem ég hef ekki efni á að sækja. En stundum sé ég einhvern út á götu eins og ég hef áður bloggað um. Um daginn var ég í kjörbúðinni minni hér í hverfinu og sá þá mann sem líkist ótrúlega einum þessara leikara sem maður sér alls staðar í smáhlutverkum en veit ekki hvað heitir. Ég hef nokkrum sinnum séð hann áður að versla en vanalega ekki hugsað út í það. En síðast þegar ég sá hann þá loksins áttaði ég mig á því að þetta gæti alveg verið sá náungi því hér búa auðvitað fjölmargir leikarar árið um kring, eða í einhverja mánuði á meðan tökur fara fram, og þeir þurfa víst að borða líka. Þannig að leikari í matvöruverslun er ekkert sérlega ótrúlegt. Og ég bý í góðu og notalegu hverfi og ekkert skrítið að leikarar vildu búa hér.
Ég veit reyndar ekki hvaða áhrif ein og ein mynd hefði á kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi en ég myndi giska á að ef alla vega tvær þrjár myndir væru teknar upp þar, utan við þær örfáu íslensku myndir sem gerðar eru í landinu, þá ætti það að skapa töluverðan fjölda starfa og ég myndi giska á að nokkrir sem í dag geta ekki lifað af kvikmyndaiðnaðinum, gætu gert þetta að fullu starfi. Landkynningin er auðvitað mikilvæg líka en þá aðeins ef það er nokkuð vel vitað hvar myndin er tekin upp. Það mun ekki hjálpa Íslandi ef fólk veit ekki hvar þessi náttúruundur eru. Það hefur t.d. ekki haft nein sérstök áhrif á ferðamannaiðnaðinn í Kanada hvað margar myndir eru teknar upp hér. Ef myndin á að gerast í Alaska þá heldur fólk vanalega að hún sé tekin upp þar. Allt er að sjálfsögðu gert til að staðurinn sé trúverðugur. Bandaríski fáninn blaktir t.d. oft við hún uppi í háskóla og lögreglubílar merktir 'Seattle Police' keyra fram hjá. Winnipeg er vanalega notuð þegar teknar eru upp bíómyndir sem eiga að gerast í Chicago, o.s.frv.
Sem sagt, ég held það gæti verið mjög gott fyrir Ísland ef fleiri myndir yrðu teknar upp í landinu, en auðvitað vitum við öll að kvikmyndageirinn er fallvaltur og þótt standi til að taka þessa mynd á Íslandi þá er best að trúa ekki of miklu fyrr en liðið er mætt á staðinn.
![]() |
Stórmynd líklega tekin á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)