Af hverju í fjandanum er ég í Kanada?

Af því að það skrifar aldrei neinn í gestabókina mína líða yfirleitt mánuðir á milli þess að ég kíki þangað inn. Nú hef ég hins vegar séð kveðju frá Huldu Magg, gamalli bekkjarsystur minni úr MA þar sem hún vill fá að vita hvað í ósköpunum ég sé að þvæla í Kanada. Það er best ég svari því hér fremur en á gestabókinni sjálfri.

Fyrir um það bil átta árum sá ég auglýsingu um stöðu íslenskukennara í Winnipeg í Kanada. Ég var þá að vinna á Orðabók Háskólans og fannst spennandi hugmyndin að búa í útlöndum um tíma. Ef mér þætti ekki skemmtilegt þá væri það allt í lagi því staðan var bara auglýst til eins árs hvort eð var. Ég var reyndar tiltölulega nýbúin að kaupa mér íbúð og því kannski ekki endilega tilbúin að pakka niður og flytja til útlanda en sótti samt um og ákvað að láta það bara ráðast. Ég fékk stöðuna í byrjun ágúst og hafði mánuð til að pakka niður í kassa, senda dótið mitt til mömmu og pabba, taka bara það sem ég þyrfti á einu ári, ganga frá íbúðinni, finna leigjanda, o.s.frv. o.s.frv. Fyrsta september var ég komin til Kanada, byrjaði að kenna viku síðar og var stuttu síðar beðin um að vera annað ár. Árin urðu fjögur og ég átti mér dásamlegan tíma í Winnipeg. Kynnist fullt af góðu fólki, kanadískri og vestur-íslenskri menningu og þroskaðist og dafnaði ákaflega vel. Bjó megnið af tímanum með ákaflega geðugum, ungum, kanadískum heimspekiprófessor. Þegar það samband leið undir lok ákvað ég að fara eitthvert annað en var ekki tilbúin til að fara heim svo ég sótti um inngöngu í doktorsnám í Vancouver og fékk inn. Ég hafði alltaf hugsað um að fara í frekara nám og þetta var gott tækifæri. 

Og þess vegna er ég núna í Vancouver. Ég er að ljúka fjórða ári í doktorsnáminu og er nú að skrifa doktorsritgerðina mína. Það mun taka nokkurn tíma því miklar kröfur eru gerðar til þessara ritgerða. Maður þarf víst að segja eitthvað af viti (haldiði nú)!

Utan við það að vera í skóla reyni ég að fá góða hreyfingu og þá helst með því að spila fótbolta og stunda klifur. Ég reyni líka að komast á skíði af og til enda frábærar brekkur ekki langt frá Vancouver, ég fer út að hlaupa og á sumrin fer ég á línuskauta. Í sumar langar mig að fara oftar á kajak en ég hef gert undanfarin sumur en það er fremur dýrt.

Það er annars dásamlegt að búa í Vancouver. Hér er mildasta veðurfar í landinu (fer varla undir frostmark) og sumrin dásamleg. Af því að borgin er á strönd Kyrrahafsins eru hér frábærar strandir þar sem hægt er að sóla sig á sumrin. Maður þarf ekki að fara til Spánar til að hafa það gott í sólbað. Fyrir norðan og austan borgina eru fjöllin og þar er ótrúlegt útivistarsvæði jafnt sumar sem vetur. Skíði á veturna, fjallgöngur og fjallahjól á sumrin. Og ef hvessir fyllist sundið af seglbátum. Fólk hér er almennt mjög heilsusamlegt og hugsar mikið um hreyfingu, útivist og náttúruna.

Hulda spurði líka hver Martin væri. Hann er vinur minn frá Gatineau í Quebec sem ég kynntist þegar ég vann í Gatineau í fyrra (og bjó í Ottawa). Hann vinnur fyrir kanadíska utanríkisráðuneytið og er því nokkuð fastur fyrir í höfuðborginni. Við höfum verið í fjarsambandi í vetur en það er erfitt að þróa slík sambönd þannig að við verðum bara að sjá hvað gerist í framtíðinni. Annars vita auðvitað þeir sem hafa lesið bloggið mitt undanfarið að ég er laumulega skotin í þjálfara Vancouver í hokkí!!!! Hehe, get ekki staðist þessa Quebec gæja!


Rólegur dagur

Haldiði ekki að ég hafi ryksugað í kvöld! Það var alveg tími til kominn.

Dagurinn hefur annars verið rólegur í dag. Ég fór á fund útbússtjóra í bankanum mínum  í dag sem hjálpaði  mér að fylla út endalausan fjölda af eyðublöðum tengdum lífeyrissjóðnum sem ég greiddi í á meðan ég vann í Manitoba. Alltaf sama skriffinnskan í Kanada. Ég hafði reynt að gera þetta áður með hjálp starfsmanns í bankanum en hann vissi ekkert hvað hann var að gera svo ég varð að lokum að fá hjálp frá efstu stöðum. þessi var frábær. Hann fyllti þetta bara út fyrir mig og sagði mér svo hvar ég ætti að skrifa undir.

Þar á eftir fór ég út í Cliffhanger að klifra. Ég komst loksins áfram í V3 leið sem ég hef ekki getað klárað. Ég kláraði reyndar ekki heldur en ég náði haldi sem ég hef bara ekki getað náð hingað til. Ég komst töluvert fram yfir það en datt svo loksins þegar tvö höld voru eftir. Það var vegna þess að ég missti fóthald og hékk of lengi úr loftinu án þess að koma fótunum aftur á hald í loftinu. Þegar maður klifrar neðan úr veggnum (loftinu) er mun mikilvægara en ella að maður missi ekki grip því það er erfitt að komast á stað aftur. Kannski mun ég ná að klára næst. Ég veit alla vega núna hvar ég þarf að koma fótunum.

Ég var að hugsa um að fara í bíó í kvöld og sjá nýju Shrek myndina en ákvað á endanum að spara peninga og vera bara heima. Það er hins vegar ekki margt merkilegt í sjónvarpinu í kvöld því flestar seríur eru komnar í sumarfrí, þar á meðal Ghost Whisperer og Close to Home sem ég hef horft svolítið á. Í kvöld er svo lokaþátturinn í Law & Order. Það er reyndar verið að sýna frá Minningabikarnum í hokkí, þar sem eigast við bestu liðin í unglingahokkíinu. Vancouver Giants tekur þátt (hitt Vancouver liðið) en það er ekki alveg það sama að horfa á þá og að horfa á Canucks. Þannig að ég hef leikinn í gangi og fylgist með af og til. Staðan núna eer 3-3 og þriðji hluti er næstum búinn, þannig að það lítur út fyrir að þurfi að framlengja. Ég hafði reyndar hugsað mér að fara á leikinn því ég hélt það yrði ódýrara en að fara á Canucks leiki, en ódýrustu miðarnir eru um 3000 krónur og ég hef annað við peningana að gera.

Eitt af því sem ég gerði við peningana mína var reyndar að kaupa miða á tónleika Bjarkar á miðvikudaginn. Mér finnst ég verði eiginlega að fara. 


Loksins sigur

Við unnum loks í fótboltanum. Reyndar var hitt liðið ekki með fullt lið þannig að það er ekki alveg að marka, en við spiluðum vel og unnum 7-2. Ég skoraði fjögur mörk. Sjálfstraustið kom til baka og ég skoraði þrjú mörk þannig að ég fékk boltann nálægt miðju og tók hann alla leið inn. Í þau fáu skipti sem ég fékk svoleiðis tækifæri í vetur skaut ég of snemma og klúðraði, en í kvöld trúði ég á sjálfa mig og tók boltann alla leið inn þar til ég gat sett boltann í netið án vandræða. Það var býsna skemmtilegt. Hin þrjú mörkin skoruðu Karen, Jen og Sherry, og allar voru þær að skora sitt fyrsta mark. Það skemmtilega er að þær eru allar miðjuleikmenn en ekki framherjar. Ég var reyndar eini vanalegi framherjinn. Hinar sem spila þá stöðu voru ýmist meiddar eða ekki í bænum. Þannig að við héldum að það yrði vandamál en þá komu miðjustelpurnar bara sterkar inn í staðinn.

Við höfðum að sjálfsögðu ekki rúllað þessum leik upp ef hinar stelpurnar hefðu haft fullt lið (þær spiluðu níu eða tíu) en við spiluðum virkilega vel, sendum boltann vel á milli, sköpuðum endalaus tækifæri og uppskárum eftir því. Nú er bara að vona að þetta aukna sjálfstraust skili sér í næsta leik. 

Annars vil ég líka segja frá því að í gær fór ég út að hlaupa eftir að sólin settist niður og sá uglu fljúga beint fyrir framan mig. Ég hafði ætlað að hlaupa um hverfið á götunum fyrst farið var að dimma, en hnéð á mér kvartaði svo ég hljóp inn í skóginn. Vanalega hleyp ég ekki í skóginum eftir sólsetur en það var enn býsna bjart svo ég taldi þetta í lagi. Inni í skóginum var fremur dimmt enda há tré og mikið laufþykkni og allt í einu sé ég þetta flykki fljúga yfir stíginn fyrir framan mig. Ég horfði ekki beint á fuglinn en var strax nokkuð viss um að þetta hefði verið ugla. Ernir og fálkar koma ekki mikið svona djúpt inn í skóg, og þetta var of stórt fyrir flesta skógarfuglana. Og ég þurfti ekki að leita langt því uglan hafði sest niður stutt í burtu. Ég gat ekki séð vel hvers konar ugla þetta var en það er býsna auðvelt að nota útilokunaraðferðina. Hlöðuuglan (barn owl) er of hvít, og sama má segja um snæuglu, sem að auki ætti að vera flogin norður eftir. Norhtern Pygmy uglan er of lítil, og sama má segja um saw-whet ugluna, Stóra gráuglan (Great Gray) of stór. Það skilur eftir aðeins þrjár sem passa miðað við stærð og sem eru reglulegar á svæðinu: Great Horned, Spotted/Barred eða brandugla (short eared). Ég get ekki verið viss því það var dimmt, en þegar ég skoða myndir af þessum fuglum er ég næstum viss um að þetta hafi verið annað hvort Spotted eða Barred (meira og minna sami fuglinn) einfaldlega vegna þess að þegar ég horfði á ugluna fannst mér hún helst líkjast Great Gray, bara minni, og þannig lítur Spotted/Barred uglan einmitt út (aðrir litir reyndar, en ég sá nú enga liti í myrkrinu). Alltaf gaman að sjá uglur.

Það dimmdi hratt og að lokum varð ég að hlaupa út úr skóginum því ég vil ekki vera þar eftir að virkilega tekur að dimma. Bæði er að maður veit ekkert hvað fólk getur gert, en kannski aðallega það að skógurinn er fullur af úlfum, greifingjum og skunkum sem fara á stjá á kvöldin. Ekki sérlega skemmtilegt að mæta neinum þeirra ef maður kemst hjá því.


Sameinaða vinstri menn

Samfylkingin var stofnuð af fólki sem átti sér þann draum sameiginlegan að mynda stóra vinstri hreyfingu sem sameinaði alla vinstri menn. Það gekk ekki að sameina þá alla í einn flokk en mér finnst Samfylkingin skulda kjósendum sínum það að reyna fyrst að mynda vinstri stjórn með VG og Framsókn. Á þann hátt væru alla vega allir vinstri menn sameinaðir í ríkisstjórn (þótt miðjumenn og örfáir hægri menn flytu óvart með). Og það að Geir fái líklegast umboðið skiptir engu máli, það er hægt að undirbúa jarðveginn með óformlegum viðræðum. Er ekki  mál manna að búið hafi verið að mynda Viðeyjarstjórnina meira og minna fyrir kosningar? Það sama á við um VG; þau ættu að reyna vinstri stjórn áður en farið er af alvöru í umræður við Sjálfstæðisflokk.

Ingibjörg segir að VG hafi ekki haft neinn áhuga á að mynda stjórn með Framsókn. Já, þeir réðust á Framsókn í kosningunum en það var þegar vonin var að stjórnarandstæðan gæti myndað nýja ríkisstjórn. Og svona eru nú stjórnmálin. Nú er ljóst að það er ekki hægt að mynda stjórn án annars hvors núverandi stjórnarflokka og þá snýr málið öðru vísi við. Ég hef séð VG daðra við Sjálfstæðislokkinn, rétt eins og Samfylkingin hefur gert, en ég hef skilið á málflutningi þeirra að þeir vilji vinstri stjórn ofar öllu. Er ekki Ingibjörg bara að nota þetta sem afsökun til þeirra sem vilja ekki sjá hana í viðræðum við Sjallana? Það er miklu auðveldara að skella skuldinni á VG.

Ég held að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði betri en núverandi ríkisstjórn, en ég held ekki að það sé besti kosturinn í stöðunni. 


mbl.is Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónleikar á ýmsum stöðum

Að vera unglingur á Akureyri á níunda áratugnum gaf manni ekki kost á að fara á marga tónleika. Ég sá auðvitað Stuðmenn og Skriðjöklana og örfáar fleiri hljómsveitir íslenskar, en hápunkturinn var að sjálfsögðu að sjá Ringo Starr tromma í Atlavík árið 1984. Ég sá engar erlendar hljómsveitir fyrr en ég var sirka nítján ára og sá Status Quo í reiðhöllinni innan um hundrað aðra Íslendinga eða svo. Það voru alveg skammarlega fáir á svæðinu. Ég stóð hins vegar í fremstu röð, beint fyrir framan Francis Rossi og skemmti mér konunglega.

Eftir að ég varð eldri fóru æ fleiri hljómsveitir að koma til Íslands en ég sá þó ekki margar því ef eitthvað var gaman af hljómsveitinni kostaði alltaf morðfé inná. Ég sá enga fræga hljómsveit í Laugardagshöll t.d., nema Sigurrós á barmi frægðar sinnar þegar þeir hituðu upp fyrir hljómsveit Emirs Kusturica. 

Á Wembley sá ég BeeGees innan um 80.000 aðra áhorfendur og ég dansaði við Jive Talking og ruggaði mér við How Deep is your love.

En það var ekki fyrr en ég flutti til Kanada sem tónleikatala mín komst á almennilegt skrið. Í Manitoba sá ég  Barenaked Ladies, The Guess Who, Default, Chantal Kreviazuk, Avril Lavigne, Theory of a dead man, the Arrogant Worms (2svar), Sloan og einhverjar fleiri. Já, þetta eru allt kanadískar hljómsveitir. En ég sá líka Joe Cocker þar sem hann hitaði upp fyrir The Guess Who (sem er hljómsveit Randy Bachman áður en hann fór í Bachman, Turner, Overdrive). 

Í Fargo sá ég Creed, Billy Joel, Elton John, Default og Greenwheel.

Í Toronto sá ég Paul McCartney. Ókei, þetta ætti ekki að blandast saman við aðra. Að sjá Paul var auðvitað toppurinn á tilverunni. Ég hef skrifað um það áður. Ég grét og hló og lengst af trúði ég því ekki að ég væri á tónleikum með Paul.

Ég sá hann aftur í Seattle 2005.

Í Vancouver hef ég séð Rolling Stones, Linkin Park, Maroon 5, Muse (2svar), Travis, Amee Mann, The Weakerthans (2svar), The Arrogant Worms, Chris Isaak, SigurRós. Ég held ég sé að gleyma einhverjum.

Í Ottawa sá ég Colin James, Blue Rodeo, Sam Roberts, Etta James, Live, Michael Franti, Bonnie Raitt, Wilco, KC's Boogie Blast (KC and the sunshine band), Stars, Feist, Broken Social Scene, and lots and lots of other musicians at Blues Fest.

Það er alltaf skemmtilegt að fara á tónleika og hér vantar ekki úrvalið. The Police eru t.d. að spila hér einhvern næstu daga, Björk verður hérna í næstu viku, í gær sá ég að Def Lepard eru á leiðinni í bæinn. Gallinn er að það kostar heilmikið að fara á tónleika og þá sérlega frægari böndin. Vanalega svona frá 50-250 dollara (3000-15000 krónur). Þannig að maður verður svolítið að velja og hafna.


Ísbíllinn

Þið hafið eflaust séð í bandarískum bíómyndum þar sem ísbíll keyrir um íbúðagötur og spilar eitthvert ömurlegt hringekjulag til að vekja athygli á sér. Börnin koma svo hlaupandi út úr görðunum til að kaupa ís á uppsprengdu verði.

Þetta er í alvöru svona, meira að segja hér í Kanada. Núna rétt í þessu heyrði ég einmitt í einum þessa bíla en mig langar ekkert í ís. Mér þykir ís ákaflega góður en það er samt ekki oft sem ég leyfi mér að kaupa slíkan munað. Á  í nógum vanda með aukakílóin svo ég hlaði þeim ekki á með ís. Það sem er kannski merkilegast að ég skil ekki alveg hvernig svona verslun fer fram. Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum á fyrri sumrum að mig langar í ís þegar ég heyri í bílnum en ef ég er inni hjá mér þá hef ég ekki nægan tíma til að skella mér í skó, grípa nestið og hlaupa svo út í rétta át að bílnum. Einu skiptin sem ég hef reynt þetta hefur bíllinn verið horfinn. Ef ég er úti í garði þá er ég í skóm en vanalega ekki með veskið og þyrfti þá að byrja á því að hlaupa inn og sækja það og svo missi ég af bílnum. Einu skiptin sem ég hef hugsanlega getað verslað við svona bíl er þegar ég er á leiðinni eitthvert því þá er ég bæði með skó og veski. En það er svo stutt í kjörbúðina, þar sem ís er ódýrari, að það virðist heimskulegt að kaupa af ísmanninum. En einhver viðskipti hljóta að fara fram því annars væri ábyggilega löngu búið að leggja þessum bílum. 


Rökfræði

Á morgun er próf í rökfræði. Ég hef ekki farið í próf síðan ég var í BA náminu hér í den. Nei, annars, það er bölvuð lygi í mér. Ég tók auðvitað próf í Kennó þegar ég tók Kennslu- og uppeldisfræðina. Síðasta prófið þar var veturinn 2002. Þannig að þetta eru nú bara fimm ár eða svo. Ég þarf reyndar ekki að taka þetta próf á morgun því ég sit bara í rökfræðikúrsinum en tek hann ekki (það þýðir að ég fæ engar einkunnir og engar einingar en læri jafnmikið og allir aðrir). En það er ágætt aðhald á sjálfan sig að taka prófin. Svona rétt til að sjá til þess að maður lesi námsefnið. Enda sit ég í kúrsinum til að læra meira í rökfræði en ekki vegna þess að mig vanti einingar.

Við erum núna í setningarökfræði, sem væntanlega er auðveldasta rökfræðin. Hún getur reyndar orðið svolítið ruglandi ef setningar eru langar. Dæmi:

Ef Carol er maraþonhlaupari og Bob er ekki latur og Albert er heilbrigður þá hlaupa þau öll reglulega.

Lausnin sem ég gef þessu er svona:

((M & ˜L) & H) -> ((C & B) & A) 

Þetta ætti að vera rétt. 

Hvað með þessa:

Ef Albert hleypur reglulega ef annað hvort Carol eða Bob gerir það, þá er Albert heilbrigður og Bob er ekki latur

Vill einhver spreyta sig? 


Vantrú á Sjálfstæðismenn

Þeir sem halda að auglýsing Jóhannesar hafi verið aðalástæðan fyrir því að svo margir strikuðu yfir Björn trúa því greinilega að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi ekki frjálsan vilja og að þeir geri bara það sem þeim er sagt. Ég játa að ég hef stundum þá skoðun á Sjálfstæðismönnum en að þeir skuli sjálfir hafa þessa skoðun á kjósendum sínum er ótrúlegt.

Ég get ekki ímyndað mér að neinn hafi strikað yfir Björn af því að Jóhannes sagði honum það. Þeir sem strikuðu yfir hann hljóta að hafa eitthvað á móti karlinum.

Reyndar tel ég hugsanlegt að sumir sem voru á  móti Birni en ætluðu ekki að strika yfir hann vegna þess að vanalega hafa útstrikanir engin áhrif, hafi gert það nú þar sem þeir trúðu því að aðrir myndu gera svo líka. Á þann hátt gæti auglýsingin hafa haft áhrif.  

Ég verð hins vegar að segja að mér þótt auglýsingin ósmekkleg og ég vil ekki sjá Ísland stefna í sömu átt og Bandaríkjamenn þar sem persónulegar árásir leyfast í kosningabaráttu. Það sama á við um auglýsingu Framsóknarmanna gegn Steingrími (hvað ætli Birni hafi þótt um þá auglýsingu?). Það sama átti við um heilsíðuauglýsinguna gegn Ólafi Ragnari á sínum tíma. Ég ætla að vona að þeim sem þótti ein þessara auglýsinga ósmekkleg þyki þær allar ósmekklegar því þær eru allar af sama meiðinum. 


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýnandi veður

Veðrið stórbreyttist í dag og hitinn fór upp í 24 gráður. Ég fór í skólann í morgun og svo að klifra strax á eftir og var því ekki komin heim fyrr en um hálffjögur. Þá fór ég í stuttbuxur, setti á mig sólgleraugu og settist út á tröppur með skólabók og vatnsbrúsa. Þetta er fyrsti dagurinn sem það er hægt án þess að vera beinlínis í sólinni. Undanfarna daga hefur nefnilega verið fallegt veður en býsna kalt í skugga. Það á hins vegar að kólna aftur á morgun og fara að rigna þannig að þetta var fallegt en stutt sumar.

Núna er hins vegar alveg ótrúlega heitt í íbúðinni. Undanfarna morgna hefur verið svo kalt að ég hef þurft að stinga litla hitaranum í stofunni í samband og svo gjörbreytist þetta á einum degi og maður verður að fækka fötum til að svitna ekki of mikið. Yfir hásumarið þarf ég vanalega að vera með viftu í gangi til að kæla loftið. Maður er víst aldrei ánægður.  

Það er annars búið að slá hjá okkur tvisvar sinnum í vor og nú er í loftinu einhver ofnæmisvaldur. Nefið á mér er alltaf stíflað. Það er kannski ekki skrítið. Allt orðið í blóma og alls konar frjókorn á sveimi. Geitungarnir eru líka komnir á staðinn en enn er nokkuð í moskíturnar. Ég verð hins vegar að fylgjast vel með og setja upp net í gluggana áður en þær verða of óðar. Ég hef stundum þurft að eyða hálfri nóttinni í að drepa moskítur og það hefur töluverð áhrif á svefninn.

Horfði á American Idol í kvöld. Aðeins þrír keppendur eru eftir og þetta er alveg hnífjafnt. Þau þrjú sem eftir eru eru öll mjög góð og stóðu sig vel í kvöld. Ég held samt að Melinda eigi eftir að taka þetta. Hún getur sungið allt og klikkar aldrei. Sorrí Doddi, en Melinda er einfaldlega betri en Jordan - eins og er. Hitt er annað mál að American Idol velur ekki endilega besta söngvarann heldur vinsælustu persónuna. Og þar eru bæði Jordan og Blake sterk. Spurningin er kannski hvað ræður mestu þegar kosið er.

 


Merkilegt fólk á afmæli í dag

Ég sé að 14. maí er mikill afmælisdagur. Það er ekki bara forsetinn sem á afmæli í dag. Amma mín fæddist 14. maí 1915 og hefði því orðið 92 ára í dag ef hún hefði lifað. Alain Vigneault, þjálfari Canucks er 46 ára í dag, sem gerir hann níu dögum eldri en Geiri bróðir. Hún Skotta mín eignaðist líka kettlinga einu sinni þann 14. maí og ég vildi setja á þá slaufu og gefa þá ömmu í afmælisgjöf. Mömmu fannst það ekki líklegt til vinsælda. Amma, besti þjálfari í heimi og heil karfa af kettlingum. Ólafur er greinilega í góðum hópi.
mbl.is Afmælisdagur forsetans í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband