Færsluflokkur: Bloggar

Sexiest man alife

People Magazine hefur útnefnt George Clooney kynþokkafyllsta mann í heimi og ég held bara að Goggi sé vel að titlinum kominn. Hann var sjarmör á ER hér í gamla daga og hefur bara haldið sér ótrúlega. Annars sakaði Marion vinkona mín mig um það um daginn að vera gefna fyrir súkkulaðið. Ég var eitthvað að slefa yfir Taye Diggs og Shemar Moore, og þegar það bætist við standlaust slef yfir Jesse L. Martin...kannski hún hafi bara rétt fyrir sér. En er það ekki skiljanlegt? Lítið á þessa gaura! They're mighty fine!

 


Varið ykkur Íslendingar. Ég er að koma heim !!!!

Í gær keypti ég flugmiða til Íslands  (18. des - 17. janúar). ÉG VERÐ Á ÍSLANDI UM JÓLIN!!!!!!!!!!!

Upphaflega ætlaði ég að vera hér í Vancouver. Planið var að Martin kæmi í heimsókn og við eyddum jólunum saman, en síðan hafa fjölskyldumál og vinnan skorðað hann fastan um hátíðarnar og ég ákvað að ég vildi ekki vera ein í Vancouver fjórðu jólin í röð. Vanalega er enginn vina minna í bænum (Marion fer til Chilliwack, Julianna til Winnipeg, Yoko til Þýskalands eða Japans, Doug og Anne-Marie til Nanaimo -alla vega í fyrra-, Gunnar og Suzanne til Íslands eða Saskatchewan, Leszek til Póllands, og Jeremy er enn í Thalandi). Ég hef eytt jóladegi með Brynjólfsson fólkinu sem er fjarskylt mér en það er einfaldlega ekki það sama og að vera með fjölskyldunni eða með góðum vinum.

Þannig að, ég fór á vef Icelandair, fann flug fyrir tæpa $500 US frá Boston, og keypti það. Nú þarf ég að komast til Boston. Annað hvort flýg ég þangað beint eða ég flýg til Ottawa og heimsæki Martin á leiðinni til Íslands. Eða ég heimsæki hann á bakaleiðinni. Nú er orðið ekkert mál að kaupa flug aðra leiðina án þess að þurfa að borga hærra verð en fyrir fram-og-til-baka-flugið. Það er því lítið mál að fljúga Vancouver-Boston-Ísland-Boston-Ottawa-Vancouver.

En sem sagt, ef ég var ekki búin að segja það nógu skýrt: ÉG ER AÐ FARA TIL ÍSLANDS!!!!! 

 


Kosningarnar í Bandaríkjunum

Trú mín á Bandaríkin hefur eflst mikið í dag. Þeir sýndu með kosningasigri Demókrata í gær að Repúblikanar geta ekki hagað sér eins og fífl án þess að það komið niður á þeim.

Nú verður gaman að sjá hvort Íslendingar sýna sömu gáfur og hegna Ríkisstjórn Íslands fyrir ömurlega stjórn undanfarin ár með því að sniðganga Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Ef ekki, verð ég því miður að lýsa því yfir að Bandaríkjamenn hafa meiri gáfur og meiri manndóm en Íslendingar og það væri nú sorglegt? 


Fræga fólkið á göngu

Það er alltaf eitthvað  við það að sjá frægt fólk úti á götu; þekkt andlit sem maður getur tengt við ákveðna bíómynd, sjónvarpsþátt eða lag. Ég held að fyrsta reynsla mín af einhverjum frægum hafi verið að hitta Ómar Ragnarsson þegar hann kom og skemmti á Andrésar andarleikunum á Akureyri þegar ég var níu eða tíu ára og ég hjálpaði honum með því að halda á töskunni hans út í bíl. Mörgum árum síðar vann ég með honum. Ég man líka eftir því hvað ég var hrifin þegar ég hitti Svavar Gestsson í fyrsta sinn. Þá var ég á svipuðum aldrei, sjálfsagt í kringum tíu ára, og mér fannst hann stórkostlegur. Kynntist honum líka vel síðar. Ég hafði alltaf haft gaman af að fylgjast með pólitík frá því ég var býsna ung. Reyndar var það Vilmundur Gylfason sem ég dáðist að framar öðrum og þó kaus ég aldrei Alþýðuflokkinn, Bandalag jafnaðarmanna eða nokkurn arftaka þessa flokka. 

Annars sá ég aldrei mikið af frægu fólki á Íslandi, jafnvel þau tíu ár sem ég bjó í Reykjavík. Ég fór reyndar í leikfimi á sama stað og Björk þegar hún kom heim einhvern tímann í afslöppunarferð og hef síðan sagt að mín 'claim-to-faim' sé að hafa verið í sturtu með Björk. Ég talaði einhvern tímann við Einar Örn Benediktsson sem gaf mér sódavatn með sítrónu og einu sinni sá ég  Jarvis Cocker, söngvara Pulp úti á götu. Svo sá ég auðvitað slatta af liði sem er bara frægt á Íslandi. 

Hér í Vancouver sé ég af og til fræga fólkið enda er Vancouver mikil kvikmyndaborg og því koma hingað margar stjörnur. Hins vegar sé ég auðvitað fæstar þeirra enda þyrfti ég að hanga meira niðri í bæ og fara meira á fínu veitingahúsin og skemmtistaðina. Þannig að ef ég hef séð einhvern þekktan þá er það bara úti á götu - og næstum alltaf niðri í bæ.

Listinn er reyndar ekki langur en ég reyni að halda honum saman - bara svona til gamans.

1. Fyrstu vikuna sem ég bjó í Vancouver fór ég í Oakridge verslunarmiðstöðina og sá þar Gregory Calpakis sem var einn aðalleikarinn í Cold Squad. Cold Squad er sjónvarpsþáttur gerður í Vancouver þar sem lögreglumenn eiga við gömul mál. Ég horfði mikið á þennan þátt í kringum 2002 og 2003, sérstaklega vegna Steve McHattie sem mér finnst góður, en Calpakis var Nicco, aðalsjarmörinn í þáttunum.

2. Á Robson, aðalverslunargötu Vancouver sá ég George Hamilton. Sá er aðallega frægur fyrir að vera alltaf með ljóta gervibrunku. Annars er hann leikari og var meðal annars í einni Godfather myndinni og í yfir hundrað öðrum mynda. Hann kemur líka oft fram í sjónvarpsþáttum sem hann sjálfur. Og mér skilst að hann hafi verið í Dancing with the Stars - Dansað með stjörnunum.

3. Á Granville brúnni mætti ég David Eigenberg sem er fyrst og fremst þekktur fyrir að vera Steve Brady í Sex and the city (Beðmál í borginni). 

4. Á Granville stræti nyrðra mætti ég Jeremy Piven sem nú er þekktastur fyrir hlutverk sitt í Entourage (veit ekki hvort er verið að sýna að það á Íslandi) en hann hefur líka verið í myndum eins og Old School, Serendipity, Rush Hour 2 og Singles. En margir muna líka eftir honum úr þáttunum með Ellen þar sem hann var einn af vinum hennar sem héngu í bókabúðinni.

5. Í Richmond hitti ég Chris Isaak, en það var ekki alveg að  marka því ég fór á tónleika með honum og hann spjallaði við fólk eftir á. Hann sagði mér þar að það væru lagavandamál með það að gefa út sjónvarpsþættina hans á dvd en verið væri að vinna í því. Svo fékk ég eiginhandaráritun sem sagði "Be Good".

6. Á Burrard stræti mætti ég Gil Billows, sem var Billy í þáttunum um Ally McBeal.

Ég sá líka einhvern tímann eina af þessum ungu stjörnum (Ekki Hillary Duff en eina svipaða) hér úti á tíundu en ég man ekki lengur hvað hún heitir, né er ég hundrað prósent viss um að það hafi verið hún. svo hún telst ekki alveg með. En hvað þessa kalla snerti þá er ég alveg pottþétt.

Hmmm. Þetta er nú ekki svo mikið, svona miðað við hversu margar stjörnur koma hingað. Eftir netinu að dæma eru nú í borginni að kvikmynda: Sarah Michelle Gellar, Ice Cube, Renee Zellweger, Jesica Alba, Michael Chiklis, Pierce Brosnan, Rachel McAdams, Wesley Snipes og Mark Wahlberg, svona til að nefna bara þá allra þekktustu. Hef ekki séð neinn þeirra. Er ekki nógu mikið á réttu stöðunum. Annars skiptir það engu máli. Það er gaman þegar maður séð einhvern þekktan því þá er ég stolt af því að vita hver viðkomandi er, en að öðru leyti gerir það ekkert fyrir mig. Alla vega ekki þar til ég hitti einhvern sem ég er virkilega hrifin af.


Rollingarnir allt of gamlir

Ég var að frétta að Rolling Stones væru búnir að fresta tónleikunum í Vancouver vegna þess að Jagger væri eitthvað sár í hálsinum. Honum hefur verið ráðlagt að hvíla sig í nokkra daga. Þvílík óheppni fyrir mig. Síðustu tónleikar sem ég ætlaði á voru með Pavarotti en þeim tónleikum var fyrst frestað og síðan var þeim aflýst. Það var auðvitað af heldur alvarlegri ástæðu - Pavarotti fékk krabbamein. Ég vona að veikindi Jaggers séu ekki of alvarleg og að hann haldi áfram að syngja í mörg ár, en það verður að viðurkennast að þeir Rollingar eru orðnir gamlir og það er auðvitað hætta á að veikindi fari í auknum mæli að standa í vegi fyrir tónleikahaldi.

Búið er að flytja tónleikana til 25. nóvember. Ég vona að þeir fari fram þá. Og ég sem var búin að hlusta á Stones í allan dag og ætlaði að halda því áfram fram á föstudag. 


Hrekkjavaka

Í dag er hrekkjavakan, eða Halloween eins og dagurinn kallast hér vestra. Margir fara yfir um og skreyta garðana sína úr hófi þannig að út um allt má sjá grafir og drauga og hin verstu kynjadýr. Krakkarnir klæða  sig í alls kyns búninga  (eins og heima á öskudaginn) og ganga hús úr húsi og hóta hrekkjum ef þau fá ekki nammi. Sum eru beinlínis vanþákklát ef þau fá nammi sem þau langar ekkert í. 

Í tilefni þessa hélt ég fyrirlestur á laugardaginn um innflutning íslenskra drauga til vesturheims. Annars hef ég ekkert tekið þátt í þessu núna í ár. Jú annars, ég skar út grasker. Læt fylgja myndir af því.

IMG_7425 IMG_7428


Rolling Stones

Nú eru aðeins fjórir dagar þar til ég fer að sjá Mick, Keith, Ronnie og Charlie spila á BC Place leikvanginum í Vancouver. Það er hér sem BC ljónin spila sinn kanadíska fótbolta og völlurinn tekur tæplega 60.000 manns. Ég veit ekki hvort uppselt er á tónleikana en Rollingarnir hafa verið að selja um 50.000 sæti víða um Norður Ameríku, svo sem í Halifax, sem er miklu minni borg en Vancouver, þannig að þeir ættu að geta selt nokkur tugþúsunda sæta hér.

Sem sagt, á föstudagskvöld verð ég umkringd þúsundum manna að öskra "I can't get no, satisfaction"

Rollingarnir


Fótbolti

Í dag vann liðið mitt, Presto, fyrsta leikinn á tímabilinu. Við töpuðum sex leikjum í röð (reyndar spilaði ég bara þrjá þeirra), jöfnuðum svo í síðustu viku og unnum loksins í dag, 2-1. Ég klúðraði nokkrum skotum enda spilaði ég á vitlausum kanti, vinstri kantinum. Ég hef frá upphafi Presto spilað á hægri kanti og ég kann hreinlega ekki á þessa stöðu þarna vinstra megin. En ég spilaði samt þokkalega, átti nokkrar góðar sendingar, nokkur skot að marki þó flest væru framhjá. Eitt skotið var svo fast að markmaðurinn hélt ekki boltanum og annar framvörður okkar náði nærri að skora. En því miður gekk það ekki upp. Annars var frábært að vinna leikinn í dag. Ekki bara af því að við höfðum ekki unnið síðan í sumar heldur vegna þess að liðið sem við spiluðum á móti, Coasters, hafði unnið okkur í síðustu fimm viðureignum okkar. Þar á meðal í úrslitaleiknum í fyrra. Þar áður höfðum við unnið þær tvisvar, meðal annars með því að vera undir 4-0 í hálfleik og vinna svo 6-4. Þar skoraði ég þrjú eða fjögur mörk. En núna í haust hef ég ekki skorað neitt. Finnst tími kominn á það. Kannski næstu helgi! Hver veit.

Umhverfisvernd

Mountain CaribouFylkisstjórnin í Bresku Kólumbíu hefur lofað að bjarga fjallahreindýrum (mountain caribou) frá því að verða útdauða. En hvernig ætla þeir að gera það? Með því að drepa úlfa, fjallaljón, elgi og jafnvel grizzly birni. Og eftir því sem umhverfisverndarsinnar segja væri í raun nóg að vernda skóginn þar sem fjallahreindýrin búa. En nei, það má ekki gera það því að það er verið að höggva þann skóg. Hér er mikið um skógarhögg. Svo skilst mér að líka sé eitthvað um námur á svæðinu og það hefur sín áhrif. En þetta skapar velmegun og er því mikilvægara en dýrin.  Hér getið þið séð meira um þetta mál: http://www.mountaincaribou.ca/

 


Un sundlauga- og klósettmenninguna

Ég argast oft yfir því sem pirrar mig við okkur Íslendinga, en stundum finnst mér menningin heima standa öðrum langt framar. Þar á meðal sundlaugamenningin. Ég hef aldrei þolað sundlaugamenninguna hér í Kanada, né raunar á flestum stöðum annars staðar en á Íslandi. Í gær fór ég í sund eftir langa fjarveru frá laugunum og lét það auðvitað fara í taugarnar á mér að konur hér eru svo spéhræddar að þær fara í sundbolina sína strax í búnginsklefanum sem þýðir að þær þvo sér ekki almennilega áður en þær fara út í lögina. Mig langar stundum að garga á þær að ég hafi engan áhuga á að synda í skítnum af þeim. Hvað veit ég um það hversu vel þær skeina sér. Sumar fara svo ekki einu sinni í sturtu. Þá er málið ekki bara það að þær þvoi sér ekki í klofinu heldur þvo þær sér bara akkúrat ekki neitt. Það liggur við að manni klígi við. Og svo þurrkar sér enginn almennilega við sturturnar heldur vaða þær rennblautar inn í búningsklefann þar sem allt er á floti og erfitt er að komast í sokkana án þess að standa á einum fæti og þurrka sér og skella sér svo í annan sokkinn og síðan skóinn án þess að stinga fætinum nokkurn tímann niður.

Og fyrst ég er byrjuð að nöldra þá get ég bætt við þetta nokkrum velvöldum orðum um klósettmenninguna hér vestra. Svo virðist sem margar konur setjist ekki á klósett þegar þér létta á sér heldur hokra þær einhvern veginn yfir skálinn og pissa svo án þess að vita nákvæmlega hvar bunan hittir. Þetta þýðir að helminginn af tímanum pissa þær út alla setuna. Og hreinsa þær þetta eftir sig? Ó nei. Að minnsta kosti ekki allar því það gerist yfirleitt alltaf þegar ég fer á almenningssalerni að ég þarf að leita að klósetti sem ekki er búið að míga yfir. Ógeðslegt, er það ekki? Og þær geta ekki einu sinni lyft upp setunni eins og við þó ætlumst til af karlmönnum. Og karlarnir eru vanalega þokkalegir með það. Julianna hefur þá kenningu að þetta séu fyrst og fremst asísku konurnar sem gera þetta og ég held það geti verið rétt hjá henni.  Þetta er ekki byggt á almennum kynþáttafordómum heldur eftirfarandi:

a) Þegar maður fer inn á almenningssalerni í Richmond verslunarmiðstöðinni er þetta enn meira vandamál en til dæmis í miðbæ Vancouver. Íbúar Richmond sem eru asískir eru um það bil 60% allra íbúa borgarinnar á meðan hlutfallið er miklu miklu lægra fyrir Vancouver.

b) Í vert skipti sem önnur hvor okkar hefur farið inn á klósett beint á eftir annarri konu, og sætið hefur verið útmigið, hefur konan verið asísk.

c) Í mörgum asískum löndum eru ekki klósett eins og okkar heldur gat á gólfinu og því er ekki hægt að setjast þar. Það fólk sem elst upp við slíkt er því ekki vant að setjast á klósettið og er því ekki líklegt til þess að taka upp á því þegar það flytur hingað.

d) Þegar ég bjó í Winnipeg, þar sem eru miklu miklu færra fólk af asískum uppruna en hér í Vancouver, var þetta aldrei vandamál. Kom fyrir en mjög sjaldan.

Þannig, að af öllu þessu finnst mér alla vega hægt að styðja kenningu Juliönnu með þokkalegum rökum. En alla vega, hverjar þær nú eru sem pissa á setuna þá pirra þær mig óendanlega. Maður verður ýmist að finna annað laust klósett eða að þrífa upp eftir þær. Oj bara. Eins og það sé mitt verk. Þetta lið ætti að skammast sín.

Og við þetta má bæta að ég man ekki eftir því nokkurn tímann á Íslandi að hafa lent í svona. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband