Færsluflokkur: Bloggar

Á leið til Barcelona

Á morgun fer ég til Barcelona. Ja, reyndar er það ekki alveg rétt því á morgun mun ég leggja af stað til Barcelona en ég mun ekki koma þangað fyrr en á miðvikudaginn. Þetta er auðvitað sambland af tímamismuninum og því að þetta er býsna langt ferðalag. Ég mun fljúga til London, sem er um tíu tíma flug, og þaðan flýg ég svo til Spánar sem ég held að taki einn eða tvo tíma. Við þetta má bæta tímanum sem það tekur að komast á flugvöllinn (á milli 30 og 40 mínútna - fer eftir umferð), um tveggja og hálfs tíma bið á vellinum (aukið eftirlit, lengri tími), biðtíma í London, lestarferð frá flugvellinum í Barcelona og inn í borgina, einhvers konar ferð að gestahúsinu (veit ekki eins og er hvernig sá hluti mun fara fram). Guð minn góður, ég verð nú bara stressuð af því að hugsa um það allt.

Annars er spurning hvort ég get orðið stressaðri því ég er nefnilega ekki búin með fyrirlesturinn og ég mun þurfa að klára hann fyrir hádegi á morgun. Það væri allt í lagi ef ég hefði allan morguninn en ég á enn eftir að klára að fara yfir heimaverkefni í hljóðkerfisfræði. Og ég er ekki búin að klára að pakka! En....einhvern veginn mun þetta allt hafast. Ég hlakka til að setjast niður í flugvélinn og lesa Fimmtu konuna eftir Henning Mankell.

Næsta blogg verður væntanlega frá Spáni. Adiós


Er líf eftir Superóva?

Netið hefur legið niðri hjá mér í allt kvöld (sennilega af því að ég var að brenna dvd disk og það tók ógurlegan tíma og mikið minni) svo ég hef ekkert getað bloggað.

Ég ætlaði auðvitað að skrifa um Supernova. Ég er ekkert sár yfir því að Magni vann. Hann var meðal fjögurra góðra tónlistarmanna og hvert þeirra sem var átti skilið að vinna.  Hins vegar var ég ekki sátt við hvernig þeir skildu við hann. Í fyrsta lagi, að honum skuli hafa verið gefið það að sök að hann var meira eins og hluti af bandinu en sem aðalmaðurinn. Hvað á það að þýða? Er það ekki gott mál þegar allir smella svo vel saman að allir eru jafnmikilvægir. Þar að auki hefði ég viljað sjá þá gefa honum góð orð í farteskið, eins og þeir gerðu við hina. Storm sem datt út í síðustu viku fékk miklu meira hól þegar þeir létu hana fara en Magni fékk. Það hefði verið skemmtilegra ef þeir hefðu hælt honum aðeins meira því hann á það skilið. Hann er alveg jafn góður og hin þrjú.

En ég hef lúmskt gaman af Lúkasi og ég veit hvað verður á forsíðu kanadísku blaðanna á morgun. Á það skal líka benda að sá sem vann Rockstar Inxs var líka kanadískur. Kanadamenn er einfaldlega góðir tónlistarmenn og fólk veit oft ekki af því vegna þess að ef einhver slær í gegn vestra þá halda allir að þeir séu Bandaríkjamenn. En lítið bara á þessi nöfn: Bryan Adams, Backman-Turner-Overdrive, Barenaked Ladies (ég ætla á tónleika með þeim í febrúar - ef ég verð í Vancouver þá), Leonard Cohen, Celine Dion (Ok, margir hafa ekki hátt um það), The Guess Who, Diana Krall, Chantal Kreviazuk, Glenn Gould (frábær píanisti), K.D. Lang, Sarah McLachlan, Joni Mitchell, Alanis Morissette, Nickelback, Oscar Peterson (spyrjið bara mömmu um föstudagskvöld á Ríkissjónvarpinu með Oscari Peterson),  Robbie Robertson, Rush, Shania Twain (ég þoli hana ekki), The Tragically Hip (kannski eru þeir aðallega frægir í Kanada), Neil Young. Og það er allt fullt af frábærum tónlistarmönnum hér. Kannski verður Lúkas frægur -  með eða án Supernova.

Annars voru Áströlsku blöðin víst með fréttir af úrslitunum í Supernova þættinum þegar þeir vöknuðu á morgun (hehe - þeirra 14. sept., okkar eftirmiðdegi í dag). Sem er eiginlega fáránlegt því þá var ekki búið að sýna þáttinn neins staðar hér. Bein útsending hvað!

Og nú verð ég að finna mér eitthvað annað að blogga um. Af nógu verður líklega að taka. Ég á afmæli á morgun - nei í dag, það er komið fram yfir miðnætti. Þar að auki fæddist ég á Íslandi og þar er búiinn að vera 14. september í marga klukkutíma núna. Ég get sem sagt bloggað um það hvernig ég eldist með hverju árinu. Í næstu viku fer ég til Barcelona þar sem ég mun halda fyrirlestur á ráðstefnu. Þá verður hægt að blogga alveg helling. Nú og svo þarf ég endilega að skrifa um menntamál og hvernig Íslendingar eru á rangri leið. En það verður að bíða eitthvað.  



Hush var flott maður

Heilir og sælir  Íslendingar! Sérstaklega þið sem sitjið nú sveitt heima og kjósið Magna. Klukkan er loksins orðin tíu hér á vesturströnd Kanada, Supernova þættinum er nýlokið og við erum farin að kjósa hér í dag. Í dag sendi ég póst á INL listann (Icelandic National League of North America), Þjóðernisfélag Íslendinga, og hvatti alla þar til að kjósa. Benti þeim á að kosning væri um miðja nótt og því erfitt fyrir Íslendinga heima að kjósa. Þeir þyrftu því á hjálp Vestur Íslendinga að halda. Vonandi að einhverjir svari kallinu.

Magni var góður í kvöld og þótt ég hafi verið sammála því að lagið hans hafi ekki verið eins gott og hinna, var óþarfi að það væri nær það eina sem sagt væri við hann eftir á. Dave minntist sem betur fer á að hann hafi flutt Hush frábærlega en hinir sögðu ekkert um það. Það er leiðinlegt því að margir láta það því miður hafa áhrif á sig hvað sagt er eftir flutninginn. En við verðum að vona að sem flestir fari eftir eigin tilfinningu og sjái hversu frábærlega hann flutti bæði lögin. Ókei, svo hann er ekki eins góður lagasmiður. Er Magni ekki líka fyrst og fremst poppari? Það sem ég hef heyrt með Á móti sól er miklu fremur popp en rokk. Og það gæti haft áhrif á lagasmíðarnar. En það getur enginn neitað því að hann er fantagóður rokksöngvari og ég myndi segja án efa besta röddin í hópnum.

Annars verð ég að viðurkenna að mér finnst þessi fjögur öll flott og ég held það skipti ekki öllu hver vinnur.

Vinkona mín sem er Kanadísk og gift Ástrala (og var yfir sig hrifin af Toby eftir flutning hans í kvöld) sagði í lokin að henni hafi fundist flutningur Magna á Hush það besta í kvöld. Vonandi að fleirum þyki svo.

Annars verð ég að bæta við að lokum, af því að sumir hafa verið að segja að fáir hér vestra viti af þessum þætti, að Tommy Lee var hjá Ellen í dag og Ellen sagði m.a. að hún elskaði þennan þátt og að hún væri svo sorgmædd yfir því að hann væri næstum búinn. Kanadísku blöðin hafa líka haft Lúkas á forsíðu í dag, þannig að það er greinilega töluverður áhugi á þættinum. Kannski ekki á stærð við American Idol en samt þó nokkuð.

 


Vinnur Magni?

Ég horfði í kvöld á veruleikahluta Supernova þáttanna. Þar var verið að sýna val á lögunum o.s.frv. Ég veit ekki hvort þið heima á klakanum sjáið þann hlutann en ef þið gerið það, finnst ykkur eins og mér að Magni fái almennt mun minni tíma á skjánum en hinir? Það var alla vega svo í kvöld. Það var ítarlega sýnt frá því þegar Dilana og Lúkas bitust um Comfortably numb (sem hvorugt þeirra tók svo að lokum) og svo var sýnt frá þeim að æfa lögin sín. Það kom ekki einu sinni fram þarna hvaða lag Magni tók. Kannski er ég bara að sýna týpíska íslenska viðkvæmni.

Mér sýndist á athugasemdum leiðtoga húsbandsins að Dilana stefni á tónlistar sjálfsmorð. Síðast þegar hún breytti þekktum slagara vissu Supernóvíngar ekki hvað þeir ættu að segja án þess að vera of dónalegir og nú ætlar hún að breyta Roxanne. Það getur vel verið að hún geri það vel en það er alltaf mikil áhætta að breyta þekktum slögurum. Við verðum bara að sjá á morgun. 

Margir hafa verið að tala um að það væri ekkert endilega gott fyrir Magna að vinna þetta. Ég veit ekkert um það. Þekki hvorki hann né tónlistarbransann. En það væri að mörgu leyti gott fyrir Ísland ef hann gerði það. Ég er alltaf að rekast á fólk hér erlendis sem veit um Björk og Sigur Rós og kannski ekki svo mikið meira. VIð erum fyrst og fremst fræg fyrir góða og athyglisverða tónlistarmenn og ef Magni vinnur þetta mun það eingöngu styðja við það orðspor. Og munið, aðdáendur íslenskra tónlistarmanna lesa sig til um land og þjóð og sumir hafa meira að segja lagt það á sig að fara og læra íslensku vegna þess að þeir eru aðdáendur Bjarkar eða Sigur Rósar. Ef Supernova nær sér um úr þeirri meðalmennsku sem mér finnst núna einkenna lögin þeirra, og ef Magni er söngvarinn, þá getur það ekki haft nema góð áhrif á Ísland. Hey, þá á Tommy Lee líka eftir að koma til Íslands!!!!!!!!!!!!


11. september

Eyðilegging

Í dag eru fimm ár liðin frá árásunum á New York og Washington. Ég hef vekjaraklukkuna mína stillta á CBC (kanadíska ríkisútvarpið) og það fyrsta sem ég geri á morgnana er því að hlusta á fréttirnar. Þennan dag, einhverra hluta vegna, var það ekki svo og ég vissi því ekki hvað hafði gerst fyrr en ég kom í vinnuna. Einhver samstarfsmanna minna kom inn á skrifstofuna mína og sagði að tvær flugvélar hefðu flogið beint á tvíburaturnana í New York. Af því að ég heyrði ekki af þessu fyrr en eftir að síðari flugvélin flaug á turnana vissi ég frá fyrstu stundu að þetta væri ekki hræðilegt slys. Dagurinn fór í að lesa fréttir á netinu af því að ég var hvergi nálægt sjónvarpi en ég átti eftir að fá stóran skammt af fréttaflutningi. Einhvern næstu daga fékk ég hálsbólgu og sat því heima og horfði á sjónvarpið daginn út og daginn inn. Á flestum bandarískustöðunum var ekki fjallað um neitt annað. Venjulegt sjónvarpsefni var sett til hliðar og lítið komst að annað en fréttaflutningur af ástandi mála. Viðtalsþættirnir á morgnana voru yfirfullir af viðtölum við áhorfendur og aðstandendur og sumar lýsingarnar voru hræðilegar. Það sem snerti mig mest var viðtal við fólk sem bjó rétt hjá turnunum og sá þá út um stofugluggann sinn. Þau fylgdust með öllu sem gerðist og konan minntist á að það væri eins og eitthvað væri alltaf að falla niður eftir turnunum. Maðurinn hennar sótti kíkí til að sjá hvað það væri sem virtist alltaf vera að falla niður. Þegar hann lyfti kíkinum fékk hann sjokk. Það sem féll niður var fólk að kasta sér út um glugga. Það vildi frekar hrapa til dauða en að brenna lifandi inni. 

Það var ekki hægt að búa í Norður Ameríku og þekkja ekki einhvern sem missti ættingja, vin eða kunningja. Töluverður fjöldi Kanadamanna vann í turnunum og þar að auki vann ég með fjölda Ameríkana þannig að það voru nokkrir í vinnunni hjá mér sem eyddu deginum í símanum til að reyna að fá upplýsingar.

Ég veit að þetta gerðist allt vegna þess hvernig Bandaríkjamenn hegða sér í alþjóðapólitík, en þeir áttu þetta ekki skilið. Allt þetta saklausa fólk sem lést. Öll þessi hörmung.

Þegar ég fór til New York í vetur gekk ég niður að svæðinu þar sem turnarnir stóðu. Þar er nú verið að byggja. Búið var að koma upp neðanjarðarlestarstöð sem þjónar fyrst og fremst þeim lestum sem ferðast til nágrannaborgunna (sem sagt ekki hluti af NY subway kerfinu) og þar ofan á á víst að byggja nýja turna. Ég skil að vissu leyti að Bandaríkjamenn vilji setja nýja turna til að sýna heimsbyggðinni að þeir séu ekki hræddur (þótt auðvitað séu þeir það) en mér finnst þetta lykta örlítið af því sama stolti sem ég sé svo oft hjá Íslendingum - "enginn skal segja okkur hvað við eigum að gera." Þetta er svona eins og: "Við byggjum bara nýja turna og þið getið sko bara reynt að eyðileggja þessa líka." Þegar ég var lítil var bróðir minn að reiða mig á hjólinu sínu án barnasætis. Löggan stoppaði hann og skammaði hann. Bróðir minn var með kjaft við lögguna (þið sem þekkið bræður mína getið reynt að geta hver þeirra þetta var) sem hótaði að taka af honum hjólið. Hann sagði: "þá kaupi ég bara nýtt hjól". Löggan var greinilega ekki mjög þroskuð því þeir létu hann æsa sig og sögðu: "Þá tökum við það hjól líka". Og: "Þá kaupi ég bara nýtt". Þannig gekk það um stund og ég man ekki hver gafst upp fyrst. En þannig virkar það á mig að byggja bara nýja risaturna á sama stað. Þetta er eins og tveir óþroskaðir krakkaskrattar að rífast. Og hugsið ykkur, afgangurinn af heiminum getur ekkert gert.


Þegar birnir eru annars vegar

Varúð - birnir á ferð

Ég lofaði fyrir löngu að segja aðeins frá ferðinni til Kispiox. Kispiox er langt norður í Bresku Kólumbíu - um það bil tuttugu tíma keyrsla þangað. Þið getið ábyggilega ekki séð það á korti en ef þið eruð með þokkalegt kort getið þið ábyggilega fundið Smithers og Terrace sem liggja við Skeena ána út frá Prince Rupert (og út frá Queen Charlotte eyjunum). Hazelton er mitt á milli Smithers og Terrace og Kispiox er í um það bil tíu mínútna keyrslu þar norður af.

Við Yoko, sem er með  mér í málvísindunum, fórum norður saman. VIð ákváðum að fljúga til Prince George og leigja bíl þar og keyra norður eftir. Það er um sex tíma keyrsla þaðan. Þetta var dýrara en að keyra alla leiðina en sparaði tveggja daga keyrslu. Við hefðum getað flogið til Smithers eða Terrace en það var bara mikið dýrara (um 100% dýrara).

Við gistum í húsi John og Helen Heit. John er sonur Margrétar sem við vinnum með þar nyrðra og systursonur Barböru og Doreen sem við höfum unnið með hér í Vancouver. John og Helen voru reyndar þarna mestan tíma en okkur kom vel saman svo það var allt í  lagi. Þau búa annars í Vancouver.

Verst var að við misstum af Chuck. Chuck er bróðir Johns og við kynntumst honum í fyrra. Hann er listamaður, sker út í við, málar og býr til skartgripi. Ég er að vona að ég muni hafa efni á því að eignast eitthvað eftir hann áður en ég flyt frá Vancouver. Ég er búin að ræða það við hann að hann skeri eitthvað út fyrir mig - helst hrafn eða björn. En Chuck var á ráðstefnu þessa helgina - hann var með totel pole á sýningu á AIDS ráðstefnunni sem var haldin í Toronto. Það var vegna þess að hann missti vini úr AIDS fyrir mörgum árum og skar út þennan totem pole í þeirra minningu. Hann var því í Toronto þegar við Yoko vorum nyrðra. En Margret og Peter, foreldrar hans voru heima og við vorum heilmikið með þeim.

Við unnum með fjórum konum á meðan við vorum nyrðra. Utan við Margaret Heit við unnum með Thelmu systur hennar en einnig Doris Weget og Rowz Muldon. Doris og Rowz eru á sextugs aldri en hinar tvær á áttræðisaldri og það var ágætt að fá þennan aldursmun því það eru greinilega breytingar í gangi í málinu.

Rétt til útskýringar: Málið sem talað er í Kipiox gallast Gitxsan. Það eru ábyggilega til yfir tvöþúsund málhafar sem er býsna gott miðað við mörg indjánamál í Kanada. VInir mínir sem vinna með Squamish og sérstaklega þeir sem vinna með Halkomelem eru miklu verr staddir. Það er ábyggilega ekki nema um tíu Squamish málhafar eftir og ég er ekki viss um sstöðuna með Halkomelem. Síðast þegar ég vissi voru tvær manneskjur sem töluðu málið og önnur var mjög veik og hin er eitthvað reið við málfræðinga og vill ekki vinna með þeim. En sem sagt, Gitxsan er betur stat, líklega af því að málið er einangraðra þarna norður í rassi. Annars talar yngra fólkið ekki málið þótt verið sé að kenna það núna í skólum. 

Ég er að reyna að skilja hvernig Gitxsan fólkið gerir grein fyrir tíma í málinu. Það þýðir að líta á tíðarkerfið (þeir gera ekki greinarmun á nútíð og þátíð en merkja framtíð) og horfkerfið (dvalarhorf, lokið horf o.s.frv.) Það er alltaf flókið að vinna að merkingarfræði í máli sem maður talar ekki. Það er svo erfitt að fá nákvæmlega réttar upplýsingar. Maður athugar kannski hvort hægt er að segja einhverja setningu en ef ekki þá veit maður ekki endilega hvers vegna það er slæmt. Kannski er setningin fullkomin en passar ekki alveg í samhenginu sem maður setti upp. maður þarf því að spyrja margra spurninga og athuga margt. Það er heilmikil tækni í sjálfu sér.

Við unnum næstum allan tímann sem við vorum nyrðra en fórum einu sinni niður til Hazelton og átum kvöldmat á veitingastað með Margréti og Peter. Við löbbuðum niður að Skeena ánni og á hinum bakkanum var birna með hún með sér. Það var frábært að horfa á þau þótt þau væru langt í burtu. Við horfðum á þau í nokkurn tíma áður en þau hurfu inn í skóginn.

Við sáum aftur björn þegar við fórum í berjaferð. Við fórum að týna stykkilsber (en Finnur var ekki nálægt). Það var alveg hellingur af þeim þarna. Miklu meira en ég hef nokkurn tímann séð af bláberjum heima. Mamma hefði veirð í essinu sínu. Það hefði ekki verið hægt að fá hana heim. Annars er möguleiki að það gengi ef við segðum henni að það væru birnir í nágrenninu og að í eftirmiðdaginn koma þeir á svæðið til að borða berin. Og það er alveg satt. Margrét fór að ókyrrast um þrjú leytið því þá koma birnirnir. Svo við héldum til baka. Og mikið rétt, Yoko sá björn á tveimur fótum rétta úr sér og skima yfir svæðið. Ég missti af því af því að ég var að keyra bílinn og var vonsvikin yfir því. Ég vona bara að fókið sem var enn þarna að týna hafi ekki lent í birninum. Annars ráðast svartbirnir yfirleitt ekki á fólk.

Þegar við keyrðum yfir brúna yfir ána inn til Kispiox sáum við björn að kíkja eftir fisk. Það hefur verið töluvert um birni í þorpinu í sumar. Einn kom á hverjum degi inn í garðinn hjá Walter, bróður Barböru, Doreen og Margrétar. Hann át eplin á trénu hans. Okkur var því sagt að vera ekki mikið að þvælast um aleinar. Ég gat því ekki farið og hlaupið á morgnana eins og ég gerði þarna í fyrra. Ekki sniðugt að vera einn að hlaupa þegar birnir gætu verið á vappi.

En ég elska birni. Þeir eru svo fallegir og svo máttugir. Málið er bara að horfa á þá úr fjarlægð eða alla vega úr öruggu fylgsni. Það er óþarfi að setja sig í hættu því þótt birnir séu fallegir eru þeir villt dýr og það stór og sterk villt dýr. 

 


Enn um Supernova

Ég heimsótti Marion og Ryan í kvöld og horfði með þeim á Rockstar Supernova. Marion er kanadísk og Ryan er ástralskur svo okkur var af náttúrunnar hendi úthlutað uppáhöldum. Annars fannst mér Toby bestur í kvöld (svo Ryan og Ástralía fengu eitt stig). Fyrra lagið var kannski ekki sérlega spennandi en hann náði liðinu virkilega með sér í frumsamda laginu.

Mér fannst Magni ágætur en hann hefur oft gert betur. Reyndar er alltaf erfitt að taka Bítlalag. Bítlarnir sjálfir gerðu allt betur en aðrir (nema With a little help for my friend sem Joe Cocker betrumbætti) og því næstum útilokað að hrífa mann með. Magni stóð sig vel en var kannski ekki nógu spennandi. Mér fannst hann gera betur í sínu eigin lagi.

Lúkas tók áhættu og gerð ágætlega en ég held að hann hafi klikkað pínulítið á því að gera bæði lögin svona róleg. Hann hefði átt að taka annað hvort þeirra og rokka. Storm var ágæt. Eins og hinir heldur betri í sínu eigin lagi. Ég missti af Dilönu, en mér sýndist á ummælunum sem hún fékk frá hljómsveitinni og svipnum á henni að hún hafi ekki gert neina sérstaka hluti. Verð að fara og lesa hvað aðrir segja.

Einhverra hluta vegna held ég að Toby og Lúkas séu öryggir á morgun. Ég hélt upphaflega að Storm myndi fara heim næst en nú er ég ekki svo viss. Ég held að Magni sé aftur í hættu. Vona að Íslendingar hafi kosið vel. Það er hins vegar ljóst að öll atkvæðin frá Íslandi duga skammt núna og Magni þarf að hrífa aðra með sér til að halda áfram. Reyndar held ég að hann verði ekki sendur heim næst, hvort sem hann lendir í botnsætunum eða ekki. Og þó, ef tveir fara heim næst þá getur allt gerst. Nú er bara að bíða og sjá.

Af öðrum málum er það helst að frétta að skólinn er byrjaður aftur. Byrjaði í dag. Ég er aðstoðarkennari í hljóðkerfisfræði eins og í fyrra. Kennarinn er Gunnar Hansson og hann nefndi í tíma í dag að þetta væri ábyggilega í fyrsta skipti í sögu UBC og ábyggilega síðasta skipti að bæði kennari og aðstoðarkennari séu Íslendingar. Ég efast um að það gerist oft utan Íslands.

En sem sagt, vetrarvertíðin byrjuð og nú þarf ég bara að halda mér við efnið og skrifa skrifa skrifa. 


Barnabörn ömmu Stínu

Barbabörn ömmu Stínu

Í dag fékk ég pakka frá Tim með dóti sem ég hafði gleymt þegar ég flutti frá Winnipeg. Þetta hafði verið einhvers staðar í kassa. Hann er að flytja til Ohio og var því að fara í gegnum dót. Þetta var fyrst og fremst dúkur sem við höfðum alltaf í stofunni en einnig myndir. Þar á meðal var þessi mynd af öllum barnabörnunum hennar ömmu Stínu samankomnum. Ég efast um að það séu til margar myndir af okkur öllum saman. 

Lengst til vinstri er Ágústa heitin, síðan bræður mínir þrír, Geiri, Gunni og Haukur, og að lokum Borghildur með mig í fanginu. Ég er líklega á fyrsta ári þarna. Þvílík bolla. Ég hef nú eitthvað lagt af síðan þá. Ekki veit ég hins vegar af hverju sófinn er fyrir framan svalarhurðina. Virðist ekki mjög hentugt. 


Sjö ár

Í dag eru akkúrat sjö ár síðan ég flutti til Kanada. Ég kom til Winnipeg 1. september 1999 og átti að vera hér í eitt ár. Þau eru sem sagt orðin sjö árin og ekki séð fyrir endann á útlegðinni. Fjögur ár í Winnipeg, þrjú í Vancouver... Kannski verð ég flutt eitthvert annað eftir ár, þá vonandi á lokastigi doktorsritgerðarinnar. Kannski Ottawa?

Klifrað í Vitagarði

Í dag klifraði ég í Lighthouse Park í Vestur Vancouver. Ég hef einu sinni klifrað þar áður, í fyrsta sinn sem ég klifraði úti, en að þessu sinni klifruðum við á vesturhliðinni en ekki austurhliðinni eins og í fyrra. Maður setur upp ankerið á toppnum og þarf svo að spranga niður. Það kallast 'to wrap down' - veit ekki hvað það kallast á íslensku. Ég hafði aldrei gert það áður en fékk góða tilsögn svo allt gekk í sögu. En það er svo sannalega skrítið að láta sig síga niður sjálfur í stað þess að láta einhvern annan sjá um það.

Ég klifraði ekki mikið. Fór eina fremur auðvelda leið sem líklega er 5.8 eða 5.9 og svo reyndum við mun erfiðari leið nokkru utar sem er annaðhvort 5.10b eða 5.10c. Ég er nokkuð viss um að sú leið er 5.10c því hluti af leiðinni var alveg hrikalegur. Ég fór fyrst og gekk þolanlega með fyrsta hlutann þó reyndar ætti ég í nokkrum vandræðum um miðbikið. En svo þegar ég komst þar upp kom ég að stað þar sem kletturinn slútti yfir mig og ég náði ekki að komast þar yfir. Ég held það hafi verið fyrst og fremst vegna þess að ég hafði ekki klifrað úti í heilt ár og kjarkurinn var ekki til staðar. Á svæði eins og þessu verður maður hreinlega að finna þolanlegt tak og treysta því svo. Það eru engin góð grip. Og ég var ekki tilbúin að treysta. Ég fann sprungu sem ég vildi nota en til að nýta hana almennilega varð ég að halla til hægri inn að veggnum en kaðalinn var vinstra megin við og dróg mig alltaf til hliðar. Svo ég fór niður að lokum. Næstur kom Martin Oberg, félagi minn úr málvísindunum og hann komst upp eftir að hafa dottið einu sinni. Hann er búinn að klifra mikið lengur en ég og er þar að auki 24 ára og sterkur. Síðastur klifraði Doug og hann gafst upp á sama stað og ég eftir að hafa dottið þar trekk í trekk. Doug getur klifrað 5.11c eða 5.11d þannig að þessi leið var greinlega erfiðari en skalinn á henni. Þannig að ég þurfti ekkert að vera ósátt. Síðan reyndi Martin aftur og þá komst hann ekki yfir hjallinn og loks reyndi Doug aftur og komst að lokum upp.

Á eftir fórum við öll á víetnamskan veitingastað. Í ljós kom að Anne-Marie, konan hans Dougs átti fimmtíu ára afmæli svo Doug endaði á því að borga fyrir okkur öll enda varð þetta afmælisveislan. Síðan fórum við heim til þeirra og borðuðum afmælisköku. Sem sagt, hinn fínasti dagur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband