Færsluflokkur: Bloggar
Kom ekki á óvart
31.8.2006 | 05:06
Ég var að enda við að horfa á Supernova og það kom ekki á óvart að Ryan skyldi fara heim. Tapkeppnin var augljóslega á milli hans og Storm og þótt hann hafi staðið sig betur en hún í gær var hann mun lélegri í kvöld. Mér fannst hann alls ekki standa sig með Who lagið en Storm kom hins vegar með stórskemmtilega útgáfu af Helter Skelter. Og ég er alltaf mjög gagnrýnin á fólk sem þorir að reyna sig við Bítlalög.
Ég vildi gjarnan fá lokaþátt með Magna, Toby og Lúkasi því þá get ég haldið partý með Marion vinkonu minni og Ryan manni hennar. Marion er kanadísk og Ryan er ástralskur. En ég held að Dialana hljóti að vera með á lokakvöldinu sem þýðir að annað hvort Toby eða Lúkas fer heim með Storm í næstu viku. (Auðvitað verður Magni á lokakvöldi - ekki spurning.)
Hvað fannst ykkur annars um flutning Dilönu á Psycho Killer? Mér fannst þetta býsna skemmtilegur flutningur sem minnti óneitanlega á Ninu Hagen þegar hún var upp á sitt besta. En augljóslega var þetta ekki rétti stíllinn fyrir Supernova. Hins vegar er hún búin að standa sig svo vel að henni verða ábyggilega fyrirgefin ýmis mistök. Flutningur hennar á þriðjudagskvöldið var ótrúlegur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áfrram Magni
30.8.2006 | 07:18
Þótt veruleikasjónvarp sé ekki beinlínis sjónvarp í hæsta klassa þá er því ekki að neita að það getur verið gaman að fylgjast með. Og rétt eins og það er skemmtilegra að horfa á fótbolta þegar maður heldur með öðru liðinu er ólíkt skemmtilegra að horfa á veruleikaþætti þegar manni er ekki sama um það hvernig fer. Þannig er það með Rockstar Supernova. Við verðum að styðja við okkar mann - sérstaklega þar sem hann er alveg stórgóður. Þessi strákur getur sungið hvað sem er og sviðsframkoman er góð. Mér fannst hann standa sig alveg stórkostlega í kvöld sem endra nær en það voru margir aðrir góðir í kvöld. Eiginlega fannst mér Storm sú eina sem ekki var neitt sérstök. Þetta getur farið hvernig sem er.
En svona keppni er að mörgu leyti ósanngjörn. Við vitum að fólk heldur með sínum heimamönnum. Um það er rætt á hverju ári þegar suðurríkjamenn taka sig saman og kjósa American Idol. Munurinn þar er hins vegar að allir eiga sama möguleika á að kjósa á þokkalegum tíma. Hér vestra er kosið eftir tímabeltum. Símakerfið skráir úr hvaða svæðisnúmeri maður hringir og eingöngu er hægt að kjósa í ákveðinn tíma eftir að þætti lýkur á hverju svæði fyrir sig. Því þýðir ekkert fyrir okkur á vesturströndinni að ætla að kjósa þegar búið er að sýna þáttinn á austurströndinni. Íslendingar eru ekki svo heppnir að fá að kjósa á sínum tíma. Mér skilst að heima sé eingöngu hægt að kjósa um miðja nótt sem er auðvitað fáránlegt. Aðeins hörðustu aðdáendur eyða nóttinni í það að kjósa. Þannig að það er alveg ljóst að Magni þarf mikinn stuðning utan íslands til þess að komast í gegn næstu tvær vikurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vinna vinna vinna
23.8.2006 | 06:17
Ég var að enda við að horfa á Supernova. Er búin að horfa síðustu þrjár fjórar vikurnar og hef bara nokkuð gaman af. Ég hef aldrei hlustað mikið á Á móti sól enda ekki hægt að kaupa plöturnar þeirra hér í Kanada og ég kaupi bara örfáar plötur þegar ég fer heim, en Magni er nú bara nokkuð góður. Af því að ég er nú hálfgerður Kanadamaður núna held ég líka með Lúkasi en ég hef líka býsna gaman af Toby. Mér finst Dilana mjög góð söngkona en hún gerði svo sem ekkert sérstakt í kvöld.
En ég ætlaði ekki að eyða kvöldinu í að rugla um sjónvarpið. Ég ætti auðvitað að segja ykkur frá ferðinni norður til Kispiox en ég er of þreytt í kvöld enda búin að vinna meira og minna í allan dag, svo ég geri það seinna.
Ég er að vinna að doktorsritgerðinni minni. Ég var búin að setja það markmið að hafa tilbúið uppkast að einum kaflanum áður en skólinn byrjaði og ég er enn að vona að ég geti náð því markmiði. Í mun eiga fund með Hotze á föstudaginn og því vil ég senda honum núna það sem ég er búin að skrifa til að fá athugasemdir til baka. Eftir það mun ég hafa um eina og hálfa viku áður en skóli hefst á ný. Sem sagt, tíminn að renna út.
En ég get aldrei setið við í marga klukkutíma þannig að ég tók nokkrar pásur. Í morgun talaði ég við Sverri í síma í nokkra stund og svo kom Marion og við fórum og klifruðum. Hvorug okkar hefur klifrað mikið í sumar svo við vorum nú ekki mjög góðar en við verðum bara að komast aftur í gott horf. Seinni partinn bakaði ég eplakrömp úr eplunum í garðinum mínum og í kvöld talaði ég heillengi við Martin. En þess á milli skrifaði ég, lagaði og breytti ritgerðinni. Ritstjórnarþátturinn er alltaf stór og það leiðinlegasta við svona vinnu. Það er miklu skemmtilegra að hugsa um vandamálin og finna lausnir.
Ég var annars að hlusta á fréttir og það var verið að segja frá enn einni fjallaljónaárásinni. Eins og kettir eru nú fallegir og skemmtilegir þá eru stóru frændur þeirra hættulegir. Þessi réðst á lítinn fjögurra ára dreng en sem betur fer var pabbi hans þar og náði hann að hrekja köttin á burtu. Árásir fjallaljóna á fólk eru ekki algengar en gerast þó af og til. Fyrst og fremst eru það börn sem eru í hættu, en þeir hafa líka ráðist á fullorðna og jafnvel drepið þá. Já, Íslendingar eru nú heppnir að refir skuli vera stærstu villtu rándýrin í landinu.
Seinna segi ég ykkur frá Kispiox og björnunum sem ég sá þar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útilega við Peter Hope vatn
13.8.2006 | 08:12
Ég er búin að draga það allt of lengi að segja ykkur frá útilegunni við Peter Hope vatn. Ég slóst í för með Brynjofson fólkinu, frændfólki mínu hér í Vancouver. Bróðursonur langafa, Sigurður Brynjólfsson fluttist með sitt lið til Kanada fyrir löngu og afkomendur hans búa flestir hér á Vancouver svæðinu. Reyndar er ein dóttirin í Alberta og ein í San Diego, en hin systkinin eru öll í BC og velflest þeirra börn.
Ég keyrði uppeftir á föstudagskvöld með Gerry, eiginmanni Diana Brynjolfson en hún er dóttir Bens, elsta sonarins. Við komum að vatninu einhvern tímann á milli tíu og ellefu um kvöldið og þar voru fyrir Diane með strákana þeirra, Carol systir hennar og pabbi þeirra, Ben, og konan hans Angie. Carol og strákarnir voru búin að tjalda fyrir mig en því miður alveg uppvið tjaldið hennar Carol og hún hrýtur.
Laugardagurinn fór í eiginlega ekki neitt. Borða, slappa af, sofa, borða meira. Svo fór ég með Ben útá vatnið. Hann reyndi að fiska en ég naut þess nú bara að vera úti á vatninu í góðu veðri og las inni á milli þess sem ég spjallaði við Ben. Hann talar ágætis íslensku og finnst alltaf gott að fá tækifæri til þess að æfa sig.
Um kvöldið fór ég í göngutúr með Diane og strákunum og við sáum meðal annars uglu. Það var great horned owl eða stórhyrnd ugla, eða eitthvað svoleiðis (við höfum ekki svoleiðis á Íslandi þannig að ég veit ekkert hvað íslenska orðið myndi vera). Þegar ég kom til baka flutti ég tjaldið enda hafði ég ekki sofnað nóttina áður fyrr en einhvern tímann undir morgunn. Ég hafði spilað píanó variötur Bachs (með Glenn Gould) á iPodnum mínum, og vonaðist til að ég gæti sofnað út frá því en það gekk ekki heldur. Jafnvel þótt ég hafi hlustað á verkið þrisvar sinnum. Og ég vildi ekki aðra svefnlausa nótt. Það var hins vegar ekki mikið um tjaldstæði þarna enda meira ætlast til að menn væru með hjólhýsi og aðra slíka vagna. Ég fann hins vegar fínt tjaldsvæði inni í hálfgerðum runna sem var alveg upplagður.
Ég fór að sofa einhvern tímann um ellefu leytið eftir að hafa setið fyrir framan varðeld með Brynjolfsons liðinu, og ég söng meira að segja 'Komdu og skoðaðu í kistuna mína' (óskalag frá Ben) og 'Kveikjum eld' við mikla hrifningu (þótt ég segi sjálf frá). Ég steinsofnaði fljótlega og rumskaði ekki fyrr en um hálffjögur um morguninn við það að nefið var stíflað og mig klæjaði í framhandlegginn. Ég hafði með mér ofnæmistöflur svo ég tók þær og reyndi svo að kúra mig niður enda enn mið nótt og svarta myrkur. En ég var ekki svo heppin. Ég var varla löggst fyrir þegar ég heyrði eitthvert skrjáf fyrir utan tjaldið mitt. Ég stífnaði öll upp og hreyfði hvorki legg né lið. Skrjáfið hélst áfram og innan skamms færðist það eftir tjaldinu og nær höfuðlaginu. Ég þorði ekki að anda. Ýmindunaraflið rauk af stað. Ég er ekki heima lengur. Hér eru alls konar dýr á ferli á nóttunni. Það hættulegasta á þessu svæði augljóslega björninn. Það eru reyndar engir Grizzly á þessu svæði en töluvert af svartbjörnum. Ég fór í gegnum það í huganum hvort ég væri nokkuð með mat í tjaldinu og sannfærði mig um að svo væri ekki. Björn ætti því ekki að hafa áhuga á mér eða tjaldinu. Þar að auki var ég nokkuð viss um að hvað sem þetta væri væri það ekki nógu stórt til að vera björn. Það ættu ekki að vera nein fjallaljón á þessu svæði, en hvað veit maður. Við erum komin býsna nálægt Klettafjöllunum þarna og ég veit að það eru fjallaljón þar. En þrátt fyrir það að innst inni vissi ég að hvað sem þetta væri þá væri það ekki nógu stórt til að ráðast á mig, þá róaðist ég ekkert við það. Meðal annars vegna þess að ég fór að hugsa um birni og fjallaljón og allt það og ég vissi að þótt þetta væri ekki björn fyrir utan þessa stundina þá gæti hann komið hvenær sem væri. Og hvað myndi ég gera. Hversu nálægt var ég hinum? Myndu þau heyra í mér ef ég orgaði. Til að bæta gráu ofan á svart heyrði ég sléttuúlfa góla í fjarska. Gæti verið sléttuúlfur fyrir utan? Þeir ráðast ekki á fólk, en alvöru timburúlfur gæti gert það - ef hann væri svangur. Málið er að það var miklu líklegra að þetta væri eitthvað ennþá minna. Kannski refur, kannski otur úr vatninu. Skunkur? Varla íkorni, þetta dýr fór allt of hljóðlega og rólega til þess. Íkornanir hlaupa um eins og vitlausir, og þar að auki sofa þeir á næturnar. Fyrir ofan tjaldið heyrði ég í fugli, en það tók nokkurn tíma áður en ég var viss um að þetta væri fugl. Reyndar hefði þetta getað verið leðurblaðka líka. Ég var stjörf af hræðslu og þar sem ég lá þarna hreyfingarlaus reyndi ég að hugsa möguleikana í stöðunni. Ég gæti legið þarna og vonað að allt róaðist og ég gæti sofnað. Ég gæti farið út og reynt að sjá hvað væri fyrir utan. Ef þetta væri eitthvert meinlaust dýr gæti ég ábyggilega sofnað. Ég gæti skriðið inn í tjald hjá einhverjum öðrum, eða inn í hjólhýsi hjá Ben og Angie sem voru næst mér. Ég ákvað að kíkja út. Skjálfandi renndi ég upp rennilásnum og skimaði í kringum mig. Ég var með ljós á höfðinu sem lýsti býsna vel en ég sá ekkert. Ég ákvað að reyna bara að sofna. En ég var varla lögst niður aftur þegar ég heyrði hljóð aftur fyrir utan. Ég vissi að ég myndi ekki sofna úr þessu. Allt í einu sá ég lausnina. Bíllin hennar Carol. Ég var með lykla að bílnum. Ég tók svefnpokann minn og fór út í svarta nóttina. Ég reyndi að hugsa ekki um hvað var þarna í kring heldur hraðaði mér að bílnum. Þar hrúgaði ég öllu drasli úr aftursætinu og skreið inn. Ég hafði engan kodda svo þetta var óþægilegt en ég var svo þreytt að ég sofnaði umsvifalaust. Ég vaknaði um klukkutíma síðar við það að sólin var komin upp. Allt virðist miklu betra í dagsbirtu svo ég áréð að fara aftur inn í tjald. Ég endaði á því að sofa til um klukkan tíu þannig að þrátt fyrir um klukkutíma þar sem ég var stíf af hræðslu fékk ég samt mun meiri svefn en hrotunóttina áður.
Á sunnudeginum hélt ég áfram að borða, sofa, lesa. Ég lærði líka að spila Canasta og komst að því að ég er ekki mjög heppin í því spili fremur en öðrum. Ég færði tjaldið mitt til þannig að það var beint fyrir utan vagninn hjá Ben og Angie, úti á auðum bletti en ekki inni í rjóðrinu, og þrátt fyrir að þar væri halli og að ég sigi stöðugt niður á við í tjaldinu svaf ég eins og steinn næstu nótt og fór ekki á fætur fyrr en sólin var farin að sjóða tjaldið. Um hádegið keyrði ég til baka með Gerry en hin voru áfram í einhverja daga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leti
10.8.2006 | 07:10
Daginn allir. Já, ég er búin að vera löt að skrifaég viðurkenni það fúslega. Og ég ætla heldur ekki að skrifa mikið núna. Ég er búin að vera heima í tvo daga eftir að ég kom úr útilegu að Peter Hope vatni þar sem ég varð hræddari en ég hef nokkurn tímann orðið. Eða alla vega man ég ekki eftir því að hafa orðið eins hrædd. Viljið þið vita af hverju? Jæja, þá segi ég ykkur það bara ekkert. Í staðinn get ég sagt ykkur að í dag kláraði ég grein fyrir tímarit. Ekkert merkilegt reyndar. Þetta er tímarit CLA, Kanadísku málvísindasamtakanna, og þeir ætla að birta alla fyrirlestrana sem haldnir voru á þinginu í vor. Ég eyddi einum tveimur dögum í að hressa upp á fyrirlesturinn, laga ýmislegt, prófarkalesa, breyta uppsetningunni þannig að hún passi tímaritinu o.s.frv. Eftir að það var búið eyddi ég þó nokkrum tíma í að skoða verð á flugi til Spánar, verð á herbergjum, bílaleigubíl o.s.frv. Ég er ekki enn búin að taka ákvörðun um hvort ég læt duga að fara til Barcelona á Sinn und Bedeutung ráðstefnuna eða hvort ég tek mér auka daga og fer í frí, annað hvort á Spáni eða á Ítalíu. Það er eiginlega hálfgerð synd að eyða öllum þessum peningum í að fljúga til Spánar og stoppa svo bara í fjóra daga. En ég hef enn tíma til að ákveða mig.
Í kvöld talaði ég svo við Martin í síma. Við höfum lítið talað saman síðan ég fór til baka því fyrst var hann í útilegu og ekki í sambandi og svo fór ég í útilegu þar sem var ekkert símasamband. En við náðum að bæta úr þessu í kvöld og ná helstu fréttum frá báðum endum landsins.
Ó ég gleymdi að segja að í gær fór ég í MRI (er það ekki kallað segulómtæki á íslensku?). Ég fór í svoleiðis fyrr í sumar og þá virtust þeir hafa fundið þrengingu í mænugöngum svo þeir vildu taka fleiri myndir og skoða þetta betur. Ég þarf að bíða í tvær vikur áður en ég fæ að vita hvað kom úr þessu. En það er svo sannarlega ekki fyrir fólk með innilokunarkennd að fara í svona. Martin er með innilokunarkennd og þegar ég var að lýsa þessu fyrir honum varð hann að skipta um umræðuefni. Bara á því að heyra lýsingarnar. Sem betur fer hef ég aldrei haft innilokunarkennd þannig að þetta var ekkert mál fyrir mig. Ég sofnaði meira að segja næstum því. Ég held ég hafi dottað.
En nú er ég alltof þreytt til að skrifa meira enda komið fram yfir miðnætti. Svo ég ætla að drífa mig í rúmið. Ég skal segja ykkur frá útilegunni þegar ég nenni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allt að falla í gamla farið
4.8.2006 | 06:07
Ég er nú búin að vera fimm daga heima og það hefur nú ekki margt gerst. Á sunnudaginn stóð ég í þvotti og tók upp úr töskunum o.s.frv. Á mánudaginn fundaði ég bæði með Lisu og Hotze og var ekki skömmuð fyrir það hvað lítið ég gerði í ritgerðinni minni í sumar. Líklega vegna þess að ég náði nokkurn veginn að klára atviksorðagreinina sem ég ætla að reyna að fá birta og þar að auki las ég töluvert. Þannig að ég var ekki beinlínis löt.
Í gærkvöldi var enn ein flugeldasýningin í Vancouver. Fjórar þjóðir keppa um bestu flugeldasýninguna. Þetta var önnur sýningin sem ég sá og var pottþét betri sen sú á laugardaginn - sem var held ég Kína. Í gærkvöldi voru það Tékkar sem sýndu snilli sína. Ég fór niður á strönd með Marion og Ryan og við höfðum með okkur mat og héldum pikknikk. Maður verður að mæta þokkalega snemma til að fá góð sæti og við sátum upp á risastórum tréklumpi. Svei mér þá, ég held að tréð hafi verið alla vega tveggja metra breitt, sem var mjög hentugt því við sátum upp á því og svo fór að falla að. Sumir fyrir neðan okkur urðu að færa sig.
Nú er löng helgi í Kanada eins og heima, þó ekki verslunarmannahelgi. Ég ætla í útilegu með Brynjólfsson fólkinu - frændfólki mínu. Fer annað kvöld með Gerry, manni Díönu frænku minnar. Flestir fóru í dag en ég vildi vera heima og vinna. Og svo vann ég næstum ekkert. Ég fór reyndar upp í skóla og sótti ýmislegt. Fór svo og faxaði skattframtalið mitt til LÍN svo ég þyrfti ekki að borga námslánin mín til baka strax, en svo hef ég bara verið að brenna geisladiska handa Martin. Ég talaði aðeins við hann í síma í dag en hann var búinn að vera í útilegu með krökkunum sínum síðan á mánudag eða þriðjudag og batteríin í símanum hans voru að deyja. Svo við náðum aðeins að tala saman í nokkrar mínútur áður en batteríin dóu algjörlega.
Á mánudag eða þriðjudag get ég sagt ykkur frá útilegunni að Peter Hope vatni og kannski sýnt ykkur eina eða tvær myndir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komin til Vancouver
31.7.2006 | 00:04
Vá, ég er komin aftur til Vancouver eftir ótrúlega dvöl í austur Kanada. Ég ætlaði ekki að vilja fara en þessi ferð reyndist eitt það besta sem hefur komið fyrir mig í langan tíma. Það er auðvitað fyrst og fremst því út af Martin.
Ég yfirgaf Ottawa á þriðjudagskvöld eftir vinnu. Það tók okkur um tvo tíma að gera allt klárt þannig að klukkan var orðin sex þegar við lögðum af stað. Við höfðum ákveðið að keyra eins langt þetta fyrsta kvöld og við gætum svo við keyrðum í gegnum Montreal án þess að stoppa, sem var allt í lagi því ég hafði verið þar um tveimur vikum áður. Við keyrðum svo fram hjá Quebec borg sem var heldur síður því þangað hef ég aldrei komið en hef verið sagt að þar sé fallegt. Hins vegar var orðið dimmt þegar við komum þangað þannig að ég hefði hvort eð er lítið séð. Við hefðum því þurft að gista þar og eyða einhverjum tíma þar um morguninn og það hefði einfaldlega tekið of mikinn tíma. Ég verð bara að fara þangað einhvern tímann seinna. Í stað keyrðum við alla leið til Rivére du Loup þar sem við áttum frátekið stæði á tjaldsvæðinu. Þegar við komum þangað, hins vegar, laust eftir miðnætti, var enginn vörður, hliðið var lokað og enginn svaraði í símann. Við eyddum næstum því klukkutíma í að reyna að finna einhvern og komast inn en ekkert gert svo við enduðum á því að fara bara á mótel.
Við tókum það fremur rólega morguninn eftir, lögðum ekki af stað fyrr en um ellefu leytið og keyrðum þá áfram meðfram St. Laurent ánni sem breikkaði óðum. Það var eiginlega ekki hægt að sjá hvernær áin endaði og hafið tók við. Atlantshafið. Haf okkar Martins beggja. Við stoppuðum á nokkrum stöðum, löbbuðum eftir ströndinni, borðuðum, réttum úr okkur o.s.frv. Ferðin var fremur hæg á þessum slóðum því það er bær við bær og því ekki hægt að keyra mjög hratt. Þar að auki var allt fullt af bílum með tengivagna o.s.frv. sem hægði ennfremur á. Það var orðið dimmt þegar við komum í Forillion þjóðgarðinn í Quebec. Þar tjölduðum við, borðuðum kvöldverð og slöppuðum af. Um nóttina fór að mígrigna. Ja, eiginlega um það leyti sem við fórum að sofa. Ég var ekki sofnuð þegar ég heyrði í rigningunni. Spáð hafði verið þrumustormi en ég varð nú aldrei vör við þrumur, en það rigndi alveg nóg. Undir morgun hafði regnið náð að komast undir regntoppinn og þá fór að leka inn í tjaldið. Ég vaknaði upp við að stórar regnslummur féllu á andlit mér.
Eftir morgunverð fórum við í gönguferð niður á strönd og sáum töluvert af fuglum; máva, dílaskarfa, teistur. Við héldum áfram að keyra eftir Gaspé ströndinni og héldum til Percé sem er algjör túristastaður. Þar var þokan svo svört að við sáum sama og ekkert. Percé er fyrst og fremst þekkt fyrir risastóran klett sem stendur langt út í vatnið, en við sáum hann aldrei. Við vorum ábyggilega svona hundrað metra frá honum en sáum ekkert. Þarna er líka stærsta súlnubyggð í Norður Ameríku en maður verður að fara þangað með bát og við höfðum ekki tíma til þess. Við vissum að við yrðum að keyra til Nova Scotia þennan dag svo við þyrftum ekki að vakna eldsnemma daginn eftir til að ég næði flugi. Svo við héldum áfram ferðinni. Í Carlton fundum við götu sem hét Rue Comeau. Það er nafnið hans Martins svo hann tók auðvitað myndir af skiltinu og sér með því. Síðar sáum við Martin's götu þannig að hann er greinilega mjög frægur. Þarna voru engar Kristínargötur, hvað þá Jóhannsdóttirgötur. Við keyrðum hratt í gegnum New Brunswick. Við höfðum upphaflega planað að keyra eftir Acadian ströndinni í New Brunswick en það hafði verið mun seinlegra að keyra eftir ströndinni í Quebec en við héldum þannig að við sáum að það yrði allt of seinlegt að fara ströndina í NB. Í stað keyrðum við inn í Nova Scotia og gistum þar á Super8 móteli.
Daginn eftir, föstudag, vorum við mætt á flugvöllin í Halifax klukkan ellefu. Þar komst ég að því að flugvélinni minni til Montreal (ég ætlaði að fljúga til Ottawa í gegnum Montreal) hefði verið seinkað um tvo tíma þannig að ég myndi aldrei ná vélinni til Ottawa en önnur vél til Ottawa var um það bil að fara. Verið var að senda fólk út í vél. Ég varð því að flýta mér. En það var ekki allt, einnig kom í ljós að flugið mitt til Vancouver var alls ekki þennan dag eins og ég hafði alltaf haldið heldur daginn eftir. Ég fríkaði næstum því út því ég var búin að gefa eftir herbergið mitt í Ottawa og þar að auki var ég með hellings farangur sem ég yrði allt í einu að fara að draga eitthvert. Ég vissi að ég gæti ábyggilega fengið að gista hjá Auði en hún væri ábyggilega í skólanum þar til um sex leytið og þótt ég væri með númerið hennar í skólanum skrifað niður hafði ég ekki hugmynd um í hvaða tösku það var eða neitt. En ég hafði engan tíma til að reyna að skipuleggja neitt því ég varð að hlaupa að hliðinu. Ég hafði því bara rétt tíma til að faðma Martin að mér og varð svo að hlaupa. ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera þegar ég kæmi til Ottawa. Ég ákvað að fara bara og athuga hvort ég gæti fengið fluginu mínu breytt þannig að ég flýgi heim þennan dag í stað þess að bíða til morguns. En þegar ég lenti og kveikti á símanum hringdi Martin og sagði mér að Neil vinur hans væri á flugvellinum að sækja mig og ég gæti gist hjá honum og Melanie í Wakefield þá nóttina. Þvílíkur léttir. Í stað passaði ég strákana þeirra á meðan Neil var að taka upp tónlist fyrir einhverja hljómsveit og Melanie var í vinnunni. Það var ágætt að hitta þau aftur og ég náði að tala meira við þau. Þegar ég hitti þau fyrst stoppuðum við ekki lengi hjá þeim og ég kynntist þeim því ekki svo vel.
Daginn eftir keyrði Melanie mig á flugvöllinn og ég var komin heim um níu leytið að staðartíma. Klukkutíma áður en flugeldasýning hófst í Vancover.
Í dag hef ég verið að þvo þvott, versla í matinn og reyna almennt að ganga frá hérna. Það er alltaf leiðinlegt að taka upp úr töskum eftir ferðalag. Næstum því jafnleiðinlegt og að pakka.
Ég sakna Martins en við höfum símann og tölvupóst og Skype, msn og hvað þau heita nú öll þessi forrit sem gera manni það kleift að vera í sambandi við vini sína á öðrum stöðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sigling á Ottawa vatni
23.7.2006 | 14:05
Hitbylgjan er búin. Veðrið er orðið þolanlegt og hitastig komið niður í 25 sem er afskaplega þægilegur hiti. Fyrir viku fór hitinn í 34 stig og hélst yfir þrjátíu í nokkra daga og það er hreinlega of heitt. Sérstaklega þegar rakastig er hátt í þokkabót.
Eini gallinn er að það kólnaði á röngum tíma. Við Martin sigldum burt frá Aylmerbryggju á föstudagskvöld og inn í nóttina. Sigldum alla leið út að Baskin's beach sem ég man ekki alveg hversu marga kílómetra er í burtu. En við höfðum góðan mótvind alla leiðina og bar hratt yfir. Við sigldum svona fram að miðnætti og köstuðum þá ankerum. VIð höfðum einhvern tímann um kvöldið (þegar vindur var enn sterkur) ákveðið að reyna að fara að Constance bay, en svo dó vindurinn niður (virðist alltaf gera það á kvöldin) og því notuðum við mótorinn til að komast til Baskin's bay. Það hefði tekið um klukkutíma í viðbót að komast til Constance bay með mótornum og enn lengur að sigla. Ég hef aldrei áður sofið um borð í bát (bara skipi) og það var því ofsalega skrítin tilfinning að liggja þarna inni í lúkar og finna hreyfinguna á vatninu. Báturinns snerist í hringi alla nóttina og það er ótrúlegt að maður skyldi ekki hafa orðið ruglaðri. Við höfðum ákveðið þegar við köstuðum ankerum að halda áfram til Constance bay þegar við vöknuðum en svo enduðum við á því að sofa frameftir og taka okkur svo tíma við að búa til morgunverð o.s.frv. þannig að það var komið undir hádegið þegar við loks settum upp seglin. Það var því augljóslega orðið of seint að halda áfram upp ána ef við ætluðum að vera komin til baka til Ottawa fyrir kvöldmat. Það var líka býsna kalt (ekki þó á íslenskan mælikvarða) og ég var meira að segja í minni íslensku flíspeysu. Þess vegna segi ég að það hafi kólnað á röngum tíma. Það kólnaði þegar ég ætlaði að vera að sóla mig á bátnum og að synda í vatninu - sem er ótrúlega heitt. En af hvorugu varð og við sigldum bara til baka. Vorum með sterkan vind aftur og gátum siglt á einu "attack"i (veit ekki hvað það kallast á íslensku). Ég var ótrúlega þreytt þegar við komum til baka, og svöng líka. Við skelltum okkur á víetnamískan veitingastað og ég borðaði á mig gat. ÞEgar ég kom heim hringdi ég í Auði, íslensku stelpuna hér í Ottawa, og við skruppum niður í bæ.
Nú er ég svona smámsaman að pakka niður dóti sem ég ætla að senda bara með rútu heim til Vancouver í stað þess að draslast með það til Nova Scotia. Enda verður bíllinn ábyggilega fullur af útilegu dóti. Hmmm. Var ég ekki búin að minnast á ferðina? Ég hreinlega man það ekki. En sem sagt, Martin ætlar að keyra til Nova Scotia á þriðjudaginn og taka fjóra daga í ferðina, stoppa á ýmsum stöðum, keyra eftir hægari en fallegri leiðum en þjóðveg 1 o.s.frv. Hann bað mig að koma með og ég ákvað að skella mér. Þetta verður ábyggilega mjög skemmtilegt. En það þýðir að ég á bara eftir að kenna í tvo daga og svo held ég austur eftir. Ég mun svo fljúga frá Halifax til Ottawa á föstudaginn (með viðkomu í Montreal) og síðan áfram til Vancouver. Þannig að eftir viku verð ég heima hjá mér. Skrítið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
leti
21.7.2006 | 19:21
Eg skammast min fyrir hvad eg hef skrifad litid her upp a sidkastid. En eg hef litid haft adgang ad tolvum og svo hef eg bara verid of upptekin.
Nuna er eg i Bisson, sem er hin tungumalabygging Utanrikisthjonustu Kanadamanna. Thad er haegt ad setja inn islenska stafi en thetta er pesi og eg er ekki svo god a them so eg akvad ad standa ekkert i thvi og reyna bara ad skrifa islENSKU.
Eg hef haft thad mjog gott undanfarid. A manudaginn for eg ut ad borda med Ninu og Dennis, vinum minum fra Manitoba sem voru her i nokkra daga. A thridjudagskvold for eg ut ad sigla og a midvikudagskvold for eg til Wakefield sem er litill baer i Quebec, ekki langt hedan i fra. Eg myndi syna ykkur mynd af yfirbyggdu brunni thar (eins og i Bryrnar i Madisonsyslu) en eg er ekki med myndirnar a thessari tolvu. I gaer var afsloppunarkvold hja mer. Eg setti i thvottavelina og horfdi svo a Vini megnid af kvoldinu. Eg hef ekki verid ad laera serlega mikid upp a sidkastid.
I kvold verdur gaman. Eg aetla med Martin ut ad sigla og vid aetlum ad taka med okkur svefnpoka og sofa um bord i batnum og koma svo til baka einhvern timann a morgun. SPennandi. Segi fra thvi seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Montréal
12.7.2006 | 18:20
Í gær var frí í vinnunni hjá mér af því að nemandinn fór úr bænum, og ég notaði því tækifærið og skellti mér til Montreal. Ég vaknaði um sex leytið, greip eitthvert dót og rauk út. Var komin á umferðamiðstöðina vel í tæka tíð fyrir brottför klukkan sjö. Ég reyndi að sofa aðeins á leiðinni en það var erfitt. Ég fékk þó einhverja hvíld því ég var þokkalega vakandi allan daginn.
Ég kom inn í Montreal um klukkan hálftíu og síðan tóku við átta tímar af göngu. Þegar ég ferðast ein þá á ég það helst til að labba og labba, stoppa aðeins þegar ég er svöng, og þá gríp ég eitthvað, skelli því í mig og held svo áfram að labba. Þannig að ég náði að sjá ýmislegt. Gekk niður í gegnum latínuhverfið niður í gamla Montreal þar sem ég skemmti mér um stund. Síðan labbaði ég upp St. Laurent, sem sagt aftur í gegnum latínuhvervið og í gegnum Plateau Mont Royal, hvaðan ég labbaði upp fjallið, sem reyndar er ekki nema þokkaleg hæð. Þaðan er gott útsýni yfir borgina. Ég labbaði um "fjallið" um stund og gekk síðan niður að sunnan, í gegnum McGill háskólasvæðið og niður í miðborgina. Þar kíkti ég aðeins í búðir en labbaði svo niður að ráðstefnuhöllinni, jazzhátíðarsvæðinu og svo aftur að lestarstöðinni.
Montreal er býsna falleg borg, en nokkuð blandin. Miðbærinn sjálfur er lítið meira spennandi en Toronto, og ég er ekki mikill Toronto aðdáandi. En gamli bærinn er fallegur og mér skilst að það sé mjög gaman í bæði latínuhverfinu og Plateau Mont Royal. Ég labbaði þar í gegn og fannst gaman en ég held að það séu svæðin til að búa í ef maður býr í Montreal.
Þið vitið hversu lítill heimurinn er. Mér finnst ég alltaf vera að lenda í því að rekast á ólíklegasta fólk á ólíklegustu stöðum. Eins og þegar ég rakst á Trish og Richard frá Victoru í Rideau center í Ottawa fyrsta daginn minn hér. Þau voru á ráðstefnu. í Montreal var ég að labba norður St. Laurent þegar fram hjá mér gengur maður sem vinnur með mér í Asticou. Ég veit ekki hvað hann heitir, við höfum aldrei talað saman en við höfum alltaf brosað hvort til annars þegar við mætumst á göngunum eða sagt hæ. Hann hefur ekki verið í vinnunni undanfarið. Ég held að hann hljóti að búa í Montreal því þegar ég sá hann í strætó þá var hann yfirleitt með tösku með sér á föstudögum og mánudögum, sem benti til þess að hann byggi annars staðar en í Ottawa og kæmi þangað til vinnu. Það er alls ekkert óalgengt. En sem sagt, mér fannst það mjög ótrúlegt að ég skyldi mæta honum þarna á götu í svona stórri borg (1.5 milljón í Montreal sjálfri en um 3.6 í Stórmontrealsvæðinu).
Ég set eina mynd með hér en ef þið viljið sjá fleiri kíkið þá á myndasíðuna mína sem er hér: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)