Færsluflokkur: Bloggar

Wilbrod

Wilbrod 455

Ég er loksins búin að taka mynd af húsinu þar sem ég bý. Mér fannst ég yrði endilega að sýna ykkur. Húsið er frá því um 1890, stórt og mikið múrsteinshús með stigum og rangölum út um allt. Ég var kannski búin að segja ykkur það. Húsið er í skemmtilegu hverfi þar sem blandast saman háskólanemendur í Ottawa háskóla og hin ýmsu sendiráð. Á móti mér er til dæmis brasilíska sendiráðið, við hliðina er austurríska sendiráðið og í hverfinu eru Ghana, Mali, Króatía, Rússland og svo framvegis. 

Herbergið mitt er í risinu þar sem gerfi uglan situr. Hún á víst að hræða burtu dúfurnar en ég held að enginn hafi sagt dúfunum það. Tvær búa við gluggann minn. Sem betur fer höfum við samkomulag þar sem þær mega vera þar svo framarlega sem þær þegja. Ef þær byrja að mala þá sussa ég á þær og þær þegja. 

Í gær fór ég aftur á blúshátíðina og horfði að þessu sinni á Michael Franti, Maraccas og Ani DeFranco. Það var mjög gaman. Ani DeFranco er mjög góð. Svolítið eins og blanda af Alanis Morisette og Chantal Kreviatzuk. Michael Franti er svona reggí rokkari og við dönsuðum eins og vitleysingar allan tímann sem hann spilaði. Ég var ekki komin heim fyrr en um ellefu sem var of seint fyrir sunnudagskvöld þar sem ég þarf að vakna klukkan hálfsjö. Enda er ég þreytt í dag. Ég mun hins vegar ekki fá neitt sérstaklega hvíld í nótt því ég ætla bráðum að fara niðureftir og horfa á Sam Roberts og svo verð ég að vakna í fyrramálið fyrir sex því ég ætla að taka rútuna klukkan sjö til Montreal. Hef aldrei komið þangað og er spennt að fara.  Segi ykkur frá Montreal þegar ég kem til baka.


Ottawa Blues Festival og fleira

Je minn hvað það er heitt úti. Það hefur reyndar hrunið niður í sautján stiga hita enda er klukan langt gengin í þrjú að nóttu til. Þegar ég athugaði veðrið um klukkan átta í kvöld var hitinn 27 stig. Á morgun á að fara upp í 29 stig með háum útfjálubláum geislum í kringum hádegið. Ég hef reyndar ekkert brunnið lengi enda aldrei of lengi í sólinni en ég er orðin nokkuð útitekin og komin með góðan lit á handleggina og andlitið. Það er bara á því að labba. Ég hef ekkert verið í sólbaði. Enda er það þannig þegar maður býr í landi þar sem sólin er mikil og heitt er úti, þá nennir maður kannski ekkert að vera eitthvað að sóla sig sérstaklega. Það er óþarfi að drekka upp hvern einasta dropa af sól sem fæst, eins og þegar maður býr heima á Íslandi þar sem hver einasta sólstund er dýrmæt.

En sem sagt, það er ógurlega heitt í herberginu mínu, sem er ástæða þess að ég er vakandi núna. Ég ætlaði upphaflega að fara til Montreal á morgun og eyða deginum þar en ég þyrfti að vakna um sex leytið og ef ég sofnaði strax þá fengi ég aðeins um þrjá og hálfan tíma af svefni og það er bara ekki nógu gott. Það þýddi líka að ég sofnaði líklega í lestinni og missti þá að því að virða fyrir mér landslagið á milli Ottawa og Montreal. Það er hugsanlegt að ég fari annað hvort á þriðjudaginn eða miðvikudaginn en þá mun ég eiga frí úr vinnunni.

Í kvöld fór ég á fyrstu tónleika á Ottawa Blues hátíðinni. Sá brot af einhverjum reggí gæja og svo kúbverskri hljómsveit en hlustaði aðallega á band sem kallast Broken Social Scene. Martin heldur því fram að þetta sé besta kanadíska hljómsveitin í dag. Þeir spila alternative pop/rock og nota ýmis óvenjuleg hljóðfæri (fyrir svona tónlist, þ.e.a.s.), fiðlur og trompet. Þetta býr til mjög spennandi hljóm og hljómsveitin er athyglisverð. Við misstum af Great Big Sea sem spilaði á stóra sviðinu á sama tíma en það er augljóslega ekki hægt að heyra allt. Það eru vanalega fjórar hljómsveitir að spila á sama tíma.

Annars hefur allt bara gengið fínt síðan ég bloggaði síðast. Anna, nemandinn minn, komst ekki í skólann í gær né eftir hádegið í fyrradag en John maðurinn hennar kom í staðinn svo ég vann töluvert með honum. Þau hjónin nota mjög mismunandi aðferðir til þess að læra málið, svo það er býsna spennandi fyrir mig að fylgjast með þeim. 

Í dag var potluck hjá FLIO (Foreign Language Institute of Ottawa), sem er vinnunveitandi minn, og þar komu saman nemendur og kennarar og átu góðan mat. Nokkrir voru svo með skemmtiatriði. Þetta var mjög skemmtilegt.

Í gærkvöldi fór ég aftur í siglingu. Að þessu sinni vorum við sjö á bátnum. Paul, sem á bátinn með Martin, tók alla sína fjölskyldu með (konu og tvö börn) og vin sinn Derek þar að auki. Það var mjög skemmtilegt. Þetta var allt hið fínasta fólk. Við sigldum að eyju á Ottawa á, köstuðum þar akkerum og héldum veislu. Reyndar fór á sömu leið og síðast. Vindurinn dó á heimleiðinni og við urðum að nota mótorinn. Reyndar var meiri vindur en þegar við Martin sigldum um daginn, en krakkarnir voru orðnir of þreyttir til þess að hægt væri að eyða of löngum tíma í heimferðina.

Jæja, ég ætla að reyna að sofa í þessum hita. Ég ætla að sofa út á morgun - ef dúfurnar á svölunum leyfa mér það. Ég held þær séu að reyna að koma sér upp fjölskyldu. Það er reyndar nokkuð seint í ári til að verpa en sumar fuglategundir verpa tvisvar á ári og þá myndi seinna varp einmitt vera um þetta leytið. Og dúfur eru nógu leiðinlegar til þess að vera vísar til þess að verpa tvisvar. En sem sagt, stefni að því að sofa út. Og svo ætla ég að rölta um, læra kannski eitthvað ef ég helst við inni. Svo kíkí ég kannski niður á Blues svæðið og hlusta á einhverja tónlist þar. Ég ætla líka að fara og leita að vídeóleigu niðri á Bank stræti þar sem er víst gott úrval af erlendum kvikmyndum. Ég vonast eftir því að finna íslenskar myndir svo ég geti sýnt þær í tíma. Það er gott fyrir nemendurnar að hlusta á málið og lesa textann með. En sem sagt, rólegur dagur framundan.


Kanadadagur

1. júlí í Kanada

1. júlí er þjóðhátíðardagur Kanada og að þessu sinni fagnaði landið 139 ára afmæli. Við Auður Atla, Íslendingur í námi hér í Ottawa, vorum mættar niður í bæ rétt eftir klukkan tíu og ætluðum að sjá verðina skipta um stöður (eins og fyrir framan Buckinghamhöll) en fjöldinn var þá þegar orðinn svo mikill að við hefðum þurft að horfa á það frá risastórum skjám fyrir framan þinghúsið. Við nenntum því ekki svo við löbbuðum bara um, skoðuðum fólkið, hlustuðum á tónlist sem flutt var út um allan miðbæinn, horfðum á listamenn leika listir sínar, o.s.frv. Þrjú aðalsvæðin voru Parliament Hill, eða þinghússhæðin, Majors Hill Park -garður sem er rétt við þinghúshæðina - og svo Jacques-Cartier Park, sem er hinum megin við ána, þ.e. í Gatinau, Quebec. Þetta er um 20 mínútna gangur þangað, yfir Interprovential brúna (millifylkjabrúna). Við löbbuðum um öll svæðin. Í Jacques-Cartier settumst við niður enda búnar að labba í marga klukkutíma, og hlustuðum meðal annars á keltneska tónlist, fyrst frá Norður-Vancouver og síðan frá Nýfundnalandi. Þaðan löbbuðum við síðan að Þjóðmenningarsafninu og fengum okkur að borða þar á kaffiteríunni. Þegar við vorum þar hringdi Martin og var kominn í bæinn, svo hann slóst í hópinn. Næstu klukkutímana héldum við áfram að labba um og sjá það sem í boði var í bænum. Settumst meðal annars niður í Majors Hill Park og horfðum á indjánakonur syngja og dansa. Mjög skemmtilegt. Þegar við vorum aftur orðin svöng (aðallega Martin sem hafði ekki borðað með okkur á kaffiteríunni enda vorum við búnar að borða þegar hann kom), fundum við veitingastað með ekki of langa biðröð (á flestum stöðum þurfti að bíða í alla vega hálftíma) og slöppuðum þar af í um klukkutíma. Að því loknu fórum við uppá þinghúshæð á nýjan leik og hlustuðum á kvöldtónleikana þar, fólk eins og Colin James, Michel Pagliaro og Stars. Þið Íslendingar þekkið þetta fólk sjálfsagt ekkert. Á mínútunni tíu hófst svo flugeldasýningin sem var býsna góð. 

Erfiðast var að komast út af hæðinni því aðeins þrjú lítil hlið voru til að hleypa út yfir hundrað þúsund manns (um 300 þús. voru víst í bænum en ekki allir þeirra inni í garðinum). Það tók því nokkurn tíma að skríða út og þegar við komum út á Wellington, sem síðan breytist í Rideau, var þvílíkt mannhaf að ég held ég hafi aldrei séð slíkan fjölda. Alveg ótrúlegt. Og að komast í gegnum miðbæinn tók hreinlega heillangan tíma. Auður hélt svo heim enda á hún heima rétt við miðbæinn en við Martin fórum að leita að bílnum hans sem var í einni af litlu hliðargötunum í Byward market hverfinu. Þá tók að mígrigna svo við urðum holdvot. Það hafði rignt allt kvöldið en vanalega bara lítið svo við höfðum bara setið í grasinu með regnhlíf yfir okkur, og um tíma með tarpet yfir fótunum (það sem maður setur á tjaldbotna til að halda sér þurrum). Þessi rigning var margafalt verri. En flugeldasýningin var búin svo það mátti rigna. Og þótt maður yrði holdvotur var það allt í lagi því þetta var í lok kvölds og ekkert annað að gera en að fara heim og skríða undir sæng. 

En sem sagt, fínn Kanadadagur - pottþétt sá besti sem ég hef upplifað, enda Ottawa höfuðborgin og hér er víst alltaf meira um að vera en annars staðar í Kanada.  


Sigling

Stína í siglingu

Í kvöld sigldi ég á Ottawa ánni í um átta klukkutíma. Martin, sem er tölvumaðurinn okkar, er mikill siglingamaður og hafði boðið mér að koma með og var áætlunin að fara strax eftir vinnu. Það leit hins vegar ekki vel út um fjögur leytið því það var alveg mígandi rigning og rok. En við keyrðum samt niður að Aylmer höfninni í Quebec og fórum inn á veitingahúsið við höfnina. Enda bráðsnauðsynlegt að fá sér kvöldmat áður en lagt yrði af stað - ef hægt væri að fara. Það var hins vegar heldur svo að veðrið versnaði eftir að við komum þangað svo starfsmenn veitingahússins urðu að rjúka til og lokum öllum gluggum því það hellti úr fötu og allt kom inn. En á meðan við sátum þarna og spjölluðum lægði veðrið og sólin braust í gegn. 

Klukkan var ábyggilega farin að nálgast hálfsjö þegar við loksins lögðum af stað og við tóku yndislegir klukkutímar í kvöldsólinni. Í júlí sest sólin seint svo við náðum býsna mörgum tímum áður en fór að dimma eitthvað af alvöru svo við sigldum bara upp í vindinn, upp  með ánni. Uppúr ellefu var orðið nokkuð dimmt og svo fljótlega eftir það ákváðum við að fara að halda til baka. En þá voru þeir Þór og Njörður búnir að vera að bralla eitthvað og datt sama sem í dúnalogn. Það var varla að báturinn hreyfðist. En okkur var eiginlega alveg sama. Við vorum dúnklædd (bættum fleiri og fleiri fötum á eftir að nóttin lagðist yfir) og því lítið sem ekkert kalt, félagsskapurinn var frábær og góð músík um borð (þar á meðal Sigur Rós). Martin var búinn að skipta um segl, hífa seglin upp eins og hægt var en ekkert gekk. Um hálf eitt leytið var orðið ljóst að það myndi taka hálfa nóttina að komast til baka með þessu áframhaldi svo mótorinn var settur í gang og við stímdum í land.

Mikið var þetta gaman. Nú erum við að ræða um að taka heilan dag og sigla eitthvað í sólinni, synda í ánni, borða pikknikk einhvers staðar á skemmtilegum stað og njóta sjómennskunnar (ármennskunnar). Ég hef alltaf sagt að það væri sjómannsblóð í æðum mér!


Fleiri myndir

455 Wilbrod

Í kvöld flutti ég mig um set. Yfirgaf 360 Templeton og fór yfir á 455 Wilbrod, sem er í sama hverfi. Þetta er risastórt rautt múrsteinshús frá því um 1890. Ég er með herbergi í risi, sem hér er þriðja hæð. Hér uppi er lítið eldhús og baðherbergi og auka klósett. Herbergin eru þrjú en við erum bara tvær hérna þannig að  ég þarf bara að deila þessu með einni. Sem er auðvitað súperfínt. Það var svolítið rykugt hér en ég hef svona verið að þvo aðeins. Týpískur Íslendingur. Þoli ekki of mikinn skít. Kanadamenn hafa almennt miklu hærri skítaþröskuld en við Íslendingar. Og samt finnst mömmu ég alls ekki þrífa nóg. Alla vega ekki þegar ég bjó mín fyrstu ár í Reykjavík. Hún hefði átt að sjá íbúðina mína stundum í vetur þegar vinnuálagið var sem mest. Þá blöskraði mér sjálfri stundum.

Á morgun er ætlunin að fara í siglingu eftir vinnu. Tölvumaðurinn á tungumálastofnuninni, Martin, bauð mér að koma með sér og félögum sínum. Það er reyndar spáð rigningu og sjálfsagt verða þrumur og eldingar, en það sakar varla of mikið. Maður er ekki með sjómannsblóð í æðunum fyrir ekki neitt.

 


Róleg helgi

Capitol Hill

Það er sunnudagur og ég er búin að vera á fótum síðan laust eftir átta. Þegar maður þarf að vakna klukkan hálf sjö á vinnudögum er það hreinlega að sofa út að vakna um átta leytið. Þetta er mjög ólíkt mér. Ég vakna aldrei fyrr en um níu um helgar og oftast seinna. Ég sef reyndar yfirleitt ekki til ellefu eins og hér áður fyrr.

En ég nýtti morguninn þolanleg. Er búin að þvo þvott og hengja út, fá mér góðan morgunmat (sauð meira að segja egg) og laga grein sem verður birt í UBCWPL fljótlega. Fljótlega ætla ég út að labba og smá saman að mjaka mér vestur fyrir miðbæinn þar sem Rachel Wodjak býr. Ég er að fara í bröns til hennar. Rachel útskrifaðist úr málvísindum í UBC í fyrra og er alveg fanta góður málfræðingur.

Á föstudag skruppum við Auður - íslenskur nemandi hér í Ottawa - út að borða og löbbuðum svo um miðbæinn. Þar var alveg nóg að gera og ég held að það hafi allir verið í bænum. Hér er svo hlýtt að það sátu allir úti og drukku og átu og skemmtu sér. Við fórum reyndar heim upp úr ellefu, enda ég orðin þreytt og Auður ætlaði að vakna snemma og læra. Envið höfðum borðað á flottum stað sem heitir Touché og litirnir þar inni voru alltaf að breytast, borðin voru skær appelsínugul og þetta var svona almennt nútímastaður. Fékk mér vísundaborgara sem var bara alveg ágætur. Ég fékk mér reyndar svoleiðis stundum í Manitoba og verð ég að segja að þótt vísundakjötið sé býsna gott þá held ég að beljan sé nú bara betri.

Ég gær fór ég í brönns til Gurli Woods sem er danskur prófessor við Carlton. Ég þekki hana í gegnum Skandinavíu fræðin. Fékk svona ekta danskt hlaðborð. Alveg meiriháttar. Eftir á labbaði ég um bæinn svolítið, fór aðeins að versla. Kom svo heim og talaði við Danny vin minn á netinu í svolítinn tíma. Hann er náttúrufræðingur og er að fara sem leiðsögumaður á skemmtiferðaskipi sem mun koma við á Íslandi. Ja, ekki beinlínis leiðsögumaður. Frekar sem sérfræðingur í náttúruvísindum og ljósmyndari. Ég er ekki alveg viss um hvað hann gerir um borð - hann fer vanalega með fólk í alls kyns ferðir hér í Kanada, meðal annars til Hudson Bay að taka myndir af ísbjörnum, og svo mikið um Alaska, North West Territories, Yukon og Nunavut. Ég var að segja honum hvað hann ætti að gera; fá sér pylsu, fara í sund, labba upp kirkjutröppurnar, fá sér heitt kakó á Bláu könnunni. Þegar ég var að enda við að tala við hann hringdi mamma, langt komið fram yfir hennar háttatíma, og við spjölluðum heillengi. Alltaf gott að heyra að heiman. 

Ég læt hér fylgja með mynd af ráðhúsinu í Ottawa. Ég var búin að sýna ykkur mynd af því en frá öðru sjónarhorni. Þessi finnst mér flott og ég skil loksins af hverju alltaf er vísað til svæðisins í fréttum sem 'Capitol hill' - höfuðborgarhæðinnar. 


Rannís styrkur

Svo virðst sem mér hafi verið veittur einnar komma sex milljóna styrkur frá Rannís. ég er reyndar ekki enn búin að fá formlegt bréf um það enda fer pósturinn minn allur til Vancouver og ég er í Ottawa, en ég fann frétt á heimasíðu Rannís og lista yfir styrkþega og þar var mitt nafn á meðal. Þetta er auðvitað alveg frábært. Gott að fá viðurkenningu heimanað og að ég fæ einhvern fjárhagsstuðning frá mínu eigin landi. Hingað til hafa Kanadamenn borgað fyrir skólagöngu mína.

17. júní

Ráðhúsið í Ottawa

Klukkuna vantar núna fimm mínútur í tólf á miðnætti að kvöldi sautjánda júní og þjóðhátíðardagurinn er næstum liðinn. Heima á Íslandi er hann auðvitað gærdagurinn því nú sofa Íslendingar á sínu græna að morgni átjánda júní. Átjándinn er auðvitað næstum því jafn merkilegur því þann dag var Paul McCartney fæddur fyrir 64 árum. ÞIð vitið hvað það þýðir; allir munu syngja When I'm 64. Og við munum segja, Já Paul, we still need you.

Í dag hitti ég Íslendinga og Vestur Íslendinga í Ottawa sem eru ekki mjög margir miðað við slétturnar og vesturströndina. Haldinn var fagnaður heima hjá einum Íslendingnum sem býr í fallegu húsi við vatn (sem ég held að heiti Mississippi vatn). Þar voru víst um 60 í dag. Fáni var dreginn að húni, þjóðsöngurinn sunginn og svo var borðað.

Ég er núna búin að vinna fyrstu vikuna mína og það hefur bara gengið vel. Nemandinn er býsna góður og gengur alveg ágætlega. Hún hefur reyndar þurft að fara nokkuð á fundi o.s.frv. þannig að ég hef þrisvar sinnum fengið frí eftir hádegið sem hefur verið ákaflega gott. Einu sinni fór ég að versla, einu sinni fór ég að klifra og einu sinni var ég túristi og labbaði um borgina og tók myndir. Hún verður meira við í næstu viku þannig að ég mun þurfa aðeins meira að vinna. Erfiðast er að þurfa að vakna hálf sjö á morgnana. Ég hef ekki þurft að gera það í mörg ár. Heima í Vancouver vakna ég bara þegar ég er útsofin sem oftast er um níu leytið. Það sem erfiðast er er að þurfa að fara í snögga sturtu, rífa í sig matinn og rjúka út. Ég er vön að geta dundað mér á morgnana. Lesa tölvupóstinn minn, sinna ýmsum smá munum, o.s.frv. En þetta venst sjálfsagt eins og annað. Verst er að ég er orðin dauðþreytt eldsnemma.

Ég mun segja ykkur meira frá kennslunni og borginni seinna. Núna verð ég að fara að sofa .


Á leið til Ottawa

Á morgun fer ég til Ottawa. Það er alveg ótrúlegt að það skuli aðeins vera vika síðan ég var beðin um að koma til Ottawa að kenna íslensku. Svona gerast hlutirnir stundum hratt. Þannig var það næstum því þegar ég flutti til Kanada. Ég fékk að vita í byrjun ágúst að ég hefði fengið starfið og fyrsta september var ég í Winnipeg. Marion vinkona mín kom í gær og hjálpaði mér að pakka. Mér finnst það eitt það leiðinlegasta sem ég geri. Hún var mjög hörð við mig og bannaði  mér að taka nokkuð sem ég gæti ekki notað alla vega við þrennt annað. Hún náði að koma öllu í fremur litla ferðatösku og eina flugfreyjutösku af minnstu gerð. Ég mun aldrei komast með þetta allt til baka nema hún komi til Ottawa að pakka fyrir mig. Annars á ég ábyggilega eftir að kaupa eitthvað þar þannig að ég er algjörlega ristuð, eins og sagt her hér vestra. En þá verð ég bara að senda eitthvað með rútu. Það er órúlega ódýrt. Eða að borga yfirvigt! Línuskautarnir taka mikið pláss.

En sem sagt, næst þegar ég sendi póst verð ég í höfuðborg Kanada.


Af undanförnum dögum

Ottawa 

Ókei, það er orðið allt of langt síðan ég skrifaði. Það er að hluta til vegna þess að ég fór til Toronto í viku - á ráðstefnu - en ég hafði svosem aðgang að pósti á meðan ég var þar svo ég hefði getað fært inn reglulega. En einhvern veginn hefur svo margt gerst að í stað þess að skrifa á fullu um það allt endaði ég á því að skrifa ekkert.

Öfugt við bækur sem svona oftast nær byrja  á því sem fyrst gerðist ætla ég að rekja mig svona nokkurn veginn afturá bak. Ekki þannig að frá öllu sé sagt í öfugri röð en svona í megindráttum.

Sumarið mitt átti að vera afslöppunarsumar með svona þriggja til fjögurra tíma vinnu á dag (að ritgerðinni) og að öðru leyti ætlaði ég að dunda mér á ströndinni, fara í langa göngutúra o.s.frv. En þess í stað verður þetta vinnusumar. Á mánudaginn var hringt í mig og ég beðin um að koma til Ottawa og kenna íslensku í sumar. Nemendurnir verða verðandi sendiherra Kanada á Íslandi og eiginmaður (eða eiginkona - veit það ekki fyrir víst). Ég ætlaði ekki að gera þetta því þetta eyðileggur alveg afslöppunina, en kostirnir eru:

1. Ég hef aldrei komið til Ottawa
2. Það eru aðeins tveir tímar til Montreal og ég hef heldur aldrei komið þangað
3. Hver veit nema að ég fái góð sambönd
4. Peningar
5. Aukin reynsla
6. Nýtt fólk og ný ævintýri

Gallar:

1. Ég mun augljóslega ekki vinna mikið að ritgerðinni minni
2. Þekki engan þarna
3. Engir klifurfélagar, og þar að auki þyrfti ég að borga aftur ef ég færi í klifursal þarna (er með árskort hér)
4. Get ekki spilað lengur með fótoltaliðinu mínu
5. Ottawa er ekki við sjóinn, þar af leiðir, engin strönd.

En ég hef sem sagt ákveðið að skella mér og undirbúningstíminn er stuttur - ég flýg á mánudaginn. Seg ykkur meira frá þessu síðar

 

Toronto

Toronto ferðin heppnaðist vel. Ég flutti tvo fyrirlestra og gekk vel í bæði skipti. Ég kynntist ekki mörgu nýju fólki en styrkti böndin við fólk sem ég hef hitt áður á þessum ráðstefnum. Skandinavíufélagið var aftur með partý heima hjá Börje (finnskukennara í Toronto - við fórum þangað líka þegar ráðstefnan var síðast í Toronto) sem á hús við Simcoe vatn. Hann er auðvitað með gufu í litlu húsi niður við vatnið. Alvöru Finni. Eftir að ráðstefnunni lauk fór ég niður í miðborgina (York háskóli er í norðurhluta borgarinnar, um það bil klukkutíma frá miðborginni), borðaði hádegisverð með Brian vini mínum, síðan gengum við um í klukkutíma eða svo og þá þurfti ég að halda út á flugvöll. Toronto er ekkert sérlega skemmtileg borg. Ég myndi flytja þangað ef ég fengi vinnu en ég er ekkert sérlega spennt fyrir því að vera þar. 

 

Slysið

Ég fékk vondar fréttir að heiman þegar ég var í Toronto. Ég var að lesa moggann á netinu og sá þá að það hefði kviknað í Akureyrinni og tveir sjómenn farist. Haukur bróðir er á Akureyrinni og ég gat varla andað. Ég rauk út af fundinum sem ég var á (já, ég var að skoða tölvupóst á meðan ég var á fundi - það var verið að ræða eitthvað leiðinlegt) og hringdi heim. Enginn svaraði hjá mömmu og pabba, sem var skrítið því klukkan var býsna margt heima...nei bíddu, kannski ekki svo margt. Toronto er þremur tímum nær Íslandi en Vancouver er. Alla vega, ég hélt að klukkan væri orðin svo margt og þau ekki heima. Það auk á áhyggjurnar. Sem betur fer náði ég á Gunna sem gat sagt mér að það væri í lagi með Hauk. Mér létti mikið en eins og Gunni sagði, þá þýðir þetta bara það að einhver önnur fjölskylda hafði misst ástvin. Þetta var svo hræðilegt. Ég veit eiginlega ekkert ennþá. En svona er alltaf skelfilegt. Bruni er alltaf hræðilegur en úti á sjó. Þar er ekki hægt að hlaupa út úr húsinu og horfa á eldinn taka yfir. Það verður að slökkva. Það er ekki um annað að ræða. Mér skilst að sjómennirnir hafi staðið sig frábærlega við að ná tökum á eldinum en það var hörmulegt að hann náði fyrst tveimur mannslífum. Hugur minn er með fjölskyldum mannanna tveggja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband