Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig er hægt að læra í góða veðrinu?

Stóra spurning dagsins er þessi: Er sumarið komið? Hitinn á að fara upp í nítján gráður í dag með tilheyrandi sólskini. Samkvæmt vefsíðum er reyndar bara þrettán stiga hiti eins og er (klukkan er ellefu) en ég skaust út á tröppur að kanna málið og það var orðið býsna heitt. Ég stóð reyndar ekki lengi þar því ég er enn á náttfötunum (jájá, stundum fer ég ekki úr þeim fyrr en klukkan fimm á daginn - ef ég ef ekkert út að gera) og það eru enn vinnumenn í nýja húsinu við hliðina.

Ég er að reyna að koma með plan fyrir daginn. Ég er að hugsa um að setja bæði tölvu og klifurbúnað í bakpokann og fara svo bara út og spila þetta eftir hendinni. Ég hugsa að ég labbi niður í Kits, setjist á eitthvert kaffihús, vinni um stund, haldi svo áfram austureftir og klifri í klukkutíma eða svo. Svo þyrfti ég reyndar að koma við í Costsco því ég er búin með asíska salatið mitt svo ég þarf nýjar birgðir. Ég ét þetta eins og sælgæti. Það er náttúrlega fínt. Hvort er betra fyrir líkamann, súkkulaði eða niðurskorið grænmeti?

Í morgun las ég fréttir um það að alls kyns hópar séu þegar farnir að útbúa ítarleg plön um mótmæli gegn Vancouver Ólympíuleikunum. Sumir hafa reyndar hafið starfsemi nú þegar með því að henda málningu á Ólympíuklukkuna og fleira, en miklu stærri mótmæli eru plönuð. Þarna er um að ræða hópa anarkista, herskárra indjána (first nations warriors), samtök gegn fátækt, stúdenta, ofl. hópa. Mér finnst allt í lagi að fólk mótmæli og þetta er auðvitað ágætur vettvangur en ég vona að ekki verði gripið til mjög alvarlegra eða hættulegra aðgerða. Þetta verður vonandi innan skynsemdamarka. 


Mögnuð skíðaferð á Blackcomb

Við Lína skelltum okkur til Blackcomb á skíði í dag. Fyrir þá sem ekki vita er Blackcomb hluti af Whistler skíðasvæðinu. Whistler skíðasvæðið samanstendur af tveim fjöllum, Whistler og Blackcomb, sem standa hlið við hlið og við rætur beggja liggur Whistler þorpið. Á þessum tíma árs þykir ekki lengur þess vert að halda báðum fjöllum opnum og vanalega er það Blackcomb sem lokar, en að þessu sinni er búið að loka Whistler því þar eru framkvæmdir fyrir Ólympíuleikana í fullum gangi. Verið er að byggja kláf á milli fjallanna tveggja.

Í dag var því skíðað á Blackcomb. Liðin er ein og hálf vika síðan ég fór síðast og mikið hefur bráðnað af snjó. Enda kannski ekki skrítið - hitinn í dag fór upp í 15 stig. Sól skein og það var hreinlega yndislegt að vera úti. Glacier Express t-lyftan var opin í dag, ólíkt því sem var síðast, svo ég dró Línu með mér á jökulinn. Þetta er ný leið sem opnaði bara í fyrra held ég. Þegar maður er kominn efst með T-lyftunni þarf maður að labba nokkra metra upp að stórum kletti og síðan eftir örmjóum stíg undir klettinum. Fyrir neðan er brött brekka. Þetta hefur aldrei verið neitt vandamál fyrir mig en í dag var ástandið öðruvísi. stígurinn var mjórri en vanalega og ekki eins djúpur. Mér fannst ég aldrei hafa almennilegt grip með skíðaklossunum, og á sumum stöðum var verulega hált. Ég sem hafði haft skíðin á öxlunum tók þau niður og notaði skíðin til að halda jafnvægi öðru megin og stafina hinum megin. Ég fór mér hægt yfir og passaði mig á að líta ekki niður. Á myndunum hér til hliðar má sjá þá sem á eftir mér komu, m.a. Línu í fjólubláum jakka og ég lofa ykkur því að þótt þetta virðist ekkert svakalegt á myndunum þá var þetta býsna bratt þarna. 

Stuttu eftir að Lína kom yfir datt náungi framaf og hann rann niður í hálf brekkuna áður en hann náði að stoppa sig. Það var nú allt í lagi með hann. Það hefði verið verst ef hann hefði fengið skíðin í höfuðið eða eitthvað svoleiðis. Eins og sjá má á myndinni missti hann fyrst stafina og svo skíðin en hélt sjálfur áfram aðeins neðar. Hann varð síðan að rölta upp hluta brekkunnar og setja á sig skíðin en gat svo rennt sér bara niður þarna. Hann missti þá bara af útsýninu dásamlega. 

Lina posing    Me at the top

Hér má sjá okkur Línu hrikalega flottar uppi á brúninni (ekki alveg uppi á brún reyndar, það er hægt að fara heldur hærra) áður en við skíðuðum niður. Færið var ekki slæmt en það voru nokkuð margir búnir að skíða þarna undanfarna daga og ekkert hafði snjóað þannig að við þurftum í gegnum hálfgerða ruðninga. En þetta var nú samt þokkalega skemmtilegt.

Þegar við komum niður í dalinn stoppuðum við til þess að njóta náttúrunnar. Þetta svæði er uppáhaldssvæðið mitt á öll Whistlersvæðinu. Ekki af því að það séu betra að skíða þarna heldur vegna umhverfisins.

 More view up the glacier     The two crazy Icelanders

Annars verð ég að viðurkenna að við enduðum á því að hanga þarna í jökuldalnum heldur lengur en kannski æskilegt var. Við vorum náttúrlega búnar að borga hellings pening til að skíða og svo endum við bara á því að finna okkur bekk og sitja í sólbaði. En vitiði það, það var bara allt í lagi. Við vorum úti hreinu fjallaloftinu og dásamlegri náttúrunni og skemmtum okkur konunglega þótt við værum ekki á skíðum allan tímann. En sem sagt á myndunum hér fyrir neðan má sjá hvað við vorum að gera.

 Resting   More resting

Við komum okkur að lokum á lappir, renndum okkur niður þessa 4,8 kílómetra leið niður að nálægustu lyftu, fórum upp aftur og yfir að 7th heaven lyftunni og renndum okkur þar nokkrar ferðir, fengum okkur að borða, renndum okkur meira og fórum svo niður klukkan hálf fjögur þegar hærri lyfturnar lokuðu. Við hefðum eflaust getað farið eina ferð í viðbót í neðri brekkunum en snjórinn þar var blautur og við vorum í raun orðnar þreyttar. Vorsnjórinn er miklu þyngri og erfiðari en sjórinn yfir háveturinn. 

Við vorum því hamingjusamar og heilsusamlegar þegar við komum niður í þorp og verðlaunuðum sjálfar okkur með pönnukökum.

Við vorum komnar í bæinn klukkan átta og þá tók við maraþonhokkíáhorf hjá mér. San Jose Dallas fóru í fjórar framlengingar sem enduðu með sigri Dallas. Dallas mun því spila við Detroit um sigur í vesturdeildinni og Pittsburgh spilar við Philadelphia. Það er því ljóst að hvorugt liðanna sem ég spáði í úrslitaleiknum verður þar og því ætla ég að endurskoða spá mína og segja Detroit-Pittsburgh. Annars er Dallas búið að plata mig nú í tvær seríur þannig að þeir gætu svo sem allt eins haldið því áfram og unnið Detroit - nah!

 

 

 

 


Skíði, hokkí og Sprengjuhöllin

Veðrið er dásamlegt á Stórvancouversvæðinu og við Lína ætlum að skella okkur til Whistler. Þar á að vera sól og hiti líka þannig að búast má við blautari snjó en verið hefur undanfarið en það ætti að vera allt í lagi. Aðalatriðið er að fara á skíði og skemmta sér.

Í gær slógu fantarnir í Philadelphia Flyers síðasta kanadíska liðið, Montreal, úr Stanleybikarkeppninni. Það er því ljóst að það verður ekki kanadískt lið sem hampar titlinum í ár (frekar en undanfarin ár). Og ég hafði rangt fyrir mér um það hvaða lið myndu spila til úrslita. Ég sagði að það yrðu Montreal og San Jose. Nú er Montreal úti í kuldanum og San Jose verður að vinna Dallas í kvöld bara til að halda sér í baráttunni. Ég virðist því ekki mjög sannspá. Ég mun annars missa af megninu af leiknum þar sem við verðum ábyggilega að keyra niður frá Wistler á þeim tíma. Ég treysti á að Mark hringi í mig eftir hvert mark sem skorað er (...hmmm....Mark hringir eftir hvert mark...hljómar undarlega) og láti mig vita hvernig gengur. Við viljum endilega fá sjöunda leikinn í þessari seríu.

Ég las annars í gær að Sprengjuhöllin væri að koma hingað til Vancouver og yrði með tónleika sem hluta af NewMusicWest tónlistarhátíðinni. Ég hef eiginlega aldrei hlustað á þá...eru þeir þess virði að fara og hlusta? Hvað segið þið? 


Trevor Linden og snertur af ólympíufílingnum

Ég vissi að ég ætti eftir að færast nær stjörnunum við það að fara að vinna fyrir Ólympíunefndina. Í dag fór ég á minn fyrsta hádegisverðarfund (þótt ég eigi ekki að byrja að vinna fyrr en eftir mánuð) með yfirmönnum mínum og við hittumst á fínum veitingastað hérna í hverfinu mínu, The Province. Og hver kemur og sest við næsta borð annar en elskaðasti hokkíleikari Vancouverborgar, Trevor Linden. Vá, ég vissi að hann var myndarlegur karlmaður en að sjá hann svona í eigin persónu í þriggja metra fjarlægð...! Flott klæddur líka. Flottur í alla staði. Mauree og Sally, yfirmenn mínir, föttuðu ekkert hver hann var en ég sagði þeim það eftir að Trevor var farinn. Maureen uppgötvaði að hún hefði setið beint á móti Linden og ekki haft hugmynd um það. Ég þakkaði hins vegar mínum sæla fyrir að hafa ekki setið í sæti Maureen því ef ég hefði haft Trevor Linden fyrir framan mig heilan málsverð þá efast ég um að ég hefði heyrt neitt af því sem yfirmenn mínir hefðu sagt. Ég hefði bara setið og starað. En í staðinn þurfti ég að snúa höfði aðeins itl að sjá hann og ég vildi ekki gera manngreyið vandræðalegt með því að stara.

Fundurinn var annars frábær. Báðar þessar konur hafa komið að nokkrum Ólympíuleikum nú þegar og höfðu frá mörgu að segja. Sally hefur m.a. verið dómari í skautaíþróttunum. Sem listskautamanneskja finnst henni auðvitað hokkí vera tímasóun á svelli en viðurkenndi þó að þeir væru alveg ótrúlega fallegir sumir þessir strákar. Hehe, og hún hefur komið í búningsklefa landsliðsmannanna þar sem hún hefur líka haft þá stöðu að vera yfir öllum kanadísku íþróttamönnunum á leikunum í Salt Lake City.

Þær sögðu mér að daginn fyrir opnunarathöfnina yrði generalprufa og þar fengju allir starfsmenn og allir sjálfboðaliðarnir að taka þátt en svo á sjálfri athöfninni þá yrði ég líka að vera á staðnum því það verður mitt fólk sem þarf að vera til staðar þar sem öll mikilmennin, kóngarnir og forsetarnir, sitja. 

Ég er strax farin að hlakka til.  


Maístjarnan og öll hin lögin

Nú er bara einn og hálfur tími eftir af verkalýðsdeginum en það er allt í lagi því að ég er búin að syngja Maístjörnuna (undir báðum lögum og tangóútgáfuna tvisvar), Nallann og Fram allir verkamenn. Það er reyndar enginn verkalýðsdagur í Kanada í dag. Hér er hann haldinn hátíðlegur á haustin, fyrstu helgina í september.

Ég flutti einmitt til Kanada fyrsta september 1999 og fyrsta helgin mín í landinu var einmitt hin svokallaða verkalýðshelgi, eða labour day weekend. Þá fór ég í partý með öllum helstu rithöfundum Manitobafylkis en ég þekkti náttúrulega ekki til neins þeirra og var því kannski ekki með eins miklar stjörnur í augum og ég hefði kannski getað verið. Ég man að það var mígandi rigning og kuldi alla helgina en mér alveg sama því ég var nýkomin til spennandi lands, ég var á Víðirnesi (rétt sunnan við Gimli) og það var spennandi ævintýri framundan. Ég trúi því ekki að í haust verða liðin níu ár síðan.

En nú er ég farin út af sporinu því þetta blogg átti að fjalla um verkalýðsdaginn. Ég er hins vegar orðin allt of þreytt til þess að ég geti skrifað meira. Enda er ekki lengur eftir einn og hálfur tími af fyrsta maí. Ég lenti í símanum í dágóðan tíma og nú er allt í einu kominn annar maí og enginn verkalýðsdagur neins staðar.


Til að sanna að hlaupið átti sér stað

Mér fannst ég verða að deila þessari mynd með ykkur þótt hún sé í rauninni hræðileg. Ég veit ekki hvernig ég náði að snúa svona upp á bolinn minn og allur litur virðist farinn úr andlitinu. Þar að auki er ég algjörlega hálslaus en ömmusystir mín átti nú skýringuna á því - allar Brekkusysturnar (amma mín og systur) voru hálslausar. Þetta sagði hún saklausri búðarkonu í Reykjavík fyrir nokkrum áratugum - var þá ekki að vísa í hálsleysi mitt á þessari mynd heldur sitt eigið hálsleysi og systra sinna.

Myndin er tekin, eins og sjá má, í Sólarhlaupinu um daginn. Þeir eru með myndavélar á rásstað og við mark og taka myndir af öllum sem fara þar fram hjá. Ég fékk mína eigin mynd og er náttúrulega stolt af því.

Við þetta má bæta að Lína var ákaflega ánægð með að ég skyldi vera í bleikum bol því það var alltaf auðvelt að finna mig. Sjálf var hún í appelsínugulu og því álíka auðfundin - nema eftir að við komum í höllina þar sem allir sjálfboðaliðarnir voru í appelsínugulu. 

 


Þegar Íran fór afturábak

Saga Íran er mjög athyglisvert og þá sérstaklega hvað snertir tengsl þeirra við hinn vestræna heim. Shah Reza Khan var mjög hallur undir vestræna menningu og innleiddi ýmsa evrópska siði í Íran en það sem hann gerði kannski best fyrir landið var það að hann reyndi að frelsa konur og gyðinga undan oki því sem báðir hópar voru undir af höndum mullahnna, eða hinna trúarlegu leiðtoga landsins. Þannig lokaði hann til dæmis gyðinga-ghettóunum og veitti gyðingum sömu stöðu og öðrum íbúum landsins, og hann gaf konum kosningarétt og bannaði notkun blæjunnar. Sonur hans fetaði í sömu fótspor og hélt hinni vestrænu menningu á lofti.

En þetta féll ekki í góðan jarðveg hjá trúarleiðtogum landsins - Ajatollah Khomeini tók við völdum eins og allir vita og  konur voru aftur faldar undir blæjum og komið fram við þær eins og annars flokks þegna landsins. Fjölmargir flúðu landið, m.a. konan hér í fatahreinsuninni í hverfinu mínu. Við höfum stundum spjallað saman um ástandið í landinu hennar.

Ég mæli annars með bókinni Cry of the Peacock eftir Ginu Nahai. Þetta er skáldsaga sem fjallar um síðustu tvöhundruð ár í Íran (megnið af tímabilinu Persíu) og þá sérstaklega sögu gyðinga í landinu. Bókin er nokkuð hrottaleg því þarna er lýst samfélagi sem ver mjög ólíkt því sem við eigum að venjast og oftar en einu sinni sat ég með hnút í maganum. En á sama tíma er þetta ótrúleg frásögn og ég átti erfitt með að leggja bókina niður.

Sjá dóm hér: http://www.bookreporter.com/reviews/0743403371.asp 


mbl.is Barbie ógnar íranskri menningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það bragðast illa en það virkar

Til er hóstamixtúra sem framleidd er af Buckley's og auglýsir stíft hér vestra. Auglýsingar þeirra hafa alltaf pirrað mig því þeir segja: 'Buckely's: Það bragðast illa og það virkar.' Mér finnst alltaf að þeir ættu að segja: 'Buckley's: Það bragðast illa EN það virkar.' Þegar þú parar vont með góðu þá á tengingin að vera EN, en ekki OG. Mín skoðun, staðfest af grunnrökfræði.

En hvað um það, í gær vaknaði ég upp með slæman hósta niður í brjóst og af því að ég vil alls ekki vera kvefuð í næstu viku þá ákvað ég að prófa Buckley's. Ég er vön því að hóstamixtúra bragðist illa þannig að mér fannst nú ekki ástæða til að óttast Buckley's. Ég fór út í búð og keypt mixtúruna, fór með hana heim og skrúfað tappann af flöskunni. Tók stóran gúlpsopa. Aaaarrrrrggggghhhh. Þvílíkt ógeð. Slær út allar aðrar hóstamixtúrar. Ógeðslegra en norskir brjóstdropar. Miklu ógeðslegra meira að segja (en ekki eins slæmt í magann - ég get aldrei tekið þessar norsku því ég fæ alltaf magaverk). Greinilegasta bragðið var ammóníak. Ég vissi að það virkaði vel á moskítóbit en vissi ekki að það væri gott fyrir kvef. Innihalda, potassium bicarbonate, ammonium carbonate, menthol og camphor. Ég drakk þennan fjanda af og til, fór og spilaði fótbolta (við unnum 8-5) og kom ekki heim fyrr en klukkan eitt í nótt (eftir að hafa beðið lengi vel eftir strætó). Og samt sem áður...þegar ég vaknaði í morgun var í töluvert mikið betri. Ég er ekki laus við kvefið, alls ekki, en mér finnst ég miklu hressari en í gær. Kannski ég losni við þetta í tæka tíð!

Niðurstaða
Buckley's: Það bragðast illa en það virkar!


Stjarna Trudeau skín enn á hinum kanadíska himni

Það er alltaf sama stuðið í Montreal - fransmennirnir eru einfaldlega blóðheitari en afkomendur Bretanna.

Fyrir nokkrum dögum varð allt vitlaust í óeirðum vegna sigurs Montreal Canadiens á Boston Bruins í hokkíinu og til að fagna sigri voru bílar brenndir og eyðilagðir. Þrisvar sinnum í sögu Kanada hefur verið skotið á nemendur í skóla - í öll skiptin gerðist það í Quebec, og FLQ málið er einstakt í sögu landsins. 

En hvernig stendur á því að verið er að ráðast gegn minningu Trudeau núna? Það eru engar kosningar í nánd svo ég viti til, nema Quebec sé að fara að kjósa í sveitastjórnarkosningum. Ekkert hefur gerst í landsmálunum sem útskýrir þetta; flokkur Trudeau er ekki einu sinni við völd. Kannski Justin sonur hans hafi gert eitthvað að sér. Hann er að reyna að feta í fótspor föður síns.

Það er annars merkilegt að skoða stöðu Trudeau hér í Kanada. Hann var á sínum tíma bæði elskaður og hataður en í minningunni er hið jákvæðara heldur sterkara. Flestir eru sammála um að landið hafi aldrei átt annan eins stjórnmálamann.

Fyrir nokkrum árum keypti ég kanadísku útgáfuna af Trivial Pursuit og það sem mér fannst merkilegast var hversu margar spurningar voru um Trudeau. Einu sinni spiluðum við Tim leik þar sem við höfðum ímyndaðan þriðja leikmann sem mátti aðeins svara með fyrirfram ákveðnum svörum. Í spurningaflokknum um fólk og sögu var svarið alltaf Trudeau. Í íþróttaspurningunum skiptust á Wayne Gretsky og Maurice Richard (tvær hokkístjörnur) og í landafræði var svarið Kanada ef spurningin var jákvæð, en ef spurningin var neikvæð þá var svarið hinn kosturinn sem boðið var uppá. Hinn takmarkaði þriðji spilari vann ekki spilið en fékk þó að minnsta kosti tvær kökur. Tel ég það nokkuð gott.

 


mbl.is Skemmdir unnar á grafreit Trudeau
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á skíðum í Blackcomb

Ég skellti mér á skíði í gær og er þetta líklega síðasta skíðaferð mín á vertíðinni. Enda eru búið að loka stórum hluta skíðasvæðisins. Whistler fjall var alveg lokað og allt komið á fullt í framkvæmdum, og hluti Blackcomb fjalls var líka lokaður - allur neðri hluti fjallsins og stór hluti framhliðarinnar. 7th heaven stólalyftan var opin, svo og Glacier Express og Jersey Cream, og ein t-lyfta. Það var allt og sumt.

Snjórinn var almennt fremur góður en reglulega skall á með þoku á tindunum og þá var erfitt að sjá hvernig snjórinn lá. En þegar sólin skein var þetta yndislegt. Ég náði mér meira að segja í smá brunku.

Það leit reyndar ekki vel út með ferðina niður. Búið var að loka neðsta hluta fjallsins sem þýddi að maður varð að taka gondólann niður. Nema hvað, þegar ég kem niður að efsta hluta gondólans er hann ekki í gangi og biðröðin eru ógurlega löng. Ég sá fram á að ég myndi ekki ná hálffimm rútunni til Vancouver og sú sem næst kemur á eftir er ekki fyrr en hálf sjö sem þýddi að ég yrði ekki komin heim til mín fyrr en laust fyrir tíu um kvöldið. Ég spjallaði aðeins við mann sem þarna stóð álengdar og hann sagði mér að það væri í raun hægt að renna sér niður þótt leiðin væri lokuð. Maður þyrfti hins vegar hugsanlega að taka af sér skíðin og labba yfir vegina sem búið var að ryðja út um allt fjall. Ég spurði líka starfsmann sem staðfesti þetta en sagðist ekki geta ráðlagt mér að skíða niður fyrst hún væri í vinnunni. Ég las út úr þessu að hún mætti ekki gefa mér leyfi til að renna mér niður en það væri vel hægt. Svo ég elti hina sem fóru undir girðinguna og renndi mér niðreftir. Það tók ekki nema um tíu mínútur og ég var fegin að vera á skíðum en ekki snjóbretti því á sumum stöðum var snjórinn orðinn svo blautur að maður varð að ýta sér vel til að komast yfir. Ekkert mál var að fara yfir vegina tvo sem skáru fjallið því búið var að hlaða snjó yfir á mikilvægum stöðum og ég renndi mér alla leið niður í þorp án teljandi vandræða. Gat því tekið mér tímann við að ná í skóna mína og skíðapokann í geymslu og gat meira að segja kíkt við í búð og fengið mér kaffi. Var ákaflega fegin að standa ekki í biðröð upp í miðju fjalli.

Ég set inn nokkrar myndir frá deginum. Þið getið séð hversu fallegt er hér og hversu mikill snjórinn er enn í fjöllunum. 

 Enjoying the view  The alpine

When the sun starts shining  Again and now in colour

Glacier Express  The walkway

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband