Færsluflokkur: Bloggar
Aðalmálið er ekki...
21.12.2007 | 20:34
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga um þessa frétt en mér finnst ég verða að minnast á eitt atriði hér sem virðist fara ógurlega fyrir brjóstið á mörgum.
Fyrst vil ég þó taka eftirfarandi fram:
1. Ég held að það hefði verið betra fyrir Femínistafélagið að koma boðskap sínum á framfæri á aðeins nærgætnari hátt.
2. Óskin hefði átt að vera um að FÓLK hætti að nauðga, ekki bara karlmenn, því þótt karlmenn séu gerendur í rúmum 90% tilfella eða svo (án þess að ég hafi neinar tölur fyrir framan mig), þá eru konur gerendur í sirka 10% tilfella og við hljótum öll að vilja að þær hætti líka að nauðga.
En hér kemur að því sem hefur pirrað mig mest í umræðunni. Fólk virðist vilja lesa út úr þessari ósk Femínistafélagsins að þau séu að ásaka alla karlmenn um það að vera nauðgarar. Ég get ekki verið sammála þessu. Lítið á eftirfarandi ósk:
Ég óska þess að allir hætti að reykja.
Finnst þeim sem ekki reykja þessi ósk ósæmanleg? Finnst þeim vegið að sér? Finnst ykkur þessi fullyrðing gefa það í skyn að allir reyki? Ekki mér. Mér finnst merkingin einfaldlega eiga við þá sem reykja því eingöngu þeir sem reykja geta hætt að reykja. Við hin getum það einfaldlega ekki (nema við byrjum fyrst að reykja).
Mér finnst það sama með óskina frá Femínistafélaginu. Þeir hljóta að eiga við þá karlmenn sem nauðga (og ættu auðvitað að eiga við alla sem nauðga eins og ég nefndi áður). En það að allir karlmenn taki þetta til sín og fari að móðgast og þykjast vera ásakaðir um að vera nauðgarar er auðvitað bara útúrsnúningur. Það ætti að ekki að vera aðalmálið í þessari umræðu.
Ég vona að engum verði nauðgað um þessi jól (hvorki af karli né konu), ég óska þess að allir fái nóg að borða, að enginn verði fyrir ofbeldi, hvorki líkamlegu né andlegu, og ég vona að allir hafi einhvern til þess að faðma og kyssa og óska gleðilegra jóla.
![]() |
Ekki um jólakort að ræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Sorgarfréttir
19.12.2007 | 00:02
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jólapakkar og fleira
15.12.2007 | 06:52
Þetta var hinn mesti rólyndisdagur. Ég vaknaði snemma, tók mér góðan tíma í lestur morgunblaðsins (ekki þó moggans), setti súkkulaði á nokkrar smákökur, skaust með kökur til Rosemary sem er nýkomin úr uppskurði, fór svo á fund með Hotze, öðrum umsjónarkennara minna. Það var góður fundur og hann segir að ég sé á réttri leið. Ítrekaði líka að ég verð ekki að útskýra allt. Ég hef tilhneigingu til þess að verða pirruð ef ég á ekki svör við öllu.
Eftir þann fund fór ég á kaffihús með Akimi sem er einn framherjanna í fótboltaliðinu mínu. Hún byrjaði með okkur í haust og er alveg fínasta manneskja. Ég fæ oft far með henni á leiki og æfingar og ég held við gætum orðið góðar vinkonur. Við erum líka á svipuðum aldri.
Á leiðinni heim af kaffihúsinu kom ég við á pósthúsinu að sækja pakka sem hafði verið sendur heim í gær en enginn var heima svo þeir fóru með hann aftur. Þetta var jólapakkinn frá mömmu og pabba, drekkhlaðinn jólagjöfum og súkkulaði. Ég er búin að vera að háma í mig fyllta konfektmola frá Nóa Siríusi. Er örugglega búin að bæta á mig þessum sjö kílóum sem ég var búin að missa. En svona í alvöru, mikið er konfektið frá Nóa Siríusi gott. Og mamma og pabbi eru algjörir snillingar því þau keyptu kassa sem hefur bara fylltu molana - uppáhaldið mitt. Þá eru þeir allir jafngóðir. Ég fékk líka Ópal og Tópas og lakkrís og Siríus rúsínusúkkulaði. Það eina sem þau klúðruðu var appelsínusúkkulaðið. Ég er svo hrifin af appelsínusuðusúkkulaði frá Mónu en fékk í stað þess appelsínurjómasúkkulaði frá Lindu. En þeim fyrirgefst þessi yfirsjón algjörlega því ég fékk allt annað sem mér líkar. Mikið er gott að eiga svona yndislega foreldra sem sjá til þess að maður fá það sem mann langar í. Ég veit líka að ég fæ enn meira nammi því tveimur dögum fyrr kom pakkinn frá Geira bróður og hann er alltaf svo rausnarlegur og sendir mér góðar gjafir og hann sendir líka alltaf nammi með að auki. Að þessu sinni var því pakkað inn en svona þokkalegt þukl kemur upp um slíkt.
Ég er ennþá algjört barn þegar kemur að jólagjöfum. Ég þarf alltaf að þukla pakkana og reyna að geta hvað er í þeim. Að þessu sinni var það reyndar ekki of erfitt. Þarna má finna bækur, geisladiska, lopapeysuvesti (OK, fattaði það ekki á þuklinu, mamma var búin að segja mér það) og svo tvo undarlega pakka sem ég get ekki alveg áttað mig á. Mig langar að opna þá strax en verð að stilla mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Samþykkt grein, kökubakstur og fleira
14.12.2007 | 07:39
Ég fékk góðar fréttir í dag. Hljóðfræðigreinin sem ég skrifaði með Bryan var samþykkt af tímaritinu Journal of the Acoustic Society of America: Express Letters. Þetta er önnur ritrýnda greinin sem ég fæ birta á þessu ári þannig að ég er að vonum ánægð. Það er líka eins gott því ég tók mér frí frá ráðstefnum svo ég gæti einbeitt mér að ritgerðinni og hef því litlu bætt við ferilskrána þetta árið. En birtar greinar eru auðvitað mun betri fyrir ferilskrána en ráðstefnur.
En ég ætti nú að fara og skrifa útdrátt að svo sem einum fyrirlestri því ég held að þetta nýja efni sem ég hef verið að vinna að gæti verið gott efni á ráðstefnu. Ég stefni alla vega að því að tala á fundi Málfræðifélags Kanada því sú ráðstefna verður hér í Vancouver í vor.
Hér var annars slydda í allan dag en náði þó varla að festa snjó. Þetta er búið að vera hið undarlegasta veður hér að undanförnu. En spáin er fyrir rigningu alla næstu daga sem er mun kunnuglegra veðurfar hér á vesturströndinni.
Ég er annars að baka smákökur. Er búin með eina sort og er með aðra í ofninum. Þarf hins vegar að fara að sofa því klukkan er orðin hálftólf.
Vancouver tapaði í kvöld fyrir San Jose eftir að hafa snilldarlega unnið Stanley meistarana í Anaheim í gær. San Jose hefur einfaldlega betra lið. Hef trú á því að það verði San Jose og Detroit sem berjast um vesturtitilinn í vor og að sigurliðið þar muni svo spila á móti Ottawa. Vancouver er með gott lið en ekki eins gott og þessi þrjú.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Flott auglýsing
13.12.2007 | 06:07
Uppáhaldsauglýsingin mín þessa dagana er nýja auglýsingin fyrir Jeep Liberty. Ég hlæ í hvert sinn sem ég sé hana og er farin að raula lagið í þokkabót. Svona eiga góðar auglýsingar að vera:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Stína fúla
11.12.2007 | 07:25
Ég er í hálffúlu skapi í kvöld. Hér eru nokkrar ástæðnanna fyrir því.
- Í kvöld töpuðu Canucks fyrir Kings sem eru í neðsta sæti deildarinnar.
- Ég fékk ekki tölvupóst sem ég hélt ég myndi fá í dag.
- Ég hef ekki komist til að klifra í heila viku (það var verið að færa klifursalinn í nýtt húsnæði) og óvíst hvenær ég kemst næst.
- Ég er búin að missa einbeitinguna í hollustunni (er farin að borða óhollar og dett í snakk á kvöldin - er hrædd um að ég muni bæta aftur á mig).
- Hef ekki þorað út að hlaupa í langan tíma því það er búið að vera kalt og ég er enn með vott af kvefi.
- Finn ekkert ódýrt fargjald til Íslands um jólin og mun því líklega enn á ný eyða þeim fjarri fölskyldunni. Það er í fjórða skiptið á síðastliðnum fimm árum.
- Langar að baka smákökur en er hrædd um að ég muni detta í þær sjálf og ná á mig öllum 16 pundunum sem ég missti.
- Langar oftar á skauta en fæ engan með mér. Get ekki gert allt ein.
- Langar í rómantík en gengur ekkert.
- Er orðin endanlega þreytt á almenningssamgöngum eftir að hafa staðið í heilan klukkutíma í kuldanum á laugardagskvöldið (á milli eitt og tvö um nóttina) eftir fótboltann, bíðandi eftir strætó.
- Er fúl yfir að þurfa að borga fimm þúsund krónur fyrir rafmagn og hita og samt vera kalt heima hjá mér.
- Finnst að ég eigi að fá að hitta Alain Vigneault en er nú búin að búa í sömu borg í rúmt ár án þess að rekast á hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
I'd like to teach the world to sing...
8.12.2007 | 23:03
Er eitthvað sem kemur manni betur í jólaskap en þetta?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ástin
8.12.2007 | 06:47
Stjörnuspáin (sem reyndar er enn og aftur heilræði fremur en spá) fyrir meyjuna er svo falleg í dag að ég varð endilega að setja hana inn hér svo enginn missi af henni:
Ástin gefur af sér lífið, gefur því pláss til að anda og dansgólf. Finndu ástæður til að elska, jafnvel þótt hjartað hafi brostið nokkrum sinnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Starbucks klikkar ekki
7.12.2007 | 23:07
Ég hef átt erfitt með að festa mig við lærdóminn upp á síðkastið. Þar að hluta til vegna þess að ég hef þurft að standa í alls konar snatti - kaupa jólagjafir, koma þeim heim (það kostaði mig 5000 krónur að senda smá pakka heim - hafði sem betur fer komið sumu á Gunnar sem þurfti að skjótast heim um daginn), sinna bankamálum, sækjum um nýtt SIN númer (social insurance number - nokkurs konar kennitala - þurfti nýtt út af breyttri stöðu í landinu), o.s.frv. Aðalástæðan var samt ábyggilega bara sú að ég átti erfitt með að einbeita mér og lenti alltaf í því að lesa bara fréttir eða blogga eða eitthvað.
Ég hafði þrisvar sinnum á undanförnum tveim vikum reynt að fara á Starbucks að læra því veit að þar á ég auðveldara með að einbeita mér, en þar var alltaf fullt þegar ég kom svo ég endaði á að fara á önnur kaffihús, en endist bara aldrei eins lengi þar. Held það sé af því að kaffið er ekki eins gott. Í dag fannst mér ég hreinlega verða að komast inn á Starbucks svo ég þráaðist við þegar ég mætti á staðinn og sá allt fullt. Pantaði mér kaffi og ákvað að troða mér bara hjá einhverjum ef á þyrfti að halda. Akkúrat þegar kaffið kom losnaði uppáhaldssætið mitt svo ég skellti mér niður, tók upp tölvuna og fór að skrifa. Ég hafði pantaði mér piparköku latté (gingerbread latté) með dásamlegu kryddbragði og af því að ég borðaði rautt kjöt í gær var maginn nú fullur af járni og koffíni. Akkúrat það sem ég þarf til þess að komast af stað (ég er búin að vera í heilsuátaki í tvo mánuði og borðaði sama og ekkert kjöt á þeim tíma - var fyrir vikið allt of þreytt. Rosemary vinkona mín er fyrrum hjúkka og hún skipaði mér að fá mér rautt kjöt af og til. Annars borða ég mikið spínat - það virðist bara ekki duga).
En sem sagt, dagurinn hefur verið mjög góður það sem af er og ég skrifaði næstum því stanslaust í fjóra klukkutíma (sem er mikið þegar maður er að vinna að svona verkefni), náði að útskýra hluti sem ég þurfti að útskýra betur, breytti röð á ýmsu og bætti svo við texta. Kaflinn fór úr 20 síðum í 26. Myndi segja að ég væri þá sirka hálfnuð með hann.
Um eitt leytið var ég orðin svöng svo ég fékk mér samloku og hélt áfram að læra. Stuttu síðar fóru barristurnar á staðnum að bjóða upp á alls konar smakk. Þær komu með eggnog latté (mæli ekki með því - maður á bara að drekka eggnog eitt og sér), tertubita (sem var góður) og piparmyntu mokka úr hvítu súkkulaði (sem var hrikalega gott). Ég fór ekki heim fyrr en batteríið var hér um bil búið í tölvunni (hafði ekki sæti nálægt innstungu).
Ég ætla að reyna að vinna aðeins meira í dag en jafnvel þótt það klikki þá er ég ánægð.
P.S. Og Canucks unnu síðustu tvo leiki og eru nú einir í fyrsta sæti í norðvestur riðlinum (en Minnesota á einn leik til góða og getur jafnað aftur) og í öðru sæti í vesturdeildinni. Bara Detroit hefur staðið sig betur (og Detroit ætti náttúrulega að vera í austurdeildinni - ég meina, hafið þið sér hvar Michigan er á landakorti?)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að hittast eða að hittast ekki
7.12.2007 | 16:42
Það sem ég vil helst fá að vita er hvers vegna Íslendingar eru allt í einu farnir að 'hittast'? Ég tók eftir þessu þegar ég var heima um jólin í fyrra og leit í slúðursíður blaðanna - þar voru hinir og þessir farnir að 'hittast'. Fólk virðist ekki vera saman lengur. Ég skil ekki af hverju þessi notkun þykir allt í einu nauðsynleg. Íslendingar hafa átt í ástarsamböndum í rúm þúsund ár og höfum við haft ágætis orð fyrir það. Nú þarf allt í einu að fara að nota orð sem þýða í raun allt annað. Ég hitti vini mína t.d. oft, bæði karla og konur, og vil helst ekki að það sé skilið þannig að ég sé að 'hitta' allt þetta lið.
Kannski er hér verið að reyna að koma með eitthvað svipað og það sem í enskunni kallast 'to date', að deita, en það er nú svo óskilgreint hugtak líka að það er engin ástæða til að reyna að komast því á. Fyrir tveim árum fór ég t.d. á tvö stefnumót með manni áður en okkur var báðum ljóst að þarna var engin framtíð, en ég komst að því síðar að við hefðum 'deitað'. Það sagði hann. Ég hélt við hefðum bara farið tvisvar í kaffi. Sama orðatiltæki var notað af fyrrverandi kærasta mínum þegar við vorum búin að vera saman í sex mánuði. Mér fannst ástæða til þess að halda þessu aðskildu og nota eitt orð um það ef maður fer á örfá stefnumót og annað ef maður er kominn í samband, þótt það sé kannski ekki orðið mjög alvarlegt ennþá.
Þetta með hittinginn virðist svipað. Ég tók einmitt eftir því í blöðunum þarna um jólin að fólk virtist vera að hittast ef sést hafði til þeirra tvisvar á veitingastað, og það virtist vera að hittast ef það var búið að vera saman í tvo mánuði. Ekki það sama að mínu mati. Og almennt ljótt að nota þetta orð á þennan hátt. Minnir mig á þegar mamma spurði mig einu sinni hvort ákveðin stelpa 'ætti vin'. Ég vissi vel að hún meinti hvort hún ætti kærasta, en ég ákvað að þykjast ekki skilja því ég sá enga ástæðu til þess að tala ekki beint út. Held ég hafi sagt mömmu að hún ætti fullt af vinum, en engan kærasta.
Og ef þetta fólk í fréttinni var áður saman og er nú byrjað saman að nýju, af hverju segir gaurinn að þau séu farin að hittast aftur?
Ég tek það fram að þótt ég hafi bara tekið eftir þessari hittings-notkun í fyrra þá getur auðvitað vel verið að þessi hún hafi verið orðin algeng löngu áður; en þegar ég flutti frá Íslandi 1999 þá man ég ekki eftir að hafa heyrt þetta.
Og almennt nenni ég ekki að æsa mig yfir þróun tungumálsins, en mér leiðist svona málbreytingar alveg ógurlega.
![]() |
Fyrrum herra Ísland endurheimtir ástina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)