Færsluflokkur: Bloggar
Walk Hard – dásamleg mynd
6.1.2008 | 08:44
Ég fór í bíó í dag og sá hina stórkostlegu Walk Hard: The Dewey Cox Story. Ég hló mig máttlausa aftur og aftur.
Í myndinni er rakin saga hins uppskáldaða tónlistarmanns Dewey Cox og það er augljóst að fyrirmyndin er maðurinn í svörtu fötunum, Johnny Cash svona lengst af. Síðar fer Dewey Cox sínar eigin leiðir og meðal annars til Indlands þar sem hann lærir íhugun hjá Maharishi ásamt Bítlunum. Mér fannst það náttúrulega alveg hrikalega fyndið atriði og kannski að hluta til vegna leikaravalsins. Það voru engir smá gestaleikarar sem voru fengnir í hlutverk Bítlanna: Sjálfur Jack Black er Paul McCartney (og þær eru ekki margar myndirnar með Jack Black sem ég hef ekki haft gaman af), Paul Rudd (Mike úr Friends) er John (sést á mynd hér á síðunni), Justin Long (Live free or die hard, Dogeball, Apple auglýsingarnar) er George og Jason Schwartzman (I heart Huckabees, Bewitched) er Ringo. Eftir að taka smá LSD fara þeir í ævintýralega ferð í stíl Yellow Submarine. Kannski þarf maður að vera Bítlaaðdáandi til þess að vera jafnhrifin en ég veit það ekki. Það má líka benda á að Jack White úr White Stripes leikur Elvis Prestley (þá er bæði Jack Black og Jack White í myndinni) og Frankie Munitz (úr Malcolm in the Middle) er Buddy Holly.
Almennt lifir Dewey Cox hinu venjulega stjörnulífi: giftist nokkrum konum, verður háður öllum mögulegum eiturlyfjum, eignast alls konar kunningja meðal hinna frægu, reitir hljómsveitinga sína til reiði, fer ég gegnum ýmsar tónlistarstefnur... Þið verðið bara að sjá myndina.
John C. Reilly sem leikur aðalhlutverkið er alveg dásamlegur leikari og það var löngu kominn tími til þess að hann fengi að láta ljós sitt skín af alvöru eftir að hafa þurft að sitja farþegamegin svo lengi. Hann var til dæmis alveg dásamlegur sem Cal Naughton jr. í Talladega Nights: The Ballad of Ricky Bobby, sem Al í Year of the dog (sem ég sá fyrir stuttu) og einnig sem Amos í Chicago (þar sem ég heyrði að hann getur sungið). Ég hlakka til að sjá meira frá John C. Reilly. Sérstaklega hlakka ég til að sjá myndin Ye Olde Times. Ég hef ekki hugmynd um hvað sú mynd er en í aðalhlutverkum eru John C. Reilly, Jack Black, Will Arnell (úr Arrested Development), Cary Elwes (úr The Princess Bride) og Tim Robbins. Þá er hann líka að leika í myndinni Stepbrothers ásamt Will Ferrell (önnur Apatow mynd).
Talandi um Judd Apatow. Hann framleiddi Walk Hard og skrifaði einnig handritið. Hann hefur verið framleiðandi margra af mest spennandi grínmyndum undanfarandi ára, svo sem Superbad, Knocked up, Talladega Nights, The 40 year old virgin, Anchorman (OK, ekki svo fyndin - en ég meina...Will Farrell), og svo vanmetnu sjónvarpsþættina Undeclared og Freaks and geeks.
Ég sé að myndin verður frumsýnd á Íslandi fyrsta febrúar og mæli þá með að allir fari og sjái hana alla vega þeir sem hafa haft gaman af fyrri myndum Judd Apatow.
Hér koma að lokum nokkrar góðar setningar úr myndinni:
Dewey Cox: Maybe you don't believe in me at all
Edith: I do believe in you.......I just know you're gonna fail.
John Lennon: With meditation, there's no limit to what you can... Imagine.
Dewey Cox (syngjandi): In my dreams, you're blowing me... some kisses.
Darlene (syngjandi): That's one of my favorite things to do.
Doctor: This was a particularly bad case of somebody being cut in half.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sykrað og sætt
4.1.2008 | 05:58
Bragðlaukarnir eru undarlegir. Sumt fólk vill einfalt bragð og borðar því aðeins eina sort í einu (sumir verða meira að segja vitlausir ef mismunandi sortir snertast á disknum), á meðan aðrir reyna á bragðlaukana með því að blanda saman mörgu í einu. Ég er af seinni gerðinni.
Sérstaklega finnst mér gott ef bragð stangast algjörlega á, eins og t.d. þegar maður blandar saman söltu og sætu. Sú blöndun gerir mig algjörlega óða. Ég man þegar ég fékk Kettle Corn poppkorn í fyrsta sinn. Ég gat bara ekki hætt að borða. Tróð mig hreinlega út af poppinu (Kettle Corn er þegar maður lætur bæði sykur og salt út á poppið sykurinn þarf að fara út með korninu svo hann svona hálfbráðni með og svo festist saltið utan á). Ef ég á Kettle Corn örbylgju popp svona þrjá poka í einum pakka þá borða ég popp þrjá daga í röð. Þess vegna kaupi ég næstum aldrei svoleiðis.
Annar dásamlegur matur þar sem salt og sykur blandast saman er svona týpískur enskumælandi morgunverður (morgunverðurinn er ekki enskumælandi en er vinsæll í enskumælandi löndum - alla vega Kanada, USA og UK) þar sem maður borðar pönnukökur með sýrópi (ekki íslenskar pönnukökur heldur amerískur - eru meira svona eins og lummur án sykurs og rúsína) og síðan morgunverðarpylsur. Pylsurnar eru saltar og góðar og pönnukökurnar sætar, þ.e. eftir að maður hellir sýrópinu yfir. Hér í Kanada er náttúrulega algengast að hella yfir þetta hlynsírópi en mér finnst svona ömmusíróp býsna gott líka. Ekki gengur að nota þetta enska í grænu dollunum með ljóninu sem maður kaupir alltaf á Íslandi (þótt það sé almennt gott síróp og frábært í frosting).
Það er sjaldan sem ég leyfi mér svona morgunverð en gerði það þó að morgni nýársdags enda ástæða til að breyta til.
Mmmm, salt og sykur. Óhollt og gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Um ábyrgð þeirra sem brjóta lögin
3.1.2008 | 07:43
Fólk sem nýlega var bjargað í Grouse fjalli hér fyrir ofan Vancouver hefur nú fengið í hendurnar reikning fyrir björgunina. Fólkið var á svæði sem var algjörlega lokað vegna snjóflóðahættu. Þetta er gert vegna þess að talið er að það megi draga úr ferðum fólks inn á lokuð svæði ef það má eiga von á að þurfa að borga fyrir björgun. Á hverju ári drepst fjöldi manns í Norður Ameríku vegna þess að það asnast inn á lokuð svæði. Nú síðast í gær eða fyrradag lést maður í Whistler eftir að hann fór inn á svæði sem hefur verið lokað í 25 ár. Náunginn vann fyrir Whistler og var því vel kunnugt um hættuna. Vinur hans slapp með skrekkinn en mun nú hugsanlega verður kærður fyrir athæfið. Þeir sem brjóta svona lög eru yfirleitt alltaf ungir karlmenn í leit að púðursnjó.
Ég hef oft hugsað um þetta þegar björgunarsveitir okkar heima hætta lífi sínu til þess að leita að fólki sem fór t.d. upp á hálendi illa búið þegar spá var slæm. Er eitthvað hægt að gera til þess að fá fólk til þess að hugsa svolítið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Aðeins meira um Skaupið
3.1.2008 | 04:17
hrifinn af Skaupinu. Kannski eru bloggarar óvenju neikvæðir (dah!).
Kannski þýðir það að neikvætt fólk er líklegra til að blogga þarf
að skammast yfir öllu. Kannski ég hefði átt að strengja nýársheiti
eftir allt saman: Vera jákvæðari og skammast minna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Áramótin 2007-2008
1.1.2008 | 23:11
Jæja, þá er árið 2008 runnið upp og mitt fyrsta blogg að líta dagsins ljós. Ég er ekkert búin að vera lengi á fótum, svaf fram að hádegi enda fór ég seint í rúmið.
Gærdagurinn var rólegur svona framan af. Ég fór og klifraði svolítið og gekk bara ágætlega. Fékk töluverða hjálp frá ungum strák sem þarna var og sem sýndi mér ýmislegt gagnlegt. Ég stoppaði á nokkrum útsölum á leiðinni heim en keypti ekki neitt enda vantar mig svo sem ekkert. Þegar ég kom heim horfði ég á áramótaskaupið og hló mikið. Fannst þetta gott skaup. Sá á lestri bloggsíðna að ég var í minni hluta. Mér finnst það allt í lagi.
Um fimm leytið fór ég til Rosemary og Dougs þar sem ég borðaði roast beef a la Doug með kartöflum og ýmsu grænmeti. Í eftirmat var bland af súkkulaðiköku og ostaköku sem ég hafði hvort tveggja keypt í Capers af því að ég vildi koma færandi hendi og hafði ekki tíma til að baka sjálf. Við horfðum svo á hokkíleik kvöldsins, sem því miður tapaðist, og spjölluðum svo fram undir ellefu.
Þá rauk ég niðreftir til Martinu, eins kennara míns. Þar voru nú ekkert rosalega margir og sumir farnir, sérstaklega barnafólk. Mætti líka Peter vini mínum sem var á leið í annað partý. En þarna var góður hópur og mikið spjallað. Á miðnætti var drukkið kampavín og maðurinn hennar Martinu opnaði opinberlega vefsíðu sem hann hefur unnið að undanfarin ár. Síðan dönsuðu þau hjón vals sem er víst austurrískur siður á nýársnótt (Martina er austurrísk). Við horfðum líka á myndina 'Dinner for one' sem er sýnd í þýsku og austurríski sjónvarpi á gamlársdag á hverju ári.
Um tvö leytið fórum við fjögur, ég Mark, Martin og Beth niður að English bay sem er ströndin neðan við miðbæinn þar sem Martin og Beth ætluðu í nýárssund. Martin hafði fengið boð frá einhverjum vinum um að fara í sund klukkan hálf þrjú en þegar við komum þangað fundum við engan. Í ljós kom að Martin var 12 klukkutímum á undan áætlun, allir hinir hafa synt nú í dag. En hann fór nú samt út í og tók nokkur sundtök áður en hann flúði upp úr. Beth guggnaði hins vegar og lét nægja að vaða út í. Ég stakk nú bara fingri ofaní enda ætlaði ég aldrei með í sundið. Fór bara sem móralskur stuðningur.
Ég kom heim um fjögur leytið og hringdi þá í mömmu og pabba og talaði við þau í um klukkutíma. Pabbi á afmæli á nýársdag þannig að ég varð að óska afmælisbarninu til hamingju. Ég fór því ekki að sofa fyrr en um fimm leytið.
Þannig að þetta voru bara ágæt áramót þótt engum flugeldum væri skotið upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Megi árið 2008 verða okkur öllum gleðilegt!
31.12.2007 | 23:29
Ég vil óska öllum vinum, vandamönnum, bloggvinum og blogglesendum gleðilegs árs. Eins og sum ykkar vita kannski hef ég spáð því að árið 2008 verði mun betra ár en 2007 og ég vona að það eigi við um alla. Ég er alla vega sannfærð um að það mun eiga við mig.
Ég óska sjálfri mér þess að ég klári ritgerðina og útskrifist, finni mér góðan mann, fari að minnsta kosti einu sinni til Íslands, fari oft á skíði, skori mörg mörk í fótbolta, verði betri klifrari, missi ein tvö þrjú kíló í viðbót, nái að hitta alla vini mína, líka þá sem búa í fjarlægum löndum (þ.e. fjarri bæði Íslandi og Kanada) og verði almennt hamingjusöm.
Ykkur hinum óska ég þess að allir ykkar (raunhæfu) draumar rætist og að þið eigið yndislegan tíma með vinum og ástmönnum og að þið verðið almennt hamingjusöm.
Ég ætla ekki að strengja nein áramótaheit enda ekki gert það í mörg ár, en ég ætla samt að gera mitt besta til þess að allt ofangreint rætist.

Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Vindurinn ógurlegi (sem ég er löngu hætt að skilja)
30.12.2007 | 04:13
Ég er algjörlega hætt að vita hvort vindur er mikill eða ekki eftir upplýsingar frá veðurstofu. Það var nýbúið að breyta kerfinu þegar ég flutti til Kanada þannig að ég hafði aldrei náð að tengja metra á sekúndur við vindinn. Svo kom ég hingað út þar sem notaðir eru kílómetrar á klukkustund og fyrsta hugsun var að það ætti bara að vera metrar á sekúndu sinnum hundrað. En sem betur fer þurfti ég ekki að hugsa mikið þegar ég fattaði að það eru þúsund metrar í kílómetra en sextíu mínútur í klukkustund. Þessi reikningur gekk því ekki.
Það gengur þó betur að skilja vindstigin hér því ég get alla vega borið hraðann við hraða bíla sem einnig er reiknaður í kílómetrum á klukkustund. Annars skiptir það svo sem engu hérna hver vindurinn er því við fáum næstum því aldrei almennilegan vind. Kannski tvisvar á ári og þá hrynja trén, en hér er næstum aldrei hvasst. Ekki eins og heima.
En helst vildi ég bara hafa gömlu vindstigin. Ég veit hvað það þýðir þegar við fáum 12 vindstig.
![]() |
Mjög hvasst undir Hafnarfjalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Sævar syngur á plötu
29.12.2007 | 19:17
Síðustu tvo dagana hef ég haft jóladiskana mína þrjá í spilaranum (sem tekur einmitt þrjá diska). Ljótu hálfvitana, Ellen og Álftagerðisbræður. Ljótu hálfvitarnir minna mig að sumu leyti á Spaðana, sérstaklega kassettuna sem þeir gerðu áður en þeir gáfu út geisladisk. Svolítið svipuð gleðitónlist og fyndnir textar. Ekki er ég þó frá því að textar hálfvitanna séu fyndnari.
Annars datt mér eftirfarandi í hug þegar ég hlustaði á fjórða lag disksins, Raunasaga úr fjölbýlishúsi, ljóð, texti og söngur: Sævar Sigurgeirsson:
Bekkurinn okkar í MA, sem var B-bekkur málabrautar, var mjög söngelskur og voru allir nema Sissó flugmaður í Söngfélaginu. Það var enda svo að í bekkjarpartýum var mikið sungið. Þetta var almennt mikill listabekkur því þó nokkrir gerðu tónlist að sínu framtíðarstarfi og margir voru í leiklistarklúbbnum. En Sævar söng ekki. Þótt hann væri leikandi uppi á sviði alla daga þá tók hann bara ekki þátt í söngnum (var þó held ég í söngfélaginu). Ég er ekki viss um að hann hafi neitt útskýrt það nema með því að hann langaði ekki að syngja, en auðvitað litum við öll svo á að hann væri bara vitalaglaus. Ekki svo. Á fjórða ári setti leikfélagið upp söngleikinn Gretti og þar lék Sævar Tarzan og söng hástöfum. Og viti menn, hann gat vel sungið. Nú er hann kominn á plötu og syngur bara skratti vel, þótt hann syngi ekki öll lögin sín þar (held að Toggi syngi alla vega eitt þeirra). Já, svona er nú hægt að draga rangar ályktanir.
Ég vil óska strákunum til hamingju með þessa plötu. Hún er virkilega skemmtileg.
P.S. Sævar, ef þú sérð þetta, vona að þú reiðist mér ekki þótt ég rifji nú í annað skiptið upp sögur af þér úr Menntó!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jólahátíðin hjá mér
27.12.2007 | 19:40
Jæja, loksins læt ég í mér heyra eftir jóladagana. Ég var án almennilegrar tengingar yfir jóladagana tvo og í gær var ég bara einfaldlega of löt til þess að nenna að blogga. Í stað þess að taka þátt í brjálæðinu sem eru útsölurnar á annan í jólum (hér fóru sumir í röð um átta leytið á jóladagskvöld) þá hékk ég heima á náttfötunum og hafði það náðugt. Borðaði íslenskt sælgæti og horfði á sjónvarpið. Það var ákaflega notalegt. Svona á annar í jólum að vera - ekki biðraðir og slagur í búðum.
Hér kemur löng lýsing og mun ábyggilega enginn nenna að lesa lengra nema mamma og pabbi, og kannski einn og einn vinir. Þið hin getið bara skoðað myndirnar.
Klukkan tíu á aðfangadagsmorgun tók ég strætó niður að lestarstöð og síðan lestina út í Surrey þar sem Tim, maðurinn hennar Juliönnu sótti mig. Hann var ákaflega ánægður með að hafa fengið það verkefni að sækja mig því ástandið á heimilinu var víst rafmagnað. Allir í stressi og systurnar farnar að senda illskuleg skot hvor á aðra. Mér skyldist síðar að ástæða hafi verið fyrir afsökunarbeiðnum því þær rétt svo sluppu við slagsmál. Ég þurfti ekki að horfa upp á þetta því ástandið hafði róast þegar ég mætti á staðinn. Þetta var í fyrsta sinn sem jólin voru haldin hjá Juliönnu en þar sem mamma hennar var með í eldamennskunni hefði svo sem ekki þurft að vera svona mikið stress. Ég hugsaði til jólanna heima þar sem ég man bara ekki eftir stressi á aðfangadag. Kannski af því að það er auðveldara að elda svínið en kalkúninn. En kannski er það líka munur á fólki. Mamma stressar sig ekki oft.
Við borðuðum klukkan eitt í stað sex því litla systurdóttir Juliönnu var á Winnipeg tíma og vitað mál að hún myndi sofna fyrir fimm. Þetta var hluti ástæðunnar fyrir stressinu því til þess að hafa kalkún tilbúinn klukkan eitt þá þarf að elda megnið af nóttinni. Þessi flykki þurfa svo ógurlegan eldunartíma. En þetta gekk allt eftir, þótt kalkúnninn hafi reyndar verið tilbúinn klukkan tíu um morguninn vegna vitlausra reiknina (sem er fyndið af því að Tim er stærðfræðikennari í menntaskóla - það er ekki enn vitað hvort hann reiknaði vitlaust eða hvort honum voru gefnar vitlausar upplýsingur um stærð fugls eða bökunartíma á hvert pund). Maturinn var góður eins og við mátti búast og ég passaði mig á að éta ekki á mig gat.
Klukkan fjögur fórum við í messu í babtistakirkju sem vinir Tims og Julönnu tilheyra. Þau voru víst margbúin að biðja þau skötuhjú að koma með sér þangað. Við vorum nú ekki sérlega hrifin af messunni. Kannski er maður orðinn svo vanur gömlu lútersku þyngslunum að svona létt og skemmtileg poppmessa passar bara ekki inn í dæmið. Ég saknaði alla vega tónunar prestsins og þess þegar prestur og söfnuður kallast á. Og eins hefði ég viljað heyra sálmana í sínum hefðbundnu útgáfum. Það var eiginlega bara Heims um ból sem sungið var á hefðibundinn hátt. Annað var svona ekki alveg eins og maður vildi hafa það. Ég var mest pirruð yfir útsetningunni á What child is this, sem vanalega er sungið undir Greensleeves laginu, og sem að þessu sinni var nær óþekkjanlegt. Mér fannst eins og þeir hefðu ákveðið að syngja bara bakröddina í laginu en ekki aðalröddina, og það var ekki flott. En það var samt skemmtilegt að prófa að fara í öðru vísi messu. Ég hafði áður prófað að fara í jólamessu hjá
kanadísku sameinuðu kirkjunni, hjá ensku biskupakirkjunni og hjá kanadísku lúterskirkjunni (sem er töluvert ólík okkar lútersku kirkju). Að mörgu leyti var ég hrifnust af messunni hjá ensku biskupakirkjunni - hún var svo falleg og hátíðleg. Ef ég verð hér úti um næstu jól eða þarnæstu þá held ég að ég fari í messu hjá kaþólsku kirkjunni. Hef trú á að það gæti verið skemmtilegt.
Um sex leytið opnuðum við pakkana og þið hefðuð átt að sjá fjöldan á jólagjöfum á þessu heimili. Ég held að Julianna, systir hennar og mamma, gefi hver annarri sjö eða átta pakka. Og þá ekki smávægilega. Það er aðeins komið eitt barnabarn, hún Bryndís litla, og ég held að Julianna hafi gefið henni úlpu, stígvél, náttföt, kjól, og fjölda leikfanga. Þau þurfa greinilega fleiri börn því þessi er á hraðferð við að verða gjörspillt. En það er svo sem verið að reyna. Bæði Julianna og systir hennar eru með mælinn á fullu og svo eru karlarnir dregnir upp í rúm þegar tíminn er réttur. Ætli það verði ekki komin þrjú börn að ári.
Ég var mjög ánægð með mínar gjafir. Toppurinn var málverk eftir níu ára gamlan bróðurson minn, Arnar. Ákaflega falleg og sólrík mynd í stíl Stefáns frá Möðruvöllum. Ég fékk líka ákaflega fallegt lopavesti frá mömmu og pabba, sem hefðu ekki átt að gefa mér neitt því þau gáfu mér myndavél í sameiginlega afmælis- og jólagjöf. En mamma er svo gjafmild og elskar það að gleðja fólk. Og það tókst líka vel. Ég var ákaflega ánægð með vestið mitt og held að ég sé bara fín í því. Þau gáfu mér líka nýja diskinn með Álftagerðisbræðrum sem ég hef alltaf gaman af. Við fyrstu hlustun finnst mér þessi diskur þó ekki eins góður og hinir fyrri og veldur fyrst og fremst skorturinn á einsöng. Þeir hafa allir svo fallegar raddir að mér finnst alltaf skemmtilegt að heyra í einum í einu. Þarna eru næstum engir einsöngvar. Ég hafði meira gaman af DVD disknum sem kom með. Ég var búin að gleyma því hversu fyndinn hann Óskar er. Stundum er nóg að horfa á hann glenna sig aðeins til að fara að hlæja. Kannski er það meðal annars vegna þess að það minnir mig á ættarmót fyrir nokkrum árum þar sem Óskar fór á kostum á harmonikkunni. Hann er giftur frænku minni og var virkilega lífið og fjörið á því ættarmóti. Ég mun ekki fara nánar út í sögur enda vita allir að what happens at ættarmót stays at ættarmót!!!!
Næst vil ég fá jóladisk frá Álftagerðisbræðrum og þar vil ég heyra Óskar syngja Ó helga nótt. Fáir syngja það lag vel. Ég er einmitt núna að hlusta á hann syngja í þættinum sem sýndur var á Aðfangadag og þar sem hann syngur með karlakór Reykjavíkur.
Ég fékk líka disk Ljótu hálvitanna (sem ég hef aðeins byrjað að hlusta á og haft gaman af - þeir eru snillingar þessir strákar og skemmtilegt að hlusta á hann Sævar minn sem var alltaf svo skemmtilegur þegar við vorum saman í bekk í denn. Svo fékk ég líka diskinn með Ellen (frá Geira bróður og fjölskyldu) en hef ekki komist í að hlusta á hann. Ég fékk tvær bækur, bókina um Karítas eftir Kristínu Mörju, og svo bókina um íslenska hugsun (frá Gunna og fjölsk. og Geira og fjölsk.). Það eina sem vantaði þar var nýja bókin hans Arnalds Indriða. Ég er ekki enn búin að ná því að ég skuli ekki hafa fengið þá bók í jólagjöf. Það er ekki eins og það hafi ekki allir vitað að hann er uppáhaldshöfundurinn minn. Ég var búin að hlakka ógurlega til þess að byrja að lesa bókina strax að kvöldi aðfangadags og kláraði bókina um Morse í tæka tíð. En nei, enginn Arnaldur til mín
En pabbi sagðist hafa fengið hana í jólagjöf þannig að þegar hann er búinn að lesa hana ætlar hann að senda mér bókina svo ég geti lesið hana. Ég verð því að bíða um sinn.
Ég fékk líka rúmföt frá stelpunum hans Hauks bróður, sokka með íslenska hestinum á frá Rosemary (sem fór til Íslands í sumar), skíðagrímu frá Rut sem ég get annað hvort notað til þess að ræna banka eða ef ég fer á skíði í Alberta þar sem slík gríma er nauðsyn, gjafakort í Le Chateau frá Juliönnu og Tim og annað frá mömmu hennar Juliönnu, og reyndar gaf Julianna mér líka gjafakort í Starbucks því hún veit að ég vinn hvergi eins vel og þar. Ég fékk líka bók og konfekt frá Dianne Brynjólfson og fjölskyldu og svo krem og kerti í gjafaskiptum hjá Brynjólfsson fólkinu. Jólasveinninn gaf mér svo litla jólakúlu með engli innan í. Mamma og pabbi sendu mér svo líka gullfallegtkort eftir Önnu Ó Guðmarsdóttur með fallegri hugsun til dóttur. Þetta er svona í stíl við Hallmark kortin, ef einhver kannast við þau.
Ég gisti hjá Juliönnu og þeim á jólanóttina og vaknaði eldsnemma þegar Bryndís var komin á kreik. Um sex leytið held ég, eða fyrr. Náði að sofna aftur en skreið svo upp í sófa og kláraði að prjóna trefil handa Juliönnu sem ég hafði ekki náð að klára í tæka tíð. Svo var borðaður stór og góður pönnukökumorgunverður og eftir það tók Bryndís upp sína pakka en hún hafði verið sofnuð þegar við hin opnuðum okkar. Það var svo sem alveg í stíl við kanadískar hefðir því hér eru pakkar vanalega opnaðir á jóladagsmorgunn. En af því að Julianna er af íslenskum og þýskum ættum hafa þau alltaf opnað á aðfangadag eins og Evrópubúar.
Eftir hádegið komu Dianne og Gerry og sóttu mig og ég keyrði með þeim til Kathie systur Dianne þar sem Brynjolfson fólkið kom saman. Þar borðaði ég aðra kalkúnsmáltíð og je minn hvað þessi kalkúnn var góður. Held ég hafi aldrei smakkað svona safaríkan kalkún áður. Hann var alveg fullkominn. Ég hefði auðvitað frekar viljað borða nýtt svín eða reikt svín eða jafnvel hangikjöt en ég verð að sætta mig við kanadískar hefðir. Hér borða allir kalkún meira og minna.
Ég spjallaði svolítið við Ben, pabba Brynjolfson systranna, sem fullu nafni heitir Brynjólfur Bolli en það er of erfitt nafn fyrir Kanadabúa. Hann var sá eini sem talar íslensku svo við spjöllum alltaf á okkar ástkæra ilhýra þegar við hittumst.
Um ellefu leytið fannst mér tími til að fara heim enda vildi ég ná síðasta hraðstrætó heim en þeir hætta að ganga á miðnætti. Það sem við tekur er venjulegur strætó sem stoppar á 200 metra fresti og svo þarf ég að skipta um vagn á miðri leið og gæti þurft að bíða í hálftíma eftir hvorum vagni. Ég náði að húkka far með Richard, sem er vinur Patricks, mannsins hennar Kathie. Ég bað hann bara að keyra mig á lestarstöðina en hann þessi elska sagðist ekki vilja hugsa til þess að ég væri í lestinni um miðja nótt og keyrði mig alla leið heim. Það er ekkert smá almennilegt því þetta er um klukkutíma keyrsla. Og han býr sjálfur í Surrey einhvers staðar ekkert langt frá Kathie og Patrick. Ég var ekki komin heim fyrr en um miðnætti og hann átti þá eftir klukkutíma akstur heim til sín. Þetta er eins og AKureyringur skutlaði einhverjum í Varmahlíð eða að Reykvíkingur skutlaði einhverjum upp í Borgarnes. Svona rétt fyrir svefninn. Það er þó gott að vita til þess að það er til gott fólk.
Og þá er ég eiginlega komin hringinn því ég var búin að segja ykkur frá leti minn í gær.
En svona hafa jólin sem sagt verið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
24.12.2007 | 08:20
Ég vil óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Ég vil sérstaklega þakka öllum sem hafa komið í heimsókn hingað á bloggið mitt og eins þeim sem ég hef heimsótt. Vonandi heldur bloggvináttan og önnur vinátta áfram á árinu 2008.
Ég spái því hér með að 2008 verði einstaklega gott ár og að margt skemmtilegt og notalegt muni gerast.
Á morgun (síðar í dag - það er víst komið fram yfir miðnætti) mun ég fara til Juliönnu vinkonu minnar og Tims mannsins hennar og þar er víst planið að borða eitt stykki kalkún, fara svo í kirkju og loks að taka upp pakkana. Julianna er hálfíslensk og hálfþýsk og maðurinn hennar er hálffinnskur þannig að það verður haldið upp á aðfangadag.
Ég gisti svo hjá þeim niðri í Surrey og fer svo til Brynjólfssons fólksins, frændfólks míns, á jóladag og borða þar annan kalkún (ekki þó ein). Ég býst við að taka síðustu lest heim þaðan og sofa í eigin rúmi að kvöldi jóladags og fara svo í göngutúr á ströndinni að morgni annars í jólum með Rosemary og Doug.
Ég efast um að ég nái að blogga þar til þá (annars veit maður aldrei) svo ég býð ykkur enn og aftur gleðilegra jóla og við sjáumst (skjáumst) eftir nokkra daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)