Færsluflokkur: Bloggar

Um dvalarleyfi og framtíðina

Í morgun fékk ég póst frá kanadíska innflytjendaeftirlitinu þar sem þeir biðja mig um að senda passann minn og tvær ljósmyndir á skrifstofu þeirra í London. Þetta er væntanlega lokaáfanginn í  því að fá varanlegt dvalarleyfi í landinu. Mér skilst reyndar að fyrst fái ég bara einhvern pappírssnepil en svo komi kortið sjálft þar sem kemur fram að ég sé 'permanent resident'. Ef ég vil get ég svo sótt um ríkisborgararétt tveimur eftir tvö ár, nema ég verði þá þegar komin heim - þá gæti ég nefnilega misst öll þessi réttindi. Því vil ég helst vera hér áfram í nokkur ár í viðbót svo ég fái kanadísk réttindi og þá get ég komið og farið eins og mér sýnist. En ég viðurkenni að mig langar alltaf af og til að flytja heim. Hins vegar er ekki besti tíminn núna. Íbúðarverð á Íslandi er geðveikt og ég vil ekki fara heim og hokra einhvers staðar. Fremur vil ég bíða aðeins og vona að markaðurinn lagist. Þess vegna er ég að hugsa um að sækja um postdoc stöður fyrir næsta ár. Postdoc stöður eru tímabundnar kennslustöður og eru hugsaðar til þess að veita nýútskrifuðum doktorum tækifæri til þess að hafa lága kennsluskyldu og nota tímann til rannsókna, svo þeir geti aukið líkurnar á góðum háskólastöðum síðar. Ég mun ekki klára nógu snemma til þess að geta sótt um SHHRC styrk (þá þarf maður að vera búinn í apríl) en ég get hugsanlega sótt um Killam postdoc stöðu. Fjórar eru auglýstar við kanadíska háskóla í ár: í Calgary, Edmononton og Dalhousie í Halifax. Calgary og Dalhousie hljómar vel en ég vil síður búa í Edmonton. Finnst það ekki spennandi borg. Calgary er alla vega nálægt frábærum skíðasvæðum og Halifax er eins og lítil Reykjavík. Þar að auki er beint flug þangað frá Íslandi sem væri magnað. En bara tilhugsunin um að fara setur hnút í magann á mér. Ég vil ekki fara frá Vancouver. Ekki strax. Þetta er svo dásamlegur staður.  

Og hvar á að setja bjórinn?

Bjór og léttvínssvæðin í matvöruverslunum í Bandaríkjunum og í Quebec (eina fylki Kanada þar sem leyfilegt er að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum) eru vanalega stór og plássmikil þar sem verður að bjóða upp á þokkalegt úrval til þess að þetta borgi sig. Eina leiðin til þess að koma þessu fyrir í núverandi verslunum hlýtur því annað hvort að tákna minna vöruval að öðru leyti, eða að öllu er þjappað meira saman og bjórnum og léttvíninu troðið inn.

Eða er ætlunin að selja aðeins eina tegund af bjór og eina tegund af rauðvíni annars vegar og hvítvíni hins vegar? Ekki get ég séð að það sé mjög gagnlegt. Fólk á sínar uppáhaldstegundir og fer varla að skipta yfir í þær örfáu sem seldar eru í matvöruversluninni, bara til þess að sleppa við ferð í ríkið. Ég skil ekki af hverju þetta er svona mikið metnaðarmál fyrir fólk. Mér hefur aldrei þótt tiltökumál að fara í mismunandi verslanir til þess að kaupa góða vöru og get ekki séð að áfengi eigi að vera undanskilið. Þegar ég bjó í Winnipeg fórum við yfirleitt yfir ána í franska hverfið til að kaupa gott brauð og í ítalska búð fyrir besta kjötið. Fannst það vel virði. Hefði getað keypt hvort tveggja í hverfisbúðinni en valdi gæði framyfir þægindi. Ætli það verði ekki það sama með Tuborg aðdáanda sem getur bara keypt Krónubjór í matvöruversluninni.


mbl.is Í startholunum með Euroshopper-bjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan gegn krabbanum heldur áfram

Októbermánuður er krabbameinsmánuður í Kanada og hefur margt verið gert til þess að vekja athygli á krabbameinsvörnum svo og til þess að safna peningum til krabbameinsvarna. Gert er ráð fyrir að einn þriðji allra einstaklinga í Bresku Kólumbíu munu einhvern tímann á ævinni fá krabbamein.

Ýmsir einstaklingar og samtök hafa tekið þátt í átakinu og árið 1998 hóf NHL, hokkísambandið, samvinnu við Krabbameinssamtök Kanada um sameiginlegt átak. Á þessum tæpu tíu árum sem liðin eru hafa sjö milljónir dollara (sirka 434 milljónir íslenskra króna) safnast.

Síðastliðinn laugardagur var sérstakur krabbameinsdagur í hokkíinu og var krabbameinsfélagið með sértakan bás í hokkíhöllinni til þess að kynna starfsemina, peningum var safnað og þjálfaraliðið sýndi stuðning með því að klæðast allir bleikum skyrtum og bindum (nema Rick Bowness aðstoðarþjálfari sem lét bindið nægja eins og sjá má). Þá voru leikmenn allir með bleikan límmiða á hjálminum þar sem stóð: hockey fights cancer. 

Málið er að það hefur alveg ótrúleg áhrif þegar íþróttamenn leggja málefnum lið. Sérstaklega þegar um að ræða hokkílið í Kanada. Það sem hokkíleikmenn gera hefur tvöföld, ef ekki margföld, áhrif á við það sem aðrir íþróttamenn taka sér fyrir hendur - það kemst ekkert annað sport nálægt. Þess vegna er virkilega mikilvægt að fá slíkan stuðning.

Og að þessu sinni stendur þetta liðinu nærri. Í vor greindist faðir Ryan Keslers, eins leikmanna liðsins með krabbamein (carcinoid cancer, hvað sem það nú er), og nú í sumar greindist móðir Alain Vigneault þjálfara með ristilkrabba. Bæði hafa farið í uppskurð og bæði eru á batavegi.

Jájá, ég veit ykkur er alveg sama hvað gerist í einkalífi erlendra hokkíleikmanna og þjálfara. En ég blogga fyrir mig og mér finnst það fallega gert að taka þátt í að safna peningum til góðgerðarmála. 


Fólkið sem skiptir máli

Það er mjög sjaldgæft að ég áframsendi brandara, heilræði og þvíumlíkt sem ég fæ svo oft frá fólki. Það er helst að ég sendi mömmu póst þegar ég fæ sætar eða fyndnar myndir af dýrum. En í dag fékk ég smávegis póst sem mér fannst alveg þess virði að setja hér á síðuna í stað þess að senda fólki í pósti. Það gæti vel verið að þetta sé nú þegar búið að birtast á fjölmörgum bloggsíðum, en þar sem ég hafði ekki séð þetta áður þá er vel líklegt að einhverjir aðrir séu í sama hóp.

1. Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum.
2. Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu.
3. Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nobels verðlaunin.
4. Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskars verðlaunin á  síðasta
ári.

Hvernig gekk þér?

Niðurstaðan er, að enginn okkar man fyrirsagnir gærdagsins. Þetta eru ekki
annars flokks afreksmenn. Þeir eru þeir bestu á sínu sviði.En klappið deyr
út.Verðlaunin missa ljómann. Afrekin eru gleymd. Viðurkenningarnar og
skírteinin eru grafin með eigendum sínum.

Hér eru nokkrar aðrar spurningar. Sjáðu hvernig þér gengur með þær:

1. Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á þinni skólagöngu.
2. Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum.
3. Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt.
4. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að verðleikum.
5. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast.

Auðveldara?

Lexían: Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu eru ekki þeir, sem hafa
bestu meðmælabréfin, mestu peningana eða flestu verðlaunin.
Heldur þeir, sem finnst þú skipta mestu máli.
 


Ruslaverkfall loksins leyst

Jibbí!!!!!! Ruslakarlar eru búnir að samþykkja nýjan samning og komu til vinnu í dag eftir næstlengsta verkfall sögunnar (í landinu, þ.e.). Þetta eru orðnir, hvað, 85 dagar eða svo og borgin farin að lykta illa á sumum stöðum. Annars er þetta ekki svo slæmt hér í vesturbænum þar sem ég bý. Sennilega vegna þess að margir eru nógu vel settir til þess að hafa af og til borgað einkaaðilum fyrir að koma og sækja ruslið þeirra. Hér í húsinu höfum við verið tiltölulega skynsamar. Rita hefur reglulega farið með sitt rusl í vinnuna (hún vinnur í UBC og þar voru ruslakarlar ekki í verkfalli) og við Alison höfum passað okkur á að setja aðeins í tunnuna matvæli en halda öðru rusli innandyra (því sem ekki lyktar). Með því að nota líka tunnuna sem ætluð er fyrir garðúrgang hefur þetta gengið.

Reyndar verður ekkert rusl tekið hjá okkur fyrr en á fimmtudag því fyrstu þrjá dagana verða þeir í austurborginni. Ég hef trú á að þar sé þörfin meiri. Fátækara fólk þar sem síður hefur haft efni á að borga einhverjum fyrir að sækja ruslið. Endurvinnslan verður hins vegar ekki tekin hjá okkur næstu tvær vikurnar því allur mannaflinn verður í ruslinu. Það er þolanlegt en ég hlakka þó til að losna við hrúguna af dagblöðum sem er farin að ná mér í brjóst. 

Ég vona bara að ruslakarlarnir hafi fengið góðan samning og þeir fái einhverjar bætur fyrir þetta langa verkfall. Ég vona líka að bókasafnsstarfsmenn, sem enn eru í verkfalli, fái lausn á sínum málum. Undanfarna daga hef ég lesið viðtöl við börn í borginni sem segjast horfa á sjónvarp alla daga eftir skóla því þau hafa ekki komist á bókasafn í þrjá mánuði. Því miður er þessi starfsstétt í þeirri stöðu að hafa ekki mikið þrýstigildi. Fjölda manns er alveg sama hvort þeir eru í vinnu eða ekki því þeir fara aldrei á bókasafn. Og því er lítill þrýstingur á borgina um að leysa þeirra mál. Það er skítt að fólk skuli ekki fá þokkaleg laun bara vegna þess að starf þeirra hefur ekki nógu mikil áhrif á ríka fólkið! 


Um fótbolta og tölvuleiki

Þetta er fimmta árið mitt í fótboltanum og síðastliðin fjögur ár hafa flestir leikja okkar verið spilaðir klukkan tíu á laugardagsmorgnum. Það hefur stundum verið erfitt að vakna fyrir leik en gott að vera kominn heim rúmlega tólf og eiga alla helgina framundan. Í vetur hafa flestir leikja okkar verið settir á sunnudagseftirmiðdegi klukkan tvö. Maður fer því ekki neitt á undan leik og getur lítið gert eftir hann. Mér þykir þetta mjög óþægilegt og þótt það sé gott að sofa út myndi ég nú fremur velja laugardagsmorgna en sunnudagseftirmiðdegi.

Við lékum annars okkar þriðja leik í dag og unnum hann 3-0. Ég skoraði fyrstu tvö mörkin og hefði átt að eiga tvö þrjú í viðbót því ég fékk býsna mörg góð tækifæri. Sonya skoraði þriðja markið og það var gott því hún skorar ekki oft. Henni veitir ekki af að setja nokkur inn svo hún fái meira sjálfstraust. Við erum efstar í okkar riðli, þær einu sem hafa unnið alla leikina hingað til. Um næstu helgi eigum við að spila við North Shore Saints sem hefur alltaf verið þyrnir í augum okkar. Bæði af því að þær vinna okkur yfirleitt og vegna þess að þær eru tíkur sem spila óheiðarlega. Við þolum þær ekki.

Ég gerði annars mest lítið í dag. Vann reyndar svolítið að ritgerðinni minn - mér hefur miðað vel áfram að undanförnu. Horfði aðeins á sjónvarp (Law & Order:CI og Desparate Housewifes) og spilaði tölvuleik. Heroes of might and magic sem ég held að sé með skemmtilegri tölvuleikjum sem búnir hafa verið til. Þegar ég bjó í Winnpeg átti ég svona tröppuvél. Mér þótti ekkert sérlega gaman að nota hana og gerði það of sjaldan þar til ég uppgötvaði að ef ég setti fartölvuna mína uppá kommóðu og tröppuvélin fyrir framan þá gat ég spilað Heroes of might and magic og stundaði leikfimi á meðan. Einu sinni fór Tim á fund að kvöldi til og ég var á tröppuvélinni. Hann kom heim tveimur tímum síðar og ég var enn að. Besta leiðin til að fá hreyfingu. 


Wham á sviði í Hlíðarfjalli

Mömmu fannst að ég yrði að setja þessa mynd inn á bloggið mitt líka - ekki bara bekkjarmyndina sem ég setti inn í fyrradag.

 

söngvarar

 

Þessi mynd er tekin í skíðaferðalagi í Hlíðarfjalli líklega 1984 eða 1985. Við Sigga tókum þarna númer sem dúettinn Wham og mæmuðum 'Everything she wants' á tvöföldum hraða. Ég var Andrew Ridgeley og er með tommustokk sem gítar og Sigga var George Michael og míkrafónninn er gamall hárbursti. Ég er ekki viss um að neinn hafi verið hrifinn af þessu atriði en við skemmtum okkur vel.

Áhorfendur sem sjá má eru Nonni Ragnars (í rauðu peysunni), Róbert (fremstur - hann var bara með okkur í bekk í eitt ár svo ég man ekkert hvers son hann var) og svo hugsanlega Biggi Karls. Ég er ekki viss um hver á þennan vangasvip.


Tæp fimm kíló farin

Jæja, þá eru tvær vikur liðnar síðan ég ákvað að taka mig á í mataræði. Af því tilefni steig ég á vigtina og sá að ég hafði misst 3,2 pund í viðbót, þrátt fyrir að hafa borðað kalkún með alles (plús graskeraböku í eftirrétt) á sunnudaginn. Held að gangan langa til Garibaldi hafi brennt öllum þeim kaloríum.

Er því búin að missa alls 10 pund á þessum tveim vikum sem gerir 4,5 kíló. Er hæstánægð með það. Ég geri mér líka grein fyrir því að fyrsta vikan (7 pund) var bara svona týpísk fyrsta vika þar sem maður losnar aðallega við vatn. Eðlilegt þykir að missa eitt til tvö pund á viku. Það mun því taka lengri tíma að ná næstu tíu pundunum en það er svona takmarkið eins og er. Ég held ég þurfi ekkert að léttast meira. 


Gamla myndin

Gamla myndin að þessu sinni er bekkjarmynd úr Glerárskóla, Akureyri. Tekin líklega vorið 1978 eða 1979. Í baksýn má sjá íþróttasvæði Þórs. Það er athyglisvert að myndin er tekin í enda skólaársins því við höfum greinilega nýfengið einkunnirnar okkar, og samt er Kaldbakur alveg hvítur.

Ég fæ yfirleitt fréttir af flestum þessum krökkum af og til; annað hvort beint eða í gegnum mömmu sem rekst á þau eða mömmur þeirra. En ég held ég viti ekkert hvað varð að Birgi Steinari eða Arnari. 

Það er annars synd að maður tók svo lítið af myndum á þessum aldri og foreldrarnir tóku bara myndir af manni heima. Ég vildi til dæmis gjarnan eiga bekkjarmynd frá hverju ári, og þær voru bara aldrei teknar í Glerárskóla á þessum árum. Ég held að eina myndin sem var opinberlega tekin af bekkknum hafi verið þegar við útskrifuðumst. 

Talið frá vinstri.
Standandi röð: Sigga, ég, Arnar, Magga Júll, Jón Árni, Hedda, Alli, Sævar, Doddi (sé ekki framan í hann en man eftir peysunni),  Magga Páls, Helga Dóra, Rakel, Mæja.
Krjúpandi röð: Biggi Karls, Brói, Gummi, Birgir Steinar, Þyrí, Ásta, Guðrún Ösp.

 


 


Flugfreyja, farþegi, þáttastjórnandi

Ég tók að mér ýmis hlutverk í dag. Við Hallur Gunnars fórum í hljóðverið til að hljóðrita samtöl og tilkynningar fyrir bíómynd sem er í vinnslu. Þar hittum við Gunnar nokkurn sem er nýkominn til borgarinnar. Við þrjú vorum sem sagt raddlið Íslands í þessari töku.

Við þurftum að taka að okkur ýmis hlutverk. Í einu atriði áttum við Hallur að ímynda okkur að við værum að spjalla saman í flugvél og við enduðum á því að ræða um það hversu mun minna maður græðir nú orðið á því að versla í Bandaríkjunum en áður. Í öðru atriði ræddi Gunnar við raddstjórann (á ensku en með íslenskum framburði) og áttu þeir líka að vera farþegar í flugvélinni. Svo lásum við Hallur bæði inn tilkynningar sem áttu að vera frá flugstjóranum og flugfreyjunni (man ekki hvað þær kallast núna). Þá lékum við einnig viðtal á útvarpsstöð og að lokum las Gunnar inn veðurfréttir. Það vildi svo skemmtilega til að hann vann einmitt við það einu sinni að lesa veðurfréttirnar á RÚV.

Þetta var þrælskemmtilegt og eftir smá hikst í byrjun stóðum við okkur eins og hetjur.

Myndin sem um ræðir kallast Journey 3D og verður, eins og titillinn ber til kynna, í 3D. Söguþráðurinn er lauslega byggður á sögu Jules Vernes, Ferðin til miðju jarðar. Okkar eigin Aníta Briem, sem er fjarskyld mér, leikur eitt þriggja aðalhlutverkanna og hluti myndarinnar er tekinn upp á Ísland. Megnið er þó tekið í stúdíói því það er ekki beinlínis auðvelt að finna stað sem lítur út eins og miðja jarðar. Hin hlutverkin eru í höndum Brendan Frasier (The Mummy, School Ties, George of the Jungle) og Josh Hutcherson (sem líklega er þekktastur fyrir leik sinn í myndinni Firehouse Dog). Ég fæ sem sagt að vera í mynd með Brendan Frasier og Anítu frænku (sem mér fannst æðisleg í Kaldri slóð)!!!! En svona án alls gríns, ég er ekki einu sinni viss um að raddir okkar verði almennilega heyranlegar í myndinni. Við sköffum eingöngu bakgrunnshljóð.

Ég get samt lofað ykkur því að þið munið alla vega hlæja að einu atriði í myndinni. Þeir Brendan og Josh eru í bíl á leið frá Reykjavík til Snæfellsnes og Brendan biður Josh um að lesa á kortið. Josh byrjar að lesa upp nöfn á íslenskum bæjum og við þrjú lágum í krampakasti. Það var einfaldlega mjög fyndið atriði.

Þetta tók allt saman rúmlega klukkutíma og okkur fannst öllum mjög skemmtilegt að taka þátt í svona ævintýri. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband