Færsluflokkur: Bloggar
Held að United aðdáandi skrifi fréttina
27.10.2007 | 17:21
![]() |
Chelsea lagði City, 6:0 - United í toppsætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hitt og þetta
27.10.2007 | 00:07
Ég tók þá ákvörðun í dag að sækja ekki um postdoc stöðu í Calgary. Ég tók þessa ákvörðun fyrst og fremst vegna þess að mér finnst ég ekki hafa nógu góða hugmynd um hugsanlegt verkefni og þótt ég hafi haft nokkrar hugmyndir þá heillaði engin þeirra mig nógu mikið. Og ég vil síður leggja í tveggja ára rannsóknir á efni sem ég er ekki endilega svo spennt fyrir. Eftir mánuð rennur út umsóknarfrestur um postdoc í Dalhousie háskólanum í Halifax og þar sem mér finnst Halifax skemmtileg borg og gæti vel hugsað mér að fara á austurströndina, þá getur vel verið að ég sæki um þar, ef ég hef fengið góða hugmynd um verkefni áður en sá frestur rennur út. Gallinn í Dalhousie er hins vegar sá að þeir hafa bara málvísindaprógram en ekki málvísindadeild, og flestir kennararnir eru í frönskudeildinni. Ég held ég fengi því mun minni stuðning þar en í Calgary. Mánuði síðar rennur út frestur við Alberta háskóla í Edmonton en ég er nokkuð viss um að ég muni ekki sækja um þann styrk. Mig langar alls ekki að búa í Edmonton og deildin þar er alls ekki spennandi þar sem þeir eru ekki beinlínis í teoretískum málvísinum. Ég ætla því að láta þetta liggja á milli hluta um stund og sjá bara hvaða möguleikar bjóðast þegar nær dregur útskrift. M.a. hef ég áhuga á að athuga hvort ég gæti fengið vinnu hjá Vanoc (Vancouver Olympic Committee) og vinna hér fram að ólympíuleikum og njóta lífsins um stund.
Fór á fund með Lisu, öðrum merkingarfræðikennaranum mínum, í dag og hitti svo Andreu yfir kaffibolla. Rakst á Birnu á leiðinni á kaffihúsið og hún slóst í hópinn eftir að hún var búin að fá sér sushi með vinkonu sinni. Þetta var fínt. Við ættum auðvitað að hittast oftar en ég fer bara ekki svo oft upp í skóla.
Núna er ég að horfa á Vancouver leika á móti Washington Capitols (það er fyrsta hlé núna). Staðan er 2-1 fyrir okkur og vonandi að leikurinn vinnist eftir tvo tapleiki í röð. Ég keypti annars miða á leik í næstu viku. Það er svolítið brjálæðislegt af því að ég átti miða á leik í vikunni þar á eftir, en þeir voru að bjóða miða á hálfvirði og ég stóðs ekki mátið. Ég mun því sjá Canucks spila á móti Nashville 1. nóvember og svo á móti Colarado 9. nóvember. Gaman gaman.
Á morgun ætlar Íslendingagengið á snjósýninguna í BC place. Þar er sala á skíðadóti og kynningar á öllum fjöllunum. Ég kaupi mér hugsanlega Edge Card, sem er afsláttarkort í Whistler. Sé til.
Verð að hætta núna, leikurinn er hafinn aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrrum glæpamaður verður doktor
26.10.2007 | 16:51
Í fyrradag lýsti ég undirheimum Stórvancouversvæðisins sem ég hef þó ekki orðið svo vör við sjálf. Það var svipað þegar ég bjó í Winnipeg. Ég vissi yfirleitt ekkert um það ljóta sem gerðist í borginni, og þó eru framin fleiri morð í Winnipeg en nokkurri annarri borg í Kanada, að Edmonton undanskilinni. Það var ekki fyrr en ég flutti burt úr borginni sem ég heyrði minnst á Winnipeg mafíuna.
Svo var mál með vexti að minn fyrrverandi, Tim, var þá prófessor í heimspeki við Manitobaháskóla (nú við Columbusháskóla í Ohio). Einn nemenda hans, ungur myndarlegur maður, leitaði mikið til hans vegna þess að hann átti við þunglyndi að stríða og Tim hefur alltaf verið góður að tala við fólk í erfiðleikum. Árið eftir að við hættum saman og ég flutti til Vancouver sagði Tim mér að þessi strákur hefði fengið að gista hjá honum í viku. Ástæðan var sú að hann var flæktur í Winnipegmafíuna (alvörumafíuna, ekki listamafíuna) og hafði frétt að það ætti að drepa sig. Glæpamennirnir vissu hvar hann bjó hjá mömmu sinni og hann gat ekki farið þangað. Ég varð dauðskelkuð enda ekkert ólíklegt að þessir menn myndu elta hann úr skólanum og heim til Tims. En það gerðist ekki og strákurinn kom sér í burtu í einhvern tíma. Hann náði hins vegar að klára nám og fékk sitt masterspróf og ótrúlegt en satt, komst inn í Brown háskólann á Rhode Island sem er virkilega góður háskóli.
Um daginn fékk Tim símtal frá honum þar sem strákurinn sagði honum enn meira um glæpastarfsemina í Winnipeg, og þar kom í ljós að hann hafði verið miklu flæktari í glæpastarfsemi en Tim hafði nokkru sinni gert sér grein fyrir. En með dugnaði náði hann að vinna sig út úr þessu, flutti í burtu og er nú í doktorsnámi. Það er sem sagt hægt að rífa sig upp ef viljinn - og hugsanlega utanaðkomandi hjálp - er fyrir hendi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um glæpaheima
25.10.2007 | 16:31
Eins og margir hafa kannski séð í fréttum um daginn þá fundust lík sex karlmanna í íbúðarblokk í Surrey (ekki Vancouver) fyrir skemmstu. Lögreglan varðist fyrst allra frétta en nú hefur komið í ljós að fjórir karlmannanna voru tengdir glæpastarsemi og tveir voru óvart á svæðinu. Annar hinna saklausu var viðgerðarmaður sem var þarna til að gera við gas-arinn, og hinn, rúmlega tvítugur maður, bjó í sömu blokk og hafði ætlað út í körfubolta en endaði einhvern veginn í dauðaíbúðinni. Hinir fjórir voru allir góðkunningjar lögreglunnar og hafa sérstaklega komið að krakk-kókaín málum.
Þessi óhugnarlegu morð hafa vakið mikla athygli á glæpastarfsemi á svæðinu, og Vancouver Province, dagblaðið sem ég fór nýlega að kaupa, hefur verið með rannsóknargreinar á hverjum degi þar sem undirheimar stórborgarsvæðisins eru skoðaðir. Þar sér maður að til er heimur sem fólk eins og ég hreinlega þekkir ekki. Þetta er heimur eiturlyfja, vændis og glæpastarfsemi. Hér eru stundaðir undirheimaklúbbar þar sem allt er vaðandi í eiturlyfjum, 'slömmlávarðar' leigja út gömul hálffallin hótelherbergi til hinna fátæku þar sem allt er vaðandi í skordýrum og ódaunninn er svo sterkur að lyktin næst ekki úr fötunum í marga daga. Fjöldi glæpagengja er yfir 100 og þeir hafa verið að plamma hver annan niður undanfarið. Og dömur veita þjónustu sína hverjum þeim sem getur borgað.
Það eina sem ég hef komist nálægt því að sjá, utan við allt heimilislausa fólkið sem betlar á götunum, er ástandið í lestinni á næturnar. Ég þarf ekki oft að taka lestina eftir miðnætti, sem betur fer, og þegar ég tek hana kem ég inn eða fer út á stóru stöðvunum þar sem skjól er í fjöldanum. Það er verra á minni stöðvum sem hafa séð margar árásirnar á undanförnum mánuðum. 56 ára gömul kona er nýkomin úr dái eftir að hafa verið fórnarlamb fólskulegrar árásar í vor. Ungur drengur var skotinn til bana og fjöldi annarra var rændur eða laminn á leið í lestina eða úr henni.
Eins og ég segi þá sé ég lítið af þessu enda sjaldan á ferðinni eftir miðnætti, og betlararnir á götunum eru þeir einu sem ég verð vör við. Ég bý líka í góðu hverfi þar sem fólk er tiltölulega vel sett og það er eins og við séum vernduð frá umhverfinu. Maður les um ástandið en verður annars lítið var við það. Og mér finnst ég yfirleitt nokkuð örugg, jafnvel á kvöldin. En ég fer helst ekki í austurhluta miðbæjarins ef ég kemst hjá því, og alls ekki eftir myrkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Og dagarnir líða áfram
24.10.2007 | 22:21
Dagarnir undanfarið hafa verið eitthvað svo rólegir og óspennandi að ég hef eiginlega ekki haft frá neinu að segja. Meira að segja veðrið hefur verið þolanlegt síðan ég keypti fínu stígvélin mín - líklega af því að ég hlakkaði til að geta farið út án þess að verða eins og hundur á sundi. En jájá, síðan þá hefur sólin bara skinið og á víst að halda því áfram.
Átti reyndar voðalega notalegt kvöld hjá Alex og Línu á sunnudagskvöldið, þangað sem einnig komu Hallur og Andrea með stelpurnar sínar, Fönn, Dögun og Birnu. Ókei, Birna er ekki alveg stelpan þeirra en ég held þau hafi kannski ættleidd hana.
Ég er að reyna að vinna. Sest niður og skrifa aðeins í ritgerðinni minni, en tek svo pásu frá því og reyni að hugsa um mögulegt postdoc verkefni. Ef ég ætla að sækja um postdoc stöðu í Calgary verð ég nefnilega að koma með einhverja brilljant hugmynd á innan við viku. Og allar mínar hugmyndir undanfarið hafa verið um ritgerðina en ekki hvað tekur við að henni skrifaðri. Ef ég klikka á þessu mun ég sækja um í Dalhousie í Halifax en þar er umsóknarfrestur ekki fyrr en í desember. Reyndar langar mig að sumu leyti meira til Dalhousie hvort eð er. Calgary hefur reyndar frábær skíðasvæði en Halifax hefur beint flug til Íslands og þar að auki væri að sumu leyti spennandi að skella sér á austurströndina. Mér leið líka vel í Halifax þegar ég fór þangað fyrir nokkrum árum.
Annars er allt við það sama. Íslenskukennslan gekk ágætlega í gær en við enduðum á því að tala meira um íslenska menningu (og ómenningu) en tungumálið. Stundum fer það svo.
Og Vancouver Canucks gengur alls ekki nógu vel í hokkíinu. Þeir eru búnir að tapa fjórum leikjum og vinna fjóra og það er ekki nógu gott. Þeir eru í neðri helming vesturdeildarinnar og þurfa greinilega að bæta sig. Og það er ekki líklegt að það gerist í kvöld því þeir eiga að spila við Detroit Red Wingers með hinn ógurlega Henrik Zettenberg sem er á algjöru flugi þessa dagana. Þar að auki hefur Vancouver aldrei gengið vel í Detroit. En Sami Salo kemur aftur inn í liðið eftir að hafa brotið úlnlið og það er vonandi að hann er það sem þeir þurfa til að smella saman. Mér veitir nefnilega ekkert af fleiri ástæðum til að gleðjast - það er svo mikill skortur á þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gott að heyra
23.10.2007 | 21:07
![]() |
Námsmenn fagna frumvarpi um LÍN |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Undirbúningur undir veturinn
23.10.2007 | 00:05
Undanfarin ár hefur októbermánuður verið óskaplega fallegur í Vancouver og vetrarveðrið, þ.e. rigningin, ekki hafist að alvöru fyrr en í nóvember. Í ár erum við ekki svo heppin. Eftir tiltölulega leiðinlegt sumar fengum við nokkuð stutt haust og októbermánuður hefur verið ógurlega blautur. Undanfarnar tvær vikur hefur t.d. næstum því rignt upp á hvern einasta dag. Og gallinn er að þetta er komið til að vera. Við megum eiga von á rigningu meira og minn þar til í apríl eða svo. Í fyrra rigndi næstum því samfellt í tvö mánuði. Við fengum einn rigningarlausan dag inn í miðju, eða svo.
Ég hef yfirleitt ekki gert margt til að undirbúa mig undir rigninguna, nema ég er alltaf með regnhlíf í töskunni og þegar regnið verður sem verst fer ég í regnkápu og regnbuxur. Skórnir eru yfirleitt bara strigaskór, nema þegar pollarnir verða of miklir, þá hef ég farið í gömlu kuldaskóna mína frá Manitoba sem hafa þykkan plastsóla sem nær uppá skóna. En þeir eru of heitir fyrir venjulegt Vancouverveður. Enda gerðir fyrir 40 stiga kulda í Manitoba.
Eftir þennan blauta októbermánuð fór ég því loks út í dag og fann mér gúmmístígvél. Ég mátaði reyndar ein tískustígvél í gær en þau voru of stór og ég vil ekki þurfa að vera í tvennum pörum af ullarsokkum. Svo ég fór í sérverslun með rigningarvörur og fann þar tvenn pör af stígvélum númer fimm (sirka 35 og hálft). Önnur voru hvít með loðkraga og ég vildi þau ekki. Hin voru blá með hundum og köttum (sbr. It's raining cats and dogs 'það rignir hundum og köttum'). Ég labbaði um í þeim í svolítinn tíma til að venjast því að vera í bláum gúmmístígvélum með teiknimyndum á, og ákvað að ef ég færi meir út í rigninguna ef ég ætti góð stígvél, þá væri það þess vel virði. Þau kostuðu reyndar um 5000 krónur en það er ekki hægt að fá mikið ódýrari stígvél en það. Þetta eru hvorki svört Nokia né blá Viking, en þau ættu að duga eins vel.
Ég held ég verði bara býsna flott í stígvélunum mínum - og regnkápan mín er blá svo ég verð öll í stíl. Kannski ég sýni ykkur mynd af mér í múnderingunni einhvern daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hlustið á mig en ekki Reuters
21.10.2007 | 15:57
Það er greinilegt að Mogginn trúir fremur Reuters en mér því ég benti á það í gær að þessi morð hefðu ekki verið framin í Vancouver heldur í nágrannaborginni Surrey. Ég hef náttúrulega rétt fyrir mér þannig að ég sting upp á að Mogginn fari að bera allar Reuters fréttir undir mig. Þeir vita greinilega ekkert hvað þeir eru að segja, enda er þessi kerling sem talar inn á myndböndin þeirra ein sú al-leiðinlegasta sem fyrirfinnst og þótt breskur framburður geti verið flottur þá er hennar það ekki. Auk þess er hún sama sem mónótónísk.
Ég endurtek: Þessi morð voru í Surrey, ekki í Vancouver. Klínið ekki á okkur annarra borga morðum. Ég vil ekki hafa það.
Að þessari tölu lokinni ætla ég að fara og fá mér morgunverð, læra svo svoleiðis og fara svo í bíó og horfa á beina útsendingu á leik Vancouver Canucks og Columbus Blue Jackets. Það er liðið í borginni þar sem Tim, minn fyrrverandi býr, svo ég skipaði honum að fara á leikinn og garga svo niður til þjálfara Vancovuer að ég sé skotin í honum. Ég er ekki viss um að hann geri það fyrir mig en maður veit aldrei. Leikurinn er ekki sýndur í sjónvarpi en í staðinn fær maður að sjá hann á risaskjá sem er svolítið spennandi. Vonandi að þeir vinni því þeim hefur ekki gengið of vel að undanförnu.
![]() |
Sex voru myrtir í Vancouver |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Litir haustsins
21.10.2007 | 06:15
Ég fékk mér göngutúr um hverfið í dag (svona nokkurn veginn það eina sem ég gerði). Point Gray (hverfið mitt) er í haustlitunum, gulum og rauðum, og hvassviðrið fyrir helgina sveipaði götur og gangstéttir gulum ljóma laufblaðanna. Ég tók með mér myndavélina og tók myndir. Set nokkrar þeirra hér inn svo þið getið séð hvernig þetta leit út. Takið eftir að skreytingar fyrir Hrekkjavökuna eru líka svona smám saman að koma upp. Enda bara rúm vika þangaðtil. Svona er sem sagt Vancouver í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þetta gerðist bara ekki í Vancouver
20.10.2007 | 17:25
Þetta er nú ekki alveg rétt, nema Kópavogsbúar og Garðbæingar séu til í að vera sagðir í úthverfi Reykjavíkur. Þetta fólk fannst í Surrey sem er borg í nágrenni Vancouver - ekki úthverfi borgarinnar. Surrey er 317.4 ferkílómetrar að flatarmáli og þarna búa 394,976 manns, og borgin er þar með sú tólfta fjölmennasta í landinu (og Vancouver sú áttunda).
Við höfum alveg nóg af glæpum hér í Vancouver svo ekki sé verið að bæta á okkur glæpum þeirra yfir í Surrey.
Hér má sjá nánar um þetta.
Reyndar gerðist það líka í gær að flugvél flaug á blokk í Richmond sem er nágrannaborg okkar hér í suðri. Alþjóðlegi flugvöllur stórvancouversvæðisins er í Richmond og þessari Piper Seneca vél var hreinlega flogið inn í íbúð á sjöttu hæð. Flugmaðurinn lést og tveir íbúar íbúðarinnar voru fluttir á sjúkrahús. Enn er ekki vitað nákvæmlega hvað gerðist en vitni hafa lýst því þannig að vélinni hafi verið flogið á miklum hraða inn í íbúðahverfi og að hún hafi rétt misst af öðru fjölbýlishúsi áður en hún endaði inni í þessari íbúð. Margir sögðust hafa hugsað til ellefta september þegar þetta gerðist.
![]() |
Sex fundust látin í kanadísku húsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)