Færsluflokkur: Bloggar

Bara svona venjulegur dagur.

Þetta var tíðindalaus dagur. Svaf alveg til níu og tók morguninn rólega. Gerði nokkra hluti sem ég þurfti að gera en gekk ekkert fram af mér. Hitti Marion í Cliffhanger á hádegi og við klifruðum í tæpa tvo tíma. Ég stóð mig þokkalega. Okkar vanalega strákagengi var ekki á staðnum. Með haustinu virðist stundaskrá allra hafa riðlast og maður rekst ekki á sama fólkið lengur á sama tíma. Sumir eru náttúrulega í skóla og eru farnir að mæta í tíma en það á ekkert við um alla.

Eftir að ég kom heim vann ég að nýrri grein sem ég ætla að skrifa byggða á nýjustu hugmyndum mínum um framvinduhorf og um fimm leytið hringdi Tim í mig. Við höfum ekki talað saman lengi þannig að við við höfðum um margt að spjalla. Eftir að ég kvaddi hann fékk ég mér kvöldverð (þessa fínu pítu með íslensku pítusósunni sem Axel og María færðu mér - takk fyrir það), vann svolítið að ritgerðinni og horfði svo á sjónvarp. Í kvöld var sýndur fyrsti þátturinn í nýrri seríu um Mr. Monk. Frábært. Hann var góður að venju.  Gott að vetradagskráin er að hefjast.

Sem sagt, ekki frá neinu að segja en bloggaði samt. 


Íslendingapartý númer tvö

Hið óopinbera Íslendingafélag Vancouverborgar hélt samkomu númer tvö í gær. Að þessu sinni var haldin grillveisla á Spanish Banks ströndinni, enda hver orðinn síðastur að njóta góða veðursins. 

Partýið var skipulagt á Fésbókinni og ákveðið að hver kæmi með sitt. Engin grill eru á ströndinni svo ráðið var að koma með einnota grill. Halldóra og Sveinbjörn voru reyndar þau einu sem fundu slíkt enda sumarið búið og flestar verslanir búnar að læsa niður grillvörum. En þau gripu með sér þrjú, Eiríkur kom með venjulegt kolagrill og Lína og Alex bjuggu til sitt eigið (hafið samband við þau ef þið viljið skoða snilldina). Þetta dugði vel og ekkert vandamál var að grilla ofan í alla. Ég greip með mér þessa fínu nautasteik og borðaði hana með grilluðum aspas og sænsku kartöflusalati (auk þess sem ég stal frá öðrum Íslendingum - nei ég stal því ekki, allt var bara sett á borðið til almenningsnota).

Við vorum heldur fleiri en á Bimini kvöldinu því nú var hægt að koma með börnin. Gunnar og Suzanne komu með Yrsu en unglingurinn Elísabet nennti ekki að mæta. Hallur og Andrea komu með Fönn og Dögun og Eiríkur kom með sinn litla Trausta. Svo voru það Lína og Alex, Halldóra og Sveinbjörn, Birna og svo ég, af þeim sem áður höfðum mætt. Í hópinn bættust svo Katrín, Ómar og Wilhelm. Ómar hafði ég reyndar hitt nokkrum sinnum áður en hann kom hingað í fyrra.

Þetta var hin fínasta veisla. Ég held að allir hafi náð að kynnast nokkuð, maturinn var góður og félagsskapurinn auðvitað súper. Þegar sólin settist kólnaði töluvert og flíspeysur og annar kuldafatnaður var dreginn fram (af þeim sem voru viðbúnir kvöldinu). Það er orðið dimmt fyrir átta núna. Þetta breytist svo ótrúlega hratt. Næsta mánuðinn verður dimmra með hverjum deginum því þegar klukkunni verður breytt í lok október verður orðið dimmt um sex leytið (og þar af leiðandi um fimm leytið um leið og klukkunni er breytt). En kuldinn gerði það að verkum að okkur leið eins og við værum heima á Íslandi. Annars læt ég þetta hljóma eins og við höfum verið óheppin með veður. Það er alls ekki rétt því í raun var veðrið alveg frábært því það var sól og blíða þegar við mættum á svæðið um miðjan dag, eftir alla rigninguna síðustu viku og eins og sjá má á myndum vorum við fremur léttklædd. Það var bara þegar myrkrið skall á sem kólnaði. Það var meira að segja dögg í grasinu og bakpokinn minn var blautur þegar ég setti hann á bakið. En smá kuldi er ekkert fyrir Íslendinga. Þetta var frábær dagur. Og til að toppa þetta allt þá komu tónlistarmenn og söfnuðust saman rétt hjá okkur þannig að við höfðum tónlist til að hlusta á allt kvöldið. Þetta fólk safnast víst saman á hverju sunnudagskvöldi allt sumarið og spilar saman. Og hver sem er getur tekið þátt. Sniðugt.

Ég saknaði þess aldrei sérlega að hafa ekki fleiri Íslendinga í kringum mig en nú þegar ég hef fleiri í nágrenninu er ég ákaflega ánægð. Það er svo margt sem við eigum sameiginlegt og sem greinir okkur frá Kanadamönnunum. Þótt ég verði oft ógurlega pirruð á íslensku þjóðfélagi þá eru Íslendingar upp til hópa gott fólk og ég er ánægð með að geta talað móðurmálið oftar.

Nú er bara spurningin hvað hið óopinbera Íslendingafélag gerir næst.


Alveg að verða hálf-kanadísk

Ég fór í heljarinnar læknisskoðun í gær sem auk hinnar venjulegu læknisskoðunar (hlustun, kíkja í eyru og háls, berja með hamri í hné ...) innihélt röntgenmynd af brjóstkassa, þvagprufu og blóðprufu (þar sem helst er leitað að syphillis og HIV). Allt tók þetta um klukkutíma og tæplega þrjúhundruð dollara (18.000 krónur).  Og ástæðan? Kanadamenn vilja ekki gefa veiku fólki ótakmarkaða landvist. Þessi læknisskoðun var sem sagt hluti af innflytjendaumsókn minni.

Fyrir þá sem ekki vita er hægt að dvelja í Kanada á ferns konar leyfum: 1. Sem ferðamaður (takmarkað við sex mánuði); á tímabundnu dvalaleyfi (svo sem atvinnuleyfi eða námsleyfi, lengd mismunandi eftir aðstæðum); á ótakmörkuðu leyfi (permanent residency - hægt að vinna og fara í skóla og gera það sem manni sýnist eins lengi og maður vill svo framarlega sem maður býr í landinu. Ef maður flytur burt missi maður þessi réttindi eftir tvö ár); sem ríkisborgari.

Ég hef alltaf verið á þessum takmörku leyfum og núna þýðir það t.d. að ég þarf að fara úr landinu um leið og ég er búin í skólanum. Fyrir rúmum tveimur árum sótti ég um breytingu á leyfinu í hið varanlega leyfi, svo ég geti verið hér áfram ef mér sýnist svo, og það er svo mikið að gera á skrifstofunni í London að svona löng er nú biðin orðin. Fyrr í vikunni fékk ég svo loks boð um að fara í læknisskoðun (og um að borga leyfisgjaldið - sem kemur ofan á umsóknagjaldið) og það er í raun það fyrsta sem ég heyri frá þeim um að þeir séu loks farnir að kíkja á umsóknina mína. Nú gætu hlutirnir reyndar farið að gerast hratt. Það tekur um viku að fá læknisgögnin og þá verða þau send með hraði til London. Ég ætla að vera búin að borga gjaldið fyrir þann tíma og eftir það er líklegt að þeir heimti íslenska vegabréfið mitt svo þeir geta gengið lokaskrefið í að veita mér þennan status. Og á meðan þeir hafa vegabréfið get ég ekki farið spönn úr rassi og þess vegna þori ég ekki að kaupa flug heim um jólin. Mun ekki gera það fyrr en ég verð búin að fá passann minn til baka, og komið með 'permanent residency' kortið í hendurnar.

Ég get síðan sótt um kanadískan ríkisborgararétt tveimur árum síðar, ef ég vil, en það gæti verið ágætur kostur ef ég verð hér eitthvað áfram. Nú þegar Ísland leyfir tvöfaldan ríkisborgararétt getur það verið gott mál.

En í fullkomnum heimi fæ ég vinnu við háskóla á Íslandi og kem heim að námi loknu. En ekki hafa nú verið auglýstar margar stöður í málvísindum á Fróni undanfarin tíu ár eða svo. 


Fjölskyldulíf í dag

Kanada og Ísland eru svipuð hvað það snertir að hið gamalkunna fjölskyldumunstur verður sífellt sjaldgæfara. Hér í Kanada er það kallað 'Leave-it-to-Beaver-fjölskyldumunstrið', eftir samnefndum þáttum, en á Íslandi var þetta nú vanalega kallað vísitölufjölskyldan, var það ekki? Hjón með tvö börn.

Nú eru fjölskyldumál orðin svo flókin að það er til að æra óstöðugan. Algengt er að sjá einstæða móður með barn/börn, einstæða feður með barn/börn, fólk í sambúð með barn/börn, hjón eða fólk í sambúð með börn frá fyrri samböndum eða hjónaböndum (stundum þannig að það eru mín börn, þín börn og okkar börn), tveir karlar eða tvær konur með barn/börn, o.s.frv.

Þessi mynd segir allt sem segja þarf:

 

families
Fyrir þá sem eru ekki sterkir í enskunni:
 Barn 1: Hann býr heima hjá mömmu sinni OG pabba sínum OG þau eru GIFT.
Barn 2: Það er dónalegt að stara þótt einhver sé öðruvísi. 

 


Þvottabirnir í Stanley garði

Eins og ég nefndi fyrr í vikunni komu frændfólk mitt, Axel og María, í heimsókn á mánudaginn og voru hér í tvær nætur. Fyrri daginn notuðum við aðallega í að versla en seinni daginn var ætlunin að fara í skoðunarferð um borgina og nágrenni. Nema hvað það mígrigndi um morguninn og við fórum ekki út úr húsi fyrr en eftir hádegið. Veðurspáin hafði verið fyrir rigningu á mánudeginum en fínt veður á þriðjudegi, nema hvað þetta snerist við. 

Eitt af því sem við gerðum var að fara í Stanley Park, sem er risastór garður hér í Vancouver. Þar stoppuðum við á útsýnisstað þar sem sjá má yfir í borgirnar í norðrinu. Þar mættum við þessum tveim vinalegu þvottabjörnum. Það er greinilega búið að gefa þeim mat (sem auðvitað er alveg bannað) því þeir voru ekkert hræddir við fólk og fóru bara og betluðu eins og illa uppalinn hundur.

 two raccoons.JPGclose-up raccoon.JPGthirsty raccoon.JPGsuprised raccoon.JPGstanding raccoon.JPGbegging raccoon.JPG


Gestir á sjöundu

Það er fjölmennt á sjöundu götu í nótt. Axel og María, frændfólk mitt frá Íslandi er í heimsókn og gista hér hjá mér. Ég er svo góð frænka að ég sendi þau inn í herbergi og sef sjálf á sófanum í stofunni.

Dagurinn var fínn. Ég vann vel í morgun þegar þau voru að keyra upp frá Seattle, þar sem þau eru í heimsókn hjá frænku Maríu. Við hittumst síðan í Metrotown molanum og skelltum okkur í verslun. Það var nú ekki margt keyrt. Þaðan keyrðum við yfir til Vancouver (Metrotown er í Burnaby) og stoppuðum á leiðinni í fótboltaverslun þar sem ég fékk nýja takkaskó. Axel, þessi elska, tilkynnti þegar ég reyndi að borga skóna, að þetta væri afmælisgjöfin þeirra til mín og þar með var kortinu skilað til mín aftur og ég fékk ekki að borga. Þau buðu mér svo út að borða á eftir og við fengum frábæran mat á Earls. Maríu fannst reyndar karrí rétturinn sem hún fékk of sterkur en Axel var himinlifandi yfir borgaranum sínum.

En nú þarf ég að fara að sofa því í stofunni er ég enn nær vinnumönnunum sem munu vekja mig í fyrramálið með hamarshöggum. 


Stór dagur á miðvikudaginn

Ég er farin að hlakka ógurlega til miðvikudagsins því þá mun ég í fyrsta skipti SJÁ THE VANCOUVER CANUCKS MEÐ EIGIN AUGUM!!!!!!!Happy

Já ég á miða á leikinn Vancouver-Calgary sem hefst klukkan sjö á miðvikudagskvöldið. Að sumu leyti hefði verið skemmtilegra að fara á leikinn á mánudaginn því þá munu  þeir leika á móti Anaheim, Stanley Cup sigurvegurunum frá því í vor, sem hafa frábært lið (og þá hefði ég líka fengið að sjá Teemu Selanne og Chris Pronger), en frændfólk mitt kemur í heimsókn á morgun og ég vil frekar eyða kvöldinu með þeim. Og þar að auki er miklu líklegra að Vancouver vinni Calgary og ef ég kemst aðeins á einn leik vil ég heldur að það sé leikur þar sem líkur á sigri er góðar. Svona er það bara.

Spurningin er hins vegar hversu mikið ég mun sjá af leiknum. Það er hugsanlegt að ég sitji bara uppi í blóðnösunum með kíkinn og horfi á þjálfarann í leikmannaboxinu. Ég er ekki enn búin að gleyma því hversu glæsilegur hann var í smókingnum í vor þegar hann tók við bikarnum sínum. Kannski ekki furða þegar ég set þessa mynd hérna reglulega á síðuna mína. Og ekki má gleyma risastóra plakatinu sem ég límdi í loftið fyrir ofan rúmið mitt...hehe, góð hugmynd annars. Hvar ætli ég fái svoleiðis?


Ný fjárútlát

Alveg er það merkilegur andskoti hvernig maður þarf alltaf að eyða hellings pening á sama tíma. Í byrjun september varð ég að borga fyrstu útborgun af skólagjöldunum, svo kom tölvan sem ég hafði pantaði (af því að gamla tölvan dó), samanlagt um 230.000. Reikningarnir þennan mánuðinn eru líka háir.

En eins og það sé ekki nóg - í dag fór ég og spilaði ultimate með nýja liðinu hans Ryans (sumar-ultimate liðið okkar spilar ekki á veturna) af því að fótboltaleiknum mínum var frestað vegna verkfalls (grasið ekki verið slegið í tvo mánuði og völlurinn þótti ekki nothæfur). Það var blautt á því það rigndi í nótt, og ég var rétt farin að labba um þegar ég fann að ég var orðin blaut í fæturna. Ég athugaði málið og er þá ekki komin svona svaka rifa á hægri takkaskóinn. Ég get sett þrjá fingur í gegn og kæmi ábyggilega þeim fjórða ef ég reyndi. Það er ekki séns að hægt sé að gera við þetta. Ég verð að kaupa nýja skó. Og þokkalegir takkaskór eru ekkert ódýrir.

Ég þarf helst að fá nýja fyrir þriðjudagskvöldið því þá förum við á æfingu hjá knattspyrnusambandinu með svona alvöru þjálfara sem mun meta liðið og koma með tillögur um hvað við þurfum að æfa betur. Hann mun einnig aðstoða okkar þjálfara og sýna honum hvert hans verk er. Verð að geta spilað almennilega þá.

Sem sagt, verslunarleiðangur framundan. 


Vinnudagur

Dagurinn í dag hefur verið rólegur og gagnlegur en ekki sérlega skemmtilegur. Ég ætlaði mér að sofa út en bölvaðir iðnaðarmennirnir virðast vinna í húsinu hér við hliðina hvern einasta laugardag núna. Ég get aldrei sofið út því þeir eru alltaf mættir eldsnemma á morgnana með hávaða og læti. Stundum vinna þeir bara í nokkra klukkutíma en byrja samt alltaf snemma. Ég held líka að þeir geri allt það hávaðasamasta um leið og þeir mæta og dunda sér svo við hljóðlegri vinnu þegar líður á. Rétt svona til að tryggja að enginn í nánasta nágrenni fái að sofa mikið lengur en þeir.

Ég skreið sem sagt á fætur í morgunsárið, lagaði svolítið til, bloggaði um afmælisveisluna mína og fór svo að vinna. Ég er að reyna að ljúka grein sem ég er að vinna að með Bryan, hljóðfræðikennaranum mínum. Þarf að ljúka mínum hluta ekki síðar en á þriðjudaginn því Bryan þarf svo að lesa einu sinni yfir áður en við sendum inn greinina, og hann fer úr bænum á fimmtudaginn.

Það er reyndar ekki mikið eftir. Ég er fyrst og fremst að prófarkalesa greinina og einnig þarf ég að sjá til þess að hún sé í samræmi við staðla tímaritsins sem við ætlum að reyna að koma henni í. Það er fremur nýlegt rit sem heitir Journal of the Acoustic Society of America Express Letters (eða JASA Express Letters). Þetta er tímarit sem er fyrst birt á netinu, áður en það er prentað, og því er biðin eftir birtingu ekki eins löng. Ég þarf á fleiri birtingum að halda eins fljótt og hægt er því ég þarf að huga að vinnu fljótlega. Ef maður sækir um prófessorsstöður í háskólum þarf að sækja um með um það bil árs fyrirvara. Umsóknafrestur fyrir stöður sem hefjast næsta september rennur oftast út í nóvember eða um það leyti.

Ég vann líka svolítið að öðru verkefni sem ég er að hugsa um að taka að mér sem svona pínulítið aukaverkefni. Veitir ekki af peningunum. En áður en ég get tekið verkefnið að mér þarf ég að sýna fram á að ég sé hæf til þess. 

Núna er verið að sýna The Mexican í sjónvarpinu. Ég skrifa þetta blogg í hvert sinn sem gert er auglýsingahlé. Þetta er ágætismynd - það eina sem horfandi var á í kvöld. Mikið rosalega sakna ég hinn tvöhundruð stöðvanna sem ég hafði í sumar. En bráðum koma allir vetrarþættirnir aftur og þá getur maður farið að horfa á Aðþrengdar eiginkonur og alla hina þættina.


Afmælisveislan fína

Jæja,þá er ég vöknuð og komin langleiðina með að þrífa eftir partýið. Það var minna að þvo upp en ætla hefði mátt því gestir áttu það til að skreppa fram í eldhús og þvo nokkra diska þegar þannig lá á þeim. Nei, ég held það sé ekki tákn um að þeim hafi leiðst svona heldur finnst fólki hér almennt hræðilegt að maður skuli sjálfur þurfa að halda sínar afmælisveislur. Þeim finnst að maður eigi bara að slappa af og hafa það gott á meðan aðrir sjá um að þræla. Það hljómar eiginlega vel en ég er svo mikill Íslendingur í mér að ég er vön að sjá bara um mínar veislur sjálf enda þykir mér gaman að baka og bjóða heim fólki.

Dagurinn hófst laust fyrir níu þegar ég skreið á fætur og fór til Rosemary vinkonu minnar í morgunverð. Ég sef vanalega ekki svona lengi en ég hafði komið seint heim kvöldið áður eftir fanta matarboð hjá Halli og Andrea og dundaði mér svolítið í tölvunni þar á eftir, þannig að ég var óvenju syfjuð. Þar að auki var ekki mikill hávaði í vinnumönnunum við hliðina.

Rosemary bauð upp á ekta ammmmrískan morgunverð með bláberjapönnukökum, beikoni og morgunverðarpylsum. Glettilega gott. Þaðan hjólaði ég svo upp í skóla og hitti Lísu kennara minn á kaffihúsi þar. Hún er í rannsóknaleyfi og fer því helst ekki upp í deild (þá yrði hún dregin í vinnu). Hún er samt ennþá í nefndinni minni enda annar tveggja umsjónakennara. Ég hafði hugmynd um lausn á einu vandamáli í ritgerðinni minni og vildi ræða það við Lísu. Henni leist vel á hugmyndina og hjálpaði mér að formúlera hana þannig að við vorum ánægðar með árangurinn.

Ég kom heim og lagaði til, talaði við mömmu og pabba, skrapp svo út í búð að versla - tvisvar, af því að ég gleymdi sumu fyrst. Klukkan var orðin fjögur þegar ég fór í að þrífa íbúðina - eins vel og hægt er á einum klukkutíma. Klukkan fimm hófst matarundirbúningur og á tveimur klukkutímum bakaði ég marens, bjó til tvo heita rétta, bakaði bananaköku, og bjó til rice crispies toppa og túnfisksalat. Og ég náði meira að segja að ryksuga (sem ég hafði geymt þar til síðast) og fara í sturtu innan þessa tveggja tíma. 

Fyrstu gestirnir komu klukkan sjö og allir voru komnir fyrir átta. Þetta var svona sambland af gamla genginu sem er boðið í allar veislur hjá mér (Julianna og Tim, Marion og Ryan, og svo Gunnar, Suzanne og Yrsa), og nýju íslensku (og næstum því íslensku - lesist austurrísku - vinunum, Lína og Alex og svo Hallur, Andrea, Fönn og Dögun). Við getum sagt að þetta hafi verið hámarksfjöldi gesta fyrir íbúðina. Það mætti auðvitað hrúga inn fleirum ef fólk stæði og dreifðist út um allt en þarna gátu allir verið inni í stofu og setið, annað hvort á stólum eða á gólfinu.

Stelpurnar litlu voru að hittast í fyrsta sinn og þótt Yrsa og Dögun væru næstum jafnaldra (hálft ár á milli) tók það þó nokkurn tíma fyrir þær að ná saman. Yrsa er auðvitað óvön því að heyra börn tala íslensku og Dögun er nýbyrjuð á leikskóla og er farin að babla á sinni eigin ensku (sem fæstir skilja ennþá en það mun koma). Þær voru þó farnar að hoppa á rúminu mínu svona undir lok kvöldsins. Svo setti ég bara Wallace and Gromit í tölvuna og litlu gellurnar lágu uppi í rúmi og horfðu á sjónvarp.

Laust fyrir miðnætti voru allir farnir heim (enda partýið þá búið að standa í fimm klukkutíma og Rita fyrir neðan hefði kvartað ef eitthvert næturbrölt hefði verið í gangi) og ég skreið í kojs. 

Fleiri myndir má sjá á Flickr síðunni minni:

http://www.flickr.com/photos/stinamagga/ 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband