Færsluflokkur: Bloggar

Viktoríudagur

Í dag er Victoríudagur í Kanada og þar af leiðandi frídagur. Það þýðir að ég fékk ekkert blað í morgun og las því Tinnabók með morgunverðinum í stað fréttanna. Það slæma er að það verður ábyggilega troðfullt í klifursalnum í dag fyrst allt þetta fólk á frí. Og svo rignir í þokkabót þannig að ekki getur maður treyst á að liðið hafi farið til Squamish að klifra útivið.

Vancouver stemning

Ég hef ekki tekið mikið af myndum undanfarið. Þegar ég var að renna í gegnum iPhoto möppuna mína sá ég að ég hafði aðeins einu sinni tekið myndir í maí og aðeins einu sinni í apríl. Sem er algjör synd því þetta er eiginlega einn fallegasti tíminn - vorið. Ég var aðeins duglegri í mars og kannski er ástæðan sú að í mars fór gróðurinn af stað í alvöru, þá fórum við líka að fá fallega daga af og til, o.s.frv. Alla vega tók ég töluvert af myndum þá.

IMG_8019

Ég set inn örfáar hér, til að sýna ykkur aðeins stemninguna hér, en einhvern daginn ætti ég að setja saman svolitla sýningu með myndum frá Vancouver - svona til að sýna ykkur þarna heima að það er vel þess virði að skella sér á vestur ströndina. 

Fyrsta myndin er tekin af lítilli bryggju á Lacarno ströndinni sem er um tíu mínútna gang frá heimili mínu. Ég bý uppi á hæðinni og þarf bara að labba þvergötuna mína niður að ströndinni. Þarna sést vel yfir í miðbæinn en það tekur mig um hálftíma að fara þangað með strætó. Mér fannst svo skemmtilegt að sjá mávinn sitja þarna á skiltinu.

IMG_8035

 

Mynd númer tvö er líka af mávi. Bæði er að mér þykir gaman að taka myndir af fuglunum, en mér finnst líka mávarnir einhvern veginn svo mikið einkenni á Vancouver. Kannski er það vegna þess að ég sá ekki mikið af mávum þegar ég bjó í Winnipeg (þótt þeir hefðu vissulega verið þar) en þegar ég flutti vetstureftir heyrði maður gargið í þeim næstum því hvar sem var. Myndin er tekinn inn í sólsetrið í vestri og nesið sem skagar þarna út vinstra megin á myndinni er háskólasvæðið.

 

 

Þriðja myndin er tekin niður í False Creek, rétt við Ganville Island þar sem er stærsti markaður borgarinnar. Þar má fá ávexti, grænmeti, kjötmeti, fisk, blóm, o.s.frv. Kirsuberjatréð til vinstri er eitt af einkennum borgarinnar í mars því þau eru út um alla borg. Stundum bleik, stundum hvítleit, en alltaf falleg. Einnig má sjá glitta í Burrard brúna og þar á bakvið glerháhýsi miðbæjarins. Þetta eru almennt íbúðablokkir en ekki svo mikið skrifstofubyggingar eins og háhýsi flestra annarra borga. Einnig má sjá glitta í möstur seglbátanna sem á góðum vinddegi fylla sundið.

 

Síðasta myndin sýnir návígi við kirsuberjatré. Mér þykir þau svo falleg. 


Verð ég kóngulóarkonan?

Ég held ég hafi verið bitin af kónguló. ég hef lítið bit á ökklanum, fyrir neðan tattúið mitt, og mig klæjar í það. Sérstaklega þegar ég er í baði. Marion heldur að þetta sé bara moskítóbit en ég held að moskíturnar séu ekki komnar á stjá. Ég hallast að kónguló. Spurningin er núna hvort ég hef öðlast einhverja yfirnáttúrulega krafta við það.

Mmmmmm sushi!

Nú ætla ég að fara með Marion og Ryan að borða sushi í kvöldmat og fara svo í bíó. Það ætti að vera þolanlegt laugardagskvöld.

Bikarinn til Kanada?

Í dag unnu Ottawa Senators fjórða leikinn gegn Buffalo Sabres, 3-2 í framlengingu (í hokkí) og þar af leiðandi seríuna 4-1. Ottawa hefur því unnið sér rétt til að leika til úrslita um Stanley bikarinn. Mótherjarnir verða annað hvort Anaheim Ducks eða Detroit Red Wings sem nú eru jöfn í vesturriðlinum, 2-2. Þar á því enn eftir að leika alla vega tvo leiki og hugsanlega þrjá. Ottawa ætti því að hafa vel hvílt lið þegar þeir mæta í úrslitin. Þetta er frábært fyrir Kanada sem nú á möguleika á að fá Stanley bikarinn heim. Það gerist nú ekki svo oft. Og ég er ánægð að það er Ottawa sem á möguleika á þessu fyrst Vancouver datt úr leik. Ég vil frekar að bikarinn fari þangað en í nokkra aðra borg. Toronto, hvað?

Hvað kom fyrir bloggið mitt?

Ég held það hljóti að vera eitthvað að þessum teljara á moggablogginu. Samkvæmt forsíðunni minni hafa verið yfir 700 flettingar hjá mér í dag. Það er eins og þokkaleg vika svona öllu jöfnu. Vanalega nennir enginn að lesa bloggið mitt nema mamma og pabbi, örfáir trúir bloggvinir og svo einn og einn sem dettur inn svona af og til. Ég skil bara ekkert í þessu

Hið besta mál

Það væri geysilega gott fyrir Ísland að fá fleiri kvikmyndir teknar upp á landinu.

Kvikmyndaiðnaðurinn er geysisterkur í Vancouver og hér er tekið upp nóg af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum til að halda stöðugt a.m.k. fjórum kvikmyndagengjum allan ársins hring. Þetta skapar gífurlega atvinnu; ekki bara þeirra sem hafa fullt starf af þessu heldur einnig þeirra sem leika aukahlutverk. Ég hef t.d. kennt náunga (íslensku) sem er ellilífeyrisþegi en fær alltaf svolítinn vasapening fyrir að vera aukaleikari í kvikmyndum og bíómyndum. Þar að auki segir hann að það sé ótrúlega skemmtilegt. 

X-files þættirnir voru teknir upp hér á sínum tíma og sama má segja um Stargate seríurnar. Men in Trees þættirnir, sem hafa nýlokið fyrsta ári, voru teknir upp hér (en eiga að gerast í Alaska), Supernatural þættirnir hafa verið teknir upp hér tvö síðustu ár, og nýlega las ég að Criminal Minds þættirnir væru líka teknir upp hér. Og þetta er bara brot. Í vetur sýndu sjónvarpsstöðvarnar bandarísku um 46 sjónvarpsþætti sem teknir voru upp í Vancouver eða nágrenni, og fjöldi mynda sem er tekinn upp hér er hærri en það.

Þetta gerir það líka að verkum að ef maður er á réttu stöðunum getur maður oft séð fræg andlit. Ég er reyndar ekki mikið á réttu stöðunum því réttu staðirnir eru vanalega flottustu veitingahúsin niðri í bæ - sem ég hef ekki efni á að sækja. En stundum sé ég einhvern út á götu eins og ég hef áður bloggað um. Um daginn var ég í kjörbúðinni minni hér í hverfinu og sá þá mann sem líkist ótrúlega einum þessara leikara sem maður sér alls staðar í smáhlutverkum en veit ekki hvað heitir. Ég hef nokkrum sinnum séð hann áður að versla en vanalega ekki hugsað út í það. En síðast þegar ég sá hann þá loksins áttaði ég mig á því að þetta gæti alveg verið sá náungi því hér búa auðvitað fjölmargir leikarar árið um kring, eða í einhverja mánuði á meðan tökur fara fram, og þeir þurfa víst að borða líka. Þannig að leikari í matvöruverslun er ekkert sérlega ótrúlegt. Og ég bý í góðu og notalegu hverfi og ekkert skrítið að leikarar vildu búa hér. 

Ég veit reyndar ekki hvaða áhrif ein og ein mynd hefði á kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi en ég myndi giska á að ef alla vega tvær þrjár myndir væru teknar upp þar, utan við þær örfáu íslensku myndir sem gerðar eru í  landinu, þá ætti það að skapa töluverðan fjölda starfa og ég myndi giska á að nokkrir sem í dag geta ekki lifað af kvikmyndaiðnaðinum, gætu gert þetta að fullu starfi. Landkynningin er auðvitað mikilvæg líka en þá aðeins ef það er nokkuð vel vitað hvar myndin er tekin upp. Það mun ekki hjálpa Íslandi ef fólk veit ekki hvar þessi náttúruundur eru. Það hefur t.d. ekki haft nein sérstök áhrif á ferðamannaiðnaðinn í Kanada hvað margar myndir eru teknar upp hér. Ef myndin á að gerast í Alaska þá heldur fólk vanalega að hún sé tekin upp þar. Allt er að sjálfsögðu gert til að staðurinn sé trúverðugur. Bandaríski fáninn blaktir t.d. oft við hún uppi í háskóla og lögreglubílar merktir 'Seattle Police' keyra fram hjá. Winnipeg er vanalega notuð þegar teknar eru upp bíómyndir sem eiga að gerast í Chicago, o.s.frv. 

 Sem sagt, ég held það gæti verið mjög gott fyrir Ísland ef fleiri myndir yrðu teknar upp í landinu, en auðvitað vitum við öll að kvikmyndageirinn er fallvaltur og þótt standi til að taka þessa mynd á Íslandi þá er best að trúa ekki of miklu fyrr en liðið er mætt á staðinn. 

 


mbl.is Stórmynd líklega tekin á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju í fjandanum er ég í Kanada?

Af því að það skrifar aldrei neinn í gestabókina mína líða yfirleitt mánuðir á milli þess að ég kíki þangað inn. Nú hef ég hins vegar séð kveðju frá Huldu Magg, gamalli bekkjarsystur minni úr MA þar sem hún vill fá að vita hvað í ósköpunum ég sé að þvæla í Kanada. Það er best ég svari því hér fremur en á gestabókinni sjálfri.

Fyrir um það bil átta árum sá ég auglýsingu um stöðu íslenskukennara í Winnipeg í Kanada. Ég var þá að vinna á Orðabók Háskólans og fannst spennandi hugmyndin að búa í útlöndum um tíma. Ef mér þætti ekki skemmtilegt þá væri það allt í lagi því staðan var bara auglýst til eins árs hvort eð var. Ég var reyndar tiltölulega nýbúin að kaupa mér íbúð og því kannski ekki endilega tilbúin að pakka niður og flytja til útlanda en sótti samt um og ákvað að láta það bara ráðast. Ég fékk stöðuna í byrjun ágúst og hafði mánuð til að pakka niður í kassa, senda dótið mitt til mömmu og pabba, taka bara það sem ég þyrfti á einu ári, ganga frá íbúðinni, finna leigjanda, o.s.frv. o.s.frv. Fyrsta september var ég komin til Kanada, byrjaði að kenna viku síðar og var stuttu síðar beðin um að vera annað ár. Árin urðu fjögur og ég átti mér dásamlegan tíma í Winnipeg. Kynnist fullt af góðu fólki, kanadískri og vestur-íslenskri menningu og þroskaðist og dafnaði ákaflega vel. Bjó megnið af tímanum með ákaflega geðugum, ungum, kanadískum heimspekiprófessor. Þegar það samband leið undir lok ákvað ég að fara eitthvert annað en var ekki tilbúin til að fara heim svo ég sótti um inngöngu í doktorsnám í Vancouver og fékk inn. Ég hafði alltaf hugsað um að fara í frekara nám og þetta var gott tækifæri. 

Og þess vegna er ég núna í Vancouver. Ég er að ljúka fjórða ári í doktorsnáminu og er nú að skrifa doktorsritgerðina mína. Það mun taka nokkurn tíma því miklar kröfur eru gerðar til þessara ritgerða. Maður þarf víst að segja eitthvað af viti (haldiði nú)!

Utan við það að vera í skóla reyni ég að fá góða hreyfingu og þá helst með því að spila fótbolta og stunda klifur. Ég reyni líka að komast á skíði af og til enda frábærar brekkur ekki langt frá Vancouver, ég fer út að hlaupa og á sumrin fer ég á línuskauta. Í sumar langar mig að fara oftar á kajak en ég hef gert undanfarin sumur en það er fremur dýrt.

Það er annars dásamlegt að búa í Vancouver. Hér er mildasta veðurfar í landinu (fer varla undir frostmark) og sumrin dásamleg. Af því að borgin er á strönd Kyrrahafsins eru hér frábærar strandir þar sem hægt er að sóla sig á sumrin. Maður þarf ekki að fara til Spánar til að hafa það gott í sólbað. Fyrir norðan og austan borgina eru fjöllin og þar er ótrúlegt útivistarsvæði jafnt sumar sem vetur. Skíði á veturna, fjallgöngur og fjallahjól á sumrin. Og ef hvessir fyllist sundið af seglbátum. Fólk hér er almennt mjög heilsusamlegt og hugsar mikið um hreyfingu, útivist og náttúruna.

Hulda spurði líka hver Martin væri. Hann er vinur minn frá Gatineau í Quebec sem ég kynntist þegar ég vann í Gatineau í fyrra (og bjó í Ottawa). Hann vinnur fyrir kanadíska utanríkisráðuneytið og er því nokkuð fastur fyrir í höfuðborginni. Við höfum verið í fjarsambandi í vetur en það er erfitt að þróa slík sambönd þannig að við verðum bara að sjá hvað gerist í framtíðinni. Annars vita auðvitað þeir sem hafa lesið bloggið mitt undanfarið að ég er laumulega skotin í þjálfara Vancouver í hokkí!!!! Hehe, get ekki staðist þessa Quebec gæja!


Rólegur dagur

Haldiði ekki að ég hafi ryksugað í kvöld! Það var alveg tími til kominn.

Dagurinn hefur annars verið rólegur í dag. Ég fór á fund útbússtjóra í bankanum mínum  í dag sem hjálpaði  mér að fylla út endalausan fjölda af eyðublöðum tengdum lífeyrissjóðnum sem ég greiddi í á meðan ég vann í Manitoba. Alltaf sama skriffinnskan í Kanada. Ég hafði reynt að gera þetta áður með hjálp starfsmanns í bankanum en hann vissi ekkert hvað hann var að gera svo ég varð að lokum að fá hjálp frá efstu stöðum. þessi var frábær. Hann fyllti þetta bara út fyrir mig og sagði mér svo hvar ég ætti að skrifa undir.

Þar á eftir fór ég út í Cliffhanger að klifra. Ég komst loksins áfram í V3 leið sem ég hef ekki getað klárað. Ég kláraði reyndar ekki heldur en ég náði haldi sem ég hef bara ekki getað náð hingað til. Ég komst töluvert fram yfir það en datt svo loksins þegar tvö höld voru eftir. Það var vegna þess að ég missti fóthald og hékk of lengi úr loftinu án þess að koma fótunum aftur á hald í loftinu. Þegar maður klifrar neðan úr veggnum (loftinu) er mun mikilvægara en ella að maður missi ekki grip því það er erfitt að komast á stað aftur. Kannski mun ég ná að klára næst. Ég veit alla vega núna hvar ég þarf að koma fótunum.

Ég var að hugsa um að fara í bíó í kvöld og sjá nýju Shrek myndina en ákvað á endanum að spara peninga og vera bara heima. Það er hins vegar ekki margt merkilegt í sjónvarpinu í kvöld því flestar seríur eru komnar í sumarfrí, þar á meðal Ghost Whisperer og Close to Home sem ég hef horft svolítið á. Í kvöld er svo lokaþátturinn í Law & Order. Það er reyndar verið að sýna frá Minningabikarnum í hokkí, þar sem eigast við bestu liðin í unglingahokkíinu. Vancouver Giants tekur þátt (hitt Vancouver liðið) en það er ekki alveg það sama að horfa á þá og að horfa á Canucks. Þannig að ég hef leikinn í gangi og fylgist með af og til. Staðan núna eer 3-3 og þriðji hluti er næstum búinn, þannig að það lítur út fyrir að þurfi að framlengja. Ég hafði reyndar hugsað mér að fara á leikinn því ég hélt það yrði ódýrara en að fara á Canucks leiki, en ódýrustu miðarnir eru um 3000 krónur og ég hef annað við peningana að gera.

Eitt af því sem ég gerði við peningana mína var reyndar að kaupa miða á tónleika Bjarkar á miðvikudaginn. Mér finnst ég verði eiginlega að fara. 


Loksins sigur

Við unnum loks í fótboltanum. Reyndar var hitt liðið ekki með fullt lið þannig að það er ekki alveg að marka, en við spiluðum vel og unnum 7-2. Ég skoraði fjögur mörk. Sjálfstraustið kom til baka og ég skoraði þrjú mörk þannig að ég fékk boltann nálægt miðju og tók hann alla leið inn. Í þau fáu skipti sem ég fékk svoleiðis tækifæri í vetur skaut ég of snemma og klúðraði, en í kvöld trúði ég á sjálfa mig og tók boltann alla leið inn þar til ég gat sett boltann í netið án vandræða. Það var býsna skemmtilegt. Hin þrjú mörkin skoruðu Karen, Jen og Sherry, og allar voru þær að skora sitt fyrsta mark. Það skemmtilega er að þær eru allar miðjuleikmenn en ekki framherjar. Ég var reyndar eini vanalegi framherjinn. Hinar sem spila þá stöðu voru ýmist meiddar eða ekki í bænum. Þannig að við héldum að það yrði vandamál en þá komu miðjustelpurnar bara sterkar inn í staðinn.

Við höfðum að sjálfsögðu ekki rúllað þessum leik upp ef hinar stelpurnar hefðu haft fullt lið (þær spiluðu níu eða tíu) en við spiluðum virkilega vel, sendum boltann vel á milli, sköpuðum endalaus tækifæri og uppskárum eftir því. Nú er bara að vona að þetta aukna sjálfstraust skili sér í næsta leik. 

Annars vil ég líka segja frá því að í gær fór ég út að hlaupa eftir að sólin settist niður og sá uglu fljúga beint fyrir framan mig. Ég hafði ætlað að hlaupa um hverfið á götunum fyrst farið var að dimma, en hnéð á mér kvartaði svo ég hljóp inn í skóginn. Vanalega hleyp ég ekki í skóginum eftir sólsetur en það var enn býsna bjart svo ég taldi þetta í lagi. Inni í skóginum var fremur dimmt enda há tré og mikið laufþykkni og allt í einu sé ég þetta flykki fljúga yfir stíginn fyrir framan mig. Ég horfði ekki beint á fuglinn en var strax nokkuð viss um að þetta hefði verið ugla. Ernir og fálkar koma ekki mikið svona djúpt inn í skóg, og þetta var of stórt fyrir flesta skógarfuglana. Og ég þurfti ekki að leita langt því uglan hafði sest niður stutt í burtu. Ég gat ekki séð vel hvers konar ugla þetta var en það er býsna auðvelt að nota útilokunaraðferðina. Hlöðuuglan (barn owl) er of hvít, og sama má segja um snæuglu, sem að auki ætti að vera flogin norður eftir. Norhtern Pygmy uglan er of lítil, og sama má segja um saw-whet ugluna, Stóra gráuglan (Great Gray) of stór. Það skilur eftir aðeins þrjár sem passa miðað við stærð og sem eru reglulegar á svæðinu: Great Horned, Spotted/Barred eða brandugla (short eared). Ég get ekki verið viss því það var dimmt, en þegar ég skoða myndir af þessum fuglum er ég næstum viss um að þetta hafi verið annað hvort Spotted eða Barred (meira og minna sami fuglinn) einfaldlega vegna þess að þegar ég horfði á ugluna fannst mér hún helst líkjast Great Gray, bara minni, og þannig lítur Spotted/Barred uglan einmitt út (aðrir litir reyndar, en ég sá nú enga liti í myrkrinu). Alltaf gaman að sjá uglur.

Það dimmdi hratt og að lokum varð ég að hlaupa út úr skóginum því ég vil ekki vera þar eftir að virkilega tekur að dimma. Bæði er að maður veit ekkert hvað fólk getur gert, en kannski aðallega það að skógurinn er fullur af úlfum, greifingjum og skunkum sem fara á stjá á kvöldin. Ekki sérlega skemmtilegt að mæta neinum þeirra ef maður kemst hjá því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband