Færsluflokkur: Bloggar

Við tökum þetta

Vanalega held ég með Norðurlandabúum þegar þeir keppa á móti öðrum þjóðum í íþróttum en það gengur nú ekki þegar Kanada á í hlut. Ég er orðin hálf kanadísk, enda búin að búa hér í tæp átta ár, og þeir sem hafa séð bloggið mitt undanfarið vita að hokkíið skiptir mig máli. Við Kanadamenn munum taka Finnana í nefið í úrslitunum.

 


mbl.is Kanadamenn og Finnar keppa til úrslita á HM í íshokkí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómaraasni

Á fimmtudagskvöldið varð ég vitni að verstu dómgæslu í knattspyrnu sem ég hef nokkru sinnum séð. Um leið og ég sá dómarann hafði ég áhyggjur því ég vissi að hann hafði dæmt hjá okkur áður og ég hafði þessa óljósu minningu um að hann hefði verið mjög slæmur. Ekki batnaði það þegar dómarinn fór að hita upp markvörð hins liðsins með því að skjóta á hana. Okkur þótti það mjög undarlegt svo vægt sé til orða tekið.

Við byrjuðum leikinn af miklu krafti, sóttum stanslaust og uppskárum mark eftir tæpar tíu mínútur. Eftir það var dómarinn með flautuna í kjaftinum og flautaði á allt, ég endurtek ALLT. Við máttum ekki snerta hinar stelpurnar svo hann flautaði ekki. Og hann útskýrði aldrei hvað var að. Stoppaði bara leikinn, gaf hinum boltann og við vissum ekki neitt. Hann flautaði aldrei á þær, sama hvað þær gerðu. Hann sleppti til dæmis að flauta þegar Benitu var hent til hliðar innan vítateigs en flautaði svo á Sonyu þegar nuddaðist aðeins utan í eina stelpuna. Ekki nóg með það, hann hljóp gargandi vitlaus til hennar og sagði að hún fengi ekki spjald núna en hún skildi passa sig. Síðan hélt hann ræðu yfir okkar liði og sagði að við værum allt of grófar og þetta gengi ekki. Við erum ekki grófar, höfum aldrei verið. Höfum fengið eitt gult spjald á fjórum árum og það gerðist áður en ég gekk til liðs við Presto - sem sagt, í einum af fyrstu fjóru leikjum liðsins. Stelpan sem Sonya á að hafa brotið svona gróflega á kom til mín og sagði að Sonya hefði varla snert sig. Þetta hélt svona áfram, við máttum ekkert gera án þess að flautað væri. Einu sinn datt ein stelpan hjá okkur og þegar hún stóð upp flautaði hann aukaspyrnu á hana. Enginn viss hvað hún átti að hafa gert. Hann útskýrði aldrei neitt. Stelpurnar í hinu liðinu sáu þetta jafnvel og við og voru farnar að yppta öxlum þegar við litum á þær. Það versta var að liðið  mitt hrundi við þetta mótlæti og hinar skoruðu þrisvar. Enda þorðu varnarmenn okkar ekki í þær því dómarinn var farinn að öskra á þær að hann myndi reka þær útaf. Þetta var hræðilegt. Hann dæmdi til dæmis hendi á stelpu hjá okkur sem hélt hendinni yfir brjóstunum, en ekki á stelpu hjá þeim sem tók boltann með hendi yfir höfðinu á sér. Augljóst öllum á svæðinu. Hann dæmdi einu sinni á mig þegar ég reyndi að ná boltanum innan vítateigs hins liðsins og ég og varnarstelpa skullum saman. Ég varð alveg vaðvitlaus enda hef ég rekist á við aðrar stelpur í fótbolta í mörg ár og aldrei nokkurn tímann hefur verið dæmt á það. Enda er útilokað að stoppa þegar tvær manneskjur fara á eftir sama boltanum. ég spurði hvernig í ósköpunum hann héldi að ég hefði getað stoppað og hvað sagði asninn: Þú átt ekki að fara á eftir boltanum ef þú getur ekki stoppað. 

Í hálfleik töluðum við um að kvarta til deilarinnar, dómarinn sem stóð  nærri virðist hafa heyrt þetta því hann slakaði á í seinni hálfleik. en hann hélt áfram að flauta á alls konar fáránlega hluti. Eini munurinn var að hann flautaði nú stundum á hinar stelpurnar. þessi asni eyðilagði leikinn algjörlega. Við vorum mun betri allan tímann en töpuðum leiknum af því að við létum hann hafa áhrif á okkur.

Það var mjög athyglisvert að dómarinn talaði með sama framburði og þjálfari hins liðsins! Tilviljun? 


Risessa????? Hvað með skessustelpa eða tröllstelpa

Ég á þess ekki kost að sjá þetta götuleikhús en miðað við það sem ég sé á netinu er þetta mun skemmtilegra en bölv. risabrúðurnar sem vekja svo mikla athygli í Barcelona á septemberhátíð  þeirra. Ég vil hins vegar kvarta yfir þessu  nafni risessa. Ég geri  mér grein fyrir að þetta er sett saman úr orðunum risi og prinsessa (eða geri alla vega ráð fyrir því) en þetta er samt sem áður algjör orðskrípi. Við eigum ógrynnin öll af ævintýrum þar sem talað er um risa og tröll og skessur og allan þann óþjóðalýð, og hvergi er talað um risessu. Ef ég man Búkollu rétt þá var stelpan þar nú bara skessustelpa eða tröllstelpa. Því ekki nota gömul og góð orð sem þegar eru til. Je minn góður, hvað ef fólk fer að  nota þetta orð almennt:

Segir þá skessan við risessuna: "Farðu heim risessa og náðu í stóra nautið hans föður þíns"

Púkinn er heldur ekki hrifinn af þessu orði því hann merkir það sem vitleysu þegar ég renni honum yfir það sem ég hef skrifað. Sko, við púkinn erum sammála. 


mbl.is Þúsundir fylgdust með risabrúðu á gönguför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndin mynd

Þessi mynd hefur tröllriðið netinu undanfarna daga og komst meira að segja í sjónvarpið. Ég býst við að það sem gefið er í skyn hér sé að markvörðurinn Roberto Luongo hafi verið eini liðsmaður Vancouver í úrslitunum. Aðrir hafi hreinlega verið annars staðar. Það eru auðvitað ýkjur en enginn efast um að hann hafi verið langbestur - enda er hann tilnefndur til þriggja verðlauna í deildinni.

 

vancouver canucks, vancouver canucks hockey, vancouver canucks hockey team, hockey humour, canucks joke, canucks funny, canucks humour, canucks funny pictures

 


Umræða um ís

Í dag kom ég við í DairyQueen og fékk mér ís með dýfu. Þeir eru reyndar ekki eins kúltiveraðir og heima svo ég varð að láta mér nægja súkkulaðidýfu - ekki boðið upp á lakkrísdýfu hér. En þar sem ég gekk niður Broadway og át minn ís fór ég að hugsa um samræðu sem ég átti við amerískan vin minn fyrir nokkrum árum. Ég hafði eitthvað minnst á við hann hvað mér þætti íslenskur ís (í brauði) góður og hann vildi vita með hvernig bragði. Samtalið getur hafa verið einhvern veginn svona:

Robin: Hvernig bragð viltu helst
Ég: Bragð? Bara svona ísbragð.
Robin: Það er ekki til neitt ísbragð. Það hlýtur að vera eitthvert bragð. Súkkulaði, jarðaberja, vanillu...
Ég: Nei. Það er hægt að fá súkkulaðiís eða jarðaberjaís, en mér finnst bestur ís með engu. Bara venjulegur ís.
Robin: En það hlýtur að vera eitthvert bragð!!!
Ég: Neibb, bara ísbragð.

Löngu seinna áttaði ég mig á að okkar venjulega ísbragð er að sjálfsögðu VANILLA. Robin hafði sem sagt rétt fyrir sér eftir allt saman. Veit ekki á hverju ég var!

Þetta minnir reyndar á aðra samræðu, úr bókinni Good Omens eftir Terry Pratchett og Neil Gaiman. FRÁBÆR BÓK!!!!! Lesa'na!

Adam, antikristur, er að tala við vii sína (þeir eru allir um tíu ára - og allir Bretar) og einn þeirra segir: Í Bandaríkjunum hægt að fá 99 tegundir af ís.
Adam: Það er ekki hægt. Það eru ekki til 99 tegundir af ís. Það er bara súkkulaði, jarðaberja og vanillu. Ja, svo er reyndar hægt að blanda þeim saman og fá súkkulaði OG jarðaberja, eða súkkulaði OG vanillu, eða jarðaber OG vanillu, eða jafnvel súkkulaði, jarðaberja og vanillu...

Bretar hafa sem sagt svipaða súkkulaðimenningu og Íslendingar höfðu í gegnum tíðina. Nú skilst mér að hægt sé að kaupa HaegenDaz á Íslandi. Þar mæli ég fyrst og fremst með Dolce de leche. Fékk einu sinni l de leche shake í HaegenDaz búð í Seattle. Æðislegur. Annars er uppáhaldsísinn minn ekki frá Dolche de leche, heldur frá Ben and Jerry's og það er Chunky monkey. Súkkulaði, bananar og heslihnetur. Alveghreint magnaður ís. Góður er líka Cherry Garcia (að sjálfsögðu nefndur eftir Jerry Garcia úr Greatful Dead) sem hefur súkkulaði og kirsuber.

En áður en ég lýk þessari umræðu, getur einhver sagt mér hvort enn er hægt að fá lakkrísdýfu á ísinn sinn á Íslandi? Vinkona mín er að fara til Íslands í sumar og eftir að ég sagði henni frá þessu undri þá vill hún endilega prófa. Hvar fær hún svoleiðis núna? 


Friðrika litla

Þvílík dúlla! Og hún er alveg nákvæmlega eins og Frikki. Eins og snýtt út úr nösunum á honum.

Ég er náttúrulega enn sár yfir því að hann gekk fram hjá mér og að ég varð ekki næsta drottning yfir Danmörku. Eins og ég hafði nú fastlega búist við að það yrði mín staða í framtíðinni. Var að hugsa um að ráðast á Dani innan frá, skiljiði...hefði ekki verið fínt að hefna einokunarinnar með því að taka yfir konungsfjölskylduna? En svona þróast  nú ekki allt eins og maður ætlar. Í staðinn eru Ástralir orðnir helteknir af fréttum  af danska konungsveldinu - segir mér vinkona mín sem er gift Ástrala. Það er best að una þeim þess. Þeir þurfa jú að búa neðan á hnettinum!

Annars langar mig mikið til Ástralíu og sjá páfagauka og aðra skemmtilega fugla í sínu eðlilega umhverfi. Mig langar mun meira þangað en að vera drottning yfir Danmörku. 


mbl.is Danska konungsfjölskyldan birtir myndir af nýju prinsessunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Púkinn - frábært framtak

Ég verð að óska þeim Moggamönnum til hamingju með að hafa nú tengt púkann við moggabloggið. Ég er auðvitað stuðningsmaður baráttunnar gegn sóðalegri íslensku, þótt stundum vilji nú brenna við að ég flýti mér of mikið við að vista færslurnar mínar og að ljótar stafavillur sleppi í gegn.

Það er alltaf leiðinlegt að lesa illa skrifaðar og sóðalegar færslur og einföld villuleitarforrit geta gert mikið til hjálpar. Við skulum vona að sem flestir nýti sér þennan möguleika og renni púkanum yfir færsluna áður en hún er send út í veraldarvefinn.

P.s. Ég skellti púkanum á það sem ég hafði skrifað hér að ofan en ekkert gerðist. Ég var ekki viss um hvort það þýddi að púkinn virkaði ekki eða hvort ég hafði bara skrifað allt rétt, svo ég ákvað að skrifa einhverja vitleysu til að fullvissa mig um að allt væri í lagi. Skrifaði því jeg upp á gamla mátann... en ekkert gerðist.  Reyndi þá óöfræj en aftur gerðist ekkert! Hey, hef ég misskilið eitthvað? Hvernig virkar þetta? Lítið gagn af púka sem ekki virkar. Meira að segja ógagn - fær mann til að halda að allt sé rétt.


Stuðningur við íslensku flokkana

Á vef sínum benti Gurrí á próf þar sem skoðanir manns eru bornar saman við skoðanir íslensku stjórnmálaflokkanna. Ég skellti mér beint í prófið, enda hef ég alltaf gaman af slíku. Útkoman kom mér nokkuð á óvart.

 
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 18.75%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 40%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 62.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 4%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Hér kemur ekki á óvart stuðningur við VG, þeir eru sá flokkur sem mér finnst mest varið í núna. Það sem kemur á óvart er hversu mikill Framsóknarmaður ég er....40%. Það er alveg ótrúlegt, sérstaklega þegar tekið er tillit til að það hefur aldrei hvarflað að  mér að kjósa Framsóknarflokkinn. Ég veit ekki hvað það er sem gerir þetta. Ég er líka hissa á að stuðningur við Samfylkingu er mjög lítill. Ég hélt ég ætti meiri samleið með þeim. Það er helst að okkur greini á um Evrópumálin, og að einhverju leiti um sjávarútvegsmál.

Ef þið viljið líka taka prófið þá getið þið fundið það hér: http://xhvad.bifrost.is/ 


Bölvaðir vildarpunktar aldrei nóg

Áðan fékk ég bréf frá Vildarklúbbi Flugleiða þar sem Vörðufélögum voru boðnar ótrúlega ódýrar ferðir á punktum. Þar á meðal var flug til Halifax og til baka fyrir 25.000 punkta. Svo vill til að ég er Vörðufélagi og ég á 33.000 punkta inni svo þetta leit auðvitað frábærlega út. Fyrr í dag sá ég einmitt tilboð á flugi frá Vancouver til Halifax á innan við $200, sennilega nær $350 með sköttum og slíku. Ég sá því í hendi mér að ég gæti hugsanlega farið heim til Íslands í sumar fyrir kannski tuttugu þúsund krónur. En neiiiiii, auðvitað ekki. Fram var tekið að brottfararstaður yrði að vera Ísland. Það er sem sagt hægt að fljúga frá Íslandi til Halifax og til baka en ekki hina leiðina. Mér finnst þetta ógeðslega skítt. Ég er alveg jafn feit í sætinu ef ég byrja í Kanada eins og ef ég byrja á Íslandi. Hvaða andsk. máli skiptir þetta eiginlega? Mér finnst svona algjör della. En af því að ég var full vonar þá athugaði ég hvort eitthvert annað tilboð kæmi til greina en sá að ég þarf að eiga 50.000 punkta til að komast heim. Á þá ekki. Hugsið ykkur. Ég er búin að búa erlendis í átta ár, hef alltaf nema einu sinni flogið heim með Icelandair (og þegar ég gerði það ekki flaug ég með Air Canada til London og svo með Icelandair frá London til Íslands) og ég á enn ekki nema rúmlega fyrir hálfu fari. Og þó fór ég oftar heim þegar ég var í Manitoba á þolanlegum launum. Um áramót munu 6000 punktar fyrnast sem bendir til þess að ég muni aldrei geta átt fyrir ókeypis flugi . Annars var ég svo heppin að finna ódýrt flug um jólin (ja, þolanlega, allt í allt þurfti ég að borga um 50.000 til að fara heim) svo ég þarf auðvitað ekki að fara aftur. Það er bara svo leiðinlegt þegar maður fær svona tilboð og fyllist vonar, og kemst svo af því að ég á ekki sama rétt og aðrir Íslendingar, þótt ég borgi alveg jafnmikið fyrir vísakortið mitt og aðrir og borgi jafnhá þjónustugjöld fyrir Vörðuna.

12. maí

Er það rétt skilið hjá mér að bæði Alþingiskosingarnar og Eurovision séu á laugardaginn? Ef það er rétt, og ef Ísland kemst í lokakeppnina, hvernig ætlar sjónvarpið að höndla það? Koma með fyrstu tölur inn á milli laga í Eurovision?

Sama dag verða tónleikar með Taylor Hicks í Seattle. Mig langar ógurlega að fara enda finnst mér Taylor æðislegur (já já, ekkert að koma meða aulaathugasemdir á smekk minn). Ég hef varla efni á að fara enda þarf fleira að koma til en kostnaðurinn við að fara á tónleikana sjálfa, sem eru ekki nema um 30-50 dollarar, eftir því hvar maður kaupir miða. Er búin að vera á netinu að reikna út allt saman:

Leið 1: Seattleferð með rútu
Fara með rútu niðureftir: $50
Mótelherbergi: $90
Tónleikar (ódýrasti miði): $30
Samanlagt: $170 US

+Get sofið að tónleikum loknum
+get tekið síðustu rútu heim og þar af leiðandi  notið dagsins í Seattle.
-dýrt

Leið 2: Seattleferð með bílaleigubíl og keyra heim eftir tónleika
Leigjabíl og keyra heim eftir tónleika: ca $100 (með tryggingu og bensíni)
Tónleikar: $30
Samanlagt: $130 US

+Ódýrara en kostur 1
+Get farið strax klukkan níu og því randað um Seattle fyrir tónleikana
-hætta á að sofna á leiðinni heim, eða lenda í vandræðum með að fara yfir landamærin að nóttu til.

Leið 3: Fara á tónleikana í Portland í staðinn og gista hjá frænku minni
Lestarmiði: $90
Tónleikar: $40
Samanlagt: $130 US

+ókeypis gisting hjá skyldmönnum
+Get heimsótt skyldmenni og jafnvel slappað af í Oregon í nokkra daga
-Ferðin hvora leið (sem inniheldur rútu til Seattle og svo lest til Portland) tekur hátt í átta klukkutíma
-Myndi stoppa nokkra daga og þar af leiðandi ekki vinna svo mikið á meðan.
-Myndi missa af alla vega einum tíma í rökfræði og hugsanlega einum fótboltaleik.

 Leið 3: Sleppa þessu öllu og horfa bara á Eurovision og kosningasjónvarp á netinu
+Enginn kostnaður
-Ekki eins skemmtilegt.

 

Ég  veit ekki hvað ég á að gera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband