Færsluflokkur: Bloggar
Sameinaða vinstri menn
17.5.2007 | 20:23
Samfylkingin var stofnuð af fólki sem átti sér þann draum sameiginlegan að mynda stóra vinstri hreyfingu sem sameinaði alla vinstri menn. Það gekk ekki að sameina þá alla í einn flokk en mér finnst Samfylkingin skulda kjósendum sínum það að reyna fyrst að mynda vinstri stjórn með VG og Framsókn. Á þann hátt væru alla vega allir vinstri menn sameinaðir í ríkisstjórn (þótt miðjumenn og örfáir hægri menn flytu óvart með). Og það að Geir fái líklegast umboðið skiptir engu máli, það er hægt að undirbúa jarðveginn með óformlegum viðræðum. Er ekki mál manna að búið hafi verið að mynda Viðeyjarstjórnina meira og minna fyrir kosningar? Það sama á við um VG; þau ættu að reyna vinstri stjórn áður en farið er af alvöru í umræður við Sjálfstæðisflokk.
Ingibjörg segir að VG hafi ekki haft neinn áhuga á að mynda stjórn með Framsókn. Já, þeir réðust á Framsókn í kosningunum en það var þegar vonin var að stjórnarandstæðan gæti myndað nýja ríkisstjórn. Og svona eru nú stjórnmálin. Nú er ljóst að það er ekki hægt að mynda stjórn án annars hvors núverandi stjórnarflokka og þá snýr málið öðru vísi við. Ég hef séð VG daðra við Sjálfstæðislokkinn, rétt eins og Samfylkingin hefur gert, en ég hef skilið á málflutningi þeirra að þeir vilji vinstri stjórn ofar öllu. Er ekki Ingibjörg bara að nota þetta sem afsökun til þeirra sem vilja ekki sjá hana í viðræðum við Sjallana? Það er miklu auðveldara að skella skuldinni á VG.
Ég held að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði betri en núverandi ríkisstjórn, en ég held ekki að það sé besti kosturinn í stöðunni.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Tónleikar á ýmsum stöðum
17.5.2007 | 05:22
Að vera unglingur á Akureyri á níunda áratugnum gaf manni ekki kost á að fara á marga tónleika. Ég sá auðvitað Stuðmenn og Skriðjöklana og örfáar fleiri hljómsveitir íslenskar, en hápunkturinn var að sjálfsögðu að sjá Ringo Starr tromma í Atlavík árið 1984. Ég sá engar erlendar hljómsveitir fyrr en ég var sirka nítján ára og sá Status Quo í reiðhöllinni innan um hundrað aðra Íslendinga eða svo. Það voru alveg skammarlega fáir á svæðinu. Ég stóð hins vegar í fremstu röð, beint fyrir framan Francis Rossi og skemmti mér konunglega.
Eftir að ég varð eldri fóru æ fleiri hljómsveitir að koma til Íslands en ég sá þó ekki margar því ef eitthvað var gaman af hljómsveitinni kostaði alltaf morðfé inná. Ég sá enga fræga hljómsveit í Laugardagshöll t.d., nema Sigurrós á barmi frægðar sinnar þegar þeir hituðu upp fyrir hljómsveit Emirs Kusturica.
Á Wembley sá ég BeeGees innan um 80.000 aðra áhorfendur og ég dansaði við Jive Talking og ruggaði mér við How Deep is your love.
En það var ekki fyrr en ég flutti til Kanada sem tónleikatala mín komst á almennilegt skrið. Í Manitoba sá ég Barenaked Ladies, The Guess Who, Default, Chantal Kreviazuk, Avril Lavigne, Theory of a dead man, the Arrogant Worms (2svar), Sloan og einhverjar fleiri. Já, þetta eru allt kanadískar hljómsveitir. En ég sá líka Joe Cocker þar sem hann hitaði upp fyrir The Guess Who (sem er hljómsveit Randy Bachman áður en hann fór í Bachman, Turner, Overdrive).
Í Fargo sá ég Creed, Billy Joel, Elton John, Default og Greenwheel.
Í Toronto sá ég Paul McCartney. Ókei, þetta ætti ekki að blandast saman við aðra. Að sjá Paul var auðvitað toppurinn á tilverunni. Ég hef skrifað um það áður. Ég grét og hló og lengst af trúði ég því ekki að ég væri á tónleikum með Paul.
Ég sá hann aftur í Seattle 2005.
Í Vancouver hef ég séð Rolling Stones, Linkin Park, Maroon 5, Muse (2svar), Travis, Amee Mann, The Weakerthans (2svar), The Arrogant Worms, Chris Isaak, SigurRós. Ég held ég sé að gleyma einhverjum.
Í Ottawa sá ég Colin James, Blue Rodeo, Sam Roberts, Etta James, Live, Michael Franti, Bonnie Raitt, Wilco, KC's Boogie Blast (KC and the sunshine band), Stars, Feist, Broken Social Scene, and lots and lots of other musicians at Blues Fest.
Það er alltaf skemmtilegt að fara á tónleika og hér vantar ekki úrvalið. The Police eru t.d. að spila hér einhvern næstu daga, Björk verður hérna í næstu viku, í gær sá ég að Def Lepard eru á leiðinni í bæinn. Gallinn er að það kostar heilmikið að fara á tónleika og þá sérlega frægari böndin. Vanalega svona frá 50-250 dollara (3000-15000 krónur). Þannig að maður verður svolítið að velja og hafna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ísbíllinn
17.5.2007 | 01:29
Þið hafið eflaust séð í bandarískum bíómyndum þar sem ísbíll keyrir um íbúðagötur og spilar eitthvert ömurlegt hringekjulag til að vekja athygli á sér. Börnin koma svo hlaupandi út úr görðunum til að kaupa ís á uppsprengdu verði.
Þetta er í alvöru svona, meira að segja hér í Kanada. Núna rétt í þessu heyrði ég einmitt í einum þessa bíla en mig langar ekkert í ís. Mér þykir ís ákaflega góður en það er samt ekki oft sem ég leyfi mér að kaupa slíkan munað. Á í nógum vanda með aukakílóin svo ég hlaði þeim ekki á með ís. Það sem er kannski merkilegast að ég skil ekki alveg hvernig svona verslun fer fram. Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum á fyrri sumrum að mig langar í ís þegar ég heyri í bílnum en ef ég er inni hjá mér þá hef ég ekki nægan tíma til að skella mér í skó, grípa nestið og hlaupa svo út í rétta át að bílnum. Einu skiptin sem ég hef reynt þetta hefur bíllinn verið horfinn. Ef ég er úti í garði þá er ég í skóm en vanalega ekki með veskið og þyrfti þá að byrja á því að hlaupa inn og sækja það og svo missi ég af bílnum. Einu skiptin sem ég hef hugsanlega getað verslað við svona bíl er þegar ég er á leiðinni eitthvert því þá er ég bæði með skó og veski. En það er svo stutt í kjörbúðina, þar sem ís er ódýrari, að það virðist heimskulegt að kaupa af ísmanninum. En einhver viðskipti hljóta að fara fram því annars væri ábyggilega löngu búið að leggja þessum bílum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rökfræði
17.5.2007 | 01:07
Á morgun er próf í rökfræði. Ég hef ekki farið í próf síðan ég var í BA náminu hér í den. Nei, annars, það er bölvuð lygi í mér. Ég tók auðvitað próf í Kennó þegar ég tók Kennslu- og uppeldisfræðina. Síðasta prófið þar var veturinn 2002. Þannig að þetta eru nú bara fimm ár eða svo. Ég þarf reyndar ekki að taka þetta próf á morgun því ég sit bara í rökfræðikúrsinum en tek hann ekki (það þýðir að ég fæ engar einkunnir og engar einingar en læri jafnmikið og allir aðrir). En það er ágætt aðhald á sjálfan sig að taka prófin. Svona rétt til að sjá til þess að maður lesi námsefnið. Enda sit ég í kúrsinum til að læra meira í rökfræði en ekki vegna þess að mig vanti einingar.
Við erum núna í setningarökfræði, sem væntanlega er auðveldasta rökfræðin. Hún getur reyndar orðið svolítið ruglandi ef setningar eru langar. Dæmi:
Ef Carol er maraþonhlaupari og Bob er ekki latur og Albert er heilbrigður þá hlaupa þau öll reglulega.
Lausnin sem ég gef þessu er svona:
((M & L) & H) -> ((C & B) & A)
Þetta ætti að vera rétt.
Hvað með þessa:
Ef Albert hleypur reglulega ef annað hvort Carol eða Bob gerir það, þá er Albert heilbrigður og Bob er ekki latur.
Vill einhver spreyta sig?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vantrú á Sjálfstæðismenn
16.5.2007 | 17:20
Þeir sem halda að auglýsing Jóhannesar hafi verið aðalástæðan fyrir því að svo margir strikuðu yfir Björn trúa því greinilega að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi ekki frjálsan vilja og að þeir geri bara það sem þeim er sagt. Ég játa að ég hef stundum þá skoðun á Sjálfstæðismönnum en að þeir skuli sjálfir hafa þessa skoðun á kjósendum sínum er ótrúlegt.
Ég get ekki ímyndað mér að neinn hafi strikað yfir Björn af því að Jóhannes sagði honum það. Þeir sem strikuðu yfir hann hljóta að hafa eitthvað á móti karlinum.
Reyndar tel ég hugsanlegt að sumir sem voru á móti Birni en ætluðu ekki að strika yfir hann vegna þess að vanalega hafa útstrikanir engin áhrif, hafi gert það nú þar sem þeir trúðu því að aðrir myndu gera svo líka. Á þann hátt gæti auglýsingin hafa haft áhrif.
Ég verð hins vegar að segja að mér þótt auglýsingin ósmekkleg og ég vil ekki sjá Ísland stefna í sömu átt og Bandaríkjamenn þar sem persónulegar árásir leyfast í kosningabaráttu. Það sama á við um auglýsingu Framsóknarmanna gegn Steingrími (hvað ætli Birni hafi þótt um þá auglýsingu?). Það sama átti við um heilsíðuauglýsinguna gegn Ólafi Ragnari á sínum tíma. Ég ætla að vona að þeim sem þótti ein þessara auglýsinga ósmekkleg þyki þær allar ósmekklegar því þær eru allar af sama meiðinum.
![]() |
Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hlýnandi veður
16.5.2007 | 05:33
Veðrið stórbreyttist í dag og hitinn fór upp í 24 gráður. Ég fór í skólann í morgun og svo að klifra strax á eftir og var því ekki komin heim fyrr en um hálffjögur. Þá fór ég í stuttbuxur, setti á mig sólgleraugu og settist út á tröppur með skólabók og vatnsbrúsa. Þetta er fyrsti dagurinn sem það er hægt án þess að vera beinlínis í sólinni. Undanfarna daga hefur nefnilega verið fallegt veður en býsna kalt í skugga. Það á hins vegar að kólna aftur á morgun og fara að rigna þannig að þetta var fallegt en stutt sumar.
Núna er hins vegar alveg ótrúlega heitt í íbúðinni. Undanfarna morgna hefur verið svo kalt að ég hef þurft að stinga litla hitaranum í stofunni í samband og svo gjörbreytist þetta á einum degi og maður verður að fækka fötum til að svitna ekki of mikið. Yfir hásumarið þarf ég vanalega að vera með viftu í gangi til að kæla loftið. Maður er víst aldrei ánægður.
Það er annars búið að slá hjá okkur tvisvar sinnum í vor og nú er í loftinu einhver ofnæmisvaldur. Nefið á mér er alltaf stíflað. Það er kannski ekki skrítið. Allt orðið í blóma og alls konar frjókorn á sveimi. Geitungarnir eru líka komnir á staðinn en enn er nokkuð í moskíturnar. Ég verð hins vegar að fylgjast vel með og setja upp net í gluggana áður en þær verða of óðar. Ég hef stundum þurft að eyða hálfri nóttinni í að drepa moskítur og það hefur töluverð áhrif á svefninn.
Horfði á American Idol í kvöld. Aðeins þrír keppendur eru eftir og þetta er alveg hnífjafnt. Þau þrjú sem eftir eru eru öll mjög góð og stóðu sig vel í kvöld. Ég held samt að Melinda eigi eftir að taka þetta. Hún getur sungið allt og klikkar aldrei. Sorrí Doddi, en Melinda er einfaldlega betri en Jordan - eins og er. Hitt er annað mál að American Idol velur ekki endilega besta söngvarann heldur vinsælustu persónuna. Og þar eru bæði Jordan og Blake sterk. Spurningin er kannski hvað ræður mestu þegar kosið er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Merkilegt fólk á afmæli í dag
14.5.2007 | 17:19
![]() |
Afmælisdagur forsetans í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Neeeeeeeeiiiiiiiiiiii!!!!!
13.5.2007 | 08:57
Æ æ æ æ! Stjórnin hélt.
Það er annað mál að flokkur sem tapar fimm mönnum ætti að sjá sóma sinn í því að halda ekki áfram í ríkisstjórn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Guði sé lof fyrir Stöð 2
13.5.2007 | 06:50
Ég var búin að bölva RÚV mikið fyrir að hætta netútsendingum en fann þá að Stöð2 er enn að senda út. Ég hef því enn ástæðu til að vaka.
Nú þegar tölur eru komnar frá Norðausturlandi og Suðurlandi þá er stjórnin ennþá á lífi. Ekki datt mér í hug að ég myndi halda með Frjálslyndum en nú er eina vonin að það sé fylgi þeirra Guðjóns og Kristins á Vestfjörðum sem enn á eftir að telja og að þeir komi öðrum manni að á kostnað ríkisstjórnarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosninganótt
13.5.2007 | 06:19
Það verður að segjast eins og er að það er ákaflega gott að vera sjö tímum á eftir Íslandi á kosninganótt. Klukkan hjá ykkur er að nálgast sex að morgni og enn eru ekki komnar lokatölur úr þremur kjördæmum. Hjá mér er klukkan aðeins um ellefu og þótt ég sé að verða svolítið þreytt þá er nú ekki mikið á sig leggjandi að bíða eftir lokatölum, nema þessi endurtalning í norðvestri dragist marga klukkutíma í viðbót. Ég fór til Gunnars og Suzanne í dag og við fórum í gegnum nokkrar máltíðir. Ja, kaffitíma og kvöldmat. Um hálftíu ákvað ég að fara heim og halda áfram að horfa á útsendinguna í náttfötum. Það var nú aðallega vegna þess að ég bý í vesturbænum og Gunnar í austurbænum og það er býsna löng ferð á milli og tveir strætisvagnar.
Ég er reyndar pínulítið pirruð eins og er því ég næ ekki sjónvarpinu þessa stundina. Þótt það sé frábært að geta horft á útsendinguna í gegnum netið þá er tengingin ekki mjög stöðug. Og ef maður dettur út þá tekur stundum heillangan tíma að komast aftur í gegn.
Bíddu bíddu bíddu. Nú koma upplýsingar um að sjónvarpið sé ekki sent út í beinni eins og er. Á ég að trúa því að þeir séu hættir að senda út? Og enn eftir að koma tölur? Hvurslags þjónusta er þetta við okkur í útlöndum. Við erum þau einu sem erum vel vakandi og þá er útsendingin tekin frá manni. Það er best ég kvarti við rúv.
Ég vona bara að ég vakni á morgun við þær fréttir að stjórnin sé fallin!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)