Færsluflokkur: Tónlist

Mín skoðun á Eurovision

Haldiði ekki að ég hafi farið inn á YouTube og hlustað á slatta af Laugardagslögunum! Ég hef ákaflega lítið fylgst með Eurovision á undanförnum árum en ég sá einn þátt af Laugardagslögunum um daginn og vissi því um hvað var verið að ræða þegar ég sá frétt á Mogganum í dag um að Sylvía Nótt sé orðin að vöðvabunktum.

Ég hef meira að segja myndað mér svolitla skoðun á málinu - en bara svolitla. 

Ég verð t.d. að segja að ég heyrði þó nokkur skemmtileg lög sem standa vel undir sínu, hvort sem við teljum þau líkleg til vinsælda í stóru keppninni sjálfri eða ekki.

Mér fannst t.d. lag Ragnheiðar Gröndal alveg frábært og mun hlusta á það aftur. Er kannski ekki viss um að það myndi ná langt í Eurovision en er samt besta lagið í keppninni svona ef maður horfir fram hjá því um hvað er verið að keppa. 

Mér fannst líka lag Davíð Þorsteins flott. Svolítið í anda sjöunda áratugarins.

Lagið sem þau fluttu Ína, Seth og Berglind var mjög gott. 

Ef við sendum persneska lagið út munum við væntanlega frá 12 stig frá Tyrklandi og Grikklandi en væntanlega ekki svo mikið frá öðrum. Sniðugt lag samt.

Lagið Ho ho ho og eitthvað svoleiðis: Alls ekki vitlaust lag. Nógur kraftur og svolítið show! En je minn, þessi söngkona er verri en ég og er ég þó ekkert sérlega góð. Mér var illt í eyrunum eftir að heyra í henni. Hún hangir í kringum tónana en er ekki endilega á þeim. Ef við ákveðum að senda þetta lag út þá hreinlega verðum við að skipta um söngkonu. Það hlýtur að vera fyrsta skilyrðið að geta sungið.

Og að lokum, lagið sem ég tel líklegast til vinsælda erlendis er lagið með Friðrik og einhverri stelpu sem ég þekki ekki. Það er svona týpískt techno með nóg af fílingi til þess að mann langar að dansa og þau geta bæði sungið þrælvel. Þetta er fínt lag sem við þyrftum ekki að skammast okkur fyrir en ég held að ég muni nú ekki hlusta mikið á það í framtíðinni. Ekki alveg minn smekkur. En hey, Eurovision hefur aldrei beinlínis verið  minn smekkur hvort eð er svo þetta er kannski bara fínt.

 


NÝJAR BÍTLAUPPTÖKUR

Á MSNBC má sjá frétta um týndar Bítlaupptökur sem nú hafa fundist. Og þetta eru ekki bara einhverjar venjulegar upptökur—þetta eru upptökur frá  Hamborg 1962 þar sem Ringo spilaði með Bítlununum í fyrsta skiptið. Má t.d. heyra I saw her standing there, Money og svo útgáfu af Twist and shout sem er nokkuð frábrugðin því hvernig þeir vanalega spiluðu lagið síðar. Mjög athyglisvert. 

Nú er verið að athuga hvort plötusnúðurinn sem tók þetta upp á sínum tíma hefur leyfi til þess að gefa þetta út.

Hér má sjá fréttina á MSNBC:

 


Síðast

Ég fór á tónleikana þegar þeir voru haldnir í háskólabíói. Það hlýtur að hafa verið fyrir tíu eða fimmtán árum. Þá var verið að fagna tuttugu og fimm eða þrjátíu ára afmæli plötunnar.

Ég man að ég var ekkert sérlega spennt fyrir tónleikunum. Mér finnst Bítlarnir frábærir og Sgt. Peppters er náttúrulega snilld, en ég hef aldrei verið sérlega hrifin af því að hlusta á aðra flytja verk Bítlanna. Aðallega af því að enginn getur gert það eins vel. Eina Bítlalagið sem hefur verið flutt betur af einhverjum öðrum en Bítlunum er With a little help from my friend í útgáfu Joe Cockers.

En það voru sögusagnir fyrir tónleikana um það að eftirlifandi Bítlar yrðu þarna allir, og tilhugsunin um að sjá Paul var öðru yfirsterkari. Svo ég keypti miða og fór.

Auðvitað voru engir Bítlar þar, veit ekki einu sinni hvort þeir höfðu íhugað að koma, eða hvort þeim var boðið, en tónleikarnir reyndust alveg magnaðir samt sem áður. Lögin voru almennt vel flutt og enginn reyndi að gera eitthvað ógurlega sérstakt. Almennt voru tónlistarmennirnir þokkalega trúir upphaflega útgáfunum sem oftast er langbest. Ég man að einn af hápunktunum var þegar lagið Within you withoutyou var flutt - sem er svolítið skrítið því mér hefur alltaf þótt það langleiðinlegasta lagið á plötunni. En það var bara svo flott að sjá liðið sitja á gólfinu með allar græjur, meira að segja sítarinn sjálfan, og skapa þessi ógurlegu hljóð sem koma þarna í byrjun lagsins. Mér hefur aldrei fundist þetta eins flott og þegar ég sá þá spila.

Ég man hins vegar hversu hissa ég var þegar þeir voru klappaðir upp í lokin. Ég meina, tónlistarmennirnir höfðu nýlokið við að flytja A day in the life og þeir náðu meira að segja þessum tvöfalda píanótóni í lokin og platan var búin. Hvernig gátu þeir farið aftur upp á svið og spilað eitthvað annað. Það væri eins og að syngja eitthvert lag í messu á eftir Heims um ból. Hreinlega óhugsandi. Enda voru tónlistarmennirnir sammála mér og létu ekki eftir áheyrendum að spila fleiri lög. Flott hjá þeim. En það var þó gott að fólki líkuðu tónleikarnir.

Ég er viss um að þessir tónleikar verða líka flottir og mæli með að fólk fari á þá. 


mbl.is Bítlalög í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munið þið eftir þessari mynd?

YouTube er eitt það skemmtilegasta sem fram hefur komið á Netinu undanfarin ár. Maður getur endalaust fundið dásamleg myndbönd. Það sem mér finnst allra skemmtilegast er þó þegar ég finn gömul mynbönd eða hluta úr bíómyndum sem ég hef ekki séð síðan ég var krakki.

Í kvöld horfði ég t.d. á eftirfarandi fjögur myndbönd úr stórkostlegri bíómynd sem ég er viss um að allir á mínum aldri, og þeir sem eldri eru, þekkja. Veit ekki með þau yngri en ég fer ekki ofan af því að allir krakkar eiga að horfa á þessa mynd og helst oft.

 

 

 
 

Tónlist ársins

Það er svo skrítið að ég hef aldrei heillast mikið af söngkonum og það hafa vanalega verið karlmenn sem skipa efstu sæti vinsældarlista míns. Þegar ég lít til baka yfir síðustu mánuði verð ég hins vegar að segja að nokkrar stórkostlegar söngkonur hafa vinninginn þegar spilun er annars vegar. Þá er ég ekki endilega að segja að bestu plötur ársins komi frá konum heldur fyrst og fremst að ég uppgötvaði nokkrar frábærar söngkonur á árinu.

Ég ætla nú að eyða svolitlum tíma í að segja ykkur frá þessum söngkonum, þótt sjálfsagt komi hér lítið á óvart. Þessi stutti listi er ekki í neinni sérstakri röð.

Ane Brun. Ane Brunvall er norsk söngkona sem hefur verið að gefa út plötur síðan 2002. Ég heyrði fyrst í henni í auglýsingu í sjónvarpinu og varð svo heilluð af laginu að ég gafst ekki upp fyrr en ég fann út hver söng það. Hef síðan hlustað mikið á hana og er sérstaklega hrifin af lögunum Song nr. 6 (sem hún syngur með Kanadamanninum Ron Sexsmith - setti það lag í spilarann),  Are they saying goodbye, To let myself go, Lift me (ásamt hljómsveitinni Madrugas). Þetta er mjög falleg og notaleg tónlist og erfitt að fá leið á henni.

Katie Melua. Ég kynntist Katie fyrst í gegnum moggann því ég las einhverja frétt um veru hennar á Íslandi og varð forvitin. Ég hafði aldrei heyrt minnst á hana áður og geri ráð fyrir að hún sé ekki mjög stór hér vestanhafs. Það er svo sem ekkert nýtt. Ég reyni yfirleitt að fylgjast með því sem er að gerast í Evrópu til að uppgötva tónlist sem ég heyrði annars ekkert. Ég hef t.d. tvisvar sinnum farið á tónleika með Muse í pínulitlum tónlistarsölum fyrir skít á priki af því að þeir hafa ekki náð að slá almennilega í gegn hér. Sama með Travis og fleiri bönd. Tónlist Melua er alveg stórkostleg og ég er ekki viss um hvaða lög ég ætti helst að nefna. Ég er reyndar mjög hrifin af Blame it on the moon, Thank you stars, Nine million bicycles og svo mörgum fleiri.

Feist. Feist er kanadísk söngkona sem ég kynntist fyrst á Bluesfest í Ottawa í fyrra. Martin, minn fyrrverandi, er mjög hrifinn af henni og dró mig á tónleika með henni. Ég man að það var á sama tíma og Great big sea var að spila á stóra sviðinu og mig langaði eiginlega meira að sjá þá en ákvað að hlusta á Martin sem gat ekki hætt að lofa þessa ungu söngkonu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum því hún var stórkostleg. En það var þó ekki fyrr en með nýja disknum hennar nú í ár, Reminder, sem ég virkilega sá hversu góð hún er.  Það er erfitt að velja lög af Reminder en ég get sagt ykkur frá því að eftir að lagið 1234 var notað í auglýsingu fyrir iPod Nano sló Feist virkilega í gegn. Þetta er reyndar alls ekki besta lagið á disknum en reyndar er diskurinn allur mjög góður. Feist spilar líka reglulega með kanadísku hljómsveitinni Broken Social Scene sem er virkilega spennandi hljómsveit og þess virði að hlusta á. Í spilaranum hér til hliðar má heyra lagið La meme histoire úr myndinni Paris, je t'aime, en ég held að Feist syngi bara lagið - held að hún hafi ekki samið það.

Regina Spector. Ég heyrði fyrst í Reginu Spector hér á blogginu. Einhver bloggaði um hana og setti inn tóndæmi. Mér fannst hún strax frábær og fór að hlusta meira á hana. Ég hef reyndar ekki hlustað eins mikið á hana og fyrrnefndar konur en margt af því sem hún er að gera er samt sem áður frábært. Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hafði ekki heyrt í henni fyrr. Lagið Samson er t.d. alveg magnað.

Amy Winehouse. Mig langaði eiginlega ekkert að hlusta á Amy Winehouse því ég heyrði bara leiðinlegar fréttir af henni. En ég hef nú alltaf litið þannig á að maður megi ekki láta listamennina skyggja á listina (annars hefði ég aldrei hlustað á t.d. Oasis) svo ég tékkaði á henni og var að segja að hún er að gera alveeg frábæra hluti. Raddbeitingin minnir stundum of mikið á Pink (ekki það að ég sé ekki hrifin af Pink, mér finnst bara eins og verið sé að stæla hana) en að öðru leyti er tónlistin hennar mjög flott. Vonandi að hún hætti í þessu bölv. rugli og einbeiti sér að flottri tónlist. Ekki þar fyrir að stundum koma bestu verkin frá fólkinu í mesta ruglinu. Held t.d. að besti sólótími Johns Lennons hafi verið týnda helgin.

Kimya Dawson. Ég er bara nýbúin að uppgötva Kimyu Dawson og það var í gegnum myndina Juno þar sem hún á stóran hluta laganna. Kimya er allt öðru vísi söngkona en þær sem hér eru nefndar á undan. Hún er t.d. ekki góður söngvari en lögin eru flott og textarnir magnaðir. Hún er aðalsöngkonan í hljómsveitinni The Moldy Peaches sem eiga lög eins og Anybody but you sem er nokkurs konar þema myndarinnar. Ég mæli eindregið með að þið tékkið á Dawson.

Af karlmönnum hef ég undanfarið mest hlustað á kanadíska blúsarann Colin James, bandaríska blúsarann Eric Lindell, svo og nýju plötuna með Paul McCartney. Í sumar og í haust hlustaði ég líka mikið á þyngri tónlist eins og Alice in Chains, Godsmack, Mad Season og System of a down, og eins var hljómsveitin Death Cab for Cutie mikið á fóninum.


Athyglisverð íslensk tónlist

Um jólin í fyrra reyndi ég mikið að kaupa disk með Seabear þar sem þáverandi kærasti minn hafði fundið þau á MySpace og langaði mikið í tónlistina þeirra. Ég fann diskinn hins vegar hvergi. Hélt að hann hefði kannski verið svo vinsæll að hann hefði selst upp svona snögglega. En sumir starfsmenn búðanna sem ég leitaði í (ég fór í margar margar búðir) höfðu ekki einu sinni heyrt minnst á bandið.

Síðan gleymdi ég öllu um þetta þangað til ég sá þessa frétt núna. Fór og hlustaði á lagið, og nokkur önnur lög, og sit nú og bölva því að hafa ekki fundið þennan disk á sínum tíma. Stórkostleg tónlist. Verð að komast yfir diskinn.

Ég átti reyndar almennt í vandræðum með að kaupa þá íslensku tónlist sem Martin bað um þarna í fyrra. Fann að lokum Shadow Parade, Lights of the highway (frábærir diskar báðir), Pétur Ben (býsna góður diskur líka), Hafdís Huld (ágætur diskur, Martin var sérstaklega hrifinn af honum (disknum)), Lay Low (góður diskur en ég hef samt hlustað minna á hann en fyrstu tvo diskana) og Icelandic Airwaves (Martin hlustaði mikið á þennan disk en ég var ekki eins hrifin). Fyrstu tvo diskana fann ég bara í einn búð hvorn (og ekki sömu búðinni). Það voru alla vega þrír diskar sem ég fann alls ekki. Ég held að Lights of the highway sé algjörlega vanmetin grúbba. Ég get hlustað endalaust á diskinn þeirra.


mbl.is Seabear vinsæl á YouTube
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólalög - hvað finnst ykkur?

Ég er farin að hlusta á jólalög.

Uppáhalds jólalagið mitt er alltaf O holy night (Ó helga nótt) og í gær hlóð ég niður nokkuð mörgum upptökum af því og bar saman. Sumum henti ég út strax, eins og útgáfunum með Destiny's child (gat ekki einu sinni hlustað á byrjunina), Rebu McIntyre (of mikið kántrí) og Sufjan Stevens (veit ekki einu sinni hvað það var).

Þá voru eftir þrjár útgáfur, Amy Grant, Il Divo og Josh Grobin. Il Divo útgáfuna vantar alla sál. Raddirnar eru fallegar en mér fannst svolítið eins og þarna væru vélmenni að syngja. Útgáfan með Josh Grobin er mun betri en þó finnst mér sú útgáfa ekki alveg nógu sterk. Til dæmis þegar hann syngur 'o night divine' í síðara skiptið þá fer hann ekki hátt upp. Kannski er það bara af því að ég er vön því að söngurinn fari upp þar sem ég er ekki nógu ánægð með þetta, en aðallega vegna þess að ég fæ vanalega gæsahúð á þessum stað í laginu þegar vel er gert! Góð útgáfa en ekki alveg eins góð og ég vildi hafa hana. Hrifnust er ég af útgáfu Amy Grant. Vel sungið og mikil tilfinning í  laginu.

Ég hlustaði ekki einu sinni á útgáfur N'Sync99 Degrees og fleiri sem mátti finna á netinu. Hafði einhvern tímann heyrt þær áður og ekki líkað. En það eru ábyggilega til fjölmargar aðrar útgáfur. Hvað finnst ykkur besta útgáfan af þessu lagi?

Annars hef ég aldrei heyrt þetta lag eins vel sungið eins og þegar Óskar Pétursson söng það með Karlakór Akureyrar fyrir nokkrum árum. 

Það er annars skrítið hvað hefur áhrif á okkur. Mér finnst t.d. að það eigi alltaf að enda jólasöng á Heims um ból, það lag má aldrei koma fyrr í dagskránni (þoli ekki þegar það er sett inn í miðja geisladiska). í Norður Ameríka er oft endað á White Christmas, sem er ágætist lag (sérstaklega með Bing Crosby) en mér finnst það algjört nónó að setja það á eftir Heims um ból.

Ég er hrifin af lögum eins og Away in a manger og It came upon a midnight clear sem bæði eru undurfalleg en virðast ekki hafa náð vinsældum á Íslandi (eða er það rangt hjá mér?). Og ég mun alltaf elska Last Christmas, kannski af því að ég var á réttum aldri þegar Wham var upp á sitt besta. 

Af íslenskum jólalögum fer mest fyrir laginu Þú komst með jólin til mín með þeim Björgvini Halldórssyni og Rut Reginalds. Ég hef ekki hugmynd af hverju. Kannski af því að ég er svo sammála textanum. Jólin eru bara svo miklu betri þegar maður deildir þeim með fólki sem maður elskar. Og þá sérstaklega þegar maður er ástfanginn. Ég er líka undarlega hrifin af laginu Þú og ég með Höllu Margréti og Eiríki Haukssyni. Nú er ég að hlusta á Guðs kristni í heimi með frænda mínum heitnum Vilhjálmi Vilhjálmssyni. Villi var án efa með eina fallegustu rödd allra íslenskra tónlistarmanna. Platan hans og Ellýjar er líka alltaf skemmtileg.

Annars er eitt fallegasta jólalag sem ég hef heyrt finnska lagið Sylvia's Christmas song (Sylvian joululaulu). Við sungum þetta í Skandinavíukórnum í Winnipeg fyrir nokkrum árum. Þetta var uppáhaldslag Yrju, gamallar finnskrar konu sem söng með okkur. Í hvert sinn sem við sungum lagið á æfingu sagði Yrja alltaf: It's so beautiful. Annað eða þriðja árið sem ég söng með kórnum veiktist Yrja af krabbameini. Allur kórinn heimsótti hana á sjúkrahúsið þegar hún lá banaleguna. Við sungum m.a. þetta lag og allur hópurinn grét. Ég veit ekki hvernig við komumst í gegnum lagið - sjálf kom ég varla upp hljóði fyrir ekka. Það var í síðasta sinn sem við sáum hana. Hún dó nokkrum dögum síðar. Fyrir nokkrum árum spurði ég finnska konu um þetta lag og hún sagði mér að þetta væri líklega vinsælasta finnska jólalagið. Kannski er lagið mér svo kært því þarna er verið að hugsa til jóla bernskuáranna, jólanna í heimalandinu þegar maður sjálfur býr annars staðar. Ég set inn enska textann og svo Youtube útgáfur með Elli Vallinoja (sem þó er aðeins af hröð fyrir minn smekk) og Antony Parviainen (sem er svolítið þungarokksleg en að sumu leyti flottari).

 

Sylvia´s Christmas song

Now Christmas did come to the north country here;
Christmas came to the snow covered strand.
Now candles are burning and shedding good cheer
Across all the broad, far flung land.
But hanging on high from the cross beam above,
A bird cage now holds captive my pretty dove,
Which, pining away, makes no sound, high or low;
Oh, who will take heed of the prisoner´s woe?

Oh, star, glowing bright, may your light shine on high,
O´er the northland´s remote wintry scene.
And then, when your radiance fades in the sky,
Your mem´ry will linger in dreams.
So dear none can I ever anywhere find
As my native country, the land of my kind!
And thanks do I offer with Sylvia´s song,
Resounding forever so splendid and strong.

(Transl. by Paul Sjöblom, © WSOY)


 

 
 

Veisla fyrir Paul og Bítlaaðdáendur

Paul McCartney og Bítlaaðdáendur ættu að gleðjast þessa dagana.

The McCartney Years
Eftir tvo daga kemur út DVD settið The McCartney Years sem inniheldur fjölda laga McCartneys eftir að samstarfi hans við Bítlana lauk. Þarna verður fjöldi tónlistarmyndbanda en einnig lög tekin upp á tónleikum og dekkar safnið um fjörutíu ára feril. 

Diskar eitt og tvö innihalda tónlistarmyndböndin. Það fyrsta er frá 1970, Maybe I'm Amazed, og þarna má líka sjá Say Say Say frá níunda áratugnum, The World Tonight frá tíunda áratugnum og síðasta lagið er Fine Line frá 2005. Það þýðir að ekkert myndbandanna sem gerð voru fyrir nýjustu plötuna komust inn í safnið.

Hægt er að horfa á myndböndin í réttri aldursröð eða í þeirri röð sem Paul setti þau sjálfur. Sú röð hentar betur ef fólk vill horfa á myndböndin og hlusta á upplýsingar Pauls sjálfs um þau.

Diskur þrjú hefur að geyma upptökur frá þremur tónleikum, Rockshow frá 1976 (vildi að þeir hefðu gefið út þá tónleika í fullri lengd enda frábærustu tónleikar allra tíma - sá þá í Nýjabíói á Akureyri fyrir löngu), Unplugged frá 1991 og Glastonbury 2004.

Það er hellingur af bónusefni á diskunum svo sem Let it be frá LIVE AID, viðtök við Melvyn Bragg og Michael Parkinson, heimildarmyndin Creating Chaos at Abbey Road ofl.

Hér má sjá nánar hvað er á diskunum:

DISC/TRACK LISTING DISC 1 1. Tug Of War 2. Say Say Say 3. Silly Love Songs 4. Band On The Run 5. Maybe I'm Amazed 6. Heart Of The Country 7. Mamunia 8. With A Little Luck 9. Goodnight Tonight 10. Waterfalls 11. My Love 12. C-Moon 13. Baby's Request 14. Hi Hi Hi 15. Ebony And Ivory 16. Take It Away 17. Mull Of Kintyre 18. Helen Wheels 19. I've Had Enough 20. Coming Up 21. Wonderful Christmastime Extras 1. Juniors Farm 2. Band On The Run 3. London Town 4. Mull Of Kintyre 2 5. The Southbank Show

DISC 2 1. Pipes Of Peace 2. My Brave Face 3. Beautiful Night 4. Fine Line 5. No More Lonely Nights 6. This One 7. Little Willow 8. Pretty Little Head 9. Birthday 10. Hope Of Deliverance 11. Once Upon A Long Ago 12. All My Trials 13. Brown-Eyed Handsome Man 14. Press 15. No Other Baby 16. Off The Ground 17. Biker Like An Icon 18. Spies Like Us 19. Put It There 20. Figure Of Eight 21. C'Mon People Extras 1. Parkinson 2. So Bad 3. Creating Chaos At Abbey Road

DISC 3 Rock Show 1. Venus And Mars 2. Rock Show 3. Jet 4. Maybe I'm Amazed 5. Lady Madonna 6. Listen To What The Man Said 7. Bluebird MTV Unplugged 8. I Lost My Little Girl 9. Every Night 10. And I Love Her 11. That Would Be Something Glastonbury 12. Jet 13. Flaming Pie 14. Let Me Roll It 15. Blackbird 16. Band On The Run 17. Back In The USSR 18. Live And Let Die 19. Hey Jude 20. Yesterday 21. Helter Skelter 22. Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band Extras 1. Live Aid 2. The Superbowl XXIV

Ef þið farið hingað: http://www.youtube.com/paulmccartney þá getið þið séð aðeins meira um þennan spennandi disk.

Ég vil þó taka það fram að þetta safn er alls ekki tæmandi og á Amazon.com hefur einhver náungi t.d. komið með lista yfir myndbönin sem gerð hafa verið við lög Pauls en sem ekki eru á disknum. Það hefði verið magnað að fá tæmandi safn. En kannski bæta þeir fjórða disknum við síðar.

 

Help (Deluxe)
Hin veislan sem boðið er uppá er útgáfa kvikmyndarinnar Help á dvd. Ég átti myndina á vhs og síðar sjóræningjaútgáfu á dvd en það sem boðið er uppá í Deluxe pakkanum er svo miklu meira:

Disc 1 (96 minutes)
-HELP! Theatrical Movie
Digitally restored and newly created 5.1 soundtrack.


Disc 2 (57 minutes)
- The Beatles in Help! 30 minute documentary about the making of the film with Richard Lester, the cast and crew. Includes exclusive behind the scenes footage of The Beatles on set.
- A Missing Scene Featuring Wendy Richard
- The Restoration of Help! An in depth look at the restoration process
- Memories of Help! The cast and crew reminisce
- Theatrical Trailers 2 US trailers and 1 Spanish trailer
- 1965 US Radio Spots - Hidden in disc menus

Deluxe Package also includes:
- a reproduction of Richard Lester s original annotated script
- 8 lobby cards
- poster
- 60-page book with rarely seen photographs and production notes from the movie

Á amazon.com er hægt að kaupa McCartney safnið og delux útgáfuna af Help fyrir $114.48. Það er mikill peningur en ætti að vera þess virði. Það er hægt að horfa á þessa gaura endalaust. Ég vil þó benda Íslendingum á að ef þið kaupið í gegnum Amazon verðið þið að hafa spilara sem spilar Zone 1 og sjónvarp sem spilar NTSC. Annars verðið þið fyrir vonbrigðum.

 


Bubbles á sviði

Mikið hefur verið rætt um óperusöngvarann Paul Potts sem sigraði í bresku hæfileikakeppninni Britain's got talent. Minna hefur verið talað um annað magnað atriði úr sömu keppni, Damon Scott og Bubbles. Sting upp á að þið kíkið á þetta.

 


George er enn saknað

Þótt George heitinn Harrison hafi líklega verið í síðasta sæti hjá mér á vinsældalista Bítlanna þýðir það ekki að hann hafi ekki verið snillingur. Hann var án efa frábær gítarleikari, vel frambærilegur söngvari og átti það til að vera magnaður lagasmiður. Lögin Something, Here comes the sun og While my guitar gently weeps eru t.d. alveg meiri háttar lög og án efa með því besta sem hann gerði.

Fyrir nokkrum árum las ég bók um George og lærði þar ýmislegt. Líf hans var mjög athyglisvert að mörgu leyti, og kannski sérstaklega árin eftir að Bítlarnir hættu. Hann varð mjög þunglyndur og hreint út sagt sérvitur. Eitt sinn á tónleikum hundskammaði hann meira að segja áhorfendur og var með  leiðindi. Fólk gekk út. Það verðu athyglisvert að sjá þessa mynd.

Þegar ég sá Paul spila í Air Canada höllinni í Toronto 13 apríl 2002 var ekki langt liðið frá dauða George. Honum til heiðurs tók Paul því upp ukulele (en mér skilst að George hafi spilað mikið á ukulele sér til gamans - það sést m.a. í Anothology þáttunum) og spilaði lagið Something á meðan myndir af George voru sýndar á stórum skjá. Ég held að það hafi ekki verið þurr vangi í höllinni. 

 


mbl.is Martin Scorsese gerir mynd um George Harrison
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband