Færsluflokkur: Tónlist

Dauði á Smashing Pumpkins

Smashing Pumpkins léku hér á PNE Forum á mánudagskvöldið og því miður gerðist sá sorglegi atburður að tvítugur tónleikagestur lét lífið. Ekki er vitað nákvæmlega hvað gerðist. Hann var í þvögunni fyrir framan sviðið og tveir menn drógu hann út úr þvögunni og kölluðu á hjálp. Sjúkraliðar komu að skömmu síðar en náðu ekki að bjarga manninum. Hann dó á sjúkrahúsi skömmu síðar.

Fréttum ber ekki saman um aðstæður á tónleikunum. Tónleikahaldarar segja að þvagan hafi verið róleg og lítið hafi verið um svo kallað 'crowd-surfing'. Margir tónleikagestir hafa aðra sögu að segja og vilja meina að töluvert hafi verið um slíkt. Hallur og Birna fóru á tónleikana (þau sendu mér sms stuttu fyrir tónleikana og sögðu mér að enn væri hægt að fá miða en ég fattaði ekki að tónleikarnir voru það kvöld og athugaði ekki málið fyrr en klukkan ellefu um kvöldið). Birna sagði mér að hún hefði skamma stund staðið í þvögunni en að henni þrengdi of mikið svo hún lét öryggisverðina draga sig út úr og flúði í staðinn upp í tröppur. Hallur stóð hins vegar allan tímann fyrir framan sviðið en varð ekki var við það sem gerðist.

Það er alltaf sorglegt þegar svona gerist. Ungur maður fer á tónleika og lifir það ekki af. Þetta er annað dauðaslysið sem verður á Smashing Pumkin tónleikum. 


Velvet Revolver - Alice in Chains

Jæja, eins og ég lofaði um daginn kemur hér frásögn mín af tónleikunum í gær, Velvet Revolver með sérstökum gestum, Alice in Chains.

Hvort sem þið trúið því eða ekki þá missti ég af fyrstu lögunum með Alice in Chains, sem er svolítið sorglegt af því að ég fór fyrst og fremst á tónleikana til að sjá þá. En það var grillpartý í deildinni hjá okkur svo ég ákvað að sleppa upphitunarbandinu og mæta barra þegar Alice in Chains byrjaði. Nema hvað strætó kom ekki á réttum tíma - alveg eins og þegar ég fór að sjá Godsmack. Sama leið, á sama stað, en næsti strætó á eftir. Vagninn kom ekki fyrr en næstum því tuttugu mínútum yfir átta (upphitunarhljómsveitin byrjaði klukkan hálf átta) og við vorum því ekki komin að Colosseum - þar sem tónleikarnir voru haldnir - fyrr en um hálf níu. Hávaðinn í vagninum var ógurlegur enda vagninn fullur af unglingsstrákum á leið á tónleikana. Þegar fréttist í gegnum farsíma að Alice in Chains væru komnir á svið varð allt vitlaust. Ég dauðvorkenndi gömlum kínverskum kerlingum sem stóðu þarna dauðskelkaðar og vissu ekki hvar þær voru lentar.

Komst loks á staðinn, fann sætið mitt en truflaði ekki eins mikið og þetta lið á Noruh Jones tónleikunum því hávaðinn var yfirgnæfandi. Alice in Chains rokkuðu og hápunkturinn var án efa uppklöppunarlögin tvö, Would og Rooster, bæði af plötunni Dirt. Jerry Cantrell er greinilega aðalmaðurinn í AiC og ég mundi allt í einu eftir því að ég sá hann hita upp fyrir Creed fyrir nokkrum árum, áður en AiC kom aftur saman. AiC voru góðir í gær og ég fann ekki mikið fyrir því að söngvarinn væri annar en maður þekkir frá plötum þeirra. Þeir lögðu hins vegar ekki  mikið í sjóið sjálft. Notuðu ekki mikið myndavélar, ljósin voru ekki mikið notuð og sviðsframkoman var heldur tilbreytingalaus. Söngvarinn þarf að finna sig aðeins betur á sviði. Maður sá það svo vel þegar Scott Weiland hamaðist um síðar um kvöldið. Það versta við AiC var samt að þeir voru allt of stutt á sviðinu. Það var að hluta vegna þess að ég missti af byrjuninni en líka vegna þess að þeir voru þarna bara sem gestir en ekki sem aðalnúmerið. Ég hefði viljað snúa þessu við. Lög AiC eru miklu betri en lög Velvet Revolver.

Eftir um hálftíma bið slökknuðu ljósin á ný og út úr myrkrinu heyrðust tónar frá Rock Superstar, sem ég held að sé Cypress Hill lag. Lagið var flutt í heild sinni án þess að nokkur maður sæist, eða að nokkuð sæist - þarna var algjört myrkur. Að því lagi loknu kviknuðu ljós á bak við tjald og um leið og byrjað var á nýju lagi féll tjaldið niður og meðlimir Velvet Rolver stóðu á sviðinu. Ég veit ekki hvaða lag kom fyrst, eitthvað af Libertine (þekki þau svo fá). Hef séð annars staðar að þeir byrja oft á Let it roll.

Fyrsti hlutinn var helgaður VR sjálfum og skiptust þeir á að spila lög af bæði Libertine og Contraband. Mér fannst hljóðið ekki alveg nógu gott. Hljóðfærin yfirgnæfðu röddina og ég heyrði ekki alltaf í Scott Weiland, sem er synd því hann er fantagóður söngvari. Svo kom frábær kafli þar sem þeir settust allir á stóla og tóku svo lög með Stone Temple Pilots og Guns and Roses. Toppurinn fyrir mig var Interstate love song, en þarna mátti líka heyra lagið Patience sem var hrikalega flott. Ég vona að ég móðgi ekki Guns and roses aðdáendur of mikið þegar ég segi að Scott Weiland er mun betri söngvari en Axl Rose. Og samt líktist hann Axl þegar hann söng G'N'R lögin. Hann hefur bara svo mikið vald á röddinni, mikla breidd, og svo auðvitað fallegri rödd en Axl. Í heild held ég að þeir hafi tekið um þrjú G'N'R lög og tvö eða þrjú STP lög. Af eigin lögum stóðu upp úr lagið Slither sem er glettilega gott og að sjálfsögðu Fall to pieces.

Sviðsframkoma Scott Weiland er alveg mögnuð. Hann hlykkist einhvern veginn um sviðið í Mick Jagger stíl og maður veit ekki alveg hvort þessar hreyfingar eru kynþokkafullar eða undarlegar. Kannski hvort tveggja. Hann skiptir ekki um föt á sama hátt og Jagger en kom fram í svo mörgum lögum (bolur, skyrta, vesti, jakki) að með því að fara úr einni og einni flík (þar til hann var nakinn að ofan) breyttist útllit hans stanslaust. Á höfði hafði hann húfu líkri þeirri sem sést hérna á myndunum. Slash leit út alveg eins og á þessum myndum. Með sítt svart hárið og pípuhattinn.

Ég verð að segja að mér fannst bæði Stone Temple Pilots og Guns and Roses betri hljómsveitir en Velvet Revolver. Tónleikarnir í heild voru skemmtlegir en ég held að ég hafi skemmt mér betur á Godsmack tónleikunum.   


Alice in Chains!!!

Í dag keypti ég miða á tónleikana með Velvet Revolver og Alice in Chains!!! W00t  Þeir verða haldnir sjöunda september og ég lofa að sjálfsögðu að gefa skýrslu.

Eitt af því sem er frábært við Vancouver er einmitt það hversu margar hljómsveitir koma hingað. Kannski ekki eins margar eins og ef ég væri í London, New York, Kaupmannahöfn eða jafnvel Toronto, en mun meira en Winnipeg, Reykjavík eða Akureyri. Ég hef því aldrei áður búið á stað þar sem ég get séð eins mörg bönd - en reyndar aldrei verið eins fátæk!!!! Hef því ekki efni á að sjá nálægt því eins margt og mig langar. Áðan sá ég t.d. að Broken Social Scene er að koma hingað - flott kanadísk grúbba. En ég sá þá í Ottawa í fyrr og verð að láta þá nægja. Hef hins vegar aldrei séð Alice in Chains!!!!! 


Godsmack voru alveg magnaðir

Tónleikarnir voru hreint út sagt frábærir.

Það var reyndar svolítið vesen að komast þangað. Ég var búin að reikna út vandlega hvenær ég yrði að leggja af stað til að komast á svæðið á þokkalegum tíma og ferðamátinn innihélt strætó, lest og annan strætó. Fyrsti strætó var á réttum tíma og ég náði lestinni sem ég þurfti að ná (gat meira að segja gripið mat á hlaupum þar sem ég hafði ekki haft tíma til að borða kvöldmat eftir fótboltann). Ég var því mætt á síðustu strætóstöðina hálftíma áður en Godsmack átti að stíga á svið. Það tekur ekki nema um tíu mínútur að keyra niður götuna þannig að þetta átti að vera fínt. Nema hvað strætó kom ekki. Eitthvað hefur gerst og þessi tiltekna ferð verið felld niður því ég talaði við unglingsstráka sem einnig voru á leið á tónleikana og þeir voru mættir á stöðina tíu mínútum áður en von var á strætó þannig að vagninn gat ekki verið á undan áætlun. Næsti vagn þar á eftir var líka seinn þannig að í stað þess að ná strætó fimm mínútur yfir hálf átta kom hann ekki fyrr en á slaginu átta. Þá áttu Godsmack að byrja að spila.

Ég spjallaði við þessa ungu stráka í vagninum og þeir sögðu mér að PNE forum, þar sem tónleikarnir voru, væri besti tónleikastaður borgarinnar. Hljómgæðin væru hreinlega frábær og ef maður stæði á gólfinu þá titruðu í manni hljóðhimnurnar. Þeir voru sirka sextán og þeim fannst þetta mikilvægt. Ég er hins vegar orðin svo gömul að tilhugsunin um að hljóðhimnurnar titruðu var ekki svo spennandi. Við komumst loks á svæðið um fimmtán mínútum yfir átta en sem betur fer var hljómsveitin ekki komin á sviðið ennþá þannig að ég gat komið mér aftast í hrúguna. Það var svolítið skrítið að líta í kringum sig því ég var greinilega af allt öðru tagi en megnið af tónleikagestum. Ég var í fyrsta lagi ekki svartklædd. Ég var ekki með svartar neglur eða svartan eyeliner, og ég var aðeins með göt í eyrunum, ekki í nefi, tungu, nafla, geirvörum, vörm, augabrúnum eða öðrum undarlegum stöðum. Flestir virtust vera á þrítugsaldri og karlmenn voru í augljósum meirihluta. Þó voru nokkuð margir karlmenn þarna augljóslega yfir þrítugu og sumir yfir fertugu. Ekki sá ég þó neinn mikið eldri og þarna voru engin börn eins og á svo mörgum tónleikum. Það var heldur ekki  mikið um unglinga.

Rétt upp úr hálfníu slöknuðu ljósin í salnum og tónlist kom úr hátölurunum. Um leið var nokkurs konar bíó sett í gang þar sem sýndar voru  myndir frá tónleikum Godsmack, bæði áhorfendum og hljómsveitinni á sviði, og einnig voru sýndar myndir úr búningsherberginu. Um leið og myndinni lauk hóf Shannon Larkin að berja húðirnar og bandið skellti sér í The Enemy. Krafturinn var ógurlegur og strákarnir höfðu ekki verið að grínast. Hljóðhimnurnar titruðu og það sem meira var, ég held að barkakýlið hafi hoppað upp og niður. Það var ekki bara að maður heyrði tónlistina, maður fann hana með öllum skrokknum. Eftir The Enemy skelltu þeir sér beint í Livin in Sin, annað stórkostleg lag af nýju plötunni. Ég þekkti ekki þriðja lagið enda hef ég ekki heyrt allar plöturnar með Godsmack en ég notaði tækifærið til að hlaupa á klósettið enda hafði ég ekki nennt að bíða í biðröð áður en þeir komu á sviðið. Ég ákvað svo að sætta mig við það að ég væri orðin gömul og löt og tölti upp á pallana við hliðina og settist niður. Reyndar varð ég svo þreytt þá, enda nýbúin að spila tvo fótboltaleiki í sandi, að ég varð að drekka flatt kók (ekki boðið upp á annað) til þess að vekja mig upp. Og nei, það þýðir ekki að tónleikarnir hafi verið leiðinlegir, þvert á móti, ég var bara svona hrikalega þreytt. 

Godsmack hélt áfram á fullu og tók sér enga pásu, þótt reyndar hafi þrír meðlimir getað slappað af aðeins á meðan við fengum langt gítarsóló frá Tony Rambola sem er geggjaður gítaristi. Það var almennt alveg rosalega skemmtilegt að fylgjast með Larkin á trommunum. Hann var stundum eins og í transi og ég hef sjaldan séð trommara eins flottan. Ég veit ekkert hvort hann er góður enda veit ég lítið um tónlist þótt ég hafi gaman af að hlusta á hana, en það er víst ábyggilegt að það er skemmtilegt að fylgjast með honum. Hann henti trommukjuðunum til og frá og greip þá aftur án þess að missa slag.

Flottasta atriði tónleikanna tengdist líka trommum og er víst hluti af hverjum Godsmack tónleikum. Það var alveg magnað. Larkin sat og trommaði á settinu sínu sem allt í einu flaut fram sviðið. Rétt á eftir opnaðist veggur á bak við hann og út kom söngvarinn Sully Erna á öðru setti. Um stund spiluðu þeir þannig að Larkin barði trommurnar en Erna (ekki Erna mágkona) spilaði á bongó trommur. En síðan var báðum trommusettum snúið þannig að trommararnir tveir sneru hvor á móti öðrum og trommuðu. Þetta er nokkurs konar trommueinvígi sem kallast Batalla de los Tambores. Ég er yfirleitt ekki mjög hrifin af löngum instrumental lögum eða sólóum en þetta var einfaldlega allt of flott. Það var ekki hægt annað að hrífast með, þótt þetta trommuspil hafi tekið heila eilífð. Þeir voru bara svo magnaðir. Um miðjan hluta einvígisins komu stórir stafir á skjáinn að baki þeim þar sem stóð: "Nú er komið að þeim hluta tónleikanna þar sem við syngjum." Við átti greinilega við okkur áhorfendur því þar á eftir kom texti á skjáinn eins og í karaoki og salurinn fór að syngja. Þetta var hreint magnað.

Ég er ekki alveg viss hvort ég myndi segja að þarna hafi hápunktinum verið náð en helsti keppinautur um þann titil er án efa lagið Voodoo. Það er einfaldlega magnað lag og þeir fluttu það svo flott á tónleikunum. Það jók líka á áhrifin að svarhvítar myndir voru sýndar á bakvið. Ef okkur hefði verið sagt að við ættum öll að taka Wicca trú hefðum við líklega gert það. Ætli það sé ekki þannig sem tónlist getur náð tökum á fólki. Ég veit ekki hvað það er við Goth tónlist en hún hefur hreinlega öðruvísi áhrif á mann en önnur tónlist.

Eina sem mér leiddist á tónleikunum var þegar Erna skammaðist yfir þeim sem sátu. Hann var líka fremur orðljótur og notaði f-orðið mikið. Ég hugsaði með  mér að hann væri æðislegur þegar hann syngi en hann ætti helst ekki að tala of mikið. Yfirleitt var Erna býsna góður þó og hann talaði mikið við áhorfendur. Hann gerði einnig töluvert af því að láta fólk syngja með, svo sem í lögum eins og Speak og Keep away.

Uppklapp lögin voru tvö en ég þekkti þau ekki. Held ég hafi hugsanlega heyrt annað þeirra en er ekki alveg viss. Ég held að alla vega annað þeirra hafi verið Serenity af Faceless plötunni en það er eina platan með þeim sem ég hef ekki heyrt.

Ég hélt ánægð heim á leið þó það væri nokkuð kalt úti miðað við hitann inni í salnum. Mig langaði reyndar í laukhringi enda hafði ég ekki borðað almennilega síðan um miðjan dag en það var búið að loka A&W þegar ég skipti úr lestinni yfir í strætó svo ég varð að fara svöng heim.

Ég setti tvö Godsmack lög í spilarinn hér á síðunni, annars vegar Voodoo, enda þurfa allir að heyra það lag, og hins vegar The Enemy

Ef einhver sem les þetta á þess kost að sjá Godsmack á tónleikum skulið þið endilega fara. Þetta trommu einvígi eitt og sér gerir það þess virði, hvort sem maður er Godsmack aðdáandi eða ekki.

Eftir nokkrar vikur koma hingað Velvet Revolver með sérstökum gestum, Alice in Chain. Ég held ég myndi sjá eftir því ef ég færi ekki. Ég verð bara að láta mér nægja ódýrustu miðana í verstu sætunum. En það er yfirleitt allt í lagi. Aðalatriðið er að vera á staðnum.

 

 


Styttist í Godsmack

Nú get ég talið á fingrunum klukkutímana þangað til að ég sé Godsmack og hef reyndar getað það í eina tvo tíma. Nú er eins gott að fótboltaliðið mitt fari ekki að spila of vel í dag því ef kraftaverk gerist og við komumst í úrslitaleikinn þá mun ég missa af upphafi tónleikanna. Upphitunarhljómsveitin stígur á sviðið klukkan sjö og Godsmack klukkan átta. Úrslitaleikurinn hefst hins vegar ekki fyrr en tíu mínútur yfir sex og lýkur því tuttugu mínútum í sjö. Það tekur mig um klukkutíma með strætó að komast yfir að PNE þar sem tónleikarnir eru haldnir sem þýðir að ég gæti ekki farið heim og þvegið af mér sandinn. Vil helst ekki mæta á tónleika í skítugum fótboltagallanum! Hitt er annað mál að líkurnar á því að við komumst í úrslitaleikinn eru stjarnfræðilegar þannig að þetta verður allt í lagi. Við náum kannski að spila til undanúrslita en lengra mun það varla ná.

Í kvöld eða á morgun mun ég svo skrifa um tónleikana.  


Um upphitunarhljómsveitir

Upphitunarhljómsveitir eru í þeirri stöðu að fá tækifæri til að spila fyrir framan fjöldann allan af fólki sem annars myndi aldrei heyra í þeim, en á sama tíma er hljómsveitin ekkert endilega velkomin því allir eru að bíða eftir aðalnúmeri kvöldsins, og margir vilja því helst losna við upphitunarhljómsveitina af sviðinu sem fyrst.

Ég athuga vanalega hver á að hita upp þegar ég fer á tónleika og ef mér líst ekkert á hljómsveitina mæti ég ekki fyrr en um það leytið sem aðalhljómsveitin á að byrja að spila. Mér skilst að ástæðan fyrir upphitunarhljómsveitinni sé sú að hún á að koma manni í stuð áður en aðalnúmerið byrjar, en vanalega líður svo langur tími frá því að upphitunarhljómsveitin lýkur sínu prógrammi og þar til aðalnúmerið byrjar að maður er löngu búinn að missa stuðið, ef maður komst í það á annað borð. Mér hefur því aldrei almennilega fundist þetta atriði virka og vildi því fremur borga örlítið minna fyrir miðann minn og fá bara eitt atriði á kvöldi. Í þessi tvö skipti sem ég hef séð McCartney á tónleikum hefur hann, t.d., ekki haft neitt upphitunarband en var þó með undarlegt sirkusatriði í fyrra skiptið og kvikmyndasýningu í það síðari. En af því að engu þurfti að breyta á sviðinu á milli atriða þýddi það líka að Paul byrjaði að spila um leið og upphitunaratriðunum lauk.

Það hefur þó komið fyrir að ég ég hef séð frábær bönd eða söngvara hita upp fyrir tónleika. Ég sá t.d. Joe Cocker hita upp fyrir The Guess Who, og Bonnie Raitt hitaði upp fyrir Rolling Stones. Þá sá ég líka Theory of a Dead Man hita upp fyrir Default nokkrum vikum eftir að ToaDM komust á topp kanadíska vinsældarlistans í fyrsta sinn. Það var eiginlega jafn skemmtilegt að sjá ToaDM eins og Default.

En Default kynntu líka fyrir mér annað magnað band, Greenwheel. Í það skiptið fór ég á tónleika með Default í Fargo, Norður Dakota, sem er í um fjögurra klukkutíma keyrslu frá Winnipeg. Við Tim keyrðum þangað niðureftir seinni part dags og keyrðum aftur heim eftir tónleikana. Það var reyndar mjög erfitt því við vorum ekki komin heim fyrr en um þrjú eða fjögur um morguninn. Alla vega, þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Default á tónleikum og í raun þekkti ég bara eitt lag með þeim, Wasting my time, sem þá var geysilega mikið spilað í kanadísku útvarpi. Ég efast um að það lagi hafi náð til Íslands en það er eiginlega synd því Default er glettilega góð hljómsveit.

Tónleikarnir hófust og ungir strákar komu fram á sviðið og byrjuðu umsvifalaust að spila rock alternative af bestu sort. Ég stóð í þvögunni fyrir framan sviðið og hreyfði mig í takt við tónlistina. Þetta var svolítið í stíl við Creed og Nickelback en það var allt í lagi, frábærar hljómsveitir báðar tvær. Ég hafði aldrei heyrt neitt þessa laga en þau gripu mig gjörsamlega og ég var alveg í skýjunum yfir þessum tónleikum, en þeir spiluðu samt ekki Wasting my time. Svo kom að því að þeir þökkuðu fyrir sig og það var þá sem ég varð svolítið ringluð. Þeir þökkuðu nefnilega áheyrendum fyrir að taka svona vel á móti bandi sem þeir hefðu aldrei heyrt minnst á áður! Það var þá sem ég fattaði að þetta var alls ekki Default (enda var klukkan ekki orðin mjög margt). Í staðinn var þetta hljómsveitin Greenwheel, ungir strákar frá Missouri, USA. Í ljós kom að þeir voru nýbúnir að fá samning við Island records og von var á fyrstu breiðskífu þeirra hjá Island nokkrum vikum síðar. Þeir höfðu hins vegar lítinn fjögurra laga disk til sölu sem ég keypti hjá þeim. Ég spjallaði líka aðeins við tvo þeirra (söngvarann Ryan sem er í miðjunni á myndinni hér til vinstri, og bassaleikarann Brandon sem er annar frá hægri) eftir að þeir voru búnir að spila og fékk áritað plakat hjá þeim. Stuttu seinna þegar ég fór inn á veitingahúsið sem var samliggjandi við tónleikasalinn (Tim sat þar og las, hafði ekki nennt á tónleikana með mér) sá ég hljómsveitarstrákana á næsta bás við Tim og þeir brostu til mín og veifuðu. Þegar diskurinn þeirra kom svo út keypti ég hann umsvifalaust og spilaði mikið. Ég var sannfærð um að þeir ættu eftir að verða frægir. Það var bara eitthvað við tónlistina sem mér fannst svo magnað. Ég hafði reyndar ekki rétt fyrir mér. Þeir eru enn starfandi en hafa ekki náð að rísa upp sem stjörnur. En nýlega dró ég diskinn fram aftur og hef spilað hann stanslaust í nokkra daga. Mér finnst þetta einfaldlega mögnuð plata.

Við þetta má bæta að eftir að leiðindargaur sem var upphitunarband númer tvö hafði lokið sínu prógrammi stigu strákarnir í Default loks á svið og voru alveg frábærir. Og þeir spiluðu Wasting my time sem gerði mig ákaflega ánægða. Ég hef síðan þá keypt alla vega tvær plötur þeirra og myndi því í framtíðinni geta greint á milli Default og Greenwheel

P.S. Ég setti lagið Breathe með Greenwheel í spilarann hér til hægri. Þetta lag hefur verið endurútgefið af Melissu Etheridge og mér skilst að tónleikagestir komi stundum að strákunum í Greenwheel og spyrji af hverju þeir séu að spila lag með Etheridge. Ég reyndi líka að setja inn lögin Shelter og Strong en það er alveg sama hvað ég reyni, þau hlaðast ekki inn á spilarann. Þessi spilari er virkilega viðkvæmur. 


Alice in Chains

Ég var að komast að því að Alice in Chains og Velvet Revolver munu halda tónleika hér í Vancouver sjöunda september. Mikið rosalega langar mig að fara.

Godsmack að koma!!!

Í ágúst á ég þess kost að sjá Godsmack á tónleikum. Ég hef reynt að spara pening að undanförnu með því að sleppa flestum þeim tónleikum sem mig hefur langað á en ég er ekki viss um að ég geti sleppt þessum. Godsmack eru einfaldlega of góðir. Ó, og áður en einhver rýkur til og reynir að kaupa miða þá er rétt að taka það fram að þeir eru að koma til Vancouver, ekki til Íslands (svo ég viti). Vona að ég hafi ekki gert einhvern hrikalega hamingjusaman í nokkrar mínútur til þess eins að drepa gleðina. 

Það er reyndar von á mörgum öðrum spennandi á næstunni. Nickelback eru væntanlegir, og svo koma líka Scorpions (sem ég vildi gjarnan sjá bara til þess að heyra Still loving you), The Cure, Ryan Adams og The Fray. Og þetta eru bara þeir sem ég vildi sjá. Það eru alveg ótrúlega margir tónleikar hér á hverjum degi. 


900 stöðvar á sjónvarpinu

Núna í vor skipti ég úr kapli yfir í stafrænt sjónvarp og fyrstu þrjá mánuðina hef ég aðgang að öllum sjónvarpsrásum fyrirtækisins. Það eru sirka 300 sjónvarpsrásir og annað eins af útvarpi. Stundum er ekki horfandi á neitt á þessum 300 rásum. Þegar þessir þrír mánuðir eru úti get ég sett saman pakka sem hentar mér. Þá mun ég greiða fyrir grunnrásirnar 30, eða hvað þær eru nú margar og svo get ég annað hvort bætt við mismunandi pökkum (bíórásir eru einn pakki, lífsstíll er annar, afþreying sá þriðji, menning og menntun er einn pakki, o.s.frv.) eða greitt fyrir einstaka auka rás (en takmarkaðra val þar). Þetta er ólíkt betra en kapallinn var. Ég borgaði bara fyrir grunnkapal því ef maður vildi bæta við þá varð maður fyrst að kaupa aukapakka 1, svo aukapakka 2 og að lokum aukapakka 3. Ef maður vildi einhverja rás sem var í aukapakka 3 þá varð maður að kaupa alla hina. Og alltaf var það svo að mest spennandi rásirnar voru ofarlega og kannski bara tvær þrjár í hinum pökkunum sem maður vildi. Ég saknaði þess mikið eftir að ég flutti hingað á sjöundu og þurfti að fara að borga fyrir sjónvarpið (á 12. götu fékk ég aðgang að sjónvarpi þeirra fyrir ofan og þar af leiðandi allan pakkann ókeypis) að hafa ekki lengur Bravo þar sem hægt var að horfa á Law & Order alla daga og ýmislegt annað gott.

Ég er farin að hugsa um það hvort ég ætla mér að láta grunninn nægja þegar þessu þriggja mánaða tilboði lýkur eða hvort ég vil bæta einhverju við. Hver aukapakki kostar 6 dollara á mánuði  (um 360 krónur) og hver aukastöð kostar 2.  Ég hugsa að ég bæti við 'popular choices' þar sem ég fengi A&E, Bravo, Showcase, TLC, CourtTV og women's network. En það væri líka gagnlegt að hafa  pakkann sem kallast 'time choice'. Þá sér maður sömu rásir og eru í grunnpakkanum en ég sé þessar rásir frá  mismunandi tímabeltum. Oft á veturna, t.d. finnst mér of seint að fara að horfa á sjónvarp klukkan tíu.  En í staðinn gæti ég bara horft á sjónvarpið frá Halifax og séð þáttinn klukkan sex í staðinn. Þetta getur líka verið gagnlegt á bestu sjónvarpskvöldunum, eins og t.d. þriðjudögum, þegar allar sjónvarpsstöðvarnar keppast við að setja vinsælustu þættina klukkan níu (í vetur voru þrír þættir klukkan níu á þriðjudegi sem ég vildi horfa á). Með mismunandi tímabeltum gæti ég hreinlega horft á þættina á mismuandi tímum (það er ekki hægt að taka upp eina rás og horfa á aðra á þessum stafrænu stöðvum). Gallinn er að þetta eykur sjónvapsáhorf óþarflega mikið.

Svo væri gaman að bæta við Fox Sports og BBC Canada, en ég sé til með það. Ég hef ekki horft eins mikið á þessar stöðvar undanfarið eins og ég hefði búist við. Ég hef orðið fyrir pínulitlum vonbrigðum með BBC og ég horfi líklega minna á Fox Sport af því það er sumar og sumaríþróttirnar eru ekki eins spennandi og vetraríþróttirnar. Mér finnst reyndar gaman að fara á hafnarboltaleiki en það er ekki skemmtilegt að horfa á þá í sjónvarpi. Þær íþróttir sem ég horfi mest á í sjónvarpi eru líklega enski fótboltinn og hokkí og hvort tveggja er í sumarfríi. Það er hægt að kaupa NHL stöðina aukaleg þar sem allir hokkíleikir eru sýndir, en vanalega sýnir CBC Vancouver alla Canucks leikina beint og ég er ekki svo mikill aðdáandi að ég þurfi að fylgjast mikið með öðrum liðum, svo ég hugsa að ég spari mér þann pening. En ég hef enn tíma til að raða þessu öllu saman.

Eitt af því sem er frábært við útvarpsstöðvarnar er að utan við þessar venjulegu stöðvar er hægt að velja þá tónlist sem maður vill hlusta á. Ég hluta lítið á tónlist í í útvarpi því það er alltaf verið að spila dansmúsík og leiðindi sem ég nenni ekki að hlusta á. Þarna getur maður valið næstum hvaða tónlistartegund sem er og hlustað á það. Í kvöld hef ég t.d. haft 'rock alternative' á sjónvarpinu og það hefur ekki enn komið leiðinlegt lag. Súper. Ég veit það er til fjöldinn allur af útvarpsstöðvum sem einbeitir sér að ákveðinni tegund tónlistar en maður þarf að muna hver er hvar. Þarna á sjónvarpinu þarf ég ekkert að muna hvaða stöð er hvar. Ég fer bara inn, finn tegundina af tónlist sem ég vil hlusta á og stilli á það. Og á meðan hvert lag er spilað má fá upplýsingar um heiti lagsins, flytjendur, plötu, útgáfuár, o.s.frv. Kannski ég fari að hlusta meira á útvarp.  


Er það eðlilegt að tónlistarsmekkurinn harðni með árunum?

Á barna- og unglingsárunum var ég yfirleitt poppari fremur en rokkari. Ég vildi fremur hlusta á ELO en Kiss, valdi Wham yfir Duran Duran (ókei, báðir popparar, en mismunandi sykursætir). Je minn, ég var Paul Young aðdándi þegar ég var fjórtán ára. Ég fór aldrei í gegnum heavy metal tímabil og skil enn ekki af hverju fólki finnst Led Zeppelin svona góðir. Ég skældi næstum því yfir því að þurfa að hlusta á Iron Maiden og pönkið var yfirleitt eitthvað sem fór algjörlega fyrir ofan höfuðið á mér (eða neðan við fæturna).

En eftir að ég náði þrítugu var eins og smekkurinn færi að harðna og mér fór að leiðast mikið af poppinu. Hef hallast meir og meir að harðari tónlist. Helst harðri alternative tónlist og grunge undir heavy metal áhrifum. Það gerðist hægt. Fyrst fékk ég áhuga á Creed, svo Stone Temple Pilots og Rammstein, en síðan fór ég að hlusta á Godsmack, System of a down og Alice in Chains (trúi því ekki að ég skuli ekki hafa hlustað á þá fyrr). Ég hreinlega skil ekki hvernig heiðvirð kona á fertugsaldri getur verið að hlusta á svona tónlist. En það er eitthvað hrátt og seiðandi við tónlistina. 

En ég hef alls ekki yfirgefið mýkri tónlist. Ég hef til dæmis verið að hlusta töluvert á Death Cab for Cutie,  Hinder, Feist, Broken Social Scene, Ampop, Train, The Fray og Muse, og svo algjörlega ólíka tónlist eins og Eric Lindell, Regina Spektor, Gotan Project, Ry Cooder og Taylor Hicks. 

En þetta með hörðu tónlistina kom mér bara svo á óvart.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband