Færsluflokkur: Íþróttir

Hlaup að hefjast

Klukkan er sjö að morgni og eftir tvo klukkutíma hefst sólarhlaupið (SunRun). Ég þarf að borða eitthvað og komast svo niður í bæ. Gallinn er að það er aðeins tveggja stiga hiti og ég get ekki tekið neitt með mér aukalega. Ég er hins vegar kuldaskræfa og mun aldrei þola það að vera á stuttbuxum og bol í tveggja stiga hita þangað til hlaupið hefst þannig að ég verð að taka með mér einhver föt sem ég mun síðan skilja eftir á ráspól. Sem sagt, einhverja ræfla sem ég er hætt að nota.

Ég segi ykkur síðar hvernig gengur að hlaupa þessa tíu kílómetra. 


Tap í leik tvö

Í kvöld var annar leikurinn í viðureign Vancouver Canucks og Dallas Stars og var nokkra þreytu að sjá á mönnum. Canucks gerðu tvisvar sinnum mistök í upphafi leikhluta (upphafi fyrsta og annars hluta) og úrslitin urðu 2-0 fyrir Dallas. Staðan er því 1-1 eftir tvo leiki.

Það hlýtur að hafa verið nokkur blóðtaka fyrir Canucks að missa þrjá menn meidda eftir síðasta leik en Alain Vigneault, aðalþjálfari Canucks, sagði að tapið hefði ekkert með það að gera að þrjá leikmenn vantaði. Hann sagði að þeir hefðu hreinlega ekki spilað nógu vel. Vigneault þessi er annars athyglisverður náungi. Hann er frá Gatineau í Quebec, þar sem Martin býr, og þjálfaði Montreal Canadiens í ein þrjú ár. Í fyrra tók hann við þjálfun Manitoba Moose í AHL deildinni en var síðan kallaður til Vancouver Canucks nú í haust. Hann hefur staðið sig alveg ótrúlega vel með liðið í vetur. Í fyrra komust Canucks ekki einu sinni í útsláttakeppnina en nú í vetur unnu þeir vesturdeildarriðilinn. Það verður gaman að sjá hvort Vigneault kemst lengra með Canucks en hann gerði með Montreal Canadiens en besti árangur hans þar var að falla út í átta liða úrslitum.


Manitoba Moose er nokkurs konar þjálfunarlið fyrir Canucks. Þeir leikmenn Canucks sem ekki eru alveg nógu góðir til að spila í NHL deildinni spila með Moose einni deild neðar. Ef þeir verða nógu góðir til að spila í hæstu deild eru þeir síðan sóttir til Manitoba og fá tækifæri með Canucks. Eftir að þrír leikmenn Manitoba meiddust í síðasta leik urðu Canucks að sækja danskan leikmann til Manitoba, sem í kvöld spilaði sinn fyrsta leik í NHL deildinni (einhver sagði að hann væri fyrsti Daninn í NHL en ég veit ekki hvort það er rétt). Það hýtur að hafa verið stressandi fyrir hann. Þetta er auðvitað  mjög gott kerfi fyrir Canucks því varamennirnir þeirra spila alvöru leiki í hverri viku með Moose. En þetta er ekki sérlega gott fyrir Winnipeg því þetta þýðir vanalega að ef einhver leikmaður verður mjög góður þá er hann vanalega kallaður upp um deild. Sama gerist með þjálfara. Vigneault stóð sig vel með Manitoba í fyrra og að launum fékk hann stöðuhækkun og tók við þjálfun Canucks en Manitoba missti góðan þjálfara. Þegar ég bjó í Winnipeg fannst mér þetta einstaklega skítt að allir góðu leikmennirnir væru kallaðir í burtu.

En nú er að bíða þar til á sunnudaginn og sjá hvernig næsti leikur fer. Við getum ekki látið bölvaða kúrekana frá Dallas vinna þetta. 

Á morgun spila senetorarnir í Ottawa við Pittsburg mörgæsirnar (takk Auður) og það er vonandi að þeir taki leikinn eins létt og í fyrrakvöld. Við getum ekki látið þessa Bandaríkjamenn vaða yfir okkur. Þriðja kanadíska liðið í úrslitunum, Calgary, virðist vera á heldur erfiðara róli og þeir skíttöpuðu fyrsta leiknum. Vonandi ná þeir sér á strik.

Hvernig stendur annars á því að mogginn skrifar ekkert um hokkí? Þeir skrifa um NBA körfuboltann sem er miklu leiðinlegri íþrótt. 


Frábær árangur

Þetta er magnaður árangur hjá Sigurgeiri. Ef ég man rétt er hann farinn að nálgast fertugt og það er ekki amalegt að sjá þessa "gömlu" vinna krakkana. Sérstaklega í göngu þar sem þarf ógurlegt úthald.

Ég man ekki betur en öldungamótið á skíðum miðist vanalega við þrítugt. Kannski ætti að hækka þann aldur fyrst þeir sem eru hátt á fertugsaldri geta enn tekið landsmótið. 


mbl.is Sigurgeir fagnaði Íslandsmeistaratitli í 15 km. göngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hokkí hokkí alls staðar

Næstu vikurnar munu Vancouver búar anda að sér hokkíi. Það verður varla rætt um annað. Í kvöld var fyrsti leikurinn í sextán liða útslitum NHL keppninnar. Ekki er um einfalda úrsláttakeppni að ræða heldur vinnur liðið sem fyrr vinnur fjóra leiki. Vancouver spilaði í kvöld fyrsta leikinn við Dallas Star liðið frá Texas. Staðan var 4-4 að loknum venjulegum leiktíma og úrlit réðust ekki fyrr en í fjórðu framlengingu. Það var Henrik Sedin sem skoraði fimmta markið -  sigurmarkið - fyrir Vancouver. Þetta þýðir að sala á Vancouver Canucks hokkískyrtum mun aukast gífurlega á morgun.

Ottawa Senators sigraði einnig í sinnu viðureign í kvöld, 6-3. Man ekki við hverja þeir léku. Eitt af péunum held ég. Pittsburg, Philadelphia, eitthvað svoleiðis. 

Tveir kanadískir hermenn létust í Afganistan í dag. Tala látinna Kanadamanna í Afganistan er þá komin upp í 53. 


Þriðja eða fjórða sæti?

Það hefur ekki verið neitt sérlega skemmtilegt að vera Arsenal aðdáandi í vetur en sem betur fer heldur ekkert leiðinlegt. Þótt þeir séu liðið mitt þá þoli ég það vel að vera ekki alltaf í toppbaráttunni enda veit ég að okkar tími mun aftur koma. 

Nú er stefnan bara sú að reyna að komast upp fyrir Liverpool. 

Það er hins vegar skemmtilegt að Chelsea skuli vera komið á hælana á ManUtd. Ekki það að ég vilji frekar að Chelsea vinni deildina - þar er mér eiginlega alveg sama - heldur vegna þess að það setur svolítið fútt  í keppnina. Ekkert skemmtilegt ef ManUtd. er búið að vinna þegar enn eru nokkrar umferðir eftir. 


mbl.is Wenger: Ég trúi þessu ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hokkí

Í kvöld fór ég á hokkíleik í BC hokkídeildinni og það var bara gaman. Þetta er svona eins og þriðja deildin, aðallega ungir strákar sem eru á síðustu árum í menntó eða fyrstu árum í háskóla. Þarna voru nokkrir góðir leikmenn en maður sá á sumum mistökunum að þessir strákar standa töluvert að baki þeim sem spila í deildunum tveimur fyrir ofan.

Ég ákvað að halda með Vernon liðinu (enda er Vernon skíðabær) en ekki heimaliðinu Burnaby (sem er nágrannaborg Vancouver). Ég ákvað þó að láta ekki á því bera því ég sat innan um svona ellilífeyrisþega stuðningslið sem var vopnað alls konar ýlum og lúðrum. Ég var nefnilega hrædd um að ef gömlurnar hefðu vitað að það væri svikari á meðal þeirra þá hefðu þau kannski fengið hjartaáfall, og ég vildi ekki eiga það á hættunni.

Nú er ég búin að sjá leik í annarri deildinni (BCHL) og þriðju deildinni (AHL) en hef ekki enn séð fyrstu deildar leik (NHL). Verð að fá miða á Canucks leik einhvern veginn.


Ótrúleg byrjun

Chicago birnirnir skora á fyrstu mínútunni. Alveg ótrúlegt. Vinatieri sparkaði 62 yards til Hester sem hljóp með boltann 92 yards og skoraði TOUCHDOWN!!!!! Þvílík byrjun. Þetta gæti orðið skemmtilegur leikur. Hvað kallast annars yards á íslensku? Höfum við eitthvað orð yfir það? En touchdown? Er það snertimark?

Superbowl-æsingur

Superbowl keppnin hefst ekki fyrr en eftir einn og hálfan tíma en æsingurinn er orðinn mikill á Dolphin Stadium í Florida. Sumar sjónvarpsstöðvarnar eru búnar að vera að senda út fótboltaundirbúninginn í allan dag.

Ef þið vitið ekki með hvoru liðinu þið eigið að halda (og er alveg sama um að það skuli vera Vestur-Íslendingur í liði Colts) þá getið þið farið hingað til þess að velja hvaða lið hentar ykkur: http://playoffs.nfl.com/bandwagon/index.asp?entry=sbcompromogif

 


Fyrir utan vítateig

Það versta við þetta var að þetta var ekki einu sinni víti. Kanadíska sjónvarpið sýndi brotið hægt og það var alveg greinilegt að brotið var fyrir utan vítateiginn. Það var sjálfsagt rétt að senda Senderos út af en Middlesborough átti samt bara að fá aukaspyrnu.

Reyndar voru Arsenalmenn heppnir stuttu síðar þegar Lehman steig út fyrir vítateig með boltann í hendinni í sókn sem leiddi til marks Henrys. Þannig að við getum kannski sagt að þetta jafnaðist út.


mbl.is Tíu leikmenn Arsenal náðu jöfnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestur-Íslendingur leikur á Superbowl

Ef einhverjir íþróttaáhugamenn á Íslandi ætla sér að horfa á Superbowl um helgina en vita ekki með hvaða liði þeir ættu að halda skal hér með bent á að í liði Indianapolis Colts leikur Vestur-Íslendingurinn Rob Morris (starting outside linebacker). Langalangafi hans og -amma, Eyjólfur  Eiríksson og Jarþrúður Runólfsdóttir fluttu til Utah á árunum 1886 og 1887. 

Sjálf efast ég nú um að ég nenni að horfa enda aldrei verið mikið gefin fyrir ameríska fótboltann. Hefðist helst viljað sjá auglýsingarnar sem sýndar eru í kringum leikinn enda mikið í þær lagt, en hér í Kanada fáum við ekki að sjá þær því þegar að auglýsingahléi kemur er klippt yfir á kanadískar auglýsingar sem eru bara þessar sömu gömlu. 

Það væri annars athyglisvert að taka saman einhvers konar lista yfir vestur-íslenska afreksmenn því það er alveg óhætt að segja að þeir afkomendur forfeðra okkar sem fluttu vestur um haf um þarsíðustu aldamót hafa komið sér ákaflega vel fyrir í hinum nýja heimi og margir hverjir hafa komist til metorða á sviði stjórnmála, lista, fræða, íþrótta o.s.frv.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband