Færsluflokkur: Íþróttir

Við töpuðum fyrir Rússum

Neeeeeeeeeeeeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii. Rússar skoruðu gullmarkið nú rétt í þessu og tóku heimsmeistaratitilinn í hokkí. Þvílík vonbrigði. Þvílík vonbrigði.

Teitur vann Beckham

Góðar fréttir frá Edmonton, Alberta: Vancouver Whitecaps, lið Teits Þórðarson vann LA Galaxy, lið Davids Beckhams, í kvöld 2-1. Eduardo Sebrango skoraði sigurmark leiksins á 66. mínútu

Leikurinn var haldinn í Edmonton til þess að gefa fólki þar tækifæri til þess að sjá almennilegan fótboltaleik en Edmonton hefur ekkert alvöru fótboltalið í borginni. Rúmlega 37000 manns mættu á leikinn en það sem var undarlegast var að meirihluti áhorfenda studdi LA liðið. Það er líklega vegna Beckham en samt skrítið að kanadískir áhorfendur skuli fremur hvetja bandarískt lið en kanadískt. Stundum held ég að Kanadamenn séu gjörsneiddir allri þjóðrækni!  


Árangurinn "miklu betri" en ég hélt!!!!!

Hér koma nákvæmar upplýsingar um Sólarhlaupið mitt. Ég hafði giskað á að ég væri í átjánþúsundasta sæti (af 59.750) með handahófskenndu úrtaki, en ég var miklu betri en það. Ég varð í tólfþúsundfjögurhundruðfimmtugastaogsjötta sæti (12.456). Ekkert smá gott, BARA 12.455 á undan mér. Og ég varð númer 3951 af konum og númer 430 í mínum aldursflokki.

Ég held það nú. Maður komst á topp fimmhundruð listann. LoLLoLLoL


Sólarhlaupið framundan

Ég er búin að fara tvisvar sinnum út að hlaupa í vikunni. Hef reyndar hvorki hlaupið langt né lengi en þar sem ég hef ekki hlaupið neitt í allan vetur (nema í fótboltanum) þá var ég nú bara sátt við úthaldið. Í bæði skiptin hljóp ég í hálftíma og ég átti meira inni.

Ástæðan fyrir því að ég dreif í þessu var ekki sú að mig langaði allt í einu svo mikið að hlaupa, heldur vegna þess að einhvern tímann í janúar skráði ég mig í Sólarhlaupið og allt í einu uppgötvaði ég að það er nú á sunnudaginn. Og ef ég á að geta hlaupið tíu kílómetra án þess að verða mér algjörlega til skammar, þá verð ég alla vega að viðra hlaupaskóna aðeins.

Upphaflega planið var að hlaupa alla vega tvisvar í viku. Þess vegna skráði ég mig í þetta hlaup, hélt það myndi ýta á mig. En nei, einhvern veginn varð ekkert úr því. Ég er því hrædd um að ég muni ekki ná að bæta tímann minn frá því í fyrra. O jæja, það er ekki hundrað í hættunni. Aðalatriðið er að skella sér niður í bæ á sunnudaginn og skokka þessa tíu kílómetra með þúsund öðrum hlaupurum. Þetta var skemmtilegt í fyrra og verður vonandi ekki síðra núna.


Nonis rekinn

Líf atvinnumanna í íþróttum er erfitt. Ef árangur lætur bíða eftir sér fá höfuð að fjúka. Í kvöld komu fréttir um það að Dave Nonis, framkvæmdastjóri Vancouver Canucks, hafi verið rekinn. Liðið stóð sig ekki eins vel og búist hafði verið við - að mínu mati og margra vegna þess að varnarmennirnir voru flestir meiddir megnið af vetrinum - og nýju eigendurnir vilja sjá árangur. Það var greinilega þeirra mat að Nonis væri ekki rétti maðurinn í starfið. Þetta kom mér algjörlega á óvart því þegar rætt var við Francesco Aquilini fyrir nokkrum dögum, eftir að liðið komst ekki í úrslitakeppnina, þá var að heyra á honum að hann treysti Nonis fullkomlega. En Francesco er aðeins einn þriggja eigenda...og hvað veit maður hvað fólk er í raun að hugsa.

Nú hef ég áhyggjur af því að þetta haldi áfram niðurá við og Alain Vignealt þjálfari verði látinn fara líka enda var það Nonis sem réð hann. Ég verð fokill ef það verður raunin. Ég held að hann sé frábær þjálfari en hann fékk ekki margt að vinna með í vetur. Okkur vantar góða framlínu og eins og ég nefndi var vörnin meira og minna á spítalanum. Þar að auki spilaði Luongo hundilla síðust tíu leikina og var tekinn af velli í næstum helmingi þeirra.

Ég vona bara að eigendurnir viti hvað þeir eru að gera og að þeir hafi nú þegar einhvern í huga sem næsta framkvæmdastjóra. Sjálf er ég ekki viss um að þetta hafa verið góð ákvörðun. 


Ég er óheillakráka

Ég er komin með plan um það hvernig ég get unnið mér inn svolítinn aukapening. Ég held nefnilega að ég sé algjör óheillakráka fyrir þau íþróttalið sem ég styð. Hér eru nokkur dæmi:

Vancouver Canucks náðu ekki að vinna sér sæti í úrslitakeppninni um Stanley bikarinn (og hafa aldrei unnið bikarinn).
Arsenal hefur endanlega gert út um allar vonir um nokkurn bikar þennan veturinn.
Vancouver Presto, mitt eigið lið í fótboltanum, hefur aldrei unnið neinn titil.
Þór Akureyri hefur aldrei unnið nokkurn titil í fótboltanum.
Eini leikurinn sem ég sá í kanadíska fótboltanum með BC Lions var þegar þeir féllu úr úrslitakeppninni.

Ég ætla að fara til Teits Þórðar og benda á að ef Vancouver Whitecaps á að eiga nokkurn möguleika á sigri í deildinni í sumar þá verða þeir að borga mér fyrir að halda ekki með liðinu. Ef það gengur eftir mun ég tala við BC Lions í sumar og síðan Canucks og Arsenal í haust. Ef gengur hjá þeim líka þá mun ég tala við Þórsara næsta vor. Þetta gæti þýtt fína titla fyrir þessi lið og aukapening handa mér. 

Er þetta ekki fín hugmynd hjá mér? Einhvern veginn verður maður að nýta neikvæðu hliðarnar. 


Strákarnir hans Teits byrja vel

Fyrst smá um veðrið
Hitinn í dag fór upp í 19 stig samkvæmt  veðurfréttum en ég húkti inni og vann við fréttabréf Norræna félagsins í Kanada. Það þarf að koma út núna í apríl og ég ákvað því að drífa í þessu. Sá strax eftir því þegar ég fór loks út úr húsi og áttaði mig á því hversu frábært veðrið var í raun og veru. Maður getur ekki dæmt það bara með því að horfa út um gluggann því oft getur sólin platað mann.  En á móti kemur að ég er langt komin með fréttabréfið og þarf ekki nema eins dags vinnu í viðbót, ef það.

Innanhússboltinn
Þegar ég loksins kom mér út úr húsi var það til þess að halda yfir í Burnaby til að spila fótbolta. Leikur númer tvö í deildinni. Við byrjuðum æðislega og yfirspiluðum hitt liðið algjörlega, en hitt liðið var gróft og komst upp með það. Það sem gerðist þá var að bestu leikmennirnir í okkar liði létu það pirra sig og leikurinn hrundi niður. Miðjan hætti að nenna að hlaupa og pakkaði aldrei í vörn svo það kom fyrir aftur og aftur að hitt liðið náði að spila þrír á tvo. Þannig fengu þeir þrjú mörk í röð og staðan sem hafði verið 5-2 fyrir okkur varð allt í einu 5-5. Þá urðu framverðirnir okkar ennþá pirraðri, hættu að senda boltann og reyndi að komast einir í gegn (sendu aldrei á okkur stelpurnar til að mynda), og þetta varð til þess að staðan varð allt í einu 5-7. Við náðum að minnka muninn í 6-7 þegar einn þeirra manna fékk rauða spjaldið (sem hann átti skilið þótt fyrr hefði verið) en það var ekki nóg. Við spiluðum vel í fyrri hálfleik en svo tók skapið hjá sumum yfir og leikurinn hrundi niður. Phil, einn framherjanna okkar (sem aldrei gefur boltann ef hann mögulega kemst hjá því), átti í stöðugu samstuði við einn leikmanna hins liðsins og missti loks stjórn á sér og hálfpartinn lamdi til náungs. Fékk gula spjaldi, og dómarinn bað hann um að fara af velli og kæla sig aðeins niður. Phil fór af velli en hélt svo áfram að skammast og að mínu mati var hann heppinn að fá ekki rautt spjald. Hefði átt að fá það. Þegar hann lýsti þessu eftirá sagði hann að dómarinn hafi ekki hætt að öskra á sig og sjálfur hafi hann ekki sagt neitt. Það var bull. Það var hann sjálfur sem ekki þagnaði. Það þarf rennilás á rifuna á svona mönnum. Dómarinn hefði reyndar mátt standa sig betur í leiknum. Við söknum Angelo, hann er besti dómarinn í deildinni.

Vancouver Whitecaps
Vancouver Whitecaps spilaði sinn fyrsta leik í USL deildinni í kvöld gegn erkiféndunum í Montreal Impact og unnu þeir sigur, 1-0. Það byrjar því vel hjá Teiti Þórðar og félögum. Ég ætla að reyna að fara á nokkra leiki í sumar. Stemningin er víst frábær og ég á von á að liðið verði betra í sumar en það var í fyrra. 

Stanleybikarinn
Keppnin um Stanley bikarinn er komin vel af stað og flest lið hafa nú þegar leikið tvo leiki:

Montreal Canadians hafa unnið tvo leiki gegn Boston Bruins (í samræmi við mína spá).

Washington hafa unnið einn leik gegn Philadelphia Flyers (ég átti erfitt með að velja hér)

Red Wings hafa unnið tvo leiki gegn Nashville (í samræmi við mína spá)

Minnesota Wild og Colorado Avalance eru jöfn með einn sigur hvort lið (í samræmi við mína spá - spáði að sjö leiki þyrfti til)

Pittsburgh Penguins hafa unnið tvo leiki gegn Ottawa Senators (i samræmi við mína spá)

NY Rangers hafa unnið tvo leiki gegn New Jersey Devils (í samræmi við mína spá)

San Jose Shark og Calgary Flames eru jöfn með einn leik hvort lið (ekki í samræmi við mína spá, ég hélt að San Jose myndi rúlla upp Calgary í fimm leikjum...það getur reyndar enn gerst)

Dallas Stars hafa unnið tvo leiki gegn Anaheim Ducks (ekki í samræmi við mína spá. Var viss um að Anaheim færi létt með þetta. Verð að segja að ég er ánægð með að hafa haft rangt fyrir mér. Vona að Dallas slái þá út).

 


Hokkípollur á Fésbók

Jæja. Ég er búin að velja Stanleybikarsliðið mitt í hokkípollinum á Fésbókinni. Eftirfarandi leikmenn fá að spila fyrir hönd Akureyrar:

Sóknarmenn úr austri:                    Sóknarmenn úr vestri:

Alexander Ovechkin, Washington     Joe Thornton, San Jose 
Jaromir Jagr, NY Rangers               Jarome Iginla, Calgary
Sidney Crosby, Pittsburgh               Ryan Getzlaf, Anaheim
Tomas Plekanec, Montreal              Henrik Zetterberg, Detroit
Marion HOssa, Pittsburgh               Pavol Demitra, Minnesota
Scott Gomez, NY Rangers               Milan Michalek, San Jose

Varnarmenn úr austri:                     Varnarmenn úr vestri:

Andrei Markov, Montreal                 Nicklas Lidstrom, Detroit
Michal Rozsival, NY Rangers            Brent Burns, Minne
Tom Poti, Washington                     Dion Phaneuf, Calgary
Ryan Whitney, Pittsburgh                Chris Pronger, Anaheim

Markverðir úr austri:                         Markverðir úr vestri:

Martin Brodeur, New Jersey             Evgeni Nabokov, San Jose
Marc-Andre Fleury, Pittsburgh          J.S. Giguere, Anaheim 

Nú er bara að vona að mínir menn standi sig vel og skori fullt af stigum! 


Keppnin um Stanley bikarinn að hefjast

Eftir tvo daga hefst keppnin um Stanley bikarinn í hokkíinu. Liðin sem mætast eru eftirfarandi:

Vesturriðill

Detroit vs. Nashville    
(Ég spái að Detroit vinni Nashville í fjórum eða fimm leikjum)

San Jose  vs. Calgary   
(San Jose vinnur í fimm leikjum - hugsanlega sex)

Minnesota vs. Colorado
(Þetta gæti farið á hvern veginn sem er. Colorado hefur verið á uppsveiflu en ég vona að Minnisota taki þetta. Flestir veðja þó á Colorado. Þessi keppni gæti farið í sjö leiki)

Anaheim vs. Dallas      
(Anaheim tekur þetta í fimm leikjum - hugsanlega sex)

Austurriðill

Montreal vs. Boston      
(Montreal rúllar þessu upp í fimm leikjum, jafnvel fjórum)

Pittsburgh vs. Ottawa   
(Pittsburgh er búið að standa sig stórkostlega undanfarið og þetta gæti farið á hvern veginn sem er. Ég vona þó að Ottawa nái sínu fyrra formi og komist áfram en ég er hrædd um að það verði Pittsburgh. Þarf sjö leiki)

Washington vs. Philadelphia
(Ekki á ég auðvelt með að spá um þessa keppni. Washington hefur verið á uppsveiflu en Philadelphia ætti að hafa sterkara lið. Spurningin er hvað Ovechikin gerir. Fer í sjö leiki.)

New Jersey vs. New York
(Önnur erfið viðureign að spá um. Þessi lið eru mjög svipuð og þetta gæti farið á hvorn veginn sem er. Spái sex eða sjö leikjum og sigri New York)

Eins og þið sjáið þá á ég mun erfiðara með að gera upp hug minn í austrriðlinum. Það er vegna þess að ég þekki þau lið ekki vel. Við spiluðum aðeins gegn örfáum þeirra í vetur.

Ég ætla að hvetja Montreal og Ottawa og held að Montreal sé líklegra til að komast í úrslitaleikinn. Það er eiginlega ótrúlegt því í upphafi vertíðar var ég viss um að Ottawa myndi hafa þetta í vetur. En þeir hafa spilað svo ömurlega undanfarið að þeir mega teljast heppnir ef þeir komast fram hjá Pittsburgh. Úrslitaleikurinn um austrið verður á milli Montreal og annað hort Ottawa eða Pittsburgh. Montreal - Ottawa er draumurinn.

Í vestrinu ætti ég að hvetja áfram Calgary en eins og ég hef áður lýst yfir þá hef ég andstyggð á þjálfara þeirra svo ég ætla að láta það vera þótt Calgary séu næstu nágrannar okkar til austurs. 

Úrslitaleikurinn um vestrið verður á milli San Jose spila og annað hvort Detroit eða Anaheim. Anaheim eru ríkjandi Stanleybikarshafar og ég ætla að vona að þeir haldi ekki titlinum. 

Ætla að spá San Jose og Montreal í úrslitaleiknum og þótt ég vilji að Montreal vinni þá held ég að það verði San Jose.

Á komandi vikum getum við séð hversu sannspá ég er. 

 

Keppnin hefst eins og ég sagði áður á miðvikudaginn með eftirfarandi leikjum:
New Jersey vs. New York
Pittsburgh vs. Ottawa
San Jose vs. Calgary
Colorado vs. Minnesota

Á fimmtudaginn leika:
Anaheim vs. Dallas
Montreal vs. Boston
Detroit vs. Nashville

Og á föstudaginn:
Washington vs. Philadelphia

 


Frábær leikur

Sigur Vancouver á Calgary var stórkostlegur í kvöld. Og ég var á staðnum.

Ég hafði ekki ætlað á leikinn enda aðeins þrír leikir eftir og ekki auðvelt að fá miða. En í gærkvöldi fékk ég tölvupóst frá stelpu í málvísindadeildinni sem átti tvö miða en komst ekki. Hún bauð mér að kaupa miðana af sér. Ég hringdi í nokkra sem ég þekkti sem hefðu mögulega áhuga á að fara en fólk var ýmist að vinna, átti ekki pening, eða fékk skilaboðin ekki nógu snemma. Það varð því úr að ég tók bara annan miðann og stelpan náði að losna við hinn miðann í gegnum netið. Ég þurfti bara að borga rúmlega hálfvirði sem var mjög fínt.

Einhvern tímann lofaði ég því að blogga ekki meira um hokkí en ég er búin að komast að því að örfáir hafa gaman af að lesa hokkíblogg og fyrir þá ætla ég aðeins að skrifa um leikinn.

Það byrjaði ekki vel hjá okkur. Calgary kom út á fullu og skoraði fyrsta markið þegar rétt rúmlega mínúta var liðin af leiktímanum. Þeir héldu áfram að koma harkalega að okkur og það var eins og það tæki Vancouver nokkrar mínútur að átta sig á því hvar þeir væru staddir. Sko, málið er að þegar við mættumst síðast, fyrir tæpri viku, þá spilaði Vancouver góðan fyrsta leikhluta en hrundi svo eins og spilaborg og Calgary hreinlega át þá. Þeim var hent til hliðar, þeim kastað í glerið og svo voru þeir notaðir til að sópa gólfið með. Það var eins og Vancouver myndi allt í einu eftir þessu og þeir ákváðu að gera eitthvað í málunum. Þegar leikið er gegn Calgary þarf að leika að hörku. Ekki bara með pökkinn heldur almennt. Calgary þjálfarinn Mike Keenan er kallaður járn Mike. Hann er harðhaus og hundur. Ég þoli hann ekki. Fæ grænar bólur í hvert sinn sem ég sé hann. Ég held að hann sé ömurlegur karakter og þetta segi ég ekki af því að hann þjálfar Calgary. Almennt séð hef ég ekkert á móti þeim. En sögurnar sem ég hef heyrt af Keenan frá því hann þjálfaði hér í Vancouver eru ömurlegar. En nóg um það. Hér kemur að næsta hluta leiksins - sá hluti hófst fyrir alvöru sjö mínútur eftir að leikur hófst.

Í NHL hokkí er vanalega spilað með fjórar línur framherja. Fyrsta línan hefur að skipa bestu leikmönnunum, önnur lína á líka að geta skorað, þriðja línan er aðallega send út á móti fyrstu línu andstæðingsins og þeirra hlutverk er að stoppa þá, og fjórða línan er aðallega skipuðu stórum og sterkum slagsmálahundum sem ætlað er að tuska aðeins til leikmenn hins liðsins. Þriðja línan hjá Vancovuer hefur verið alveg mögnuð í vetur. Þeir Ryan Kesler og Alex Burrows, og hver sem spilar með þeim í hvert sinn, hafa náð að stoppa hér um bil alla bestu leikmenn andstæðinganna. Þeir lokuðu á Sidney Crosby, Henrik Zetterberg, Ilya Kovalchuk, Alexander Ovechkin, og þeir hafa sama sem lokað á Iginla - hann hefur aðeins eitt mark gegn þeim í sjö leikjum. Þessir strákar eru snillingar og eitt af því sem þeir gera er að atast í markaskorurum andstæðinganna og reita þá til reiði. Alexandre Burrows er víst snillingur í því og fer víst oft yfir strikið samkvæmt samherjum hans. Hann fékk meira að segja Vincent Lecavalier til að slást við sig í vetur og báðir fengu fimm mínútna brottvísun. Þið sem fylgist ekki mikið með hokkí skiljið kannski ekki hvað er svona aðdáunarvert við þetta en lítið á mennina sem fara út af. Alex Burrows er  búinn að skora 11 mörk og hefur 19 stoðsendingar. Lecavalier hefur 40 mörk og 50 stoðsendingar. Punktarnir 30 hans Burrows eru því öllu lægri en þessir 90 sem Lecavalier hefur. Og þess vegna skiptir það miklu minna máli hvort Burrows er á svellinu eða Lecavalier. Þetta er það sem þessir strákar gera, þeir æsa upp bestu leikmenn hins liðsins þar til þeim verður hent út af og þar með er sú ógn farin af svellinu um stund. Í kvöld voru þeir magnaðir. Þeir náðu að losa okkur við Iginla í alls 16 mínútur og Phaneuf í 4 mínútur. Iginla er með 94 punkta (49 mörk og 45 stoðsendingar) og Phaneuf hefur 58 punkta (17 mörk og 41 stoðsendingu). Mestu munaði auðvitað að losna við Iginla. Gallinn er að tíu mínúturnar sem hann fékk fyrir óheiðarlega framkomu nýttust illa því það voru ekki eftir nema rúmar þrjár mínútur þegar hann fékk þær en samt. Iginla er ekki slagsmálahundur og það er því ekki hver sem er sem fær hann til við sig.

En aftur að leiknum. Eftir að Iginla var sendur af velli sjö mínútur inn í leikinn var eins og Vancouver hafi tekið við sér. Þeir komu út af fítonskrafti og nokkrum mínútum síðar jafnaði Sami Salo leikinn með svaka skoti út við bláu línuna. En rétt fyrir leikslok kom annað mark frá Calgary, nokkuð óheiðarlega að mati flestra í höllinni. Calgary hafði fengið powerplay og þeir spiluðu því fimm gegn fjórum. Ryan Kesler fékk pökkinn harkalega í fótinn og gat fyrst ekki staðið í lappirnar, hann komst loks á fætur og byrjaði að haltra af velli og allir voru farnir að öskra á dómarana um að stoppa leikinn, en þei gerðu það ekki og Calgary spilaði því í raun fimm á þrjá - og þeir náðu að skora. En Vancouver sýndi karakter og innan við mínútu síðar jafnaði Naslund leikinn aftur inn með því að fylgja pekkinum vel eftir.

Við áttum það sem eftir var leiksins. Tveimur mínútum inn í annan leikhluta skoraði gamli jaxlinn Trevor Linden við mikinn fögnuð áhorfenda, enda Linden líklega vinsælasti leikmaður liðsins fyrr og síðar. Hann hefur setið mikið á bekknum í vetur enda orðinn 37 ára sem þykir býsna aldrað í hokkí. En Linden var ekki hættur, tæpum fimm mínútum síðar bætti hann við öðru marki sínu og staðan orðin 4-2 Vncouver í vil. Sex mínútum síðar bætti Matt Pettinger við fimmta markinu og Brad Isbister innsiglaði sigurinn tæpa mínútu inn í þriðja leikhluta. Staðan 6-2 fyrir Vancouver og sigur í höfn.

Leikurinn var glettilega skemmtilegur og mikil orka, bæði á svellinu og í salnum. Fjöldi Calgary aðdáenda var á svæðinu og þeim var ekki skemmt. Tveir þeirra sátu við hliðina á mér en ég lét vera að atast í þeim. Læt karlana um það.

Hér má sjá mörkin (athugið að það þarf að smella á 'open video portal'):

http://canucks.nhl.tv/team/launch.htm?type=fvod&id=15384&catid=201

Og hér er viðtal við hann Vigneault minn:
http://canucks.nhl.tv/team/launch.htm?type=fvod&id=15385&catid=201

Það versta er að við erum svo langt frá því að vera örugg með sæti í úrslitakeppninni. Við sitjum nú í áttunda sæti, síðasta úrslitasætinu, og Nashville er aðeins stigi á eftir okkur eftir tap í vítakeppni gegn Detroit. Calgary hefur tveimur stigum fleira en við og Colorado þremur stigum fleira, en Colarado hefur leikið einum leik meira. Í raun verðum við að vinna alla leikina þrjá sem eftir eru. Þá fyrst getum við andað. Ég vildi helst komast upp fyrir hvort tveggja Calgary og Colorado og enda í sjötta sæti því þá leikum við gegn Minnesota í úrslitunum og þá ættum við að geta unnið. Ef við lendum í áttunda sæti leikum við gegn Detroit og þá getur allt gerst. Við lékum tvisvar við þá í vetur og unnum annan leikinn en töpuðum hinum. Það skiptir engu máli þótt þeir séu í efsta sæti vesturriðilsins. Þeir eru að hluta til þar af því að þeir leika í auðveldasta undirriðlinum. Hin liðin fjögur í miðvesturriðlinum eru ekki í úrslitasæti eins og er. Versta staðan fyrir okkur er að lenda í sjöunda sæti. Þá leikum við gegn San Jose og ég get ekki séð okkur vinna þá.

En aðalatriðið er að tryggja sér sæti í úrslitunum og svo verðum við að einbeitta okkur að andstæðingnum, hver svo sem það nú er.  

Við þetta má svo bæta að í dag skrifaði Aquilini Investment Group, eigandi Canucks, undir samning við Vanoc (nýja vinnuveitandann minn) um samstarf við Ólympíuleikana 2010. Carly sem leikur fótbolta með mér var á staðnum og hitti allt aðalliðið hjá Canucks og ég dauðöfunda hana. Hún hitti þó held ég ekki þjálfarann minn svo ég þarf ekki að verða algjörlega græn á litinn. Á myndinni hér til hliðar má sjá frá vinstri: Paolo Aqulini, John Furlong, CEO of Vanoc, Francesco Aquilini og Roberto Aquilini. Þeir Aquilini bræður keyptu Canucks fyrir fjórum árum og Francesco lenti í málaferlum út af þeim kaupum þar sem hann var ásakaður um að hafa hálfpartinn rænt félaginu frá tveim kaupsýslumönnum sem voru að reyna að ná samningum, Gagliardi og Beady. Úr urðu heilmikil málaferli sem tóku meira og minna allt sumarið og illilega var höggið að mannorði Francesco, en sem betur fer komst dómarinn að þeirri niðurstöðu sem mér sýndist alltaf augljós - að hann hafði ekki gert neitt af sér og keypti liðið á algjörlega löglegan hátt. Ég var ánægð með það, mér sýnist þessir bræður hin ágætustu grey.

Og áður en ég fer að sofa verð ég endilega að setja inn gamalt myndband með Trevor Linden frá þeim tíma þegar glerið í kringum völlinn var ekki eins sterkt og það er nú. Trevor er sá sem missir hjálminn:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband