Færsluflokkur: Íþróttir
Íslenskur fnykur af fótboltanum
30.3.2008 | 08:34
Í morgun fór ég á leik með knattspyrnufélaginu Vancouver Whitecaps en þjálfari þess er enginn annar en Teitur Þórðarson. Þetta var sýningarleikur gegn SFU háskólaliðinu og Whitecaps tóku þá algjörlega í nefið. Lokatölur voru reyndar ekki nema 3-0 en það segir ákaflega lítið um gang leiksins. Ég held að SFU hafi ekki átt neitt gott skot að marki. Varnarmenn Whitecaps héldu þeim algjörlega niðri. Whitecaps áttu hins vegar fjölmörg frábær tækifæri. Þeir hafa býsna góða framherja.
Við vorum nokkrir Íslendingarnir sem mættum á leikinn, með íslenskan fána, og hvöttum liðið áfram. Þetta voru mjög íslenskar aðstæður þar sem það var fremur kalt svo maður var vafinn í húfu og vettlinga, og svo stóð Óðinn hluta af leiknum eins og góðum Íslendingi sæmir (þótt hann sé reyndar Vestur-Íslendingur). Ég man að það voru alltaf karlar á Akureyrarvelli sem stóðu fremur en að sitja á leikjum.
Eftir leikinn var hádegisverður í Íslandshúsi og Teitur kom í mat ásamt einum fjórum eða fimm öðrum starfsmönnum Whitecaps, þar á meðal aðstoðarþjálfaranum. Það var þrælgaman að tala við þá og ég spjallaði t.d. lengi við upplýsingafulltrúann þeirra og við ræddum um nýja völlinn sem þeir ætla að byggja og almennt um stefnuna. Það var líka skemmtilegt að hitta Teit og hann viðurkenndi að aðstæður hér væru vissulega öðruvísi en hann ætti að venjast.
Mér fannst magnað þegar aðstoðarþjálfari liðsins kom til mín og óskaði mér til hamingju með nýju vinnunna. Ég var orðlaus og fannst þetta ógurlega sætt af honum. Í ljós kom að Jana hafði sagt honum frá þessu.
Um kvöldið lék ég ásamt innanhússliðinu mínu í Burnaby (þar sem við leikum alltaf). Leikur klukkan tíu á laugardagskvöldi. Ouch. Við unnum leikinn 10-5. Dave var orðinn svo hræddur um að við yrðum sett í aðra deild að hann gerði allt sem hann gat til þess að leyfa hinu liðinu að skora. Hann var í marki í stað Joe sem var í veislu, og Dave var farinn að færa sig út úr markinu og sendi boltann á hitt liðið en það var alveg sama hvað hann reyndi. Þeim gekk ekki vel að koma boltanum í markið. Hann var búinn að banna okkar liði að skora fleiri mörk þegar við vorum tveim mörkum yfir, en það er ekki hægt að stoppa þessa stráka.
Þetta var síðasti 'tiering' leikurinn og eftir hann talaði Dave við mótstjórann. Hann viðurkenndi að hann hafi ætlað að setja okkur í aðra deild þar sem við unnum tvo af þremur leikjum svona stórt en ákvað svo að halda okkur í þriðju deild. Svo við getum andað léttar. Við eigum þá fyrir höndum skemmtilegt tímabil þar sem leikirnir geta farið á hvaða veg sem er. Í annarri deild hefði mátt búast við því að okkur yrði slátrað í hverri viku og það er ekkert sérlega gott fyrir sjálfstraustið.
Í næstu viku hefst því keppnin fyrir alvöru.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Frábært hjá stelpunum
29.3.2008 | 02:45
Það er alveg magnað að heyra hversu vel íslensku stelpunum gengur í hokkíinu. Aðeins tvö kvennalið eru í landinu og því má gera ráð fyrir að sirka helmingur allra hokkíkvenna á Íslandi leiki með landsliðinu. Þegar mið er tekið af þessu verður að segja að árangur þeirra er stórkostlegur. Nú er bara að vona að þær brilleri í síðasta leiknum og taki heim gullið.
Það er líka gaman að sjá að RÚV ætlar að sýna beint frá leik SA og SR á morgun. Ég ætla að reyna að horfa á byrjunina en verð svo að rjúka yfir í New Westminster því ég ætla á leik með Vancouver Whitecaps í knattspyrnunni en eins og þið vitið væntanlega er þjálfari liðsins enginn annar en Teitur Þórðarson. Planið er að hann komi við í Íslandshúsi eftir leikinn og kynnist aðeins Íslendingagenginu hér.
En aftur að hokkíinu. Það gengur ekki nógu vel hjá mínum mönnum (Vancouver Canucks) þessa dagana. Við erum um það bil að tapa fjórða leiknum í röð en áður fyrr höfðum við ekki tapað fleiri en tveim leikjum í röð. Þetta er versti mögulegi tími til að hrynja. Við fórum úr sjötta sæti niður í áttunda á einni viku og með tapinu í kvöld (sem nú er orðið staðreynd) förum við líklega niður í níunda sætið en það sæti nægir ekki til þess að komast í úrslitakeppnina. Aðeins fjórir leikir eru eftir og sem betur fer eru þeir allir á heimavelli.
Markvörðurinn okkar, sem annars er einn besti markmaður í heimi, hefur verið hreint skelfilegur undanfarna þrjá leiki. Hann hefur hleypt inn skotum sem hann á vanalega ekki í vandræðum með að verja. Ástæðan fyrir þessu er einföld - hann hefur ekki verið með hugann við leikinn. Konan hans eignaðist barn í gær og síðustu tvo leiki var hann með hugann við fæðinguna sem gat farið af stað hvenær sem var. Það sem flækti málið var að eiginkonan var í Florida og Luongo þurfti því meira en að skreppa upp á spítala um leið og hríðir hófust - hann varð að hoppa upp í einkaflugvél sem flutti hann þvert yfir landið. Hann dvaldi á spítalanum í nótt og flaug svo til Minnesota í morgun og spilaði í tapleiknum í kvöld. Þegar hann var búinn að fá á sig fjögur mörk (tíunda markið í tveim leikjum) var hann tekinn af velli og varamarkmaðurinn Sanford fór inn. Að mínu mati hefði Sanford átt að spila síðustu þrjá leiki og Luongo hefði átt að fá að vera hjá konunni allan þennan tíma. En hann vildi það ekki (Luongo þ.e. - Sanford hefði auðvitað viljað það). Og Luongo gerði samning við þjálfarann nú eftir jólin sem er þannig að Luongo fær að spila þegar hann vill spila. Og hann vildi spila.
Þetta þýðir að við eigum erfitt verk fyrir höndum. Við verðum helst að vinna alla fjóra síðustu leikina til að tryggja okkur sæti í úrslitunum. Ouch. Ég er ein taugahrúga.
Ísland upp í 3. deildina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Alltaf í boltanum
11.3.2008 | 16:10
Eftir að ég kom heim frá Whistler á sunnudagskvöldið fékk ég mér (örstutt) bað og fór svo yfir í Burnaby þar sem ég spila innanhúsfótbolta. Vor/sumarboltinn er að hefjast og við leikum tvo leiki sem eiga að ráða því í hvaða deild við erum sett. Við viljum spila í þriðju deild en erum í pínulítilli hættu að vera sett í aðra deild. Þar eigum við hins vegar ekki heima og myndum sennilega tapa flestum leikjum. Í þriðju deild myndum við spila á móti svipuðum liðum og vinna nokkra leiki og tapa nokkrum. Í fyrra var liðið sett í aðra deild vegna þess að í þessari forkeppni spiluðu allir í liðinu af krafti en mótherjarnir ekki. Þeir fóru illa út úr annarri deildinni. Þetta vissi ég hins vegar ekki því ég spilaði ekki með þeim í fyrra. Hef bara komið inn nú í vetur af og til ef þá vantaði stelpur í liðið (þetta er blandað lið). En núna verð ég með á fullu. Við töpuðum leiknum með tveim mörkum og ég grínaðist eftir á með það að við hefðum auðvitað bara tapað af því að við vildum ekki spila í of hárri deild. Ég vissi ekki að það var einmitt málið. Ég hélt við hefðum spilað eins vel og við gætum - ég gerði það. Dave, fyrirliði (og þjálfari minn í kvennaboltanum) þaggaði niður í mér af því að sá sem er yfir knattspyrnudeildinni stóð rétt hjá. Ég skildi ekki af hverju af því að ég vissi ekki að ég hefði hitt naglann á höfuðið. Fékk útskýringuna eftir á.
Leikurinn var annars skemmtilegur og fullt af mörkum. Hitt liðið var svolítið gróft og dómarinn sem var tiltölulega ungur hafði ekki alveg tök á honum. Angelo, sem er uppáhaldsdómarinn minn (vildi að allir dómarar væru eins og hann) var þarna hins vegar til að fylgjast með og hann talaði við strákinn eftir á og og veitti honum góð ráð svo vonandi verður hann betri. Ég vildi annars að Angelo dæmdi hjá okkur í kvennaboltanum. Hann er svo afslappaður og lætur ekkert slá sig út af lagi. Er þrælfyndinn líka og hikar ekkert við að stríða leikmönnum. Í gær var Joe til dæmis eitthvað að hanga á boltanum og Angelo kallaði til hans: Ekki einoka boltann svona asninn þinn. Einu sinni þegar hann dæmdi leik þar sem ég spilaði datt ég niður eftir átök við eina stelpuna og þar sem ég lá á jörðinni sparkaði ég boltanum í burtu. Maður á auðvitað ekki að gera það og sumir dómarar verða alveg vaðvitlausir ef maður stendur ekki strax á fætur. Stelpan varð fúl yfir þessu og kallaði eitthvað til dómarans sem sagði henni að hætta bara þessu væli. Já, það munar rosalega miklu hver dæmir leikina.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Æðislegur leikur
8.3.2008 | 04:54
Ég fór á leik í gær og þvílíkur leikur. Ég hef ekki skemmt mér svona vel í langan tíma. Hann byrjaði með látum. Aðeins hálfa mínútu inn í leikinn fékk einn minna manna tveggja mínútna brottvísun. Ó nei, ætlar þetta að verða svoleiðis leikur þar sem við eyðum helmingnum af tímanum í skammarboxinu. En eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð höfðu mínir menn annað planað. Fimmtán sekúndum síðar nær Alexandre Burrows pökknum við varnarlínuna, skautar með hraða upp völlinn og skorar. Fjórir gegn fimm og það vorum við sem skoruðum en ekki Nashville. En þetta var bara byrjunin. Þegar fyrsti leikhluti var búinn var staðan 4-2 okkur í vil. Eftir það róaðist leikurinn aðeins en við skiptum ekki yfir í einhæfan varnarleik heldur bætum tveim mörkum við, einu í hvorum síðari leikhluta. Lokatölur 6-2 fyrir Canucks og við sitjum aftur í úrslitasæti.
Rosemary vinkona mín kom með mér, fyrsta sinn í mörg ár sem hún sér leik. Við fengum reyndar ekki sæti saman því við keyptum miða á hálfvirði en þar selja þau bara einstök sæti. En það skiptir engu máli, þegar ég fer á leiki er ég bara að horfa á það sem fram fer en ekki að sósíalísera. Við hittumst bara í hléum í staðinn. Rosemary var heppin. Ef maður sér aðeins einn leik í vetur þá var þetta einmitt leikurinn. Mark vinur minn var búinn að spá því að þessi yrði góður. Kannski vegna þess að síðast þegar þessi lið léku hér í GM höllinni töpuðum við 3-0 (ég sá þann leik líka) og tveir varnarmanna okkar meiddust. Annar, Kevin Bieksa lenti í því að kálfvöðvi hans var skorinn í sundur af leikmanni Nashville. Meiðslin héldu áfram í gærkvöldi. Kesler fékk pökk í kálfann og Aaron Miller var hent í vegginn af Jordan Tootoo og meiddist á öxl. Það er hugsanlegt að hann verði ekki meira með í vetur.
Þessi leikur þaggaði aðeins niður í hinum svokölluðu fylgismönnum sem hafa verið að kalla á hálshöggvun undanfarið. Þangað til næsti leikur tapast. En vonandi var þetta það sem liðið þarf til að komast af stað aftur.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 05:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar gott lið á sér ömurlega fylgismenn
5.3.2008 | 07:35
Það er fátt sem ég þoli eins illa eins og fylgjendur hópíþrótta. Það er eins og að minnsta kosti helmingurinn séu asnar með enga þolinmæði. Þegar liðinu gengur illa þá öskra þessir hálfvitar og heimta að hinn og þessi verði reknir, en ef vel gengur þá eru allir æðislegir.
Ég var að lesa aðeins skrifin inni á heimasíðu Canucks hokkíliðsins en okkur hefur ekki gengið alveg sem skyldi síðustu fjóra leikina. Og nú hópast inn á síðuna liðið sem heimtar að þjálfarinn verði rekinn og/eða framkvæmdastjórinn. Framkvæmdastjórinn er sakaður um að hafa ekkert gert til að fá sterkan sóknarmann áður en skiptitímanum lauk og þjálfarinn er sakaður um að láta leikmenn spila leiðinlegan varnarbolta. Hann er þar að auki ásakaður um að blanda línum of mikið, láta ekki réttu mennina spila, o.s.frv. Ég verð reyndar að segja: Það má greinilega reka báða því borgin er full af fólki sem greinilega veit betur hvernig á að stjórna hokkíliði. Undarlegt að þessir aftursætisbílstjórar skuli ekki hafa verið ráðnir fyrir löngu.
Sumir ganga meira að segja svo langt að heimta til baka þjálfara og framkvæmdastjóra sem voru hér áður, en...surprise surprise...gekk enn verr en nú gengur.
Ef liðið nær að hrista sig saman og vinna nokkra næstu leiki og komast í úrslitakeppnina þá munu þessar raddir þagna og í staðinn fara allir að segja að þeir vissu nú að liðið ætti þetta í sér.
Bölvaðir aular. Ég þoli ekki svona pakk sem siglir bara eftir vindi. Ég hef trú á því að maður eigi að standa með sínu liði í gegnum þykkt og þunnt, og jafnvel þótt það sé þunnt lengst af. Enda er ég og verð alltaf Þórsari!!! Og ég sný ekki baki við Canucks þótt þeir hafi tapað fjórum leikjum. Það eru um 18 leikir eftir og við erum bara tveimur stigum út úr úrslitakeppnissæti eins og er. Einn sigur fram yfir liðið á undan okkur og við erum inni. Ekki ætla ég að örvænta strax. Ég er bara skapvond út í þetta pakk sem kallar sig aðdáendur.
Verst var þetta í haust þegar ég sá liðið leika á móti Nashville. Okkar annars frábæri markvörður átti slakan leik og missti inn tvö aulaleg mörk. Þessi maður sem er elskaður framar öðrum í þessari borg mátti þola það að baulað var á hann. Ég horfði í kringum mig og átti ekki til orð. Mér fannst ég vera í leikhúsi í Frakklandi fyrr á öldum þegar tómötum var kastað á lélega leikara. Og þetta var í byrjun vetrar. Einn lélegur leikur frá Luongo og það var baulað á hann.
Strákarnir mínir eiga þetta ekki skilið. Og hananú.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Brjálaður körfuboltaþjálfari
2.3.2008 | 07:24
Ég hef áður talað um viðbrögð þjálfara eftir leiki og hef pirrað mig á því þegar fótboltaþjálfarar kvarta og kveina. Tel að þeir eigi að taka sér hokkíþjálfara til fyrirmyndar. Nú get ég bætt við viðbrögðum körfuboltaþjálfara...ja, reyndar bara eins körfuboltaþjálfara. Sá sem um ræðir er Kevin Borseth, þjálfari körfuboltaliðs kvenna við Háskólann í Michigan. Hann var ekki alveg sáttur við tap sinna kvenna og lét það...ja...býsna greinilega í ljós. Horfið á:
Takk fyrir
18.2.2008 | 16:07
Ég þakka Morgunblaðinu hér með kærlega fyrir að segja frá þessum úrslitum - hvort sem það er vegna áskorunar minnar í gær eða óháð henni. Ég vona að við fáum áfram að fylgjast með því hvað gerist í þessari frábæru íþrótt á Íslandi. Og ekki væri nú verra að geta fundið stöðuna í deildinni einhvers staðar líka.
Ég horfði annars á leikinn sem RÚV sýndi í gær og þakka hér með RÚV líka fyrir það, þótt ég hafi reyndar aðeins náð að sjá tvo leikhluta, hvort sem það var minni tölvu að kenna eða einhverju hjá RÚV.
Það er auðvitað ekki sanngjarnt fyrir mig að bera leik liðanna saman við leikina sem ég horfi á í hverri viku því auðvitað eru þessir strákar ekki eins góðir og strákarnir í NHL deildinni. En ég verð samt að segja að ég var mjög hrifin af sumum sóknarmönnum SA. Nokkrir í liðinu sýndu ótrúlega tækni og býsna góða útsjónarsemi með pökkinn líka. Ég sá nokkrar hreyfingar sem myndu sóma sér vel í NHL, hvor sem leikmennirnir gætu það eða ekki. Athyglisverðast var samt hversu ótrúlega léleg vörnin var hjá Birninum og einnig markvarslan. Sum þessa marka hefðu aldrei átt að verða að veruleika og var þar ekki um snilli sóknarmanna að ræða heldur lélega vörn og lélega markvörslu. Enda sér maður það á markatölunni.
En þetta var sannarlega skemmtilegt og frábært að fá að horfa á þennan leik.
Akureyringar unnu Björninn tvisvar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áskorun til Morgunblaðsins
18.2.2008 | 07:11
Ég skora hér með á Morgunblaðið að birta úrslit úr leikjum í íslensku íshokkídeildinni. Þessi íþrótt er alveg jafnrétthá og aðrir íþróttir sem leiknar eru á landinu og það er algjör skandall að maður skuli ekki geta farið á heimasíðu stærsta blaðs landsins og fengið að vita úrslitin. Um helgina voru leiknir að minnsta kosti tveir leikir, ef ekki fleiri, en ég get hvergi fundið úrslitin á síðu blaðsins. Í staðinn má finna ítarlegar fréttir af formúlu 1 sem að mér vitandi er ekki íþrótt sem stunduð er á landinu.
Og þetta á ekki bara við um hokkí - margar íþróttir virðast ekki hljóta náð fyrir augum íþróttafréttamanna og mér skilst að t.d. sé yfirleitt ekkert sagt frá þeim akstursíþróttagreinum sem stundaðar eru í landinu. Þá er lítið sagt frá skíðaíþróttum, nema kannski helst frá heimsmeistaramótinu.
Það er eins og að ekki megi segja frá neinu sem ekki hefur með bolta að gera (nema formúlunni).
(Ókei, ég geri mér grein fyrir að ég hef minnst á þetta áður, en í kvöld horfði ég á netinu á leikinn milli SA og Bjarnarins sem RÚV sendi út í beinni útsendingu, en einhverra hluta vegna gat ég bara hlaðið niður fyrstu tveim leikhlutunum. Svo ég vildi auðvitað sjá hversu mörg mörkin urðu, enda staðan 10-2 eftir tvo leikhluta. Það var hins vegar ekki auðvelt að finna upplýsingar um hvernig leikurinn fór. Þess vegna fór ég að pirra mig á þessu enn og aftur.)
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hokkímaður skorinn á háls
14.2.2008 | 07:05
Pabbi sagði mér frá því að sjónvarpið hefði sýnt frá hokkíslysinu þar sem Richard Zednik hjá Florida Panthers var skorinn á háls af skauta samherja. Ótrúlegt að hann stóð upp og skautaði sjálfur að bekknum.
Ég veit ekki hvort það kom fram í fréttum að hann var kominn á skurðarborðið á innan við klukkutíma og í raun var það röð tilviljana sem gerði það að verkum að hægt var að taka á þessu svona snemma.
1. Læknir sat við hliðina á bekknum og gat rokið til samstundis og sett þrýsting á sárið.
2. Nálægasti spítali var í aðeins tveggja mínútna fjarlægð frá vellinum.
3. Starfsmaður spítalans sem var að horfa á leikinn í beinni útsetningu hringdi umsvifalaust á skurðstofuna svo hægt var að undirbúa aðgerð.
4. Aðeins einn skurðlæknir var á vakt en annar skurðlæknir var á leiknum og hann rauk umsvifalaust upp á spítala til að hjálpa til.
Ef maður meiðist á annað borð er kannski best að meiðast þegar nógu margir eru að horfa.
Hér má sjá hvernig þetta gerðist ef einhver missti af því í fréttunum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Taugarnar þandar yfir spennandi leik
11.2.2008 | 08:13
Þið sem nennið ekki að lesa hokkílýsingu, kíkið samt á myndbandið neðst. Ótrúlega flott vítaskot sem tókst betur í kvöld en það gerði þarna.
Ég horfði á leikinn í kvöld með Mark sem er vinur minn úr Íslendingahúsi. Hann er frá Winnipeg en flutti hingað fyrir einu og hálfu ári vegna vinnu. Mark er mikill Canucks aðdáandi og við fórum upphaflega að tala saman þegar ég var að kenna yfir í Íslendingahúsi (þar sem hann leigir herbergi) af því að ég var með hálsmen með merki Vancouver Canucks. Síðan þá höfum við mikið rætt um hokkí.
Við fórum á stað sem heitir The Frog and the Firkin og fengum okkur mat á meðan við horfðum á leikinn og spjölluðum saman. Canucks léku miklu betur í kvöld en í gær en gekk þó illa að skora. Þeir komust þó í 1-0 með marki frá Burrows í fyrsta leikhluta en snemma í þriðja leikhluta jöfnuðu Chicago Blackhawks. Alla setti hljóða á pöbbnum enda þurftum við virkilega á báðum stigunum að halda út úr þessari viðureign. En þetta átti eftir að versna. Rúmum fjórum mínútum fyrir leikslok skoruðu Blackhawks ótrúlegt mark. Pökknum var skotið að marki en hann lenti á kylfunni hjá Kesler, okkar leikmanni, og hentist þaðan upp í loft og eiginlega hvarf sjónum. Luongo í markinu horfði upp í loftið en sá ekki pökkinn sem datt niður fyrir aftan hann og inn í markið. Við Mark föttuðum ekki einu sinni að mark hefði verið skorað fyrr en við sáum leikmenn Blackhawks fagna. Vá, það mátti heyra saumnál detta á barnum. Allir voru í sjokki. Mark setti hljóðan og hann stundi varla upp orði þegar ég minntist á að það væri orðið býsna langt síðan Vancouver hefði náð að koma til baka á síðustu mínútu þannig að það væri nú alveg kominn tími til.
Þegar tvær mínútur voru eftir tók Vignealt Luongo út úr markinu og setti fjórða framherjann inná. Þetta er alltaf hættulegur leikur því það er auðvelt að skora í autt markið, en aðalmálið er að halda pökknum og vona að aukamaðurinn hjálpi til við að skora. Enda er þarna um allt eða ekkert að ræða. Og ótrúlegt en satt, þetta dugði því Naslund náði að hamra pökknum í netið og staðan 2-2 þegar mínúta var eftir. Bæði lið börðust en þannig endaði venjulegur leiktími og farið var í framlengingu. Vancouver hefur ekki gengið vel í vítakeppnum í vetur, aðeins unnið fjórar af ellefu þannig að þeir spýttu í í von um að vinna leikinn í framlengingu (fimm mínútur með fjóra menn á vellinum í stað fimm). Þegar framlengingin var hálfnuð fékk Vancouver vítaskot þegar leikmaður Chicago sparkaði markinu úr stað þegar Vancouver var með pökkinn og Daniel Sedin, aðalmarkaskorari liðsins tók vítið. Þið megið þó vita að það er miklu erfiðara að skora úr vítum í hokkí en í fótbolta og það er miklu algengara að mistakast skotið en að takast það. Daniel ætlaði að draga pökkinn til hliðar og fram hjá markverði en kom ekki einu sinni skoti á markið. Svo framlenging hélt áfram en ekkert mark var skorað. Vítakeppni varð staðreynd. Við Mark giskuðum á að Vigneault myndi velja Naslund, Burrows og Linden til að taka vítin og við höfðum rétt fyrir okkur í tveimur tilfellum. Naslund tók fyrsta víti en skaut framhjá. Luongo varði þá frá aðalskorara Chicago sem hafði fram að þessu skorað fimm mörk úr sex vítaskotum. Þá var sendur á svæðið unglingurinn Ryan Shannon sem Vancouve fékk í haust frá Anaheim en sem hefur að mestu spilað með Manitoba. Mark kallaði upp yfir sig þegar hann sá Shannon. Hvernig í fjandanum stæði á því að Shannon ætti að taka víti, en ég sem hef endalausa trú á þjálfaranum var ekki eins stressuð. Vigneault veit hvað hann er að gera.
Shannon leggur af stað, tekur svo stóran sveig til vinstri kemur síðan hratt inn að markmanninum, snýst svo í hringi og skýtur pökknum í markið um leið og hann fellur niður og á markmanninn. Ótrúlegt skot og ótrúlegt mark. Markmaðurinn var hins vegar ekki hrifinn og barði Shannon í hausinn sem var alveg sama, fagnaði bara sínu marki. Ég skil hins vegar ekki af hverju markmaðurinn fékk ekki áminningu. Það er líka búist við að Chicago muni kvarta þar sem Shannon datt á markmanninn í lokinn. En markið stóð. Og fleiri mörk voru ekki skoruð. Luongo varði skotin tvö frá Chicago sem eftir voru og Linden klikkaði á því að skora, þannig að mark táningsins Shannons varð sigurmark leiksins og stigin tvo voru okkar.
Við Mark löbbuðum út í strætó og hann hélt austur eftir til New West og ég vestur eftir til Point Gray. Við vorum ákaflega hamingjusöm með úrslitin og sammæltumst um að horfa aftur saman á leik.
Hér fyrir neðan má sjá Shannon reyna nákvæmlega eins skot á Marty Turco hjá Dallas Stars í fyrra en þar tókst honum ekki að skora. Sem betur fer gekk betur nú.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)