Færsluflokkur: Íþróttir

Af hverju væla boltamenn svona?

Mér hefur alltaf fundist það athyglisvert í boltanum hvernig menn eru alltaf að afsaka sig og sína. Þetta gera knattspyrnustjórar iðulega og oft leikmenn sjálfir. Ég sé að ýmsir bera þetta sérstaklega upp á Man Utd. en ég hef nú tekið eftir þessu hjá mjög mörgum knattspyrnustjórum og aðstoðarstjórum og að sjálfsögðu hjá aðdáendum (og ég tek fram að ég er ekki að verja Man Utd. hér. Ég er Arsenal manneskja og  mér er því eðlilega ekki vel við Man Utd. en málið er að Arsenal gerir þetta jafnmikið og United og önnur lið).

Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að ég fylgist mikið með hokkíinu í NHL deildinni og þar bara hreinlega heyrir maður ekki svona væl. Liðið mitt var í vikunni með fimm af sex varnarönnum meiddum og liðið var því skipað ungum strákum úr varaliðinu. Við aðdáendur notuðum þetta auðvitað sem afsökun en þjálfari og leikmenn neituðu að gera það. Þegar þeir töpuðu enn einum leiknum bentu þeir einfaldlega á að þeir hefðu ekki spilað eins vel og hitt liðið og ekki langað eins mikið að sigra. Þegar þjálfarinn var spurður að því hvort það væri ekki slæmt fyrir liðið að missa svona marga menn sagði hann bara að maður kæmi í manns stað. Þeir kvarta heldur ekki þegar þeir eru látnir spila fjóra leiki á fimm dögum eins og t.d. núna.

Eina skiptið sem ég hef heyrt þjálfara Canucks kvarta yfir ósanngirni var á tímabili í haust þegar liðið var látið spila sjö leiki á ellefu dögum þar sem fyrst komu tveir útileikir tvo daga í röð í miðvestur ríkjunum, næsta dag var flogið heim til Vancouver og leikinn einn heimaleikur, þeir flugu svo næsta dag til LA spiluðu þar einn leik, fengu einn dag frí, spiluðu svo tvo leiki á tveim dögum í Kaliforníu, og flugu svo til Edmonton og léku þar þriðja leikinn á fjórum dögum. Þannig að á ellefu dögum var aðeins einn dagur þar sem hvorki var leikið né flogið fjögurra til fimm tíma flug.

Og svo væla menn í enska af því að liðið þurfti að leika landsleik stuttu fyrir deildarleik. Iss piss, við hlustum bara ekki á svona. 

Ég hef skrifað um þetta áður, ég veit það, en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Knattsyrnumenn og -stjórar ættu að taka hokkíið sér til fyrirmyndar og sætta sig við tap án þess að þurfa að koma með afsakanir. 


mbl.is Landsleikirnir tóku sinn toll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð endurtekning

Það er svolítið fyndið að heyra þessar fréttir um að enska knattspyrnusambandið ætli að láta spila leiki í ensku deildinni utan Englands, og að þær fréttir berist í fjölmiðla áður en talað er við leikmenn og knattspyrnustjóra. Ástæða þess að mér finnst þetta fyndið er sú að það er innan við mánuður síðan nákvæmlega sama staða kom upp í NHL deildinni. Þar hefur verið ákveðið að spila fleiri NHL leiki utan Norður Ameríku og er helst talað um Svíþjóð og Rússland í því samhengi. Þar var farið að alveg eins og hjá þeim ensku því ekkert var rætt við leikmenn eða þjálfara um þetta. Formaður Sambands NHL leikmanna kom þá í fjölmiðlum og kvartaði yfir því að þetta skuli ekki hafa verið rætt við leikmenn áður en þetta var tilkynnt.

Í haust voru reyndar leiknir tveir leikir í London, báðir á milli Stanleybikarshafanna Anaheim Ducks og nágranna þeirra í LA Kings. Þótt þetta heppnast vel en mér skilst þó að leikurinn hafi að mestu farið framhjá Lundúnabúum sem vissu almennt ekki að því að stórleikur í hokkí færi fram í borginni. Reikna má með því að þeir ensku myndu auglýsa þessa leiki betur. 


mbl.is Sir Alex öskuillur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurskálaleikurinn - Sigur Risanna

Leikurinn var ekkert smáspennandi. Ég horfði reyndar ekki á hann allan en sat límd síðustu mínúturnar. Ja, eiginlegt stóð ég límd því ég var komin í úlpu og búin að setja á mig húfu því ég þurfti að fara út að sækja Sezhuan grænar baunir sem ég hafði pantað á kínahúsinu hér í hverfinu (rosalega góður réttur).

New England skoraði touchdown þegar sirka fjórar mínútur voru eftir af leiktímanum og staðan var 14-10. Það var því ekki nóg fyrir New York að skora field goal - þeir hefðu komist hæst í 13 stig. Þannig að þeir urðu að skora touchdown. Þeir áttu eftir sín þrjú hlé og tóku þau eftir hverja tilraun til að stoppa klukkuna. Smám saman færðust þeir upp völlinn og með ótrúlegu kasti frá quarterback Eli Manning og ótrúlegu blöffi hjá hlauparanum David Tyree náðu þeir að skora touchdown þegar innan við þrjátíu sekúndur voru eftir af leiktímanum.

New England Patriots höfðu því aðeins hálfa mínútu til þess að skora en hinn frábæri quarterback Tom Brady náði ekki að koma boltanum til hlaupara sinna og leikurinn endaði 17-14.

Ég efast um að margir hafi reiknað með þessum úrslitum — Patriots höfðu ekki tapað einum einasta leik í allan vetur og virtust með ósigrandi lið. Giants aftur á móti algjör undirhundur (underdog) og spiluðu ekki einn einasta heimaleik í úrslitakeppninni. Gaman þegar svona gerist.


mbl.is „Superbowl“ og „Super Tuesday“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttir eru hættulegar

Það er hættulegt geðheilsu manna að fylgjast með íþróttum. Alla vega ef manni er ekki sama um það hvernig leikar fara. Hokkíliðið mitt er í algjöru tapstuði þessa dagana og gengur hvorki né rekur. Þeir tapa flestum leikjum, líka þeim þar sem þeir eru miklu betri aðilinn. Það sem þá vantar er almennilegur markaskorari.

En þessi endalausu töp þessa dagana taka á. Maður situr ýmist í fýlu fyrir framan sjónvarpið (þegar þeir eru undir) eða maður situr í keng (þegar jafnt er). Í gær töpuðu þeir fyrir Tampa Bay sem er eitt lélegasta liðið í deildinni og í kvöld fyrir Florida, sem er ekki sérlega gott lið heldur. Enginn skilur hvað er í gangi.

Þetta er ástæðan fyrir því að svo margir halda með Manchestur United. Þeir vinna svo oft að aðdáendur þeirra þjást ekki eins mikið og aðdáendur annarra liða.

Stundum vildi ég að mér væri algjörlega sama um íþróttir. En á móti kemur að það er svo gaman þegar vel gengur að maður verður að sætta sig við dældirnar inn á milli. Aðalatriðið er að komast í úrlistakeppnina í vor og spila vel þar. Ef það gengur upp er öllum sama um nokkur töp yfir veturinn. En töpin mega ekki verða of mörg því aðeins átta lið úr hvorum landshluta fá að spila til úrslita og eins og staðan er núna erum við í áttunda sæti. Það má því lítið út af bera.


Áskorun til íþróttafréttamanna

Á Íslandi taka fjögur lið þátt í Íslandsmótinu í íshokkí, þótt eitt þeirra spili einungis í karlaflokki. Leikið er í fjórum flokkum karla og einum flokki kvenna. Þótt þetta sé því lítið íþróttasamband miðað við t.d. knattspyrnusambandið eða handknattleikssambandið er ljóst að þó nokkur fjöldi manns leikur íshokkí á landinu. Því er það ófyrirgefanlegt að þessi íþrótt skuli ekki fá neitt pláss í fjölmiðlum.

Um þessar mundir stendur yfir Heimsmeistaramótið í hokkí meðal leikmanna undir tvítugu. Í dag er verið að leika til undanúrslita. Ég sá ekkert í Mogganum um þetta mót og ekkert á Vísi. Á báðum stöðum eru oftar fréttir úr ameríska fótboltanum sem er þó enn minna stundaður á Íslandi en hokkí.

Hvernig væri að fjölmiðlar fari að sýna þessari íþrótt aðeins meiri áhuga. Ágætt væri að segja t.d. reglulegar fréttir af Íslandsmótinu, en einnig mætti segja frá - og jafnvel sýna frá - stórmótum eins og heimsmeistarakeppnum og ég er viss um að margir vildu sjá af og til leiki úr NHL deildinni enda hvergi leikið eins frábært hokkí.

Sumir myndu kannski segja að hokkí væri ekki nógu vinsælt á Íslandi til þess að það sé þess virði að segja/sýna frá því, en hvers vegna er það? Af því að íþróttin hefur aldrei verið almennilega kynnt fyrir Íslendingum. Hversu margir hafa farið á leik? 1% kannski. Íshokkí er hröð og spennandi íþrótt og þótt minna sé skorað en í handbolta eða körfubolta er hraðinn ekki minni. Ég veit alla vega að ég sit með hjartað í maganum þegar ég horfi á  leiki. Ef af og til væru sýndir leikir í sjónvarpi og sagt frá í blöðunum er ég viss um að fleiri fengju áhuga.

Fjölmiðlamenn, gerið nú eitthvað í málinu og sýnið þessari íþrótt svolitla virðingu. 


Teitur Þórðar til Vancouver!

Ég var að lesa það í blaðinu mínu að Teitur Þórðarson verði næsti þjálfari Vancouver Whitecaps, sem spilar í næst-efstu deildinni í Norður Ameríku. Það er vonandi að Teitur nái að lyft Whitecaps í þær hæðir sem þeir voru í fyrir einum tuttugu árum þegar knattspyrnan var á toppnum hér í Vancouver og Swangard leikvangurinn var þéttsetinn á hverjum leik.

Velkominn til hinnar fögru Bresku Kólumbíu Teitur!


Stórkostlegur leikur

Í kvöld fór ég á leik Vancouver gegn Columbus og fékk að launum stórkostlegan leik og varð vitni að því þegar Roberto Luongo sló 32 ára liðsmet með því að halda markinu hreinu þrjá leiki í röð. Hann sló reyndar metið þegar enn voru tíu mínútur eftir af leiknum því að halda markinu hreinu í fleiri mínútur en áður hafði gerst, en það var enn sætara þegar klukkan hafði talið niður og netið var autt þriðja leikinn í röð. Þegar ein mínúta var eftir af leiktíma stóðu allir upp í höllinni og liðið sönglaði 'Bobby Lou Bobby Lou' þar til leikurinn kláraðist og þá varð allt vitlaust. Eftir að leikmenn höfðu óskað markmanni sínum til hamingju og voru komnir inn í klefa voru þrjár stjörnur leiksins kallaðar fram. Síðastur kom Luongo og allt varð vitlaust á ný. Hann var síðan tekinn í viðtal sem var sjónvarpað á stóra skjánum og ég held að ég hafi ekki heyrt neitt af því vegna þess að áhorfendur fögnuðu stanslaus þar til Luongo var farinn af svellinu, og töluvert eftir það.

Þetta var almennt séð mjög skemmtilegur leikur. Columbus hefur spilað mun betur í ár en undanfarin ár og líklega má þakka það þjálfaranum Hitchcock og stjörnunni Richard Nash - sem náði ekki að skora í þessum leik. Aðalástæðan fyrir því er Ryan Kesler sem hefur heldur betur fundið sig sem aðalstoppari liðsins. Hann er settur á allar stórstjörnur sem mæta á svæðið, Jereme Iginla hjá Calgary, Ryan Getslaf hjá Anaheim, Marian Gaborik hjá Minnesota, o.s.frv., og hefur staðið sig eins og hetja. Enginn þessara skyttna hefur náð að skora gegn Vancouver undanfarið.

Ég skal ekki skrifa meira. Verð bara að segja að þetta var stórskemmtilegur leikur og stórkostleg upplifun að fá að vera í höllinni í kvöld þegar Luongo setti metið sitt. Wouldn't have wanted to miss it for the world!


Horfði loks á enska boltann

Ég horfði loks á leik í ensku deildinni í dag. Vanalega eru bara tveir leikir sýndir á laugardögum og þeir eru eldsnemma enda tímamunur mikill á milli Vancouver og Englands. Ég er því vanalega sofandi á mínu græna eyra þegar þessir leikir eru sýndir hér. Nú, ykkur að segja hélt ég alltaf að ég væri svona þokkalega vel gefin manneskja, en það tók mig nú samt sem áður býsna langan tíma að uppgötva að ég get tekið þessa leiki upp og horft svo þegar ég vakna. Þar sem ég er alltaf að taka upp einhverja þætti á kvöldin þegar ég er ekki heima veit ég ekki alveg af hverju ég náði ekki að tengja þetta við fótboltann.

Leikurinn sem ég horfði á í dag var leikur Arsenal og Wigan og það sem sýndi vel hvað er orðið langt síðan ég hef séð Arsenal spila þá get ég nefnt að ég horfði á þá með mikilli aðdáun senda boltann á milli sín án þess að Wigan næði að koma mjög nálægt. Þeim gekk reyndar treglega að skora en ég var samt sem áður full aðdáunar. Þar til um fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum og annar þeirra sem lýsti leiknum tilkynnti að leikmenn Arsenal væru ógurlega silalegir og yrðu að fara að sýna sig svolítið. Ég varð bara hissa. Ég hafði heyrt að þeir væru búnir að spila frábæran bolta í allan vetur en mér datt ekki í hug að þeir væru svo mikið betri að þetta væri silalegur bolti. Ég þarf greinilega að sjá þá oftar og þá helst með Fabregas og alla meiddu miðjumennina í liðinu.

Tvö dásamleg mörk undir lok leiksins kættu mig og aðdáendur á vellinum og voru lokatölurnar sanngjarnar. Gaman gaman. Var löngu kominn tími á að sjá fótboltaleik. 


Á fótboltaleik

Ég hef skrifað töluvert um hokkí það sem af er vetri en hér kemur fyrsta og eina fótboltafærslan mín. Þ.e. ég ætla að skrifa um kanadískan fótbolta en ekki um knattspyrnu. Kanadíski fótboltinn er nokkuð svipaður ameríska fótboltanum en er þó ekki sami leikurinn. Leikið er á 110 yard (100,6m) velli og fær hvort lið þrjú tækifæri til þess að færa leikinn fram um 10 yards. Það þýðir að ef þetta tekst ekki í fyrstu tveim tilraununum þá er boltanum vanalega sparkað í þriðju tilraun. Hér má sjá meira um kanadískan fótbolta: http://en.wikipedia.org/wiki/Canadian_football

Í Kanada er leikið í tveim riðlum, austur og vesturriðli. Þrjú efstu liðin í hvorum riðli leika til úrslita um Gráa bikarinn (the Gray Cup). Liðið sem er efst í hvorum riðli fær að hvíla í fyrstu umferð á meðan liðin í öðru og þriðja sæti leika um sæti í undanúrslitunum. Að þessu sinnu léku Winnipeg Blue Bombers og Toronto Argonauts til úrslita í austurriðlinum og BC Lions og Saskatchewan Roughriders í vesturriðlinum. Ég horfði á fyrri leikinn í sjónvarpinu í dag og hélt að sjálfsögðu með Blue Bombers. Ég bjó í Winnipeg í fjögur ár og mun alltaf halda með þeim, enda eiga þeir ekki hokkílið í efstu deild og fá því sitt helsta kikk út úr fótboltanum. Þar að auki er það nokkurs konar hefð í Kanada að halda alltaf með þeim liðum sem leika gegn Toronto. Toronto er alltaf hampað meir en öðrum kanadískum liðum í fjölmiðlum, sama hvort þeir geta rassgat eða ekki. Toronto var svo öruggt um að vinna að þessu sinni að búið var að skipuleggja eina allsherjar partýviku fram að úrslitakeppninni um næstu helgi. Meira að segja var búið að bjóða tónlistarmönnum að koma og skemma í þessu sigurpartýi. En Blue Bombers höfðu önnur plön. Þeir spiluðu hreinlega miklu betur og unnu leikinn 19-9. Það var mikið fagnað í BC Place höllinni, heimavelli BC Lions, þegar þetta var tilkynnt.

Og þar var ég, meðal tæplega 50.000 áhorfenda og ég get sagt ykkur að stemmningin var engu lík. Hávaðinn var enn meiri en á fótboltaleik í ensku deildinni. Vancouverbúar voru mættir í appelsínugulum klæðnaði (ég fór í mína appelsínugulu Cintamati flíspeysu til að passa inn (og var í Vancouver Canucks bol undir) og byrjuðu að fagna löngu áður en leikurinn hófst. Þegar leiktími nálgaðist komu herklæddir menn fram á völlinn með risastóran kanadískan fána sem breytt var úr yfir völlinn. Þar á eftir komu klappstýrurnar hlaupandi inn á völlinn og stuttu síðar hópur krakka í appelsínugulum fötum. Þau röðuðu sér upp í tvær raðir og lið Saskatchewan varð síðan að hlaupa inn á völlinn á milli þeirra. Í nálægu horni var stórt uppblásið ljónshöfuð og fyrir framan það þyrlaðist upp reykur og síðan komu tveir eldar upp úr jörðinni. Þetta var sem sagt spúandi ljónshöfuð og út úr gini þessu hlupu leikmenn BC Lions. Þetta var flottasta innkoma íþróttaliðs sem ég hef nokkurn tímann séð. Og öll umgjörðin var geysilega flott.  

Ég verð hins vegar að segja að ég skil ekki tilgang klappstýranna. Þær gera ekkert til þess að auka á stemmninguna. Það eru ekki þær sem stýra klappinu. Það eina sem þær gera er að koma fram fáklæddar í háhæluðum stígvélum og gera hundleiðinlegar hreyfingar með kynþokkafullum rasshreyfingum inn á milli. Er ekki leikurinn nógu skemmtilegur til að draga karlana að? Þurfa þeir líka hálfnaktar konur til þess að finnast það þess virði að mæta á svæðið? Af hverju eiga karlarnir að geta horf á hálfnaktar konur á meðan við stelpurnar þurfum að horfa á karlana fullklædda?

Og svo hófst leikurinn og það var ljóst strax í upphafi að Saskatchewan langaði ógurlega mikið í úrslitaleikinn. Þeir börðust einfaldlega miklu harðar og náðu boltanum af BC trekk í trekk. Þeir skoruðu sitt fyrsta snertimark tiltölulega fljótt (touchdown), fengu aukastigið líka og stuttu síðar fengu þeir líka field goal. BC stóð sig geysilega illa fyrsta fjórðunginn. Þeir misstu boltann klaufalega í nokkur skipti og almennt fannst mér quarterbackinn þeirra spila illa. Það var reyndar kannski ekki allt honum að kenna. Varnarmennirnir eiga að sjálfsögðu að vernda hann svo hann nái að senda boltann á lausan mann, en trekk í trekk var hann tæklaður á meðan hann hélt enn á boltanum. BC skánaði aðeins í öðrum fjórðungi og náðu að jafna, 10-10 en stuttu síðar fékk Saskatchewan annað field goal og staðan í hálfleik var 13-10 fyrir Saskatchewan. Það gekk ekki betur hjá BC í síðari hálfleik og Saskatchewan hreinlega rúllaði þeim upp. Staðan í lokin var 26-17 fyrir Saskatchewan og það verða því tvö lið frá sléttunum, Winnipeg og Saskatchwean sem leika um Gráa bikarinn. Winnipeg hefur ekki unnið bikarinn síðan 1990 og Saskatchewan ekki síðan 1989 þannig að þetta verður langþráður sigur, hvort liðið sem vinnur.

Ég var ekkert sérlega döpur þótt við hefðum tapað. Kanadíski fótboltinn (né sá ameríski) hefur aldrei verið mín íþrótt og úrslitin skiptu mig því ekkert sérlega miklu máli, þótt ég hafi haft rosalega gaman af því að fara á leikinn. Eiginlega var ég miklu ánægðari með sigur Winnipeg en ég hefði orðið ef BC hefði unnið. Það eina sem virkilega skyggði á var að undir lok leiks Winnipeg og Toronto teygði Kevin Glenn, quarterback Winnipeg, sig í lausan bolta og fékk eitt stykki Torontoleikmann ofan á handlegginn. Við það brotnaði handleggurinn og Glenn mun því ekki geta leikið úrslitaleikinn gegn Saskatchewan. Það munar um minna því staða quarterback er líklega mikilvægasta staðan í leiknum. Þetta er leikstjórnandi, sá sem mest veltur á. Í staðinn verður ungur og óreyndur strákur að taka að sér þetta stóra hlutverk. Þetta gæti því reynst Winnipeg dýrkeypt. En ég mun að sjálfsögðu halda með mínum gamla heimabæ og ef ég væri ekki að spila fótbolta á sama tíma hefði ég klæðst bláu og sest fyrir framan sjónvarpið á sunnudaginn næstkomandi. 

Það var annars ótrúlegt að nokkur skyldi hafa reynt að keyra bíl niðri í bæ um fimm leytið. Fótboltaleikurinn var búinn um korteri í fimm og fimmtán mínútum síðar hófst hokkíleikurinn, hinum megin við götuna. Það voru því líklega um 70.000 manns úti á götu um þetta leyti, ýmist að reyna að komast heim eða inn í GM Place. 

Aðrir íþróttaviðburðir helgarinnar fóru þannig: Á föstudagskvöldið vann Vancouver Minnesota 6-2 í hokkíinu, á laugardaginn tapaði liðið mitt, Vancouver Presto, fyrir lélegu liði Vancouver Geckos (við vorum bara enn lélegri) 3-2 í knattspyrnu og núna í kvöld unnu Vancouver Canucks lið Calgary Flames 4-1 í hokkí. Þeir virðast því loksins komnir í gang og hafa nú unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum. Þá hafa þeir unnið átta leiki gegn liðum í eigin riðli og aðeins tapað einum leik í vítaspyrnukeppni. Þeir hafa því verið að skríða nær og nær efri hlutanum og allt lítur bjartara út nú en það gerði fyrir nokkrum vikum. 


Íþróttahelgi

Þetta verður sannkölluð íþróttahelgi hjá mér ef marka má plönin.

Helgin hefst hjá mér opinberlega eftir hálftíma þegar hefst í sjónvarpinu leikur Vancouver og Minnesota Wilds. Minnesota er næst fyrir ofan Vancouver í riðlinum með nokkuð fleiri stig og þetta ætti því að verða nokkuð erfiður leikur. Reyndar eru tveir eða þrír leikmenn Minnesota meiddir en við erum auðvitað enn með hálft varnarliðið okkar á bekknum með alls konar meiðsl þannig að það gagnast ekki mikið. Þá unnu Minnesota Wilds Edmonton í gær en við töpuðum fyrir þeim á miðvikudaginn. Vonandi eru þeir þreyttir.

Í fyrramálið mun ég sjálf reima á mig takkaskóna og leika á PNE leikvanginum gegn Vancouver Geckos. Þær eru sex stigum á eftir okkur með einungs tvo sigra og eitt jafntefli og vilja ábyggilega hefna ósigursins gegn okkur fyrr í haust. En við höfum nú annað í huga. Við erum nú í þriðja sæti, aðeins tveimur stigum á eftir fyrstu tvö liðunum (sem eru jöfn) og höfum spilað jafnmarga leiki og liðið í fyrsta sæti en tveimur leikjum færra en liðið í öðru sæti. Við getum því skotið okkur upp í fyrsta eða annað sæti með sigri á morgun. Og að sjálfsögðu er það stefnan.

Eftir hádegi á morgun fer ég svo í skautatíma númer tvö. Mér gekk vel síðast en tel þó að strákurinn sem kenndi okkur ætti ekki að vera leyft að kenna svona tíma. Hann gerði sama og ekkert. Sagði manni bara að skauta afturábak eða stoppa og sýndi aldrei hvernig ætti að gera það. Á þessum þrjátíu mínútum sem ég var þarna kom hann aldrei til mín til að segja mér til. Ég geri ráð fyrir að ég hafi þá bara verið að gera allt rétt en þætti samt vissara að fá staðfestingu á því. Svona var þetta líka þegar ég lærði á snjóbretti á sínum tíma. Maður varð svona hálfpartinn að finna út úr þessu sjálfur.

Á sunnudaginn ætla ég svo á leik í kanadíska fótboltanum. Það er í annað skiptið á ævinni. Ég fór fyrir einum sex árum á leik BC Lions og Winnipeg Blue Bombers þar sem ég hélt að sjálf sögðu með Blue Bombers enda í Winnipeg. Ég mun nú fá annað tækifæri til þess að hvetja BC ljónin áfram því að þessu sinni spila þau gegn Saskatchewan Rough Riders. Saskatchewan hefur gengið vel í sumar og þetta verður því erfiður leikur. Það er hins vegar mjög mikilvægt að vinna þennan leik því sigurvegarinn mun leika til úrslita um Gráa bikarinn (The Gray Cup). BC vann í fyrra og ætlar sér að hampa bikarnum aftur í ár. Við skulum vona það besta.

Og nú ætla ég að búa mér til kjúklingapítu og hreiðra svo um mig fyrir framan sjónvarpið því hokkíið fer að byrja. Ég krossa fingurna í von um sigur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband