Færsluflokkur: Íþróttir
Hvað hefur eiginlega gerst á Akureyri?
21.7.2007 | 22:49
Eitt sinn áttu Akureyringar tvö stórkostleg fótboltalið. Þórsarar hafa reyndar aldrei unnið Íslandsmeistaratitilinn, né bikarkeppni, en á mínum unglingsárum voru þeir býsna góðir og voru oft að hanga þetta í kringum þriðja til fimmta sæti meistaradeildar (sem þá hét nú bara fyrsta deild). KA-menn unnu báða titlana (alla vega Íslandsmeistaratitilinn) og voru stórkostlegir í kringum 1990, þótt ég sem Þórsari hafi aldrei beinlínis haldið með þeim. En svo fór að láta undan síga. Þórsarar duttu niður um deild og hafa síðan barist í bökkunum. KA menn héldu áfram að vera þokkalegir lengst af en svo fór að halla undir fæti hjá þeim líka. Nú eiga Akureyringar tvö meðalgóð fyrstu-deildarlið. Hvernig stendur á þessu? Er það af því að bærinn hefur tvö lið en ekki bara eitt? Ætti að sameina liðin? Það gekk hjá Vestmannaeyjum. Hins vegar gekk það ekki svo vel í handboltanum í vetur á Akureyri. Kannski þarf aðlögunartíma. Ég á engin svör enda starfa ég ekki með þessum liðum og veit voða lítið um það hvar vandinn liggur. En ég vildi gjarnan sjá Akureyri rísa upp sem stórveldi í knattspyrnu. Og ef það þarf að sameina liðin til þess að ná þeim árangri þá verða menn bara að grafa hinar gömlu axir og ná sættum.
![]() |
Stórsigur Víkinga á KA-mönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ultimate frisbee
29.6.2007 | 06:07
Í kvöld prófaði ég nýtt sport, ultimate frisbee (nýtt fyrir mér - ekki nýtt af nálinni). Ég man eftir að hafa kastað frisbee diski þegar ég var tíu eða ellefu ára en annars hef ég alltaf litið á þetta sem hálfgert hundasport. Hér er þetta hins vegar mjög vinsæl íþróttagrein svona á meðal almennings. Reglurnar eru samsafn úr körfubolta, fótbolta og fleiri greinum. Liðið hans Ryans (mannsins hennar Marion) vantaði fleiri stelpur og nú þegar fótboltinn er kominn í frí ákvað ég að skella mér. Það var reyndar skrítið að spila alvöru leik í fyrsta sinn sem maður prófar, en það gekk bara ágætlega. Ég skil reyndar enn ekki almennilega reglurnar og kerfin, og svoleiðis, en ég náði svona því helsta. Ég komst að því að ég er ágætis varnarmaður í þessu því ég náði að komast inn í býsna margar sendingar og kom meira að segja í veg fyrir þó nokkur mörk skoruð. Ég skoraði meira að segja eitt stig sjálf með því að blokkera sendingu og hlaupa svo inn í marksvæðið og grípa diskinn þar. Almennt er ég hins vegar ekki góð í sókn því þótt ég sé góð að grípa og að hlaupa þá kasta ég diskinum mjög illa. Ég þarf að læra köstin betur. Reyndar er alveg hellingur sem ég þarf að læra betur. Þetta er býsna flókinn leikur þegar maður hefur aldrei spilað hann áður.
Við töpuðum fyrri leiknum 11-7 (leikið er til 11) en síðari leikurinn var varla leikinn nema í tíu mínútur eða svo því svo varð slys. Einn strákurinn úr okkar liði féll illa á öxlina sem fór úr lið, og jafnvel eitthvað verra. Við urðum að hringja á sjúkrabíl og enginn þorði að hreyfa hann því hann var að drepast úr sársauka, og þar að auki fann hann ekki lengur fyrir handleggnum á sér. Það tók sjúkrabílinn óra tíma að koma þannig að leiknum var að lokum frestað. Þarna lá greyið í grasinu, í mígandi rigningu, sárkvalinn, og ekkert hægt að gera. Við hrúguðum yfirhöfnum yfir hann, settum föt undir höfuðið, ein stelpan hélt í höndina á honum til að halda handleggnum á sínum stað og annar studdi við. Svo þurfti að skipuleggja hvað ætti að gera við bílinn hans, hver færi með honum á spítalann o.s.frv. Sjúkrabíllinn kom að lokum og handleggurinn var skoðaður vel, og síðan var stráknum gefið hláturgas svo hann fyndi ekki eins mikið til þegar þeir færðu hann. Ég vona bara að þetta hafi ekki verið of alvarlegt, en það er alltaf slæmt að fara úr axlarlið. Stundum er víst eins og öxlin fari stanslaust úr lið eftir að það gerist í fyrsta sinn. Vona að hann sleppi betur en svo. Það var gott að fara í heitt bað þegar ég kom heim enda búin að vera úti í mígandi rigningunni þá í um fjóra tíma og allt gegnblautt.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mikilvægi þess að fara á leiki
19.6.2007 | 23:53
Þegar ég var ung fór ég stundum á fótboltaleiki með Þór. Vanalega fór ég með pabba og við sátum í stúkunni á Akureyrarvelli. Afi átti hins vegar sinn stað í klöppunum þar sem hann stóð jafnan meðan á leikjum stóð. Löngu eftir að hann dó átti ég það til að líta á staðinn hans eins og hann væri þarna ennþá. Nú er hins vegar búið að jafna út þarna á klöppinni og afi hefði þurft að finna nýjan stað.
En það var alltaf skemmtilegt á leikjum þótt stundum hafi verið eins og liðsmenn aðkomumanna væru miklu fleiri. Og stundum þótti dómarinn ekki alveg sanngjarnt. Þá var öskrað og kallað og margt sagt sem ekki er hafandi eftir. Skemmtilegast var alltaf á leikjum gegn KA. Þær voru nokkrar KA-kerlingarnar sem höfðu alveg ótrúlegan kjaft (sérstaklega ein) og það var stundum alveg drepfyndið að hlusta á þær. Yfirleitt fannst mér þær auðvitað hafa rangt fyrir sér. En þetta kryddaði tilveruna.
Þegar ég flutti suður fór ég sjaldan á leiki enda voru Þórsarar þá orðnir svo lélegir að þeir spiluðu aldrei í meistaradeildinni og þau voru ekki svo mörg liðin í fyrstu deild úr Reykjavík. Svo ég komst ekki oft á Þórsleiki á höfuðborgarsvæðinu. Ég man reyndar að ég sá þá einu sinni spila á móti Fylki eða Leikni, einhvers staðar í úthverfunum.
En ég fann æ meira fyrir því hve mikið vantaði í líf mitt að fara ekki af og til á leiki. Þannig að ég ákvað að ættleiða reykvískt fótboltalið. Valið stóð á milli Vals og KR. Valur kom til greina af því að bræðrasynir mínir spiluðu fótbolta með yngri flokkum Vals, og KR af því að ég bjó á Nesveginum, í aðeins fimm mínútna gang frá KR vellinum. Þar að auki fór ég oft í leikfimi á KR svæðinu. Þetta sumar, sumarið 1999, spiluðu Valur og KR hvort gegn öðru í þriðja leik sumarsins (eða kannski var það annar leikurinn) svo ég ákvað að þeir myndu spila um hylli mína. Það lið sem ynni þann leik yrði þar með uppáhaldsliðið mitt. KR vann leikinn, held ég bara 5-1 (en ég þori nú ekki að fara með það), og þar með var ég orðinn KR-ingur. Ég fór meira og minna á alla KR leiki það sumarið og átti meira að segja KR trefil. Ég flutti hins vegar til Kanada þegar einir þrír leikir voru eftir af tímabilinu og missti því af því að sjá þá hampa bikarnum.
Þegar ég sé stöðu þeirra í deildinni núna er ég bara ánægð yfir því að KR áhugi minn takmarkaðist fyrst og fremst við þetta síðasta sumar sem ég bjó á Íslandi. Ef ég flyt aftur til Reykjavíkur mun ég sjálfsagt fara afturá leiki með þeim, en á meðan ég bý hér í Kanada læt ég mér nægja að vera Þórsari. Jafnvel þótt þeir hangi nú í neðri deildum og muni aldrei ná þeim hæðum sem þeir náðu á meðan liðið samanstóð af mönnum eins og Dóra Áskels, Bjarna Sveinbjarnar, Nóa Björns, Mola, Hlyni og fleiri góðum.
Íþróttir | Breytt 20.6.2007 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sigur gegn Wildcats
15.6.2007 | 17:46
Í gær spiluðum við gegn Vancouver Wildcats. Við erum í fjórða sæti deildarinnar og þær í fimmta sæti þannig að það var fyrirfram ljóst að þetta yrði spennandi leikur. Þær mættu með sirka nítján stelpur sem þýddi að þær gátu endalaust verið að skipta inn á og koma með óþreyttar stelpur (skiptingar eru ótakmarkaðar í deildinni). Við höfðum þrjá varamenn þannig að við gátum hvílt þreyttar en vorum ekki stanslaust að breyta til - sem mér finnst besta staðan. Ég verð pirruð ef við höfum of marga varamenn.
Ég stóð mig hins vegar óvenjuvel í þessum leik, skoraði eitt mark og átti stoðsendingu í öllum hinum. Ég vildi að fótboltinn væri eins og hokkí þar sem maður fær stig fyrir stoðsendingar, því þá hefði ég fengið fimm stig fyrir leikinn.
Við byrjuðum leikinn ótrúlega vel, sem er óvenjulegt. Vanalega tekur það okkur nokkurn tíma að komast í gang og við lendum einu eða tveimur mörkum undir áður en við tökum við okkur. Í þetta sinn var það betra. Fyrsta markið var nú ekki fallegt. Ég skaut á markið úr þröngri stöðu í hægra horni og markmaðurinn varði. Hún hélt hins vegar ekki boltanum og þvaga myndaðist fyrir framan og Katie náði loks að ýta boltanum innfyrir. Ljótt mark en þau gilda jafnmikið og hin.
Annað markið kom innan við tíu mínútum síðar. Ég hleyp upp hægri kantinn en er hlaupin niður af brussu sem fannst þetta víst mjög fyndið. Ég hreinlega flaug og rispaðist öll á hægri síðunni - sem nú er í stíl við marið á hægri mjöðm. Þetta gerðist ekki langt fyrir utan vítateig Wildcats og ég fékk aukaspyrnu. Sendi háan bolta inn í vítateiginn og beint á höfuðið á Benitu sem skallaði boltanum örugglega í markið. Þetta var glæsilegt mark hjá henni - eitt það flottasta sem liðið okkar hefur skorað, en náðist því miður ekki á myndband. Ég hafði tekið vídeóvélina mína með og stelpurnar filmuðu þegar mér var hent niður, en einhverra hluta hættu þær að mynda þar og tóku ekki aukaspyrnuna. Skil ekki hvers vegna. Benita var voða sár þegar hún frétti að markið hennar hefði ekki nást.
Þriðja markið var annað mark Katie. Ég fæ boltann um 35 metrum frá marki Wildcats en hafði tvo varnarmenn á mér. Ég vissi af Katie einhvers staðar fyrir framan mig með tvær stelpur á sér og af því að hún hleypur hratt sendi ég boltann bara inn í vítateiginn, en ekki svo fast að markmaður nái boltanum. Katie klikkaði ekki, komst að boltanum á undan varnarmönnum og skoraði örugglega.
Fjórða markið var mitt. Ég fékk boltann á miðju, sendi hann framhjá varnarmanninum sem var vinstra megin við mig (sem er óvenjulegt því ég fer nær alltaf til hægri), hljóp svo að boltanum og tók hann inn. Inn í vítateig voru tvær stelpur komnar á mig og önnur sparkaði mig nær niður en ég náði að halda jafnvægi og skjóta framhjá markmanninum. Þetta mark má sjá hér fyrir neðan.
Fimmta markið var næstum því alveg eins og þriðja markið. Ég sendi boltann inn í vítateig og Katie kom og skoraði. Hún er ný hjá okkur, 22 ára gömul stelpa sem hefur bæði gott vald á boltanum og getur hlaupið hratt að auki. Þannig að hún er eiginlega eins og Benita og ég settar saman. Benita hefur ótrúlegt vald á boltanum en hleypur ekki hratt. Ég hleyp hratt en er ekki nærri eins lipur með boltann. Gallinn er að Katie er hugsanlega að flytja til London þannig að við munum missa hana aftur í haust.
En mikið var gaman að vinna Wildcats stelpurnar. Og dómarinn var góður. Hún gerði ekki mörg mistök (en auðvitað einhver eins og þau öll) og hún mundi eftir okkur frá því í fyrra og spjallaði heilmikið við okkur.
Hún kom til mín eftir leikinn og sagði: Stína, hvernig stendur á því að kona kominn á þinn aldur getur hlaupið svona hratt? Ég sagðist ekki vita af hverju en ég væri ákaflega þakklát fyrir það.
Ég geri mér grein fyrir að þessi pistill virkar líklega eins og montpistill. Æi, það er ekki svo oft að ég fæ að monta mig á einhverju.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vigneault vann Jack Adams bikarinn
15.6.2007 | 06:59
Í kvöld voru NHL verðlaunin veitt. Þetta er svona nokkurs konar óskarsverðlaun hokkísins. Veitt eru verðlaun fyrir verðmætasta leikmanninn, besta nýleiðann, besta varnarmanninn, besta þjálfarann, prúðasta leikmanninn, og eitthvað fleira. Markmaður Vancouver Canucks, Roberta Luongo var tilnefndur til þrennra verðlauna en spáði því á rauða teppinu fyrir hátíðina að hann fengi engin þeirra. Það fór enda svo. Maður skilur ekki alveg hvernig maður sem er tilnefndur sem verðmætasti leikmaðurinn nær ekki að vinna sinn eigin flokk, besti markmaður, sérstaklega þar sem sá sem valinn var besti markmaðurinn, Martin Brodeaur var ekki tilnefndur sem verðmætasti leikmaðurinn. En svona er þetta stundum.
Það sem kætti mig framar öðru var hins vegar það að Alain Vigneault, þjálfari Canucks fékk Jack Adams verðlaunin sem besti þjálfarinn. Hann hafði verið tilnefndur til þessa verðlauna þegar hann var þjálfari Montréal Canadiens árið 2000 en fékk ekki þá.
Alain er vel að þessum verðlaunum kominn enda tók hann síðastliðið haust við liði sem hafði ekki einu sinni komist í umspilskeppnina árið áður (playoffs). Liðið spilaði þokkalega í haust þegar þeir voru að venjast algjörlega nýju kerfi, nýjum anda og nýjum þjálfara en eftir jólin spiluðu strákarnir eins og englar og unnu Norðvestur deildartitilinn að lokum. Þá unnu þeir fyrstu seríuna í umspilinu en voru svo slegnir út af Anaheim Ducks sem unnu Stanley bikarinn. Hver veit hversu langt Vancouver hefði komist ef þeir hefðu ekki lent á móti öndunum svo snemma. Úrslitakeppnin er hins vegar ekki tekin til greina við veitingu NHL verðlaunanna því það er reglulega tímabilið sem gildir.
Vigneault var flottur þar sem hann mætti á hátíðina í smóking, ásamt táningsdætrum sínum tveimur. Hann var og mjög hógvær í þakkarræðu sinni og benti á að ef einhver verðlaun endurspegluðu liðsheildina fremur öðrum þá væru það verðlaun þjálfara. Hann hefði aldrei getað þetta ef hann hefði ekki frábæra aðstoðarmenn, skilningsríka yfirmenn og góða stráka á skautum.
Hann er svo mikil dúlla.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óíþróttamannsleg framkoma
4.6.2007 | 18:52
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hafnarbolti
1.6.2007 | 00:01
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðeins meira um hokkí
31.5.2007 | 23:58
Ég hef ekkert skrifað um hokkí undanfarið (og flestir sennilega guðslifandi fegnir) en það er fyrst og fremst vegna þess að Vancouver datt út úr bikarnum fyrir tæpum mánuði. Ottawa Senators hafa hins vegar farið alla leið í úrslitaseríuna sem nú er í fullum gangi. Flestir veðjuðu á Ottawa sem hefur beinlínis slátrað andstæðingum sínum hingað til og þurfti yfirleitt ekki nema fjóra til fimm leiki til að fá þess að sigrja fjórum sinnum. Nú er hins vegar svo komið að Anaheim (sem sló Vancouver úr keppninni) hefur sigrað fyrstu tvo leikina og er með spaðann á hendinni. Það hefur aðeins einu sinni gerst í sögu Stanley bikarsins að lið hafi tapað fyrstu tveimur leikjunum og síðan náð að vinna mótið. Það voru Montreal Canadians sem það gerðu. Það lítur því ekki vel út fyrir Ottawa.
Þetta minnir mig á grein sem ég las fyrir einhverjum mánuðum þar sem greinarhöfundur kvartaði yfir því að deildinni væri einfaldlega misskipt. Liðin í vesturriðlinum væru almennt mun betri en þau í austurriðlinum. Það er í raun ekkert hægt að gera í þessu því liðunum er skipt eftir staðsetningu (austur og vestur - nema hvað Detroit er með vestur sem er mjög undarlegt) og því verður auðvitað ekki breytt. Þetta þýðir hins vegar að Ottawa, sem er með langbesta liðið í austurriðlinum, hefði ekki átt öruggan sigur gegn neinu af fjórum bestu liðinum vestra (Anaheim, Vancouver, San Jose og Detroit). Ég held reyndar að Ottawa liðið sé tæknilega betra en öll þessi lið, og ætti að geta unnið þau öll (og myndi örugglega hafa slegið Vancouver út), en serían núna á móti Anaheim er sú fyrsta þar sem Ottawa hefur virkilega þurft að leggja á sig. Þeir spiluðu ekki vel fyrsta leikinn og þurfa augljóslega að gera betur. Nú er bara að vona að tapið í Anaheim hafi verið spark í rassgatið á þeim og að þeir taki sig nú til og vinni leikina sem eftir eru. Við þurfum að fá titilinn til Kanada.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annar sigurinn í röð
23.5.2007 | 06:07
Í kvöld unnum við annan leikinn í röð í fótboltanum. Við byrjuðum ágætlega en svo kom lélegi kaflinn okkar sem alltaf virðist koma, og við lentum undir 0-2. Þá loks komumst við í gang. Ég tók boltann upp hægri vænginn, hljóp af mér varnarmann en var kominn alveg upp að endalínu þannig að ég sendi boltann til Jody sem var fyrir framan markið og hún þurfti ekki mikið til að renna boltanum inn. Staðan í hálfleik var því 1-2 fyrir Phoenix. Ég hefði átt að vera búin að skora þrjú mörg þarna en var óheppin. Skaut einu sinni framhjá, einu sinni beint á markvörðinn og einu sinni átti ég gott skot sem markmaðurinn varði glæsilega. Í seinni hálfleik komumst við fyrir alvöru í gang. Beníta tók boltann upp vinstri vænginn, lék á tvo varnarmenn og skoraði stórglæsilegt mark. Þriðja markið skoraði ég eftir mistök í vörn hinna, komst inn í sendingu, inn fyrir varnarmann og átti auðvelt með að skjóta boltanum yfir markmanninn og upp í innri slána. Beníta skoraði svo fjórða markið...ég held reyndar að ég hafi lýst því marki hér að framan. Ég man þá bara ekki hvernig fyrsta markið hennar var. en alla vega, leikurinn fór 4-2 fyrir okkur og við erum ofsakátar. Höfum þá tapað tvisvar og unnið tvisvar. Næsti leikur verður hins vegar á mót öðru toppliðinu, sem hefur ekki tapað leik hingað til, þannig að við verðum að taka á öllu okkar.
Ég gat leikið þrátt fyrir að hægri ökkli væri enn bólginn eftir síðasta leik. Nú er ég með ís á ökklanum og vona að ég jafni mig fljótt. Við eigum ekki að spila aftur fyrr en á sunnudagskvöld í næstu viku. Veit ekki hvernig þeim dettur í hug að hafa leiki á sunnudagskvöldum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Draumurinn búinn
4.5.2007 | 04:47
Í kvöld tapaði Vancouver 2-1 fyrir Anaheim í framlengingu númer tvö í hokkíinu. Anaheim vann þar sinn fjórða sigur í seríunni og Vancouverliðið er komið í sumarfrí. Borgin er örugglega í sorg í kvöld og það mun taka einhvern tíma að jafna sig. Vonandi fáum við loks langþráð sumar svo við getum farið á ströndina og sólað okkur í staðinn.
Á meðan mun afgangurinn af Kanada sameinast í stuðningi við Ottawa sem vonandi fer alla leið.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)