Færsluflokkur: Íþróttir
Hvað er að gerast með mína menn?
2.11.2007 | 17:50
Þangað til í gær hafði ég aðeins sé einn Canucks leik um ævina (með eigin augum, þ.e., ekki í gegnum sjónvarp) og það var 4-0 sigurleikur gegn Calgary í haust. En síðan þá hefur allt legið niður á við hjá Canucks og í gær töpuðu þeir sjötta heimaleik sínum. Skil ekki hvernig þetta er með þá, þeir hafa betra hlutfall í útileikjum en heima. Og nú hafa þeir tapað þremur leikjum meira en þeir hafa unnið og það hefur ekki gerst síðan 2002. Það eru því allir pirraðir og aðdáendur eru farnir að snúast gegn þeim. Ég skil reyndar ekki hvernig á því stendur. Áhorfendur eiga að standa með sínu liði þótt á móti blási og ég var virkilega hneyksluð þegar salurinn fór að púa á liðið í gær. Sérstaklega var púað á Roberto Luongo sem þó er mest elskaðasti leikmaður liðsins enda talinn besti markvörður í heimi af mörgum.
Hann var hins vegar arfaslakur í gær og fékk á sig mörk úr fyrstu tveim skotunum í gær. Eins og myndin af videotron skjánum hérna sýnir þá skoraði Nashville úr fyrstu tveim skotum sínum að marki. Vancouver, hins vegar, sem ekki hefur gengið nógu vel að skjóta að marki það sem af er, hamraði á markið megnið af leiknum án nokkurs árangurs. Á myndinni hér hafa þeir skotið sjö sinnum að marki (þar sem stendur sog - shots on goal) og þau skot áttu eftir að komast á annan tuginn bara í fyrsta leikhluta. Allt í allt urðu skot að marki 29
á móti 15 hjá Nashville en staðan samt sem áður 0-3. Það var meira að segja svo slæmt að þegar Nashville skoraði þriðja markið þegar aðeins átta sekúndur voru eftir að leiknum, þá fagnaði salurinn. Fólki var greinilega misboðið.
En mér misbauð afstaða fólksins. Að púa á liðið þótt það tapi leik er skammarlegt. Að púa á liðið þótt þeir tapi nokkrum leikjum er skammarlegt. Maður á að standa með sínum mönnum, sérstaklega þegar aðeins um einn fimmti tímabilsins er liðinn. Margt getur enn gerst. Í fyrra gekk liðinu hrikalega illa fram að jólum en eftir jól settu þeir í spíttgírinn og enduðu á því að vinna norðvestur titilinn og komast í aðra umferð umspilsins um Stanley bikarinn. Þetta er langt frá því búið enn og fólk verður bara að hafa smá þolinmæði.
Auðvitað hefði ég viljað sjá þá vinna. Það er hreinlega miklu skemmtilegra að fara heim eftir sigurleik og andrúmsloftið í höllinni er gjörólíkt o.s.frv. En eins og ég segi, maður verður að reyna að vera jákvæður. Og mér fannst frábært að vera þarna.
Eins og sést hér á síðunni tók ég myndavélina mína með mér og tók myndir af svellinu. Var ákaflega ánægð með mitt 12x zoom enda hefði ég ekki getað náð neinum skemmtilegum myndum með gömlu vélinni. Bara ef ég ætti enn sterkari lensu eða ef ég hefði setið neðar. En hey, ég sá vel og skemmti mér vel (fyrir utan tapið) og það er pottþétt mögnuð skemmtun að fara á leik.
Verst var að tveir varnarmanna Canucks meiddust í leiknum og báðir gætu verið fjarri góðu gamni í einhvern tíma. Kevin Bieksa lenti í samstuðu við Nashville leikmann og skauti hins skar djúpt inn í kálfavöðvann á honum. Síðast þegar ég heyrði var ekki vitað hversu alvarlegt þetta var en það leit illa út. Sami Salo sem var bara að leika sinn þriðja leik eftir meiðsli fékk pökk á milli auga og nefs og fékk djúpan skurð og var sendur á spítala. Óljóst með hann. Þetta þýðir að þrír af sex varnarmönnum liðsins munu ekki geta spilað á næstunni og það verður að kalla í varnarmann frá Manitoba að koma og spila með liðinu í Colarado í vikunni. Þvílík óheppni.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fótboltadagurinn mikli
29.10.2007 | 17:42
Í gær var sannkallaður fótboltadagur. Kvennaliðið mitt, Vancouver Presto, lék klukkan tvö í gær gegn Burnaby Inter FC. Við unnum þetta lið í fyrsta leik okkar í haust en síðan höfðu þær ekki tapað leik. Við höfðum reyndar ekki heldur tapað leik en við höfðum bara spilað þrjá leiki en þær fimm. Þær voru því ofar okkur í deildinni en með tvo leiki til góða. Einnig jafnar okkur voru tíkurnar í North Shore Saints en þær eiga einn leik á okkur. Því miður töpuðum við 0-1 gegn Burnaby eftir ákaflega jafnan leik þar sem við áttum þó töluvert fleiri færi. Það er að hluta til mér að kenna að boltinn fór ekki inn. Ég spilað fremur góðan leik, var alltaf á réttum stað, náði nokkrum sinnum að koma mér í gott skotfæri en skaut alltaf hægra megin við markið. Veit ekki alveg hvað var í gangi hjá mér því ég er yfirleitt ekki svona rangeyg. Og það var slæmt að hitta ekki rammann oftar því mér fannst ég að öðru leyti spila mun betur en áður - var miklu agressívari og hafði betra auga fyrir leiknum. Við vorum allar mjög svekktar að leik loknum því okkur fannst við hafa átt að taka þetta. Nú erum við í þriðja sæti en getum komist aftur upp í fyrsta sæti með því að vinna þá leiki sem við eigum til góða. Og við eigum pottþétt að geta klárað veturinn í einu af fyrstu þremur sætunum. Við munum ekki spila við Burnaby aftur en eigum eftir að leika tvisvar við Noth Shore sem er höfuðandstæðingur okkar. Ég fór annars í kaffi um daginn með fyrrum þjálfara þeirra og sagði honum m.a. að við þyldum stelpurnar ekki. Hann var fremur hissa og lofaði mér því að hann hefði ekki kennt þeim að brjóta á okkur og vera tíkur.
En fótboltinn var ekki búinn í gær. Þjálfarinn minn spilar í co-ed liði (blandað karlmönnum og konum) og það vantaði stelpur í gær. Ég bauðst til að spila með þeim (flestar stelpurnar í liðinu eru einmitt úr Presto) þótt ég væri auðvitað dauðþreytt eftir að hafa þegar spilað sirka 90 mínútur. Sá leikur var haldinn í Burnaby 8Rinks sem er risastór hokkíhöll með fjölmörgum hokkíhringjum og einum gervigrasvelli. Lið þjálfarans kallast Nuevos Amigos sem er við hæfi því næstum því allir eru af portúgölskum ættum. Við vorum fjögur sem vorum það ekki. En þvílíka fallega liðið. Bróðir þjálfarans, Phil, er t.d. eins og grískur guð og til að gera þetta enn skemmtilegra þá komu tveir vinir hans að horfa og þeir voru alveg jafnfallegir. En ég var þarna til að spila fótbolta en ekki til að horfa á stráka og fótboltinn gekk betur enn fyrr um daginn. Við unnum 8-2 og hefðum getað unnið stærra en ákváðum að reyni ekki eins mikið í seinni hálfleik eins og þeim fyrri því við vorum að rúlla liðinu upp. Og það er alltaf svolítið vandræðalegt. En það voru greinilega töluverðir hæfileikar í liðinu. Wilhelm er frá Hollandi og er glettilega góður með boltann en hefur svolítið gaman af að sýna sig. Hann er eiginmaður einnar stelpunnar í Presto svo ég hafði hitt hann nokkrum sinnum áður. Hafði líka hitt Phil áður en hann er líka mjög góður. Hann kom og spilaði með okkur í leiknum gegn eiginmönnum í vor (þótt hann sé reyndar ekki eiginmaður heldur bara bróðir þjálfarans). Aðra hafði ég ekki hitt. Ég stóð mig hins vegar býsna vel og skoraði tvö mörk en í bæði skiptin var um að ræða frábærar sendingar, annars vegar frá Phil og hins vegar frá strák sem ég vissi aldrei hvað hét. í bæði skiptin sendu þeir boltann frábærlega fyrir markið og ég þurfti bara að vera á réttum stað og þrusa inn.
Canucks gekk ekki eins vel. Þeir töpuðu 2-3 fyrir Detroit Red Wingers (í annað skiptið á fjórum dögum) og hafa nú unnið aðeins einn af fimm heimaleikjum (en unnið fjóra af sex útileikjum - skrítið). Ég vona að þeir standi sig betur á fimmtudaginn en þá mun ég fara á leik. Það var reyndar fúlt að á síðustu mínútu leiksins skoruðu Canucks mark en það var flautað af. Leikmenn voru reiðir og héldu því fram að þetta væri löglegt mark en Vigneault sagðist sammála dómnum. Að Pyatt hefði ekki bara ýtt pökknum inn heldur líka markmanninum og það er ólöglegt. Hann benti hins vegar á að Red Wings hefðu skorað akkúrat þannig mark á Vancouver í síðasta leik (sem einnig fór 2-3) en þá hefði það ekki verið flautað af.
Í dag er ég svolítið þreytt í vöðvunum eftir að hafa spilað tvo fótboltaleiki en ég ætla nú samt að fara og klifra í dag og á fótboltaæfingu í kvöld. Það sem mig vantar er meira af íþróttum á miðvikudegi eða fimmtudegi því það hrúgast of mikið á sunnudag og mánudag. Vildi að ég gæti spilað fótbolta á fimmtudagskvöldum. Í staðinn verð ég bara að vera duglegri að hlaupa.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær árangur það sem af er
23.10.2007 | 21:16

![]() |
Arsenal skoraði 7 mörk gegn Slavia Prag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Harkan að aukast
27.9.2007 | 06:49
Hokkí-tímabilið hefst ekki fyrir alvöru fyrr en í næstu viku en nú þegar hefur komið upp alvarlegt atvik í leik sem minnir á atvikið fyrir þremur árum þegar Todd Bertuzzi hálsbraut einn leikmanna Colarado. Að þessu sinni var það nýliði Philadelphia Flyers, Steve Downie, sem lét öxlina vaða í höfuð leikmanns Ottawa Senators, Dean MacAmmond sem borinn var af leikvelli. Ekkert brotnaði en hann fékk slæman heilahristing og þar sem það er í annað skiptið sem það gerist (var laminn af öndinni Chris Pronger í vor) er óvíst með framtíð hans í hokkíinu. Málið er að þetta er ekki beinlínis Downie að kenna. Hann er ungur strákur sem er að reyna að vinna sér sæti í liðinu með því að sýna líkamsstyrk. Anaheim Ducks spiluðu mjög harkalegan leik í fyrravetur og uppskáru bikarinn og það virðist hafa haft áhrif á önnur lið sem hafa reynt að koma harðari til leiks í æfingaleikjunum undanfarið. Ég sá það svo sannarlega í leik Calgary og Vancouver um daginn. Það má því búast við breyttum leik í vetur - svona meira í stíl við hvernig leikið var á níunda áratugnum
Hér getið þið séð atvikið í leiknum í gær:
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 07:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Annar sigurleikur hjá Presto
26.9.2007 | 06:31
Í kvöld lékum við okkar annan leik í fjórðu deildinni í Vancouver. Þessi leikur átti upphaflega að fara fram 16. september en var frestað vegna verkfalls borgarstarfsmanna. Deildin er að reyna að finna velli fyrir leikina og þess vegna enduðum við á því að spila á þriðjudagskvöldi í Burnaby. Birna kom og spilaði með okkur í fyrsta sinn. Hún er fantagóð.
Við lékum á móti Burnaby Tigers og hófum leikinn mun betur en þær. Það gekk þó ekki að skora lengst af ég er viss um að fyrri hálfleikur var hálfnaður áður en við náðum að pota boltanum inn. Ég tók knöttinn upp hægri kantinn og sendi fyrir markið þar sem Jodi reyndi að sparka boltanum en hann lenti í varnarmanni og barst til Melissu sem þrusaði boltanum inn. Ekkert meira gerðist í þeim hálfleik en bæði lið áttu nokkur ágæt tækifæri.
Eftir hálfleik komu tígrarnir sterkari til leiksins og ég var dauðskelkuð um að við fengjum mark á okkur. Enda gerðist það þegar skammt var liðið á hálfleikinn. Ein þeirra komst ein inn fyrir og skaut boltanum fram hjá Elise í markinu. Næstu tíu mínúturnar eða svo spiluðu þær mun betur en við og boltinn kom varla yfir á þeirra leikhelming. En loksins náðum við að hrista af okkur slenið og fórum að spila almennilega. Annað mark okkar kom svo um miðjan seinni hálfleik. Ég fékk boltann (held ég frá Birnu) og skaut að marki en náði ekki að koma boltanum í gegn, hann barst út aftur, var sparkað til baka og varnarmenn tígrana voru eitthvað klaufalegir og misstu boltann frá sér. Ég var sem betur fer vel vakandi, rauk á boltann og þrumaði honum í netið. Staðan 2-1 fyrir okkur. Um tíu mínútum síðar fékk ég boltann aftur frá Birnu (hún var að spila á miðjunni og náði að stjórna spilinu þar betur en hefur verið gert síðan Connie hætti með liðinu fyrir þremur árum). Ég tók hann upp hægri kantinn (eins og minn er vaninn) en markvörðurinn þrengdi vel að skotinu. Ég var að hugsa um að skjóta samt sem áður en sá þá Benitu koma upp vinstra megin með varnarmann á sér en ég treysti henni til að losa sig við slíka smámuni svo að í stað þess að skjóta að markinu renndi ég boltanum yfir til Benitu sem þrumaði honum inn. Staðan 3-1 og þannig fór leikurinn.
Við spiluðum ágætlega á köflum en það var margt illa gert líka. Vörnin á enn í vandræðum með að hreinsa og miðjan nær ekki alltaf að tengja vörn og sókn. Birna sem er frábær varnamaður færði sig á miðjuna og breytti því. Hún getur þrusað boltanum lengra en flestir aðrir í liðinu og ég vona að hún haldi áfram og að hún taki miðjuna að sér. Það munar svo ótrúlega miklu að hafa sterka manneskju þar.
En við erum ánægðar. Búnar að spila tvo leiki og vinna þá báða. Markahlutfallið er 7-2 þannig að við getum ekki kvartað. Nú er bara að halda uppteknum hætti. Næsti leikur er á sunnudaginn en það er spurning hvort hægt verður að spila þar. Völlurinn er í Vancouver og við vitum aldrei hvenær hann verður dæmdur ónothæfur. Við vitum að hann var notaður um helgina þannig að við vonum að allt verði í lagi. Það er svo slæmt að missa úr. Sérstaklega þegar maður er í góðum gír.
Annars lítur veturinn vel út. Við erum í góðum hóp liða sem við höfum spilað á móti áður og ég myndi segja að aðeins eitt þeirra, North Shore Sains sé betra lið en við. Hin liðin eru öll svona svipuð að getu. Við höfum unnið þau öll en líklega einhvern tímann tapað fyrir þeim líka. Það þýðir að spennandi keppni er framundan. Ég held að það sé raunhæft að setja stefnuna ekki neðar en á annað sætið. Á góðum degi getum við líka unnið North Shore.
Mínir menn í Vancouver Canucks stóðu sig ekki eins vel í hokkíinu um helgina. Töpuðu fyrir San Jose Sharks 1-3 og fyrir Anaheim Ducks 0-5. Það má segja þeim til varnar að þeir spiluðu að mestu með varaliðið sitt. Önnur ástæða þessa var sú að 4 af 6 varnarmönnum Canucks voru meiddir og 3 af 9 sóknarmönnum, og hin ástæðan er sú að Vigneault er enn að prófa ungu strákana því hann er ekki enn viss hverjum hann vill halda í aðal liðinu og hverja hann vill senda til Manitoba í frekari þjálfun. Randy Carlyle hjá Anaheim er hins vegar búinn að gera upp hug sinn og sendi því aðal liðið sitt í leikinn. Miklu munaði líka um það að Luongo stóð ekki á milli stanganna og það munar nú um minna. Almennt voru báðir þessir leikir vonbrigði. Á morgun spila þeir seinni leikinn við San Jose og búist við að meiddu leikmennirnir verði flestir tilbúnir í slaginn. Það er því vonandi að þeir sýni hvað í þeim býr.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 06:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Slagsmál á vellinum
20.9.2007 | 22:52
Þeir sem nenntu að lesa færsluna mína í gærkvöldi um hokkíleikinn sem ég fór á hafa væntanlega séð að ég minntist á slagsmálin sem stundum brjótast út í þessum leikjum. Ef þið hafið aldrei séð hokkíleik þá vitið þið kannski að þetta eru alvöru slagsmál. Ekki bara einhverjar hnippingar. Og þið vitið kannski ekki heldur að þetta er hluti af leiknum því dómar leyfa leikmönnum alltaf að slást í svolítinn tíma áður en þeir stoppa þetta. Þessu til sönnunar set ég inn hér svolítið myndband frá leiknum í gær.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stórleikur í Vancouver
20.9.2007 | 06:16
Við rúlluðum Calgary upp eins gömlu teppi og hentum þeim út. 4-0 var staðan að leik loknum eftir að fyrrverandi öndin Ryan Shannon skoraði fjórða markið þegar 21 sekúnda var eftir af leiknum. Það varð allt vitlaust í byggingunni enda ekki amalegt að sjá ungu strákana í liðinu klára dæmið svona.
Vigneault hvíldi marga af hinum eldri og reyndari leikmönnum og gaf ungu strákunum tækifæri enda er enn barist um síðustu sætin í liðinu. Þeir sem ekki standa sig verða sendir til Manitoba og látnir spila í AHL deildinni þar til þeir eru tilbúnir í NHL deildina. Og strákarnir sýndu að þeir voru traustsins verðir. Alex Edler, hinn ungi leikmaður Manitoba sem kom inn fyrir Vancouver í nokkrum leikjum í fyrra, skoraði fyrsta markið stuttu fyrir lok annars leikhluta og rétt eftir að flautað var til þriðja leikhluta skoraði Jason Jaffray mark númer tvö. Hann er glænýr leikmaður með liðinu, var keyptur í júlí í sumar. Michael Grabner, annar ungur leikmaður bætti þriðja markinu við sex mínútum síðar og Ryan Shannon innsiglaði svo sigurinn eins og áður sagði. Þá stóð varamarkvörðurinn Schneider sig einstaklega vel, varði sjö skot og hélt markinu hreinu.
En þrátt fyrir að mörkin hafi öll komið frá hinum óreyndari leikmönnum mátti sjá frábæra takta hjá leikmönnum eins og Ohlund, Burrows, Naslund og Cowan. Og meistaramarkvörðurinn Luongo varði 14 skot áður en hann fór af velli til að hleypa Schneider að. Mér fannst lítið bera á Taylor Pyatt, sem er synd því hann var frábær í úrslitakeppninni í vor, Daninn Jannik Hansen átti þokkalegan leik en ég tók lítið eftir Matt Cooke. Það þýðir þó ekki að hann hafi spilað illa, ég þekki þá bara ekki enn alla í sundur.
Um leið og ég gekk inn í salinn hríslaðist um mig þessi tilfinning sem maður fær þegar maður veit að eitthvað frábært er að fara að gerast. Stemmningin á hokkíleikjum í Kanada er alltaf skemmtileg þó svo að þessu sinni hafi hún varla komist í hálfkvist við það hvernig var ábyggilega hér í úrslitakeppninni í vor. En fólk var í stuði og ánægt með að hokkíið væri aftur byrjað. Ég hafði nokkra öskurapa fyrir aftan mig sem görguðu af og til og voru algjörlega laglausir þegar þeir reyndu að syngja um 'the good old hockey game', en það var bara fyndið og tilheyrði einhvern veginn.
Undarlegast var að í hvert sinn sem slagsmál brutust út á ísnum (og jú, það er ekki óalgengt) varð allt vitlaust og múgurinn gargaði. Ekkert virtist skemmtilegra en tveir, eða fleiri leikmenn að berja hver annan. Þetta er það eina sem ég skil ekki í sambandi við hokkí. En þetta er hluti af leiknum því dómararnir leyfa þeim að berja svolítið hver á öðrum áður en þeir stoppa slagsmálin. Sumir halda því fram að það séu minni meiðsli í hokkíleikjum þar sem slegist er en í hinum þar sem leikmenn verða frústreraðir en fá ekki útrás. Skemmst er að minnast þess þegar Todd Bertuzzi hálsbraut andstæðing sinn í leik. Hann fékk rúmlega árs brottvísun og var að auki dreginn fyrir rétt í skaðabótamáli. Stuðningsmenn slagsmála segja að ef Bertuzzi hefði fengið að slást pínulítið við hinn (þeir voru búnir að atast hver í öðrum allan leikinn), hefði þetta aldrei gerst. Ég veit það nú ekki...ég held að það sé alveg hægt að halda hokkíinu þokkalega meinlausu rétt eins og t.d. fótbolta. En þetta var nú útúrdúr.
En almennt var bara frábært að vera á þessum leik í eigin persónu og sjá leikmennina spila á vel pússuðum ísnum fyrir neðan eftir að hafa horft á þá í sjónvarpinu síðastliðinn vetur. Og að sjálfsögðu spillti ekki fyrir að sjá Vigneault með eigin augum. Hann er alveg jafnmikil dúlla og ég hélt. Og hann hlýtur að vera ánægður með sína menn í kvöld. Þeir sýndu þessu Alberta gengi svo sannarlega hvar Davíð keypti ölið!
Sett inn að lokum lag með uppáhalds grínsveitinni minni, The Arrogant Worms. Ég veit ekkert hver setti inn þessar einföldu teikningar, ekki þeir, en það er textinn sem skiptir máli Njótið:
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 07:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fótboltinn hafinn
9.9.2007 | 19:50
Þá er fótboltavertíðin hafin á ný. Við lékum okkar fyrsta leik klukkan tíu í morgun og byrjuðum ógurlega klaufalega svo við vorum heppnar að Burnaby liðið sem við lékum á móti náði ekki að skora. Þetta slæma tímabil varði þó ekki í fimmtán mínútur eins og oftast, heldur komumst við í gírinn eftir um fimm mínútna leik og spiluðum bara geysivel. Markatalan varð að lokum 4-1 fyrir okkur með einu marki frá Katee, tveimur frá mér og einu sjálfsmarki. Katie átti stóran þátt í bæði sjálfsmarkinu og fyrra markinu mínu (hitt átti ég alveg ein enda tók ég boltann upp frá miðpunkti og inn).
Gallinn er að það verður ábyggilega bið að næsta leik. Við eigum heimaleik í næstu viku en af því að borgarstarfsmenn eru enn í verkfalli er ekki hægt að spila á neinum velli innan borgarmarka. Ef leikurinn fæst ekki færður í eitthvert nágrannasveitarfélaganna verður honum frestað. Og enginn veit hvenær þetta verkfall endar.
Það sama gerist með æfingarnar hjá okkur. Við æfum klukkan sjö eins og er því um átta er orðið of dimmt til að spila og það má ekki kveikja á flóðljósunum. Helv. verkfall, helv. borgarstjórn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ætti að taka hokkíþjálfara sér til fyrirmyndar
16.8.2007 | 15:45
Ég skrifaði færslu um það í vor, þegar ég var að horfa á Stanley bikarinn, hvernig hokkíþjálfarar eru ólíkir þjálfurunum í ensku fótboltadeildinni, sérstaklega þjálfurum stærri liðanna. Menn eins og Fergusson, Mourhino og já, líka Wenger, eru síkvartandi, alltaf með eitthvert skítkast og virðast helst aldrei viðurkenna neitt sem þeirra eigin leikmenn gera. Og ef þeir geta ekki neitað því að leikmenn hafi gert það sem þeir gerðu þá koma þeir með afsaknir, eins og að þeim hafi verið ögrað.
Ég horfði á alla blaðamannafundi eftir leiki Vancouver í hokkíinu, bæði viðtölin við Vigneault, þjálfara Canucks, en einnig þjálfara andstæðinganna, og aldrei nokkurn tímann sá ég þá segja neitt ljótt um andstæðinginn, og ef þeirra leikmenn höfðu verið reknir út af þá gerðu þeir aldrei neitt til þess að afsaka það. Einu sinni gerðist það að Vigneault viðurkenndi að hann væri ekki ánægður með hvernig hitt liðið hafði reynt að koma höggum á markvörð Canucks, en það var ekki fyrr en hann var beinlínis spurður. Og þá sagði hann að já, hann væri óánægður með það og hann væri búinn að ræða þetta við rétt yfirvöld, og svo var það ekki nefnt meir. Þessir menn sýna leikmönnum, dómurum og öðrum þjálfurum geysilega virðingu og kurteisi.
Það kemur reyndar fyrir að svo er ekki og ég veit um eitt síðasta vetur þar sem þjálfari var í vondu skapi og hreytti í allt og alla, en hann virtist aðallega fúll út í fréttamenn og neitaði að svara spurningum þeirra. Ég veit líka til þess að tveir framkvæmdastjórar (Bryan Burke hjá Anaheim og hvað sem hann heitir hjá Minnesota Wild) hafi háð nokkurs konar stríð í fjölmiðlum en svoleiðis hlutir eru algjör undantekning.
Ég vildi geta notið ensku knattspyrnunnar án þessa væls sem kemur frá þjálfurum. Hver þeirra sem á í hlut. Þetta er skemmtileg íþrótt og þarna spila margir frábærir knattspyrnumenn og það ætti að vera aðalatriðið.
![]() |
Ferguson: Ronaldo var ögrað og hann féll í gildruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ultimate og fleiri íþróttir
3.8.2007 | 07:16
Ég spilaði tvo ultimate leiki í kvöld eins og öll fimmtudagskvöld. Reglulega vertíðin er búin og umspil hafið. Fyrri leikurinn var alveg hundleiðinlegur. Ekki af því að við töpuðum, við erum vön því, heldur vegna þess að liðið sem við lékum gegn spilar alveg ótrúlega leiðinlegan leik. Það byggir allt upp á besta leikmanninum sem getur kastað disknum alveg ótrúlega langt. Næstum því hvert einasta stig sem þau fengu var þannig að hann kastaði disknum inn í endamark og þau gripu hann þar. Það var aldrei leikið upp völlinn og þetta þýðir líka að helmingurinn af liðinu hafði sama og ekkert að gera. Það eina sem við gátum gert til að taka á móti var að spila eins leik en okkur finnst það svo leiðinlegt að við vildum ekki gera það. Við reyndum því að spila almennileg kerfi en því miður virkaði það ekki alveg nógu vel.
Seinni leikurinn var miklu skemmtilegri. Þar spiluðum við sigurliðið úr hinum leik kvöldsins sem er nokkuð jafnt okkur að geta. Þau unnu okkur síðast þegar við spiluðum og þau spila mjög skemmtilega og eru að auki mjög skemmtilegir karakterar. Á tímabili var spilað þannig að í hvert skipti sem einhver greip diskinn gat hann kallað 'skjaldbaka' og þá áttu allir að henda sér á bakið, veifa öllum öngum, og hegða sér eins og skjaldbaka á hvolfi. Ferlega fyndið. Svona á að spila. Maður á að hafa gaman af þessu. Við unnum þann leik með tveggja stiga mun en þetta hefði getað farið á hvorn veginn sem var. Liðin voru ótrúlega jöfn. Það tók líka langan tíma að spila. Vanalega er spilað upp í 12 en að þessu sinni hættum við þegar staðan var 5-3 því að það var að koma myrkur.
Moskíturnar voru alveg ótrúlega skæðar og þeim var alveg sama um flugnaspreyið sem ég hafði úðað yfir mig. Ég fékk samt bit út um allt. Og þær voru eins stórar og fuglar, eða næstum því.
Þetta var síðasti leikur Brads sem er að flytja til Ontario þar sem hann mun hefja læknisnám í haust. Kærastan hans, Erin, fer með honum og við missum því tvo leikmenn núna. Mo flutti til Austurríkis fyrir tveimur vikum, Angie er á ferðalagi um Evrópu og Kelly og Jason eru báðir meiddir. Liðið er því farið að þynnast all nokkuð. Það eru hins vegar aðeins tvær vikur eftir af vertíðinni þannig að það ætti ekki að koma of mikið að sök. En það eykur auðvitað líkurnar á tapi því við erum nú ekki sérlega góð.
Um næstu helgi mun ég spila í fjörumótinu í fótbolta og uppúr því ættu almennar fótboltaæfingar að hefjast aftur. Það er bara mánuður þar til vetrarboltinn hefst.
Á laugardaginn mun ég líklega fara í fjallgöngu og ganga á ljónin hér fyrir ofan borgina. Ljónin eru tveir áberandi tindar fyrir ofan Norður Vancouver og það er eftir þeim sem brúin yfir í Norður Van er kölluð Lions Gate bridge, og eftir brúnni er nefnt kvikmyndafyrirtækið Lions Gate, sem framleiðir fjöldann allan af kvikmyndum.
Set inn mynd af ljónunum. Síðar get ég svo bent á tindinn (veit ekki á hvorn við göngum) og sagt: Sjáið tindinn, þarna fór ég...
Íþróttir | Breytt 6.8.2007 kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)