Færsluflokkur: Kvikmyndir

Tvífarar

Muniði eftir ævintýra myndinni Princess Bride og leikaranum Cary Elwes sem lék aðalhlutverkið þar, sveitadrenginn Westley. Nýlega hef ég verið að sjá leikara poppa upp í ýmsum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem er alveg eins og Cary Elwes nema stærri og þreknari. Þetta ruglaði mig í fyrstu...hafði Cary Elwes verið í sterum. En í ljós kom að þetta er allt annar maður, sirka tíu árum yngri. Hann heitir Gabriel Hogan og er kanadískur. En sjáið sjálf hversu líkir þeir eru. Meira að segja sami sveigur á hárinu. Elwes er til vinstri og Hogan til hægri:

 

http://webspace.webring.com/people/cp/plumcastle/CaryElwesAddictedtoFollmersite.jpg  http://www.northernstars.ca/actorsghi/Media/hogan_gabriel_250_02.jpg
 
En talandi um Princess Bride. Þegar þættirnir Criminal Minds byrjuðu gat ég aldrei horft á Gideon án þess að hugsa: "Hello. My name is Inigo Montoya. You killed my father. Prepare to die."
 
  

Guli kafbáturinn í 3D

Samkvæmt Internet Movie Database er verið að endurgera Gula kafbátinn í 3D. Cary Elwes, frægastur fyrir The Princess Bride, talar fyrir George Harrison. Það er ImageMovers Digital, fyrirtæki í eigu Disney studio, sem framleiðir myndina. Vá, býsna spennandi.

 


Aldrei sátt hvort eð er

Ég horfði ekki á Óskarinn. Nennti því ekki. Hafði sjónvarpið reyndar í gangi í um hálftíma en einhvern veginn er ég búin að fá leið á keppninni. Var kannski enn minna spennt í ár en oft því undanfarna mánuði hef ég ekki haft neinn tíma til að fara í bíó og þekkti því fæstar myndanna og hafði enga skoðun. Held að Inglorious Basterds hafi verið eina myndin af þessum helstu þarna sem ég hafði séð. Oftast er ég hvort eð er svo ósátt við valið að það er kannski eins gott að hafa enga skoðun. Þá verður maður ekki svekktur.

Annars er ég svekkt yfir því að þetta lag Paul McCartneys skuli ekki einu sinni hafa fengið tilnefningu:


mbl.is Bigelow stjarna kvöldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostleg stríðsmynd

Ég horfði á teiknimynd í dag sem fékk mig til að hágráta. Ég held ég hafi ekki grátið yfir teiknimynd síðan ég sá Bamba sem barn. Þótt ég hafi reyndar stundum tárast yfir því hversu barnaefni er oft lélegt.

Þessi mynd er reyndar ekki barnamynd, þótt hún hafi víst verið markaðssett sem slík þegar hún fyrst kom út. Myndin er japönsku og heitir Gröf eldflugnanna. Hún gerist í japönsku borginni Kobe í lok síðari heimstyrjaldar. Aðalpersónurnar eru unglingspilturinn Seita og fjögurra ára systir hans Setsuko, sem missa móður sína í loftárás á byrjun myndarinnar. Faðir þeirra er í hernum og síða kemur í ljós að hann er einnig látinn, svo og flestir í japanska sjóhernum. Seita og Setsuko flytja tímabundið til fjarskyldra ættingja sem þola tilveru þeirra til að byrja með en láta þau fljótt vita að þau séu búin að dvelja hjá þeim nógu lengi. Svo börnin tvö koma sér fyrir í yfirgefnu loftbyrgi þar sem þau borða síðasta matinn sem þau eiga. Þau eiga peninga en í Japan síðari heimstyrjaldar er lítinn mat að fá og engan fyrir peninga. Mat er skammtað af yfirvöldum en án foreldra falla systkinin fyrir utan kerfið og komast því af um stund með því að stela mat frá bændum og úr heimilum fólks á meðan loftárásum stendur.

Seita fer með Setsuko til læknis þegar hún er farin að þjást af vannæringu en læknirinn gerir ekkert til hjálpar svo það eina sem Seita getur gert er að fara aftur heim með systur sína, í moldbyrgið þar sem þau hafast við og þar deyr Setsuko í einu sorglegasta atriði sem ég hef nokkurn tímann séð í mynd. Ég grét ekki bara, ég hágrét. 

Við vitum frá byrjunaratriði myndarinnar að Seita lést á járnbrautastöð, í september 1945, á meðan fólk hryllti sig yfir fátæklingnum og lagði sveig á leið sína framhjá honum. Ein manneskja beygði sig niður og gaf honum mat, en það var of seint. 

Í lok myndarinnar sjáum við þau systkin sitjandi saman, södd og glöð.

Rogert Ebert hefur lýst þessari mynd sem einni af bestu stríðsmyndum allra tíma. Myndin er byggð á sannsögulegri bók Akiyjki Nosaka með sama nafni en hann missti systur sína í lok styrjaldar og kenndi sjálfum sér um alla tíð. Hann skrifaði bókina sem afsökun til systur sinnar. 

Ef þið hafið nokkra leið til þess að sjá þessa mynd skulið þið taka upp vasaklútinn og horfa. Þið verðið ekki svikin. 

Mangamyndirnar japönsku hafa lengi verið vinsælar en flestar eru hasarmyndir með ótrúlegum stríðshetjum. Ég hef yfirleitt ekki gaman af slíkum myndum, en margar myndirnar frá Ghibli stúdíónu, og sérstaklega þær sem koma frá snillingnum Miyasaki eru dásamlegar. Minni þar á óskarsverðlaunamyndin Spirited away, svo og Castle in the sky, Kiki's delivery services, og fleiri. Almennt séð meiri háttar myndir sem standa langt fremri mörgu því sem kemur frá amerísku stúdóunum. 

 

 


Slúður um Jennifer

Jæja, nú er komið að því að ég taki þátt í slúðrinu. Vanalega nenni ég ekki að velta mér uppúr ástarlífi stórstjarnanna en af því að það var frétt í Mogganum um daginn um það að Jennifer Aniston haldi sig innan dyra með kettinum sínum (eða var það hundur?) og geri aldrei neitt, þá verð ég hreinlega að segja að þetta er nú ekki alveg rétt.

Samkvæmt Vancouverblöðunum er Jennifer alls ekki lokuð inni á hótelherbergi. Hún hefur sést út um alla borg, en hún er hér í Vancouver að kvikmynda 'Traveler'. Og það sem meira er, hún virðist ekki heldur vera ein. Starfsfólk sem vinnur við kvikmyndina er sannfært um það að eitthvað sé á milli Aniston og meðleikara hennar Aaron Eckhart en þau tvö virðast býsna náin. Ekki hefur reyndar enn sést til þeirra sleikjast á almannafæri þannig að þetta virðast enn getgátur.

Ég vona bara að þau tvö séu að dúlla sér saman. Þau eru bæði fallegt og hæfileikaríkt fólk og eiga skilið að finna ástina aftur. Því ekki hvort hjá öðru? 


Munið þið eftir þessari mynd?

YouTube er eitt það skemmtilegasta sem fram hefur komið á Netinu undanfarin ár. Maður getur endalaust fundið dásamleg myndbönd. Það sem mér finnst allra skemmtilegast er þó þegar ég finn gömul mynbönd eða hluta úr bíómyndum sem ég hef ekki séð síðan ég var krakki.

Í kvöld horfði ég t.d. á eftirfarandi fjögur myndbönd úr stórkostlegri bíómynd sem ég er viss um að allir á mínum aldri, og þeir sem eldri eru, þekkja. Veit ekki með þau yngri en ég fer ekki ofan af því að allir krakkar eiga að horfa á þessa mynd og helst oft.

 

 

 
 

Ræðumennirnir miklu og barátta blökkumanna í Bandaríkjunum

Í kvöld fór ég á formsýningu myndarinnar The Great Debaters með Denzel Washington sem einnig leikstýrði. Ég fæ reglulega tölvupóst frá blaðinu Georgia Strait sem er dreift ókeypis út um alla borg. Þeir eru alltaf með alls konar getraunir sem fyrst og fremst nýtast sem kynning á ýmsum listaviðburðum og ég tek alltaf þátt ef mér lýst vel á það sem í boði er. Í fyrradag fékk ég tölvupóst um að ég hefði verið dregin út sem sigurvegari (einn af mörgum) og fékk í verðlaun tvo miða á myndina.

Ég hef aldrei áður lenti í því að þurfa að fara í gegnum leit við það eitt að fara í bíó. En af því að þetta var forsýning og myndin verður ekki tekin til reglulegrar sýningar fyrr en á jóladag, þá þurfti að sjá til þess að enginn væri að laumast með neinar upptökuvélar inn á sýninguna. Þannig að leitað var í töskunum okkar og svo þurftum við í gegnum málmleitartæki líka. Það mátti ekki einu sinni fara inn með farsíma með myndavél. Farsíminn minn er með litla myndarvél - hundlélega að vísu en það skiptir víst engu máli - svo ég faldi hann í töskunni og harðneitaði svo að hafa farsíma með mér. Það var betra en að láta þá geyma símann á meðan á sýningu stæði.

Áður en myndin hófst var spurningarkeppni þar sem gefnir voru miðar á forsýningu Hnetubrjótsins en ég vissi ekki neitt svaranna enda voru allar spurningarnar um hnetubrjótinn og ég veit sama og ekkert um það verk því ég hef alltaf sofnað þegar ég hef reynt að horfa á það í sjónvarpinu.

Myndin var býsna góð. Hún hafði ekki fengið neitt sérstaklega góða dóma á Rotten Tomatoes svo ég bjóst ekki við of miklu, en myndin kom á óvart og ég skemmti mér konunglega. Ég myndi segja að ræðukeppnin sjálf sé bara rammi myndarinnar. Í raun er verið að fjalla um baráttu blökkumanna fyrir jafnrétti og jafnframt um samband föður og sonar (leiknir af Forrest Whittaker og Denzel Whittaker sem eru ekki feðgar). Forrest Whittaker er alltaf góður og Denzel Washington klikkar aldrei. Ungu leikararnir þrír standa sig líka ákaflega vel. Það sem mér fannst kannski einn stærsti galli myndarinnar voru ræðurnar sem haldnar voru. Þær voru ákaflega amerískar eins og við mátti búast, ákaflega væmnar. Innihaldið var áhrifaríkt þar sem það tengist siðferði og réttlæti, en sem ræður í keppni voru þetta ekki góðar ræður. En í raun var mér alveg sama því eins og ég segi þá var ræðukeppnin þarna sem rammi utan um málin sem skiptu máli.

Myndin hafði ekki eins sterk áhrif á mig og margar aðrar sem fjalla um sama eða svipað efni, svo sem Mississippi Burning, enda hafði barátta blökkumanna náð nokkrum árangri þarna 1935 þegar þessi mynd gerist, en maður hefur alltaf gott af því að sjá hvernig sumt fólk þarf að berjast fyrir þeim réttindum sem okkur þykja sjálfsögð.


Ferill Ralph Fiennes

Í kvöld horfði ég á bíómyndina Land of the Blind sem var óhugnaleg og leiðinleg mynd sem fékk lélega dóma á sínum tíma. Eina ástæða þess að ég leigði myndina var sú að Ralph Fiennes var í aðalhlutverki og hann hefur í mörg ár verið einn af mínum uppáhaldsleikurum. En ég veit eiginlega ekki hvað hefur komið fyrir feril hans.

Hann vakti fyrst athygli fyrir hlutverk sitt sem Amon Goeth í kvikmyndinni Schindler's List og fékk að launum óskarstilnefningu. Konur um allan heim sátu í kvikmyndasölum og skömmuðust sín fyrir að hrífast af hinum óhugnalega Goeth. Í kjölfarið fylgdi hlutverk Charles Van Doren í mynd Roberts Redfords, Quiz show og síðan framtíðamyndin Strange Days. Ári síðar fékk hann aðra óskarstilnefningu, að þessu sinni fyrir hlutverk sitt sem Count Laszlo de Almásy í kvikmyndinni The English Patient og enn var kvenþjóðin heltekin. En þá var toppnum eiginlega náð og myndirnar sem á eftir fylgdu hafa verið blanda af ömurlegum myndum eins og The Avengers og Maid in Manhattan, listrænum en fremur leiðinlegum myndum eins og The End of the Affair, Onegin og Oscar and Lucinda, og góðum en vanmetnum myndum eins og Spider og The Constant Gardner. Ég skil reyndar ekki enn af hverju einu verðlaunin sem hann fékk fyrir Spider voru Evrópsku kvikmyndaverlaunin. Hann var stórkostlegur í þeirri mynd og ég var sannfærð um það þegar ég gekk út af myndinni að hann fengi óskarinn fyrir frammistöðuna þar. Sama má segja um The Constant Gardner og ég man að Jay Leno var sammála mér þar því þegar Ralph kom í viðtal hjá honum um það leyti sem myndin var frumsýnd kvaddi Leno hann með orðunum: See you at the Oscars. Margir aðrir voru sammála þar því hann var tilnefndur til alls fjögurra verðlauna fyrir þá mynd og vann þrjú þeirra. Það kom þó ekki nálægt þeim fjölda tilnefninga sem hann fékk fyrir Schindler's List

Ég sá Ralph í fyrsta sinn 1993 og var sannfærð um að hann ætti að verða stórstjarna og eftir vinsældir The English Patient virtist allt stefna í þá átt. En síðan gerðist eitthvað. Ég held að það hluti að hafa með hlutverkaval hans að gera. Hann hefur hreinlega ekki valið vel. Það getur varla verið neitt annað því maðurinn er stórkostlegur leikari og ég efa að nokkur geti neitað því, og að auki er hann gullfallegur. Þegar þetta tvennt fer saman við tvær óskarstilnefningar og getuna til þess að velja á milli hlutverka þá ætti að vera hægt að ná toppnum. En það klikkaði hjá Ralph. Hann er þekktur og vel metinn leikari en telst varla stórstjarna.

Kannski eru ekki allir sammála mér hér og sjálfsagt er það spursmál hvað það er nákvæmlega að vera stórstjarna. En enginn efast um að stórstjörnurnar eru fólk eins og Brad Pitt, Tom Cruise (þótt ég skilji ekki af hverju), Nicole Kidman, Julia Roberts, Denzel Washington, ofl. ofl. Þetta fólk fær aðsókn á myndir sínar, alveg sama hversu lélegar þær eru. Það er sjaldgæft að myndir þeirra fari beint á dvd, eða sama sem. 

Hversu margir hafa séð nýrri myndir Ralph Fiennes (aðrar en Harry Potter)? Hversu margir sáu t.d. Land of the Blind, The White Countess, Chromophobia? Eða myndirnar sem hann gerði undir lok tíunda áratugarins og í byrjun núverandi áratugar; myndir eins og Sunshine, Onegin, The End of the Affair, Spider, The Good Thief? Ég er aðdáandi Ralph en af þessum myndum sá ég aðeins tvær þær síðastnefndu í bíói. Einfaldlega af því að þær stoppuðu svo stutt í kvikmyndahúsunum að það var hætt að sýna þær áður en ég fór í bíó. Ég varð því að fara á leigurnar. 

Ojæja, hann er alla vega nógu stór til þess að fá kvikmyndahlutverk svo maður getur séð hann í nýjum myndum af og til og á þessu ári og hinu næsta fáum við að sjá hann í sex nýjum myndum. Svo ég er svo sem ekkert að kvarta. Ég er bara hissa á því að hann varð ekki stærri.


Um svala nagla og biblíumyndir

Í fyrradag fór ég í bíó, sem er kannski ekki í frásögur færandi, nema hvað ég fór að sjá týpíska strákamynd, War. Vanalega hef ég ekki gaman af byssumyndum en síðan ég horfði á Bruce Lee sem barn hef ég alltaf haft gaman af góðum bardagamyndum. Ástæður þess að  ég fór á þessa  mynd, þrátt fyrir að hafa heyrt fremur slæma dóma, voru tvær. Annars vegar Jet Li, hins vegar Jason Statham. Hvor um sig er magnaður en saman í mynd...hvaða máli skiptir handritið. Þetta eru náttúrulega svölustu náungarnir á hvíta tjaldinu í dag. Ekki myndarlegustu, en langflottustu. Þetta reyndist hin mesta biblíumynd og ég þurfti nokkrum sinnum að  líta undan.

Mér fannst eiginlega verst að vera ekki á stefnumóti því svona myndir eru langbestu stefnumótamyndirnar. Sumir halda að það séu rómantískar gamanmyndir en nei, blóðugar hasarmyndir eða hrollvekjur. Sko, þá getur maður verið  litla viðkvæma konan sem getur ekki horft á öll atriðin og í staðinn þarf maður að grafa andlitið í fanginu á deitinu og grípa um hönd hans. Og svo þegar atriðið er búið sér maður hvort hann sleppir hendinni eða ekki. Rómantísk gamanmynd getur þetta ekki, onei. 

P.S. Ef einhver skildi ekki tilvísunina í biblíumyndir þá læt ég útskýringuna fljóta með. Þegar elsti bróðir minn bjó enn heima þá fór hann alltaf á vídeóleigurnar um jólin og kom heim með slatta af myndum sem síðan var horft á í jólafríinu. (Af því að sjónvarpið var alltaf að sýna myndir gerðar eftir biblíunni svo og ballett.) Þetta voru allt hasarmyndir með blóðugum bardögum og misþyrmingum. Einhvern tímann varð einhverjum fjölskyldumeðlimi á orði að svona væru nú biblíumyndirnar sem við horfðum á um jólin, og síðan hafa slíkar myndir verið kallaðar biblíumyndir á mínu heimili.


Svolítið um Sturlu Gunnarsson

Eitt af einkennum sumarsins er að næstum því engir nýir sjónvarpsþættir eru sýndir. Maður hefur því þrjá kosti. Í fyrsta lagi, maður getur sleppt því að horfa á sjónvarp, sem öllu jöfnu er góður kostur, en stundum langar mann einfaldlega að setjast í hægindastólinn og horfa inn í veröld aðra en manns eigin. Annar kostur er því að horfa aftur á sömu þættina og maður sá í vetur, eða síðastliðinn vetur. Þriðji möguleikinn er sá að uppgötva eitthvað nýtt. Ég hef svolítið gert af því að horfa á sjónavarpsþætti sem ég hef aldrei séð áður, og sumir lofa mjög góðu, jafnvel þótt hætt sé að framleiða þá. Einn af þessum þáttum er Zoe Busick: Wild Card. Þættirnir fjalla um konu á fertugsaldri, Zoe, sem allt í einu sér líf sitt umhverfast þegar systir hennar deyr. Zoe þarf að snúa baki við spennandi lífi í Las Vegas og flytja til Chicago þar sem hún tekur við uppeldi þriggja systrabarna sinna. Hún fær vinnu í tryggingafyrirtæki og fer að leysa alls kyns tryggingasvik og skyld mál. Í aðalhlutverki er Joely Fisher sem er alveg frábær leikkona. Hún lék á sínum tíma í þáttunum um Ellen, síðar í Till Death.

Ástæða þess að ég minnist á þessa þætti er sú að þegar ég fór að horfa á þáttinn í kvöld tók ég eftir því að leikstjórinn var enginn annar en okkar eigin Sturla Gunnarsson. Hann hefur leikstýrt einstökum þáttum í mörgum seríum, meðal annars þáttunum Da Vinci's Inquest og Da Vinci's City Hall, Intelligence og The Best Years. Annars er alltaf uppáhaldsmyndin mín eftir Sturlu Rare Birds sem ég mæli með að allir sjái.

Sturla ólst upp í Vancouver og mamma hans, Ástríður, býr hér ennþá. Ég gisti einmitt hjá henni þegar ég kom hingað veturinn 2003 og hélt fyrirlestur. Hún er alveg frábær. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband