Ræðumennirnir miklu og barátta blökkumanna í Bandaríkjunum

Í kvöld fór ég á formsýningu myndarinnar The Great Debaters með Denzel Washington sem einnig leikstýrði. Ég fæ reglulega tölvupóst frá blaðinu Georgia Strait sem er dreift ókeypis út um alla borg. Þeir eru alltaf með alls konar getraunir sem fyrst og fremst nýtast sem kynning á ýmsum listaviðburðum og ég tek alltaf þátt ef mér lýst vel á það sem í boði er. Í fyrradag fékk ég tölvupóst um að ég hefði verið dregin út sem sigurvegari (einn af mörgum) og fékk í verðlaun tvo miða á myndina.

Ég hef aldrei áður lenti í því að þurfa að fara í gegnum leit við það eitt að fara í bíó. En af því að þetta var forsýning og myndin verður ekki tekin til reglulegrar sýningar fyrr en á jóladag, þá þurfti að sjá til þess að enginn væri að laumast með neinar upptökuvélar inn á sýninguna. Þannig að leitað var í töskunum okkar og svo þurftum við í gegnum málmleitartæki líka. Það mátti ekki einu sinni fara inn með farsíma með myndavél. Farsíminn minn er með litla myndarvél - hundlélega að vísu en það skiptir víst engu máli - svo ég faldi hann í töskunni og harðneitaði svo að hafa farsíma með mér. Það var betra en að láta þá geyma símann á meðan á sýningu stæði.

Áður en myndin hófst var spurningarkeppni þar sem gefnir voru miðar á forsýningu Hnetubrjótsins en ég vissi ekki neitt svaranna enda voru allar spurningarnar um hnetubrjótinn og ég veit sama og ekkert um það verk því ég hef alltaf sofnað þegar ég hef reynt að horfa á það í sjónvarpinu.

Myndin var býsna góð. Hún hafði ekki fengið neitt sérstaklega góða dóma á Rotten Tomatoes svo ég bjóst ekki við of miklu, en myndin kom á óvart og ég skemmti mér konunglega. Ég myndi segja að ræðukeppnin sjálf sé bara rammi myndarinnar. Í raun er verið að fjalla um baráttu blökkumanna fyrir jafnrétti og jafnframt um samband föður og sonar (leiknir af Forrest Whittaker og Denzel Whittaker sem eru ekki feðgar). Forrest Whittaker er alltaf góður og Denzel Washington klikkar aldrei. Ungu leikararnir þrír standa sig líka ákaflega vel. Það sem mér fannst kannski einn stærsti galli myndarinnar voru ræðurnar sem haldnar voru. Þær voru ákaflega amerískar eins og við mátti búast, ákaflega væmnar. Innihaldið var áhrifaríkt þar sem það tengist siðferði og réttlæti, en sem ræður í keppni voru þetta ekki góðar ræður. En í raun var mér alveg sama því eins og ég segi þá var ræðukeppnin þarna sem rammi utan um málin sem skiptu máli.

Myndin hafði ekki eins sterk áhrif á mig og margar aðrar sem fjalla um sama eða svipað efni, svo sem Mississippi Burning, enda hafði barátta blökkumanna náð nokkrum árangri þarna 1935 þegar þessi mynd gerist, en maður hefur alltaf gott af því að sjá hvernig sumt fólk þarf að berjast fyrir þeim réttindum sem okkur þykja sjálfsögð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verð að gera smá athugasemd-barátta blökkumanna náð nokkrum árangri 1935! Því fer fjarri. Mississippi Burning gerist síðar og þá var enn langt í land með að nokkurt jafnrétti hefði náðst.

Gísli Þ (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 10:22

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Á þetta ekki að vera The Great Debaters?

Steingerður Steinarsdóttir, 20.12.2007 kl. 11:04

3 identicon

Tölum

Raggi (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 14:17

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Gísli, horfðu fyrst á myndina og segðu mér svo að ekkert hafi náðst í baráttu blökkumanna þarna. Jú, það er enn langt í land en þú sérð samt blökkumenn sitja við hlið hinna hvítu á ræðukeppnum, þú sérð hvíta skóla taka blökkumenn nógu alvarlega til að keppa við þá (þótt það gerist fyrst þarna í myndinni), þú sérð blökkumenn sem eru þokkalega stöndugir... En ég segi ekki að góðum árangr hafi verið náð, bara að nokkrum árangri hafi verið náð. Það má enn sjá skilti á strætóskýlisbekk þar sem stendur 'bara fyrir hvíta', það er enn verið að brenna blökkumenn bara litarins vegna, o.s.frv.

Jú Steingerður, þetta á að vera The Great Debaters. Ég laga það. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.12.2007 kl. 18:20

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hmm, þegar ég las textann minn yfir aftur sé ég að það má lesa út úr því að Mississippi Burning hafi haft meiri áhrif á mig af því að hún gerist fyrr og minni árangur hafi náðst þá. Það er auðvitað ekki rétt enda gerist Mississippi Burning 1964. Ástandið átti eftir að versna og það var auðvitað hálfgert stríð á milli svartra og hvítra þarna á sjöunda áratugnum og framá þann áttunda. Þar að auki var áherslan í Mississippi Burning einmitt á þessum glæpum sem hvítir frömdu gegn blökkumönnum á þessum tíma. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.12.2007 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband