Færsluflokkur: Matur og drykkur

Svona á að borða spínat

Ég man eftir sögunum um Stjána bláa sem borðaði spínat til að verða stór og sterkur. En ég vissi eiginlega ekki hvað spínat var. Slíkur matur var aldrei á boðstólum heima og ég er ekki viss um að það hafi yfir höfuð fengist á Íslandi. Ég lærði þó af sjónvarpinu að þetta væri eitt það versta sem börn í Bandaríkjunum gætu hugsað sér. Svo ég dró þá ályktun að spínat væri ákaflega vont. Það var röng ályktun. Spínat er nefnilega ákaflega gott og ég á það til að búa til alls kyns spínatsalat.

Snúum okkur nú að japönskum mat, en örvæntið ekki, við munum koma aftur að spínatinu. Áður en ég flutti til Kanada hafði ég aðeins tvisvar sinnum borðað japanskan mat. Annars vegar hráan hval sem japanskur viðskiptavinur frænku minnar "eldaði" handa þeim (og mér var boðið í mat) og hins vegar fékk ég einhvern teriyaki kjúklinarétt í Boston í fyrstu Bandaríkjaför minni. Þegar ég flutti til Winnipeg bætti ég fyrir þennan skort á japönskum mat með því að borða mikið af sushi og öðrum japönskum réttum. Það var lítill sushi staður í götunni þar sem ég bjó og við fórum þangað hérumbil í hverri viku. Það var þegar ég vann mér inn pening og deildi leigu og reikningum með öðrum. Nú leyfi ég mér af og til að fá mér tveggja dollara avokadorúllu en hef sjaldan efni á að fara á almennilegan japanskan veitingastað. Og það er varla þess virði að búa þetta til sjálfur handa einum. Alla vega ekki sushiið. En stundum sýð ég edamame og svo er það spínatið. Já, ég lofaði að koma aftur að spínatinu.

Frá upphafi hefur japanskt spínatsalat í sesamisósu (Horenso no goma ae) verið eitt af því besta sem ég fæ á japönskum veitingahúsum. Reyndar er það misgott eftir stöðum. Best er salatið með hnetusósu en hún má ekki vera of þykk. Verst er ef notað er of mikið af soyasósu og lítið af öðru. Ég hef aðeins prófað mig áfram með uppskriftir sem ég hef fundið á netinu og fundið út að það er nauðsynlegt að nota sake—vatn eða edik dugir ekki, og hnetusmjör bætir sósuna. Hér er það sem ég geri:

Spínats goma ae

200-250 g spínat
4 msk sesame fræ
2 msk sake
2 msk sykur
1 1/2 msk soyasósa
1 msk hnetusmjör 

Hitið vatn í potti. Þegar suðan er komin upp, setjið þá spínatið í vatnið og sjóðið í eina mínútu. Takið pottinn af hellunni, bætið köldu vatni í pottinn til að stoppa suðuna, hellið vatninu af og kreistið svo spínatið til að losna við vatnið. Sagt er að best sé að klippa spíntaið í tveggj tommu bita en ég nennti því nú ekki. Mér er alveg sama hversu stórir bitarnir eru því ég skúbba þessu öllu upp í mig.

Setjið sesame fræin á pönnu og þurrsteikið þar til þau fara að brúnast. Þá eru þau sett í mortar og kramin. Ég á ekki  mortar svo ég setti þau bara á disk og kramdi með skeið. Það gekk ágætlega. Síðan blandaði ég saman fræjunum, sake, sykri, soyasósu og hnetusmjöri. Ég skelli þessu öllu í blandara vegna þess að annars á ég of erfitt með að ná hnetusmjörinu nógu mjúku.

Síðan hellir maður sósunni yfir spínatið.

Takið eftir að þetta nægir varla nema fyrir tvo í forrétt. Spínatið verður að engu þegar það er soðið.

 


Hlynsíróps smoothie með bláberjum - æðislegt

Um daginn keypti ég hlynsírópsjógurt. Var ekki búin að smakka það en vantaði eitthvað í léttan hádegisverð í dag áður en ég fer í fótbolta. Svo ég blandaði saman banana, frosnum bláberjum, appelsínusafa og svolitlu af þessu hlynsírópsjógúrti og bjó til indælis smoothie. Vá, ekkert smá frábær blanda. Og hlynsírópsjógúrtið gerir gæfumuninn. Það er ábyggilega ekki hægt að fá svoleiðis á Íslandi því það er bara í Kanada sem hægt er að fá hér um bil allt með hlynsírópi, en kannski er hægt aðnota í staðinn smá hreint jógúrt og svo um eina skeið af hlynsírópi. Það þýðir auðvitað auka sykur en er vel þess virði. Prófa nú.

Um smákökur

Á íslenska kökubasarnum um síðustu helgi keypti ég poka af kleinum. Borðaði fjórar þeirra í dag og þær voru nokkuð góðar, en samt ekki eins góðar og mömmu kleinur. Mömmu kleinur eru einfaldlega bestar. Það fær mig til þess að hugsa um jólasmákökurnar sem ég ólst upp við. Mér fannst alltaf Þingeyingar og Gyðingakökur bestar (þvílík nöfn!) en ég man að Jón Ingvi vinur minn elskaði sykurkökurnar. Ég var ekki eins hrifin af þeim. Og ég var aldrei hrifin af vanillukrönsum sem eru  mjög vinsælar hér og kallast 'shortbread cookies'. Og svo voru það smjördeigskökur með súkkulaðispæni í þeim. Ég man ekkert hvað þær hétu en þær voru uppáhaldið mitt á tímabili. Ég hef stundum bakað þær sjálf eftir að ég fékk uppskriftina hjá mömmu. Man ekki heldur hvað hétu smjördeigskökurnar sem voru með súkkulaðidropa ofan á. Mér fannst súkkulaðidropinn alltaf bestur og átti það til að éta hann ofan af.

Sjálf baka ég alltaf Sörur og yfirleitt sirka tvær sortir í viðbót. Það breytist ár frá ári hverjar hinar sortirnar eru. Stundum baka ég marenstoppa með dökkum súkkulaðispæni - þeir eru mjög góðir. Ég er ekki búin að ákveða hvað ég baka í ár! 

En það er alls ekki hollt að fara að hugsa um smákökur rétt fyrir svefninn. Mig gæti dreymt sætabrauð og kannski fer ég í matarleit um miðja nótt. Reyndar á ég engin sætindi - bara kleinurnar - þannig að það eru ekki miklar líkur á að ég leggist í sælgætisát. Nema ég borði það sem eftir er í Nutella krukkunni!!! 


Gamla góða skyrið

Ein stelpan sem vinnur í Cliffhanger sat í hljóðkerfistímum hjá Doug fyrir tveimur árum þar sem ég var aðstoðarkennari. Þegar ég var að fara heim eftir klifrið í gær kallaði hún á mig og spurði: "Hvernig stendur á því að það er ekki hægt að kaupa skyr í Kanada?" Í ljós kom að hún hafði verið að ferðast um Evrópu í sumar og henni og vinkonu hennar datt allt í einu í hug að skella sér til Íslands því önnur vinkona (eða kannski var það vinur) var þar svo þær gátu fengið ókeypis gistingu. Hún féll alveg fyrir íslenska skyrinu en einnig fyrir flatbrauði. Ég hef ekki enn hitt þann útlending sem hefur smakkað skyr og ekki líkað það. Það er spurning hvort ekki er hægt að fara að flytja þessa dásemdar vöru út til Kanada, nú þegar sérstakur vörusamningur milli landanna er í höfn!

Kotasæla og Cantaloupe

Ef ykkur finnst kotasæla góð og ef ykkur finnst melóna góð, þá er fátt betra en að nota kotasælu sem ídýfu fyrir melónuna. Þetta á ekki svo vel við vatnsmelónu—aðallega hunangsmelónur og cantaloupe (þessar appelsínugulu). Þegar ég bjó í Winnipeg borðuðum við Tim, minn þáverandi, oft slíkt góðgæti í morgunverð (og ofnristað brauð með smjöri). Þá var melónunni skipt í helminga, ruslinu hent út og melónan síðan skorin í bita innan í hýðinu þannig að allt kjötið var enn á sínum stað en var nú laust svo hægt var að borða það með gaffli. Kotasælan var síðan sett innan í miðjuna og þá fékk maður alltaf nóg af kotasælu með hverjum bita. Súper alveg. Og frábær morgunverður (eða síðdegissnakk) á heitum sumardegi.

Annars eru vatnsmelónur frábærar þessa dagana. Sérstaklega þessar minni sem ég veit ekki hvað kallast. Ég er búin að stúta nokkrum svoleiðis upp á síðkastið. 


Frábært kjúklingasalat

Stundum bý ég til alveg magnaðan mat, algjörlega óvart. Nei, þetta er ekki rétt lýsing hjá mér. Réttari lýsing væri að segja að ég breyti uppskriftum þannig að þær samræmist betur því sem ég á í ísskápnum, og útkoman verður stórkostleg.

Í gær var ég í Market Place kjörbúðinni, sem er svona aðeins fínni búð en Safeway þar sem ég versla vanalega. Ég vissi ekki hvað ég vildi hafa í kvöldmatinn en í kassa nálægt inngangnum var bunki af uppskriftartímariti frá búðinni. Frítt blað, gefið út til þess að hvetja fólk til þess að kaupa sérvörur verslunarinnar. Ég fletti í gegnum blaðið og sá þar uppskrift af kjúklingasalati sem mér leist vel á. Gallinn var að ég þyrfti að kaupa hrikalega margt í salatið og mér fannst það algjör óþarfi. T.d. voru í réttinum sérstakar kjúklingabringur í ákveðnum legi frá versluninni. Salatsósa frá þeim, hnetubland frá þeim, o.s.frv. Kjúklingabringurnar voru seldar margar saman í pakka fyrir 14 dollara og ég myndi þurfa að borða kjúklinga í alltaf mörg mál. Svo ég keypti venjulegar kjúklingabringur, rauðlauk og avókadó og ákvað að nota það sem ég ætti heima í afganginn.

Ég fór í gegnum ísskápinn og eftir að svolitla leit og nokkrar pælingar gerði ég eftirfarandi.

Ég helti hungangs hvítlaukssósu (honey garlic) frá

Ég skar niður rauðlauk og avódadó og setti saman í skál. Blandaði saman við það balsamic vinigrette.

Skellti slatta af grænum salat blöðum (hvað sem er ætti að duga - eitthvað bland í poka t.d.) í skál, hellti avókadó og laukblöndunni yfir, bætti kjúklingnum út í og að lokum hnetum (t.d. furuhnetum, valhnetum). 

Þetta var svo gott að ég bjó aftur til svona salat í kvöld, enda átti ég enn eftir svolítinn kjúkling og hinn hlutann af avókadóinu (get ekki vanist því að kalla þetta lárperu).

Mæli með þessu. 


Morgunverðurinn - mikilvægasta máltíð dagsins

Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá þykir mér ákaflega gaman að skrifa um mat og hugsa um mat. Það er að hluta til vegna þess að ég hugsa mikið um hvað getur verið bæði hollt (og grennandi) og gott á sama tíma. 

Morgunmatur er líklega sú máltíð sem mér hefur alltaf fundist ein svo allra vandasamasta. Ég ólst upp við það að borða oft hafragraut á morgnana og ein af erfiðustu æskuminningunum er þessi:

Ég vakna upp í svarta myrkri við ódauninn af hafragrautnum og hljóðið frá morgunleikfimi útvarpsins. Úff, ég skelf við tilhugsunina.

Ég hef stundum borðað hafragraut eftir að ég varð fullorðin og það er helst að ég geti komið honum ofan í mig með því að setja mikið af púðursykri útá. Einu sinni sagði mamma mér frá því að afi hefði verið hrifin af því að setja sykur á hafragrautinn sinn. Henni fannst það ógeðsleg tilhugsun enda borðuðum við alltaf saltaðan graut. Ég hugsa um það núna hversu vitlaus ég var að fara ekki þá strax og prófa aðferðina hans afa. Það hefði gert lífið mun auðveldara.

En það var ekki alltaf hafragrautur í morgunverð. Stundum fengum við smurt brauð, eða morgunkorn— vanalega Cherioos eða Corn flakes (seríus og korn flex) en stundum um helgar Cocoa puffs eða Trix, þegar það fékkst ennþá. 

(Útúrdúr: Þegar ég fór til Bandaríkjanna í fyrsta skiptið, árið 1994, hlakkaði ég mest af öllu til þess að fara út í búð og kaupa pakka af Trix, sem ég og samviskusamlega gerði. Það var alveg jafngott og ég mundi, þótt ég væri komin yfir tvítugt, en nú kaupi ég samt aldrei Trix. Kannski kom að því að ég fullorðnaðist.) 

Núna samanstendur morgunverðurinn vanalega af hálfri beyglu með smjöri eða smurosti, kaffi, morgunverdurfullri skál af ávöxtum og ef ég nenni, soðnu eggi (það er til að fá smá prótín með). Saman með dagblaði dagsins skapar þetta ákaflega þægilega morgunstund. Þetta sælgæti má sjá á meðfylgjandi mynd. Annars þykir mér líka ákaflega gott að fara eitthvert út á laugardags eða sunnudagsmorgni og fá mér

Hvað finnst ykkur best að borða á morgnana.


Leita hjálpar bloggara (og lesendur blogga)

Ég er næstum því búin með pítusósuna mína. Sem er hræðilegt því ég elska pítusósu. Það er alveg ótrúlegt hvað ég borða mikið meira af grænmenti þegar ég á pítusósu, því það er svo gott að brytja niður kál, gulrætur og papriku, blanda við pítusósu og troða inn í pítubrauð.

Í hvert sinn sem ég fer til Íslands kaupi ég pítusósu og fer með mér út en þori aldrei að taka mikið með mér vegna þess að maður veit aldrei hvað tollverðirnir koma til með að taka af manni.

Hér er það sem ég þarf að vita:

1. Veit einhver um sósu sem seld er í Norður Ameríku og er svipuð íslensku pítusósunni?

2. Veit einhver um góða uppskrift að pítusósu? (ég hef eina sem er þokkaleg en ekki alveg nógu lík þessari alvöru).

Vona að þið getið hjálpað mér því ég verð að verða mér úti um meiri pítusósu.


Íslenskur matur

Í hádegisverð í dag borðaði ég skyr og rúgbrauð með rúllupylsu. Það væri ekki í frásögur færandi nema að ég bý í Vancouver og þetta voru ekki íslenskar vörur heldur vesturíslenskar. Rúgbrauðið var bakaði af gamalli konu hér í borginni, rúllupylsan var væntanlega úr Jolly food versluninni í Norður Vancouver og skyrið var búið til af öðrum gömlum Vestur-Íslendingi. Ég keypti þetta allt, ásamt íslenskum lakkrís (frá Íslandi) á jólabasar Íslendingafélagsins um síðustu helgi. Ég er búin að vera að maula á þessum íslenska mat af og til síðan þá. Af lakkrísnum er aðeins eftir ein bingókúla. Búin með tvo litla poka af lakkrísreimum og einn af lakkrískonfekti. Hvernig er það, er Appolólakkrís öðruvísi en hann var? Mér fannst þessi eitthvað bragðlausari en ég man eftir þeim.

Ég hlakka til að koma heim og borða alvöru íslenskan mat. Mest hlakka ég til að borða saltkjötsstöppuna hennar mömmu (veit ekki um neinn annan sem býr til svoleiðis -  ótrúlega gott samt) en það verður æðislegt að fá slátur, salkjöt og baunir, íslenska kjötsúpu, slátur, hangikjöt, kjötbollur, slátur... Finnst ykkur vanta fiskinn á þennan lista? Ég er með ofnæmi fyrir fiski og get ekki borðað hann. Ætla samt að borða graflax. 

Svo er það nammið. Rúsínusúkkulaði, lakkrís, bland í poka (betra en það sem maður fær hér), stjörnusnakk, kartöfluflögur með osti og lauk (frá Maarud - norskir en samt góðir), Þykkvabæjarsnakk, Lindubuff, Staur, krembrauð, bananastykki, bingóstykki, Þristur..... svo margt margt meira. Íslendingar eru snillingar þegar kemur að nammi og kartöfluflögum. Ég sver það, aðrar þjóðir komast ekki með tærnar þar sem við höfum hælana. Vitiði hvað er vinsælt í kartöfluflögum í Bandaríkjunum? Tómatsósubrað. Jakk, ógeðslegt. 


Salmonella

Muniði gömlu góðu dagana þegar salmonella var bara í kjúklingum? Nú getur maður aldrei verið öruggur. Það er ekki langt síðan allt spínat frá ákveðnum framleiðanda í Bandaríkjunum var endurkallað og í dag kom út viðvörun um að salmonella hafi fundist í canteloups (appelsínugulu melónunum - hef ekki hugmynd um hvað þær kallast á íslensku) sem dreift hefur verið í Kanada, frá Saskatchewan til BC og í Yukon og Norðvesturfylkjunum líka. Og er ég ekki heppin. Ég keypti einmitt kantelópu í gær og bjó til ávaxtasalatið sem ég borða á hverjum morgni (kantelópa, ananas, vínber og vatnsmelóna). Og að sjálfsögðu borðaði ég fulla skál af þessu í morgun, sem þýðir að ég innbirti töluvert magn af hugsanlega salmonellusýktri kantelópu. Og nú í kvöld er ég með heiftarlegan magaverk. Vona að það tengist bara Rósu frænku sem kom í heimsókn í gær. Vil alls ekki fá salmonellusýkingu (nema að ef ég er lasin í viku þá legg ég helling af fyrir jólin!!!!!!).

En sem sagt, maður er hvergi öruggur lengur. Salmonellan getur leynst hvar sem er. Og þetta kemur allt ofan á vatnsskortinn sem enn ríkir hér. Vatnsból borgarinnar er enn mengað og við megum ekki drekka kranavatnið. Það bragðast illa þótt maður sjóði það en sem betur fer fékk ég tvær flöskur á Starbucks í dag. Fór þangað og naut þess að sötra piparköku latté. Mmmm. En það er nú annað mál.

Hugsið ykkur örlögin að fá salmonellusýkingu á meðan vatnsskortur ríkir í borginni!  

Sem sagt, vona að ávaxtasalatið í morgun hafi verið salmonellulaust. Kannski ég hefði átt að halda mig við súrmjólk og Cheerios (nema hvað hér er ekki hægt að kaupa súrmjólk).

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband