Svona á að borða spínat
21.9.2010 | 04:32
Ég man eftir sögunum um Stjána bláa sem borðaði spínat til að verða stór og sterkur. En ég vissi eiginlega ekki hvað spínat var. Slíkur matur var aldrei á boðstólum heima og ég er ekki viss um að það hafi yfir höfuð fengist á Íslandi. Ég lærði þó af sjónvarpinu að þetta væri eitt það versta sem börn í Bandaríkjunum gætu hugsað sér. Svo ég dró þá ályktun að spínat væri ákaflega vont. Það var röng ályktun. Spínat er nefnilega ákaflega gott og ég á það til að búa til alls kyns spínatsalat.
Snúum okkur nú að japönskum mat, en örvæntið ekki, við munum koma aftur að spínatinu. Áður en ég flutti til Kanada hafði ég aðeins tvisvar sinnum borðað japanskan mat. Annars vegar hráan hval sem japanskur viðskiptavinur frænku minnar "eldaði" handa þeim (og mér var boðið í mat) og hins vegar fékk ég einhvern teriyaki kjúklinarétt í Boston í fyrstu Bandaríkjaför minni. Þegar ég flutti til Winnipeg bætti ég fyrir þennan skort á japönskum mat með því að borða mikið af sushi og öðrum japönskum réttum. Það var lítill sushi staður í götunni þar sem ég bjó og við fórum þangað hérumbil í hverri viku. Það var þegar ég vann mér inn pening og deildi leigu og reikningum með öðrum. Nú leyfi ég mér af og til að fá mér tveggja dollara avokadorúllu en hef sjaldan efni á að fara á almennilegan japanskan veitingastað. Og það er varla þess virði að búa þetta til sjálfur handa einum. Alla vega ekki sushiið. En stundum sýð ég edamame og svo er það spínatið. Já, ég lofaði að koma aftur að spínatinu.
Frá upphafi hefur japanskt spínatsalat í sesamisósu (Horenso no goma ae) verið eitt af því besta sem ég fæ á japönskum veitingahúsum. Reyndar er það misgott eftir stöðum. Best er salatið með hnetusósu en hún má ekki vera of þykk. Verst er ef notað er of mikið af soyasósu og lítið af öðru. Ég hef aðeins prófað mig áfram með uppskriftir sem ég hef fundið á netinu og fundið út að það er nauðsynlegt að nota sakevatn eða edik dugir ekki, og hnetusmjör bætir sósuna. Hér er það sem ég geri:
Spínats goma ae
200-250 g spínat
4 msk sesame fræ
2 msk sake
2 msk sykur
1 1/2 msk soyasósa
1 msk hnetusmjör
Hitið vatn í potti. Þegar suðan er komin upp, setjið þá spínatið í vatnið og sjóðið í eina mínútu. Takið pottinn af hellunni, bætið köldu vatni í pottinn til að stoppa suðuna, hellið vatninu af og kreistið svo spínatið til að losna við vatnið. Sagt er að best sé að klippa spíntaið í tveggj tommu bita en ég nennti því nú ekki. Mér er alveg sama hversu stórir bitarnir eru því ég skúbba þessu öllu upp í mig.
Setjið sesame fræin á pönnu og þurrsteikið þar til þau fara að brúnast. Þá eru þau sett í mortar og kramin. Ég á ekki mortar svo ég setti þau bara á disk og kramdi með skeið. Það gekk ágætlega. Síðan blandaði ég saman fræjunum, sake, sykri, soyasósu og hnetusmjöri. Ég skelli þessu öllu í blandara vegna þess að annars á ég of erfitt með að ná hnetusmjörinu nógu mjúku.
Síðan hellir maður sósunni yfir spínatið.
Takið eftir að þetta nægir varla nema fyrir tvo í forrétt. Spínatið verður að engu þegar það er soðið.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 06:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.