Í Riga

Ég er búin að vera í Riga, Lettlandi, frá því á mánudagskvöldið og þetta er alveg stórmerkileg borg. Rétt eins og Ísland er landfræðilega mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna og menningin ber þess mörk merki, er Riga á milli Skandinavíu og Austur-Evrópu og það er jafn greinilegt. Byggingarlistinn er t.d. býsna rússnesk og margar byggingarnar minna mig á myndir sem ég hef séð frá bæði Moskvu og St. Pétursborg. Aðrar byggingar eru tiltölulega skandinavískar og í gær sá ég byggingu sem passaði vel í Vesturbæinn í Reykjavík eða Eyrina á Akureyri.

Fólkið ber þess líka merki að vera blandað. Rússneska (eða kannski ætti ég að segja slavneska útlitið) er áberandi, enda fjölmargir Rússar sem fluttu hingað á dögum Sovétríkjanna, en ég sé líka töluvert af skandinavísku útliti. Mest er þó áberandi það sem ég get einungis ætlað að sé lettneskt útlit sem er heldur dekkra en það skandinavíska og það slavneska, og andlitsfallið er hringlóttara. Ég verð að viðurkenna að það er eitthvað aðlaðandi við það. Alla vega hef ég séð marga karlmenn sem eru kannski ekki klassískt myndarlegir en eru eiginlega svona mín týpa.

Aðal gallinn eru reykingarnar. Það liggur mengunarský yfir borginni sem aðeins að sumu leyti stafar af mengun frá bílum. Það reykja hreinlega allir. Konur standa t.d. á götuhornum og reykja. Þær eru of mikið klæddar til að vera gleðikonur en ég skil samt ekki af hverju þær hanga bara og reykja. Karlmennirnir reykja ekki síður. Við ein stór gatnamót nálægt hótelinu mínu eru undirgöng svo hættulaust sé að komast hinum megin við götuna. Maður fer þarna niður og á móti manni tekur þykkt reykský. Þetta svona liggur í göngunum og helst þarf maður að draga að sér andann áður en maður fer niður og svo bara sleppa því að anda þangað til maður er kominn upp aftur. Gallinn er að göngin eru stór og maður yrði að halda andanum lengi.

Byggingar eru margar hverjar gullfallegar og eins og ég sagði eru margar þeirra mjög rússneskar í stíl. Það á að sjálfsögðu fyrst og fremst við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna en líka fjölmargar aðrar byggingar. Gamli bærinn er sérstaklega áhugaverður og maður gengur eftir þröngum steinlögðum götum og skoðar gamlar kirkjur og aðrar byggingar. Ég tók sérstaklega eftir því hversu mikið var um hlera fyrir gluggum. Er búin að taka margar myndir af því. Er hins vegar ekki búin að hlaða inn mörgum myndum svo ég set þær ekki inn hér. Alla vega ekki strax.

Ég er hér á ráðstefnu. Reyndar var vinnufundur fyrsta daginn en vinnan mín er kostuð af Evrópusambandinu og er um evrópskt samstarfsverkefni að ræða. Við erum í hóp með Norðurlandaþjóðunum og Eystrasaltslöndunum. Ráðstefnan sjálf er um máltækni, nokkuð sem ég veit ekki mikið um en þó meir en áður en ég kom hér.

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Njóttu Riga, og vonandi tekur ekki ráðstefnan (eða er það reykloftið eða fallegu Stínulegu strákarnir) alla máltæknikunnáttuna frá þér!

Rut (IP-tala skráð) 12.5.2011 kl. 10:04

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.5.2011 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband