Um hraðahindranir og tillitsleysi

Hvað eru borgaryfirvöld að meina með þessum hraðahindrunum sem eru ekki steyptar heldur gerðar úr einhverju hálflausu efni sem heyrist ógurlega í þegar bílar fara þarna yfir á of miklum hraða - sem þeir gera auðvitað oftast? Það er ein svona fyrir utan húsið sem ég bý í og hávaðinn getur verið ógurlegur, sérstaklega þegar bílar fara þarna yfir með kerru. Ég mun sjálfsagt venjast þessu en ég skil bara ekki alveg tilganginn. Má ekki bara setja þarna þessar steyptu sem ekki heyrist svona ógurlega í?

Og af því að ég er farin að kvarta við borgaryfirvöld þá get ég svo sem haldið áfram. Hver er tilgangurinn með þessum endalausu mjókkunum á götunum við þessar hraðahindranir? Vita þeir hvernig það er að hjóla eftir svona götu með bíl fyrir aftan sig. Maður veit ekki hvort maður á að þora yfir hindrunina því ef bíllinn reynir að komast yfir á sama tíma (og þeim er trúandi til þess) þá á maður eftir að lenda í vandræðum. Í morgun þorði ég ekki annað en að stoppa og hleypa bílnum yfir fyrst því ég var ekki viss um hvað myndi annars gerast. Þetta var á Langholtsveginum og þar hefur greinilega einhvern tímann verið málaðar myndir af hjólreiðamönnum á götunum, sem hjálpar til við að minna á hjólreiðafólk, en nú eftir veturinn er lítið eftir af þessum myndum svo það mætti gjarnan mála þær.

Annars hef ég líka góða hluti að segja. Ég fór t.d. í hjólreiðatúr í morgun og var yfir mig hrifin af öllum stígunum sem búið er að leggja út um allt. Ég hafði bara hálftíma áður en ég þurfti að fara annað en ég náði að hjóla upp í Elliðaárdal og síðan niður með Elliðaánum niður að sjó og út eftir einhverjum stíg þar, næstum því að Gullinbrú. Ég veit ekki hvað þetta svæði heitir en á pottþétt eftir að fara þarna aftur og þá með myndavél. Ég hlakka til að kanna hjólreiðastíga borgarinnar og sjá hvað ég get gert.

En aftur smá kvörtun í lokin. Að þessu sinni ætla ég ekki að kvarta yfir Reykjavíkurborg. Ég fór í sund í gær - í Laugardalslaugina og hafði bara gaman af. Synti einn kílómetra sem er svona mín tala þegar kemur að sundi. Þegar ég var búin að sitja um stund í heita pottinum fór ég upp úr. Þegar ég kom að skápnum mínum var kona þar í næsta skáp við hliðina með tvö börn. Hún og börnin voru búin að dreifa svoleiðis úr sér að það var eiginlega ekkert pláss fyrir neinn annan í kring. Fötin af öðru barninu lágu fyrir framan minn skáp og ég varð að standa svona með gleiðar fætur til að komast að skápnum. Ég gat hvergi lagt sundfötin frá mér því þeirra dót tók yfir allt páss fyrir framan svona sirka sex skápa. Þá var búið að setja handklæði á gólfið sem byrjaði hinum megin við skápinn minn og tók allt gólf pláss fyrir framan næstu fjóra skápa þar. Ég er að reyna þarna að klofast yfir hluti til að komast í minn skáp og að ná út úr honum því sem ég átti þar og að gekk ekkert of vel. Ég lít svona á konuna og er að velta því fyrir mér hvort hún ætli virkilega ekki að taka aðeins svona til í kringum sig þar sem hún hlýtur að geta séð að ég er að reyna að athafna mig þarna. En hún lítur bara á mig með einhverjum vandlætingarsvip eins og hún eigi heiminn og gerir ekkert. Hún biður heldur ekki börnin um að færa sig þótt þau séu augljóslega fyrir mér. Ég næ að koma mér í svona það helsta og hrúga svo afgangnum í fangið, klofa yfir barn á gólfinu og klára að klæða mig á hinum enda raðarinnar. Ég get skilið að þegar maður er með börn þurfi maður meira pláss, en það var engin afsökun fyrir því hversu mikið pláss þessi kona var búin að leggja undir sig, né að hún skyldi ekki einu sinni biðjast afsökunnar á því að hún gerði mér það hérumbil ófært að komast að mínu eigin dóti. En ég ætti að fara að skilja það að Íslendingar vilja helst ekki biðjast afsökunar á neinu. Fólk virðist líta á að það megi gera það sem það vill hvort sem það veldur öðrum ama eða ekki. Ég held að við ættum að senda alla til Kanada í æfingabúðir. Þar geta þeir lært almenna kurteisi og mannasiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hmmm...kannski eru þessar hraðahindranir steyptar (þótt þær séu reyndar öðruvísi á litinn en vegurinn - svona rauðar). Kannski er hávaðinn bara frá því þegar bílar fara of hratt yfir. Ég satt að segja veit það ekki (þótt ég gæti alveg labbað þarna út og skoðað). En hávaðinn er samt ótrúlegur þegar sumir bílar fara þarna yfir. Eins og um árekstur sé að ræða eða eitthvað.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.5.2011 kl. 17:04

2 Smámynd: Billi bilaði

Þú lést konuna komast upp með þetta í lauginni, og því mun það ekki lagast hjá henni eftir þessa ferð.

Billi bilaði, 22.5.2011 kl. 17:54

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þetta er alveg rétt hjá þér Billi. Maður á auðvitað að segja eitthvað.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.5.2011 kl. 18:14

4 identicon

Já einmitt það sem Billi sagði, vð þurfum bara að láta þetta fólk vita að það er ekki að haga sér sem skildi, ég hefði einfaldlega tekið kurteisu konuna á þetta og spurt hana hvort hún gæti ekki fært eitthvað af dótinu frá "mínum" skáp!  En það er alveg rétt hjá þér, við mættum alveg taka meira tillit.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 22.5.2011 kl. 20:34

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er ljóst að sum staðar þarf virkilega að halda niðri hraðanum. Það eru allt of margir sem "gleyma" sér.

Besta vörnin er sjánleg lögregla, en Ísland í dag hefur víst ekki efni á lúxus eins og löggæslu.

Næst best er myndavélaeftirlit, en það sama á við þar, Ísland í dag hefur heldur ekki efni á því.

Þriðji kosturinn eru þrengingar. Það er ódýr og virkur kostur. Varðandi hjólandi umferð er ekkert mál að hafa framhjáhlaup framhjá þrengingunni fyrir hjólandi umferð.

Versti kosturinn er upphækkanir, sérstaklega þessir stálplattar sem svo vinsælir eru. Þessir sveppir hafa sprottið upp um allt. Er hugsanlegt að vinsældir þeirra séu eitthvað tengdir pólitík? Er hugsanlegt að innflytjandi þesara platta sé í "réttum" flokk?

Þrengingar hafa verið teknar upp víða, en því miður telja verkfræðingarnir að nauðsynlegt sé að hafa einnig upphækkun í þeim. Það er alger óþarfi, þrengingin ein dugir til að halda niðri umferð.

Skelfilegastar eru þessar upphækkanir og stálplattar fyrir fólk sem þarf að fara með sjúkrabílum. Oftar en ekki eru verstu kvalir sjúklinga meðan á slíku ferðalagi stendur!

Gunnar Heiðarsson, 22.5.2011 kl. 21:12

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Átti að sjálf sögðu að vera " þrengingin ein dugir alveg til að halda niðri hraða"

Gunnar Heiðarsson, 22.5.2011 kl. 21:14

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, ef þeir gætu haft smá hjólaleið framhjá þrengingunni þá væri það alveg fullkomið. Og það er rétt, fólk keyrir of hratt. Í götunni þar sem ég vinn er 30 kílómetra hraði eins og á svo mörgum stöðum og af því að það eru líka tveir skólar við götuna er búið að setja upp hraðamælaskilti sem sýnir hversu hratt bílar keyra. Þeir eru þarna iðulega á 50. Ekki mikill hraði einn og sér en ef miðað er við að þarna eru bílarnir að keyra 20 kílómetrum yfir hámarkshraða sem er aðeins 30 þá eru hlutföllin ansi slæm.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.5.2011 kl. 08:26

8 identicon

Sniðug leið sem er svolítið notuð hér til að hægja á umferð eru hraðatengd umferðaljós. Það kemur semsagt rautt ljós ef bíll ekur yfir hraðamörkum og þá neyðist bílstjórinn til að stoppa! Það virkar betur en hraðamælaskilti sem alveg er hægt að loka augunum fyrir ef það er ekki tengt myndavél!!

Rut (IP-tala skráð) 23.5.2011 kl. 20:03

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ah, brilljant.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.5.2011 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband