Þetta dettur bara allt saman

Er þetta ný árátta hjá fótboltaþjálfurum og -leikmönnum að koma sögninni 'detta' inn í öll viðtöl? Var að lesa grein í Fréttablaðinu um sigur KR á FH (sem ég er sátt við enda gamall Vesturbæingur - nú er ég hverfislega séð Þróttari) og þar sagði þjálfari KR, Rúnar Kristinsson: "Við féllum aðeins til baka eftir að fyrsta markið datt fyrir okkur...." Þegar svo var talað við Ólaf Pál Snorrason leikmann FH sagði hann: "Þetta datt bara með þeim í kvöld..." Og þetta segir hann rétt eftir að hann hafði sagt: "Mér fannst við eiga meira skilið út úr þessum leik og sumt féll bara ekki með okkur..." Hvers lags málleysa er þetta? Markið datt. Þetta datt með þeim. Er sem sagt sögnin 'detta' tískusögnin í ár? Sögnin 'falla' virðist ekki passa eins illa þarna inn enda talað um að falla í farveg o.s.frv. - en detta! Kannski er þetta annars bara eðlilegt. Fótboltamenn eru sídettandi, oft af ásettu ráði, og kannski er þessi sögn bara öllum svona ofarlega í huga þess vegna. Hún dettur bara inn þegar síst skyldi! Mikið sakna ég þess annars að spila fótbolta. Vildi að hér væri áhugamannadeild eins og í Vancouver.

Tek annars eftir að þá sjaldan sem ég blogga þessa dagana þá skammast ég í íþróttamönnum eða íþróttafréttamönnum. Það er svo sem ekkert skipulagt. Er ekki í neinni herferð gegn þeim (var reyndar í herferð um að þeir skrifuðu um hokkí), bara hefur verið þannig að sumt pirrar meir en annað. Er annars orðin leið á því að skammast í blogginu. Ætla að reyna að skrifa bara um skemmtilega hluti, og skrifa oftar. Á samt áður en að því kemur eftir að skammast pínulítið út af almennri umferðarmenningu, og þá sérstaklega fólki sem tekur ekki tillit til annarra. Geri það bráðum og hætti svo að skammast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hmm það er svona áhugamannafótbolti hér, FC... eitthvað nafn alltaf, en kannski er það bara í karlaheiminum, ég veit ekki!

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 26.6.2011 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband