Vetrarólympíuleikarnir 2018 í Pyeonchang

Borgin Pyeonchang í S-Kóreu mun halda Vetrarólympíuleikana 2018. Aðeins þurfti eina umferð í kosningu til þess að velja og ég held það sé bara í fyrsta sinn sem það gerist. Hreinan meirihluta þarf til að fá leikana og vanalega þarf tvær umferðir. Kóreumenn þóttu líklegastir fyrir kosninguna í dag enda hafa þeir tvisvar áður boðið í leikana og töpuðu í bæði skiptin naumlega. Þeir töpuðu með einungis fjórum atkvæðum gegn Sochi þegar kosið var um leikana 2014 og með þremur atkvæðum fyrir Vancouver þegar kosið var um leikana 2010. Heppni fyrir mig að þeir unnu ekki.

Kóreubúar eru geysilega sterkir í skautaíþróttunum (nema hokkí) og stóðu sig með afbrigðum í Vancouver. Þeir hafa einnig verið á uppleið á snjóbrettum og frjálsum skíðagreinum (freestyle skiing - man ekki hvað það kallast á íslensku), en minna ber á þeim í alpagreinum og norrænum greinum. En þeir eiga ábyggilega eftir að standa vel að þessum leikum.

Ég horfði á auglýsingamyndböndin fyrir borgirnar þrjár og fannst athyglisvert að það var eins og Kóreumenn hefðu farið í skóla hjá VANOC (Vancouver Olympic and Paralympic Organizing Committee). Myndbandið var keimlíkt myndbandinu sem við sýndum sjálfboðaliðum okkar þegar þeir komu í fyrsta viðtal og lagið sem spilað var undir hljómaði ekki ólíkt heldur. Mér finnst þetta bara gott mál. Sýnir að þeir læra af þeim bestu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband