Björninn ógurlegi

Ég sá einmitt minn fyrsta og eina Grizzly björn í Yellowstone þjóðgarðinum fyrir átta árum. Var þá í öruggri fjarlægð enda björninn ekki aðeins hinum megin við gljúfur heldur einnig langt uppi í hlíðinni. Ég sá glampa á eitthvað gyllt, greip kíkinn og viti menn, grizzly björn. Ég var í skýjunum enda æðislegt að sjá dýr í sinni eiginlegu náttúru en ekki í dýragörðum. Þetta var held ég daginn eftir að ég sá minn fyrsta björn (fyrir utan nokkra Bjössa sem ég hef þekkt um ævina)en sá var svartbjörn og hann sá ég miklu nær. Í sömu ferð sá ég líka úlf sem ekki var síður magnað, fyrir utan auðvitað sléttuúlfa, vísunda, alls kyns hreindýr og frændur þeirra, o.s.frv. En birnirnir og úlfurinn voru hápunkturinn.

Þegar maður er á göngu í bjarnalandi er það regla númer eitt, tvö og þrjú að búa til mikinn hávaða, hvort sem er með því að syngja, kalla eða hengja á sig bjarnarbjöllu. Það er ekkert verra en að koma birni að óvörum, nema einmitt það að koma birni með húna að óvörum, sem var einmitt það sem gerðist í þessu tilviki sem frétt mbl segir frá. Eins og aðrar skepnur gera birnir allt það sem þeir geta til að vernda húna sína og þeir myndu yfirleitt ekki ráðasta á menn nema þeir teldu sér ógnað. Það er mjög sjaldgæft að birnir ráðist á menn í leit að mat. Í einni göngunni sem ég fór í í Yellowstone var skilti við upphaf stígsins þar sem sagt var að ónvenju mikið væri um birni á svæðinu og því skyldu allir skrá sig í bók áður en þeir héldu á fjallið og eins væri nauðsynlegt að vera með bjarnarbjöllu. Þegar við skráðum okkur voru aðeins tvö nöfn í bókinni fyrir þennan daginn, og samt mættum við fjölda manns á leiðinni. Ég skildi aldrei af hverju þetta fólk skráði sig ekki inn. Það er nú ekki svo erfitt og er öryggisatriði. Ef maður skilar sér ekki þá er farið að leita. Einnig fannst mér merkilegt að við mættum aðeins einum hóp með bjöllu. Hvað er fólk að hugsa? Vill það láta ráðast á sig? Það hefði nú verið í lagi ef fólkið hefði þá sungið eða gert eitthvað til að vekja á sér athygli en við gengum fram á nokkra hópa sem við heyrðum ekkert í fyrr en við gengum næstum í flasið á þeim. Hvað ef við hefðum verið björn? Þetta með sönginn er svo sem auðvelt í upphafi ferðar en ég veit af reynslu að stundum er maður orðinn of þreyttur í lok langrar göngu að maður vill bara labba einn með hugsunum sínum og talar kannski ekkert eða lítið við samferðamenn sína. Þá kemur sér nú vel að vera með bjölluna hangandi á sér sem sér um þetta fyrir mann.

Það er annars fyndið að enska orðið 'grissly' og þar af leiðandi íslenska þýðingin 'grábjörn' vísa til grárra hára sem finnast í feldi bjarnarins, en auðvitað er hann ekkert grár. Grizzly birnir eru af ætta brúnbjarna enda er hann brúnn og jafnvel gylltur, alla vega í sól. Þessi sem ég sá var gylltur. Það er því mjög skrítið að vísa í brúnan björn sem grábjörn. Sagan segir annars að vísindamaðurinn sem gaf birninum latneska heiti sitt hafi misskilið orðið grizzly sem grisly en það þýðir ógurlegur eða hræðilegur - sem mér finnst reyndar passa betur en grizzly - grár. Björninn ógurlegi er nefnilega virðulegt of flott nafn sem hæfir þessari fallegu en ógnvekjandi skepnu. 

  


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein hjá þér en númer eitt, tvö og þrjú er að vera vopnaður í bjarnarlandi. Í Yellowstonespark þar sem venjulegir túristar eru þá er ekki hægt að fara fram á það en hafir þú búið í virkilegu bjarnarlandi eins og Alaska þá verður þér vísað í burt að hættusvæðum nema þú sért vopnaður og stangaveiðimenn verða að bera Byssu á meðan þeir eru að veiða í ám.

Birnir hafa étið  bæði konur og menn og þekktir fyrir það að elta konur sem þeir finna blóðlykt af. Ég var eitt sinn með dætrum mínum þrem að veiða í makindum mínum við á eina nálægt heimili okkar í Alaska en þá kom veiðivörðurinn og benti mér á að fara heim með börnin og koma ekki aftur nema vopnaður skammbyssu af stærð Magnum 44 eða afsagaðri haglabyssu. Birnir eru einu dýrin sem eru réttdræpir utan við venjulegan veiðitíma og það á alltaf við hvítabirni. Stærsti björninn þ.e. Kodiak björninn er ekki endilega grimmastur en eitt högg frá honum er æði hættulegt enda er hann yfir 2 metra.

Valdimar Samúelsson, 8.7.2011 kl. 18:28

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Var að fatta að þú ert í Kanada ef ég má spyrja. Hvar ert þú.

kv.

Valdimar Samúelsson, 8.7.2011 kl. 18:33

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Er reyndar ekki lengur í Kanada - nýflutt heim. Var í Winnipeg í fjögur ár og í Vancouver í átta ár. Ekkert um birni í Manitoba nema auðvitað ísbjörninn í norðurhlutanum, en í Vancouver fengum við birnina inn í bæ. Þar var hins vegar ekkert um að birnir réðust á fólk en þeir eiga það til að grípa litla hunda og ketti. En það á aðallega við um í nágrenni borganna auðvitað. Annars er ekki mikið um að birnir ráðist á fólk í Kanada, kannski tvær árásir á ári sem er ekki mikið miðað við nálægð manna og dýra.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.7.2011 kl. 00:02

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

En bíddu, þú segir að birnir séu einu dýrin sem eru réttdræp fyrir utan veiðitíma. Hvað með cougarinn? Það hlýtur að mega skjóta hann ef maður er í hættu. Þeir eru hræðilegar skepnur sem einmitt veiða menn ef þeir eru svangir.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.7.2011 kl. 00:04

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Já líklega er cougarinn réttdræpur í vörn (þegar ég segi réttdræpur með Björninn þá á það við í vörn) en við vorum ekki með cougar upp í Alaska og ekki viss um hvað hann fór langt norður eftir í BC. Úlfurinn var hinsvegar oft illur og ef þeir komust inn í þorpin þá var voðinn vís fyrir sleðahundanna sem aðra. Það er flott að vera í Vancouver eins á eyjunni. 

Valdimar Samúelsson, 9.7.2011 kl. 05:36

6 identicon

Fjallaljónið er amk í fjöllunum í og kringum Whistler skíðasvæðið, margir fjallahjólamenn sem "týnast" þar og svo finnast beininn þeirra!  Í einni skíðaferðinni minni þangað sagði hótelstarfsmaður okkur líka frá björnunum og að á mörgum trjám á svæðinu væru för eftir klær þeirra.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 9.7.2011 kl. 15:37

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þegar þú segir fjallahjólamenn þá kom ég þarna fyrir tveim árum um sumar en þá var í gangi fjallahjóla keppni en þeir komu brunandi niður að ég held skíðabrekkur á svoleiðis fulla gasi en það var gaman að fylgjast með því. Það eru þá líklega fjallaljón einhvað upp með ströndinni svo það er einsgott að vara sig því þau eru snögg að stökkva frá sínum leynistað.  

Valdimar Samúelsson, 9.7.2011 kl. 22:19

8 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Fjallaljónin eru einmitt töluvert í kringum Whistler og Squamish en sjást síður nálægt Vancouver þótt það þekkist. Ekki er þó mikið um að þau ráðist á menn því vanalega þarf kötturinn að vera orðinn svangur til að ráðast á svo stóra bráð. Einn var t.d. á ferð á The Chief þar sem fjöldi manns ganga á hverjum degi. Hann sætti lagi og greip hund sem gekk fram hjá en lét mannfólkið í friði. Daginn eftir fannst hann og var skotinn. Ég hugsa að hótelstarfsmaðurinn þarna hafi nú eitthvað ýkt með það að ljónin taki oft fjallahjólamennina því á þeim átta árum sem bjó í Vancouver fundust aldrei slík bein, þótt það hafi kannski einhvern tímann gerst. En birnir eru þarna út um allt og eiga það meira að segja til að klifra upp á þriðju hæð í húsum fólks. Flott að koma úr sturtunni og mæta birni - á þriðju hæð.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.7.2011 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband