Tölum endilega íslensku

Í þessari slúðurfrétt um Ashley Cole stendur:

Hún segir að Ashley hafi ekki hugmynd um hvernig eigi að tríta konur.

Ég vil benda mbl.is á 29. grein fjölmiðlalaganna þar sem segir:

Fjölmiðlaveitur skulu eftir því sem við á efla íslenska tungu. 

Sögnin 'tríta' er ekki til í íslensku og það er til skammar að vefmiðill sem tengist fyrrum blaði allra landsmanna skuli lúta svo lágt að láta svona sjást á (skjá)prenti. Manneskja sem ekki hefur betra vald á íslenskri tungu en þetta á ekki að starfa sem blaðamaður.

Hvernig er það annars, er stétt prófarkalesara útdauð? Finnst fjölmiðlum ekki lengur nauðsynlegt að skrifa fréttirnar á góðri íslensku? Ef svo er, eru þá ekki fjölmiðlarnir að bregðast hlutverki sínu og skyldum? Skyldurnar eru einmitt mjög skýrt sett fram í fyrstu setningu 29. greinar fjölmiðlalaga sem skráð er hér að ofan. Það er ekki að efla íslenska tungu að skrifa tríta. Þetta er forljót sletta sem er ekki einu sinni nauðsynleg. Það er ekki eins og okkur vanti íslensk orð. Hér mætti t.d. skrifa: Hún segir að Ashley hafi ekki hugmynd um hvernig koma eigi fram við konur. Mér finnst fyrirgefanlegt að nota enska slettu þegar ekkert gott íslenskt orð er til um fyrirbærið en í svona dæmum er hreinlega engin afsökun.

Það virðist vera orðið alveg leyfilegt í blöðum að þýða fréttir beint úr ensku án þess að leggja neitt í þýðinguna sjálfa. Slorblaðið Séð og heyrt er besta dæmið um þetta. Þar er enginn metnaður fyrir góðri íslensku og lesa má setningar eins og að þessi og hinn 'púlli dressið' algjörlega. Mér finnst endilega að þeir tali líka um að tana og deita, eða er ég farin að rugla við það sem ég heyri frá gelgjunum í heita pottinum?

Ég bjó tólf ár í enskumælandi landi og ég geri mér fyllilega grein fyrir að það skín stundum í gegnum það sem ég segi og skrifa. (Ég er að vinna í að laga þetta og geri ráð fyrir að þetta batni þegar ég er búin að vera hér aðeins lengur.) En ég held svei mér þá að ég sletti mun minna en fjöldi Íslendinga sem aldrei hefur búið erlendis. Munurinn er kannski líka sá að þegar ég sletti er það ýmist óvart eða af því að ég finn ekki íslenska orðið, en margir hér sletta af því að þeir halda að það sé flott. Það skal enginn segja mér að fólkið sem segist vera að tana muni ekki hvernig á að segjast vera í sólbaði.

Munið kæru landar: Það er ekki hallærislegt að tala íslensku. 


mbl.is Ashley Cole svaf hjá flugfreyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo innilega sammála!

rakel (IP-tala skráð) 18.7.2011 kl. 12:50

2 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Gott hjá þér - það er orðin veruleg nauðsyn þess að bloggarar finni að notkun blaða- og fréttamanna á íslenskri tungu..........

Eyþór Örn Óskarsson, 18.7.2011 kl. 19:39

3 Smámynd: Landfari

Talandi um slettur. Ég var að hlusta á Útvarp Sögu um daginn sem væri svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir óborganlega fyndið atriði sem kom upp.

Þannig var að Eiríkur Stefánsson var gestur í þætti hjá Höskuldi Höskuldssyni sem er reyndar frekar þreytandi að hlusta á því slettir svo mikið að það hálfa væri nóg. eftir hverja slettuna af annari kom svo "brein drein" ítrekað hjá honum. Eiríkur soppaði aðeins við  þetta og spurði svo: "Hvernig segirðu þetta á íslensku?" Höskuldur varð svo kjaftstopp að ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins. Á endanum varð hann að viðurkenna að hann bara vissi það ekki. "Brein drein" þýddi bara "brein drein".

Ég hef nú ekki heyrt í Höskuldi eftir þetta en mér finnst það nú algert lágmark að þeir sem sletta viti nú hvað hvað þeir eru segja.

Landfari, 18.7.2011 kl. 21:13

4 Smámynd: Dexter Morgan

Fyrirsögnin þín ætti að vera: " Tölum íslensku, endilega", svona til að hafa allt á hreinu.

Dexter Morgan, 19.7.2011 kl. 00:02

5 Smámynd: Dexter Morgan

:)

Dexter Morgan, 19.7.2011 kl. 00:02

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Eyþór, til þess erum við nú. ÞJóðarsálin ekki lengur í útvarpinu (eða það held ég) og bloggið tekið við sem vettvangur kvartana. Það góða við moggann hins vegar er að af og til lesa þeir bloggin og laga oft það sem þeim er bent á. Þeir mega alveg eiga það. Þess vegna er það ekki gagnslaust kvart út í loftið þegar maður skrifar á þessum vettvangi.

Landfari, sammála.

Dexter, ég hélt þú ætlaðir að bjóðast til að redda þessu fyrir mig... vink vink.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.7.2011 kl. 18:32

7 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Þú verður að tengja bústerinn við antennuna svo tívíið virki heyrði ég einn góðan mann segja við aldraðan föður sinn, en sá gamli hristi bara hausinn, of course, enda engu nær.

Bergljót Gunnarsdóttir, 20.7.2011 kl. 13:47

8 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hahahaha, frábært. En þetta dæmi sem þú gefur er reyndar mjög mikilvægt því það gleymist stundum að það tala ekki allir ensku. Þeir sem eru um sjötugt fengu t.d. alls ekki allir enskukennslu í skólum og hvernig eiga þeir að skilja hvað fólk segir sem slettir svona. Ansi harkalegt ef fólk verður að fara að læra ensku svo það skilji íslensku barnabörnin sín.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.7.2011 kl. 18:57

9 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Sammála því, en samt eru flestir með einhverja kunnáttu, en þegar komið er út í að íslenska svona hrátt og beint, fer það líka algerlega fyrir ofan garð og neðan.

Ég held ég hafi einhverntímann áður sagt söguna af ömmu minni og afa, hérna á blogginu, en hann var kornungur prestur í Íslendingabyggðum í North Dakota í kringum 1910. Þau gerðu sér að leik að búa til svona hálfgildings ensk-íslensku sem þau töluðu síðan saman.

Eitt sinn man ég að hann kom hlaupandi út úr vinnuherberginu sínu með fullt af bréfarusli í fanginu og sagði  "Where is the russelfate" og hún svaraði að bragði, "in the skape".

Bergljót Gunnarsdóttir, 20.7.2011 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband