Nýtt orð fyrir 'app' - 'notra'
3.10.2011 | 13:35
Á sunnudagsmorguninn var ég í viðtali hjá Sirrý á Rás 2 og talaði þar um enskuslettur. Skipti í tvo hópa þeim slettum sem eru alveg óþarfi af því að til eru ágæt íslensk orð sömu merkingar, og hinum sem notuð eru vegna þess að orð vantar í íslenskuna. Ég tók sem dæmi um hið síðarnefnda orðið 'app' sem notað er um smáforrit í snjallsíma, iPad og fleira. Ekkert gott íslenskt orð er til um þetta og engar hugmyndir hafa komið fram sem teljast mega nýtilegar. Orðið er svo sem ekki slæmt. Það rímar við orðið happ, það beygist upp á íslenskan máta, fær meira að segja ö í fleirtölu svo hljóðvarpið er í fullri notkun. En samt líkar þetta ekki öllum og kannski skiljanlega - það hljómar svolítið undarlega.
Eftir að N1 fór að auglýsa öppin sín með setningunni: 'Appaðu þig í gang' varð óánægjan enn meiri og hafa margir kvartað. Til dæmis skrifaði Eiður Guðna ágæta grein um málið og í framhaldi af því hafði Pressan.is samband við Íslenska málstöð í leit að betra orði. Þar var þeim sagt eins og er að ekkert gott íslenskt orð sé til um fyrirbærið og ákveðið var að auglýsa eftir orði.
Ég er í orðanefnd máltækni á Íslandi og við ræddum þetta orð fyrr í sumar. Þar kom samstarfskona mín Sigrún Helgadóttir með uppástunguna 'notra'. Það er veikt kvenkynsorð og beygist væntanlega: notra, notru, notru, notru. Og í fleirtölu: notrur, notrur, notrum, notra (ætti í raun að vera notrna en þetta n í eignarfalli, fleirtölu veikra kvenkynsorða er stundum ónothæft). Þetta myndi að sjálfsögðu ekki hjálpa N1 og þeirra auglýsingaherferð enda nota þeir orðið þar sem sagnorð en ekki nafnorð og fylgja þar enskri nýyrðasmíð þar sem hægt virðist að búa til sagnir úr hvaða nafnorði sem er. Slíkt er ekki eins frjálslegt í íslensku.
En sem sagt, orðið 'notra' er ein uppástungan og að mínu mati sú langbesta. Ef á að taka upp nýyrði fyrir 'app' þá myndi ég segja að það ætti hikstalaust að vera orðið 'notra'. Spurningin er samt eftir sem áður sú sem ég nefndi í útvarpsþættinum: Er það orðið of seint? Er appið orðið of sterkt í máli okkar?
Athugasemdir
Tæknilega séð er til orð yfir 'App', 'App' er stytting á orðinu 'Application' eða 'Software application' sem er 'Program' eða 'Computer Software' sem er Hugbúnaður eða Forrit á íslensku.
Fyrir mínar sakir sé ég mig ekki fara nota orðið 'Notra' yfir eitthvað sem er ágætlega skilgreint á Íslensku nú þegar, ef út í það yrði farið að finna eitthvað orð fyrir þetta þar sem styttingin á Íslensku orðunum eru ekkert sérstök 'Hug' eða 'For' þá kysi ég frekar að sjá eitthvað sem tengist hlutnum frekar en eitthvað orð sem virðist valið af handahófi.
Hér getur þú lesið þér til nánar um skilgreiningu á hugbúnaði.
http://en.wikipedia.org/wiki/Computer_software
Halldór Björgvin Jóhannsson, 3.10.2011 kl. 15:12
App er ekkert orðið of sterkt held ég. Orðið "notra" er ágætt þrátt fyrir að ég skilji vel andmæli Halldórs. Notran er notuð til að kveikja á hugbúnaðinum eða forritinu. Símnotrur halda örugglega eitthvað áfram að þróast, en verða sennilega úreltar áður en varir, rétt eins og faxið og vasadiskóið. Ég er alltaf að reyna að þróa notru sem gæti orðið mjög vinsæl fyrir einmanna fólk á kaffihúsum. Hún á að heita "hamingja." :)
Svanur Gísli Þorkelsson, 3.10.2011 kl. 16:15
Halldór, hvað meinarðu nákvæmlega með því að segja að tæknilega sé til orð yfir 'app'? Ertu að meina á íslensku? Hvaða orð er það þá því hingað til eru allir aðrir sammála um að það sé ekki til orð yfir það á íslensku, nema bara tökuorðið 'app'. Og application er ekki alltaf þýtt á sama hátt. Stundum þarf að þýða það sem forrit, stundum sem hugbúnað, stundum sem verkbúnað, stundum eitthvað annað. Málið er að 'application' á ensku er mjög vítt hugtak og eins og er er ekkert íslenskt orð sem nær algjörlega yfir það heldur.
Það er líka mikill misskilningur hjá þér að af því að 'app' er stytting á 'application' þá ætti íslenska orðið fyrir það að vera stytting á 'hugbúnaði' eða 'forriti'. Það gengur augljóslega ekki. Enginn myndi venjast því að nota 'for' eða 'hug' fyrir 'app'. Enginn. Það eru nefnilega alls kyns lögmál sem liggja að baki því hvað gengur og hvað gengur ekki sem nýyrði. 'Notran' er heldur ekki valin að handahófi - ég útskýri hér í pistlinum hvað liggur að baki orðinu.
Ég kíkti á wikipedia greinina. Ekkert þar breytir neinu fyrir notkun á orðinu 'app'.
Svanur, ég held að þú sýnir vel þarna hversu þjált þetta orð er í raun. Takk fyrir það. Lýst líka vel á notruna þína. Veitir ekki af að dreifa smá hamingju.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.10.2011 kl. 16:58
Halldór, hvað meinarðu nákvæmlega með því að segja að tæknilega sé til orð yfir 'app'? Ertu að meina á íslensku?
Já, ég er að meina á Íslensku.
Það er líka mikill misskilningur hjá þér að af því að 'app' er stytting á 'application' þá ætti íslenska orðið fyrir það að vera stytting á 'hugbúnaði' eða 'forriti'.
App er stytting á orðinu application þegar kemur að hugbúnaði, App er í raun ekki orð heldur stytting á orði. Ég var ekki að halda því fram að það ætti að nota 'for' eða 'hug' (tók fram að það væri ekkert sérstakt að nýta þær styttingar), að mínu mati tel ég það óþarfi að finna/búa til orð yfir styttingu á orði þar sem hægt er að nota fín íslensk orð (forrit eða hugbúnaður).
'Notran' er heldur ekki valin að handahófi - ég útskýri hér í pistlinum hvað liggur að baki orðinu.
Eins og ég sagði, virðist....
Enginn myndi venjast því að nota 'for' eða 'hug' fyrir 'app'. Enginn.
Það að nota for eða hug sem styttingu eins og app er ekkert sérstakt (tapaðist smá texti þarna inn á milli í fyrra innleggi og því hefur það hugsanlega ekki skilast vel), en það sem ég er að segja að það gæti orðið jafn erfitt fyrir liðið að venjast því að nota orðið notra alveg eins og for eða hug fyrir app.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 3.10.2011 kl. 18:15
Hm, já, þetta virðist svolítið snúið orð til að snara yfir á okkar ástkæra. Notra gæti komið til greina, en er ekki nægilega þjált held ég eða grípandi til að geta fest sig í sessi hjá yngra fólkinu (sem eru fjölmennustu notendurnir). Hvað með nýsla (rýmar við sýsla), sem getur vísað bæði í nýtt og að nýtast, eða notrit, sem vísar í forrit og notagildið!
Eða hreinlega að taka orð sem hefur aðra merkingu í málinu en getur fengið aukamerkingu, t.d. orðið þræll! Ekki slæmt að tala um að hafa fengið sér flottan þræl á símann! Eru ekki þessi app einmitt gerð til að einfalda okkur lífið-og í þeim skilningi að þræla fyrir okkur!
Annars mætti líka veiða dautt orð úr fortíðinni og lífga við, svona eins og gert var með orðið sími...renndu í gegnum orðasafn íslendingasagnanna og ég er viss um að þú dettur um eitthvað gott og gilt orð sem tími er kominn til að dusta rykið af og gefa nýja merkingu!
Rut (IP-tala skráð) 3.10.2011 kl. 19:14
eh...rímar!
Rut (IP-tala skráð) 3.10.2011 kl. 19:15
Eða hreinlega að taka orð sem hefur aðra merkingu í málinu en getur fengið aukamerkingu, t.d. orðið þræll!
Ætli það væri ekki æskilegast að nota þræll þá um tækið sjálft þar sem það sér um sjálfa vinnuna 8), forritið er skipanasettið sem segir tækinu hvað það á að gera.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 3.10.2011 kl. 19:32
ókei Halldór, það hefur greinilega verið einhver misskilningur okkar á milli. Ég held reyndar að 'app' sé komið til að vera - var bara að segja að mér finnst 'notra' besta orðið sem ég hef heyrt hingað til. Reyndar er það svo að ekki hrífst fólk af öllum orðum fyrst þegar þau koma en svo ná þau samt að festa sér sess. Sem dæmi voru ekki allir hrifnir af sögninni 'vista' fyrst þegar hún kom fram en hún er býsna mikið notuð núna. Málið er að maður veit eiginlega aldrei fyrirfram hvað orð ná fótfestu. Þá er eina ráðið að prófa.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.10.2011 kl. 19:45
Reyndar er það svo að ekki hrífst fólk af öllum orðum fyrst þegar þau koma en svo ná þau samt að festa sér sess.
Það er rétt 8)
Það sem ég hef aðalega út á orðið Notra að segja er, að það lýsir ekki hlutnum, það er ekkert samhengi við t.d. hugbúnað eða forrit. Ef þetta væri alveg nýr hlutur sem væri ekki með nein tengsl við neitt sem til er í dag þá væri það annað mál.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 3.10.2011 kl. 21:13
Orðið fyrir app er til og er forrit. Það er engin ástæða að sækja vatnið yfir lækinn og koma með orð eins og notra sem enga merkingu hefur að því er virðist. Forrit er gott orð og lýsandi og hefur beina skírskotun til sömu notkunar á tölvu.
Forritari (eða viltu nota orðið notrari?) sem skrifar forrit fyrir síma getur að því að ég best veit notað mikið af sama kóða til að skrifa forrit fyrir tölvu svo tengingin er sterk þar á milli. Slíkt á að minnsta kosti við um iPhone og Macintosh.
Orðið app er komið frá Apple og er stytting á application eins og komið hefur fram. Sjá Orðabanka Íslenskrar málstöðvar: http://www.ordabanki.hi.is/wordbank/terminfo?idTerm=342113&FirstResult=0
App Store er vefverslun Apple fyrir forrit á Macintosh tölvur og iPhone síma. Til að kaupa forrit er notað forritið App Store og inni í forritinu iTunes er aðgangur að App Store sem selur forrit fyrir iPhone síma. Í guðs bænum ekki reyna að íslenska App Store með Snotru búð eða Snotru verslun því fyrirbærið heitir App Store og er ekki þýðanlegt frekar en að nafn þitt yrði Christin á ensku. :-)
Góðar stundir.
Nonni (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 09:46
Orðið app er komið frá Apple og er stytting á application eins og komið hefur fram.
Þetta er ekki alveg rétt hjá þér, þessi stytting á þessu orði hefur verið notuð yfir forrit lengi, löngu áður en Ixxx væðingin byrjaði hjá Apple, application var notað yfir forrit á bæði PC og Mac (ásamt í raun öllum öðrum stýrikerfum, og tölvutýpum) í gamla daga, einnig er orðið Applet sem er runnið undan stoðum Sun og var það stundum stytt í app, einnig var eitthvað sem var kallað "Killer app" John Dvorak kom með "killer app" þegar hann skrifaði um Visicalc í PC Magazine, í kringum 1980., Apple er aftur á móti ástæðan fyrir því að það er vel þekkt af fólki sem er ekki í tölvugeiranum (eins og þú nefnir t.d., App store) og heldur að það sé munur á app, application og program.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 4.10.2011 kl. 18:47
Illa útskýrt en ég meinti í notkun orðsins yfir forrit á síma. Orðið app er að sjálfsögðu mikið eldra, það er öldungis rétt hjá þér. :-)
Nonni (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 19:58
Það er samt bara ekki rétt hjá þér Nonni að application sé bara forrit. Það hefur miklu víðari merkingu. Ég hef rætt þetta við tölvuorðanefnd sem hefur gefið út tölvuorðasafnið og þau hafa sagt að ekkert orð sé til sem nær yfir merkinguna og hafa ekki getað fundið nýtt. Ég er ekki tölvufræðingur og veit því ekki alltaf hver munurinn er á forriti, hugbúnaði (sem tölvufræðingar segja mér að sé ekki það sama) og verkbúnaði en ég treysti því fólki sem hefur atvinnu að þessu og þau segja mér að forrit sé ekki nógu gott fyrir application því það nái aðeins fyrir hluta merkingarinnar.
Og það að hægt sé að hunsa notruna á þeirri forsendu að hún hafi enga merkingu...hvaðan heldurðu að forrit komi? Það lýsir nú ekki merkingu fyrirbærisins. Fullt af orðum sem til eru í íslensku byrjuðu sem óljós tengsl við annað orð og þróuðust síðan. Orðið tölva er t.d. samsetning á orðunum tala og orðinu völva. Það var sem sagt bara búið til úr tveim orðum, annað sem var tengt notkuninni, hitt ekki. Þannig að þetta eru ekki nógu góð rök til að hafna einhverju.
En það er samt gott að heyra rök ykkar alla. Það var einmitt það sem ég var að kalla eftir. Hvort sem þið eruð með eða á móti orðinu. Enda bara ein hugmynd af fjölmörgum sem komið hafa fram.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.10.2011 kl. 21:38
Vil annars benda á að Sigrún sagði mér í dag að orðið notra væri ekki frá henni komið upphaflega. Man ekki nafnið á þeim sem stakk upp á því (skrifaði það á blað í vinnunni og er ekki með það núna) en þegar ég kem í vinnuna mun ég vísa í rétt nafn.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.10.2011 kl. 21:39
Sá sem fyrstur stakk upp á orðinu 'notra' var Þosteinn Sævarsson. Kann ég honum þakkir fyrir.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.10.2011 kl. 09:11
Hver er þá skilgreiningin á hugbúnaði, forriti og verkbúnaði? Það þætti mér forvitnilegt að sjá. Íslensk skilgreining og munurinn á milli. Svona eins og ég sé fimm ára takk. ;-) Ekki þýðingu úr ensku.
Í mínum huga er forrit eitthvað eins og 'app' eða application. Word, Filemaker, Safari og svo framvegis. Eitthvað sem er skrifað áður, forskrift sem unnið er með eða eftir. Hugbúnaður er þá forrit, stýrikerfi og þess háttar og gæti jafnvel átt við hluti eins og php skriftur eða javascript skriftur líka. Verkbúnaður hef ég aldrei heyrt áður en hef hins vegar heyrt um vélbúnað.
Skv Orðabanka íslenskrar málstöðvar er verkbúnaður annað orð yfir application. Í mínum huga er þetta eitthvert aukaorð sem varð að fara inn af því Skúli fúli var ósáttur við einhverja aðra þýðingu og heimtaði að sín þýðing yrði með líka...! Kjánalegt þar sem orðið ætti frekar heima í verkfræði sem mælitæki. Ég sé þetta fyrir mér sem eitthvað tæki notað til landmælinga.
Svona sé ég hlutina fyrir mér.
Hvaða rök hefur tölvuorðanefnd fyrir því að forrit nái ekki yfir 'app'? Kannski eru þau of þröngsýn? Til hvers þarf nýtt orð? Til hvers að finna upp hjólið? Ég bara spyr?
Ég hef ekki unnið með 'app' nema á iPhone símanum mínum og ég sé engan mun á því og forriti.
Undir liggur vélbúnaður sem talar við stýrikerfi með viðmóti. Viðmót stýrikerfisins sýnir vissa hluta kerfisins og aðra ekki. Ofan á stýrikerfinu eru svo mismunandi forrit sem hægt er að opna og vinna í. Ég sé ekki hver munurinn er miðað við tölvu (vélbúnaður), stýrikerfi og forrit?
Sá sem býr til notru, yrði hann/hún þá notrari sbr. forritari???
Svanur Gísli segir „Notran er notuð til að kveikja á hugbúnaðinum eða forritinu. Símnotrur halda örugglega eitthvað áfram að þróast, en verða sennilega úreltar áður en varir, rétt eins og faxið og vasadiskóið“
Að mínu viti þá skilur hann ekki einu sinni hvað átt er við því hann talar um að notran kveiki á forriti. Hvað er notran, hvað er forritið? Ef við tökum dæmi úr iPhone er til forritið Safari fyrir iOS (stýrikerfi iPhone) rétt eins og fyrir Mac og Windows en Safari er vinsæll vafri rétt eins og Firefox. Hvað er þá notran í þessu tilfelli? Heitir Safari þá forrit á Mac og Windows en notra ef það er á iPhone? Samt erum við að tala í grunninn um sama hlutinn byggðan á sama grunnkóða sem leysir sama verkefnið en stýrikerfið er mismunandi.
Hver er munurinn á notru og símnotru???
Er þetta ekki orðið svolítið kjánalegt? :-)
Ég sé enga ástæðu til að flækja þetta meira en þarf og mér finnst orðið forrit lýsa þessu mjög vel (best). Hins vegar eru alltaf einhverjir sem finnst þeir verða að hoppa yfir lækinn til að fá sér sopa af vatni af því þeim finnst það svo „hipp og kúl“ að vera öðruvísi. Líklega sama fólkið og ekur um með þokuljósin kveikt í sólskini af því að því finnst það svo „hipp og kúl“. :-/
Nonni (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 01:14
Nonni.Þú flækir þetta allt of mikið fyrir þér. Fyrir flestum er App táknið á símskjánum sem þú ýtir á til að ræsa forritið.
Svanur Gísli Þorkelsson, 7.10.2011 kl. 11:35
Ef það er ekki að flækja málið að App sé tákn sem ræsi forrit, þá veit ég ekki hvað flækja er. :-)
Mér finnst ég einmitt vera að reyna að benda á að það þarf ekkert að flækja þetta með of mörgum orðum. Forrit nær einfaldlega yfir þetta. Þá ýti ég á táknmynd forritsins á skjánum og forritið opnast/fer í gang.
Nonni (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 20:46
Nonni, ef forrit er nógu gott orð, af hverju nota þá allir orðið 'app'? Er það ekki af því að fólk skilur app sem eitthvað annað en forrit? Og ef forrit er nógu gott orð fyrir application, af hverju segir fólkið í íðorðanefndinni, sem hefur valist þangað vegna sérfræðiþekkingar, að svo sé ekki? Af hverju ætti ég að trúa þér frekar en þeim?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.10.2011 kl. 18:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.