Fjallgöngur

Þegar ég bjó í Bresku Kólumbíu jókst áhugi minn á fjallgöngum til muna enda há og tígurfjöll víða í þessu fallega fylki. Fjallgöngur eru ákaflega heilbrigt áhugamál - maður kemst í gott form, fær nóg af tæru lofti, sér dásamlegt landslag og ef maður er í góðum félagsskap þá er þetta ákaflega góð leið til að styrkja vináttuböndin.

Eftir að ég flutti heim síðastliðið vor voru fjallgöngur eiginlega það eina sem ég leyfði mér um helgar því ég átti annars að vera að læra og klára ritgerðina mína. Sumarið fór því í það að skrifa en svo skaust ég í fjallgöngu af og til svo ég gæti haldið sönsum. En ég náði að ganga á nokkur fjöll þrátt fyrir að mikill tími færi í ritgerðina. Gekk t.d. á Þverfellshorn Esju tvisvar og Kerhólakambinn einu sinni. Fór á Keili, Helgafell í Hafnarfirði, Vörðuskeggja og svo fór ég í eina helgaferð yfir Heiðina háu, en þá var ég hvort sem var búin með ritgerðina og þurfti ekki lengur að hafa áhuga af tímaskorti.

Árið 2012 hefur byrjað af krafti í göngunum. Reyndar hef ég svo sem ekki farið á há fjöll en ég er hvort eð er að byggja upp þolið fyrir stærri afrek. Hef það sem af er þessum fyrstu þremur mánuðum farið á Esjuna, Helgafellin tvö í Hafnarfirði og í Mosó, Mosfellið, Úlfarsfellið, Þorbjörn og nú síðast Ingólfsfjall.

Þessa dagana ligg ég yfir kortin og bendi á fjöll sem mig langar að sigrast á. Og þegar vorar verða þetta vonandi stærri og meira krefjandi leiðir.Í sumar langar mig að ganga á Akrafjall, fara yfir Heljadalsheiði, Skjaldbreiður væri skemmtileg, Vífilsfellið er líka á listanum. Svo gæti ég vel hugsað mér að ganga Fimmvörðuháls í sólskini með útsýni en ekki í rigningu og þoku eins og ég gerði fyrir löngu. Og svo langar mig svakalega að ganga Laugaveginn. Og þetta er bara brot af því sem er á óskalistanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að sjá þig aftur hérna, og enn betra að þú ert virk í fjallgöngum, það væri gaman að geta skottast  með þér :)

Rut (IP-tala skráð) 26.3.2012 kl. 19:18

2 identicon

Hef heyrt að fjallaljón séu þarna á vappi í B-Kolombíu.er eitthvað hæft í því.?

Númi (IP-tala skráð) 26.3.2012 kl. 23:20

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Alltaf gaman að sjá þig á blogginu og ég tek heilshugar undir með Rut maður sér alltof lítið af þér því greinarnar þínar eru með því betra sem sést hér á blogginu.  Ég verð nú að viðurkenna að það er margt sem liggur betur fyrir mér en fjallgöngur, þó er EITT fjall sem er mitt markmið að fara á meðan ég get en það er BAULA í Borgarfirði.  Þegar ég var gutti, í sveitinni í gamla daga, þá horfði ég á þetta fjall með mikilli lotningu og einsetti mér þetta þá.

Jóhann Elíasson, 27.3.2012 kl. 07:50

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk Rut. Já, ég verð að fara að standa mig betur hérna. Hvernig er það annars, kemurðu heim í sumar? Það er orðið langt síðan við fórum saman í fjallgöngu. Við gætum annað hvort farið í eina auðvelda og tekið gríslingana þína með, eða þú sendir þau í pössun til systra þinna og við förum eitthað erfiðara.

Númi, já, þetta er alveg rétt hjá þér. Maður fer aldrei einn i fjallgöngu þarna nema maður sé á mjög fjölförnum stíg. Eitt sinn drap fjallaljón hund á algengum göngustíg. Held ég hafi gengið þar annað hvort deginum áður eða deginum á eftir.

Takk kærlega Jóhann. Já, ég hef einmitt aðeins hugsað um Baulu. Veistu hvort einhver góð gönguleið er upp á fjallið? Það virðist eitthvað svo illkleift.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.3.2012 kl. 18:21

5 identicon

jahá :)  ég get sagt svo mikið hér en ætla bara að segja fátt :)  Frábært hjá þér, þetta er svo gefandi og skemmtileg útivera.  Þú gætir, ef þú hefur ekki nú þegar gert það, fjárfest í nokkrum "fjalla"bókum til að fá hugmyndir og einnig til að sjá þá gönguleiðir á fjöllin, þó það þurfi ekki alltaf að velja þær gönguleiðir en stundum er gott að fá amk hugmynd.  Þær bækur sem eru mikið notaðar á mínu heimili eru; Fjöll á Fróni, göngul á 103 fjöll e. Pétur Þorleifsson og Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind e. Ara Trausta og Pétur.  Þessar bækur eru algjörar gullnámur. 

Þar sem þú ert búin að fara á Skeggja og Ingjólfsfjall þá ferðu létt með Vífilsfellið.  Og þar sem minnst er á Baulu hér, þá vil ég eitt segja um hana, hún er ekki öll sem sýnist ;)  

Þér er að sjálfsögðu velkomið að senda línu eða hringja ef það er eitthvað sem þú vilt spyrja um í sambandi við blessuð fjöllinn ... ég er samtals búin að ganga á 99 fjöll úr þessum bókum plús einhver sem ekki eru í þeim :)

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 18:32

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega fyrir það Hrafnhildur. Ég hef aðgang að einhverjum bókum og þyrfti einfaldlega að stúrera þær betur. Eru einhverjar sérstakar ferðir eða sérstök fjöll sem þú mælir með?

Kristín M. Jóhannsdóttir, 27.3.2012 kl. 20:54

7 identicon

Vífilsfell er mjög skemmtilegt, einn helst vegna bergsins efst á því og það getur verið flókið að finna kaðalinn sem leiðir þig á toppinn, bara gaman - ekki fara þetta í þoku ;) Fjallið kom mér á óvart.

Kirkjufell við Grundarfjörð, virkilega skemmtileg ganga, en alls ekki fyrir lofthrædda og ekki fara það í sudda eða dögg ... best ef það hefur verið alveg þurrt þann daginn.  Mæli með að taka einhvern með þér :)

Þyrill í Hvalfirði er ágætis ganga og einföld.

Sýrfell og Festarfjall bæði á Reykjanesinu og bæði standa þau varla upp úr umhverfinu en það er fáránlega gott útsýni frá þeim, það er svolítil keyrsa að þeim og mæli ég með að taka þau saman daginn í góðum rúnt um Reykjanesi í góðu veðri.

Er þetta ekki fínt í bili, góða ferð :)

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 18:55

8 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega. Frábært að fá þessar upplýsingar. Mig langar einmitt mikið á Kirkjufell en er svolítið lofthrædd.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.4.2012 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband