Ísbíllinn
17.5.2007 | 01:29
Þið hafið eflaust séð í bandarískum bíómyndum þar sem ísbíll keyrir um íbúðagötur og spilar eitthvert ömurlegt hringekjulag til að vekja athygli á sér. Börnin koma svo hlaupandi út úr görðunum til að kaupa ís á uppsprengdu verði.
Þetta er í alvöru svona, meira að segja hér í Kanada. Núna rétt í þessu heyrði ég einmitt í einum þessa bíla en mig langar ekkert í ís. Mér þykir ís ákaflega góður en það er samt ekki oft sem ég leyfi mér að kaupa slíkan munað. Á í nógum vanda með aukakílóin svo ég hlaði þeim ekki á með ís. Það sem er kannski merkilegast að ég skil ekki alveg hvernig svona verslun fer fram. Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum á fyrri sumrum að mig langar í ís þegar ég heyri í bílnum en ef ég er inni hjá mér þá hef ég ekki nægan tíma til að skella mér í skó, grípa nestið og hlaupa svo út í rétta át að bílnum. Einu skiptin sem ég hef reynt þetta hefur bíllinn verið horfinn. Ef ég er úti í garði þá er ég í skóm en vanalega ekki með veskið og þyrfti þá að byrja á því að hlaupa inn og sækja það og svo missi ég af bílnum. Einu skiptin sem ég hef hugsanlega getað verslað við svona bíl er þegar ég er á leiðinni eitthvert því þá er ég bæði með skó og veski. En það er svo stutt í kjörbúðina, þar sem ís er ódýrari, að það virðist heimskulegt að kaupa af ísmanninum. En einhver viðskipti hljóta að fara fram því annars væri ábyggilega löngu búið að leggja þessum bílum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.