Tónleikar á ýmsum stöðum
17.5.2007 | 05:22
Að vera unglingur á Akureyri á níunda áratugnum gaf manni ekki kost á að fara á marga tónleika. Ég sá auðvitað Stuðmenn og Skriðjöklana og örfáar fleiri hljómsveitir íslenskar, en hápunkturinn var að sjálfsögðu að sjá Ringo Starr tromma í Atlavík árið 1984. Ég sá engar erlendar hljómsveitir fyrr en ég var sirka nítján ára og sá Status Quo í reiðhöllinni innan um hundrað aðra Íslendinga eða svo. Það voru alveg skammarlega fáir á svæðinu. Ég stóð hins vegar í fremstu röð, beint fyrir framan Francis Rossi og skemmti mér konunglega.
Eftir að ég varð eldri fóru æ fleiri hljómsveitir að koma til Íslands en ég sá þó ekki margar því ef eitthvað var gaman af hljómsveitinni kostaði alltaf morðfé inná. Ég sá enga fræga hljómsveit í Laugardagshöll t.d., nema Sigurrós á barmi frægðar sinnar þegar þeir hituðu upp fyrir hljómsveit Emirs Kusturica.
Á Wembley sá ég BeeGees innan um 80.000 aðra áhorfendur og ég dansaði við Jive Talking og ruggaði mér við How Deep is your love.
En það var ekki fyrr en ég flutti til Kanada sem tónleikatala mín komst á almennilegt skrið. Í Manitoba sá ég Barenaked Ladies, The Guess Who, Default, Chantal Kreviazuk, Avril Lavigne, Theory of a dead man, the Arrogant Worms (2svar), Sloan og einhverjar fleiri. Já, þetta eru allt kanadískar hljómsveitir. En ég sá líka Joe Cocker þar sem hann hitaði upp fyrir The Guess Who (sem er hljómsveit Randy Bachman áður en hann fór í Bachman, Turner, Overdrive).
Í Fargo sá ég Creed, Billy Joel, Elton John, Default og Greenwheel.
Í Toronto sá ég Paul McCartney. Ókei, þetta ætti ekki að blandast saman við aðra. Að sjá Paul var auðvitað toppurinn á tilverunni. Ég hef skrifað um það áður. Ég grét og hló og lengst af trúði ég því ekki að ég væri á tónleikum með Paul.
Ég sá hann aftur í Seattle 2005.
Í Vancouver hef ég séð Rolling Stones, Linkin Park, Maroon 5, Muse (2svar), Travis, Amee Mann, The Weakerthans (2svar), The Arrogant Worms, Chris Isaak, SigurRós. Ég held ég sé að gleyma einhverjum.
Í Ottawa sá ég Colin James, Blue Rodeo, Sam Roberts, Etta James, Live, Michael Franti, Bonnie Raitt, Wilco, KC's Boogie Blast (KC and the sunshine band), Stars, Feist, Broken Social Scene, and lots and lots of other musicians at Blues Fest.
Það er alltaf skemmtilegt að fara á tónleika og hér vantar ekki úrvalið. The Police eru t.d. að spila hér einhvern næstu daga, Björk verður hérna í næstu viku, í gær sá ég að Def Lepard eru á leiðinni í bæinn. Gallinn er að það kostar heilmikið að fara á tónleika og þá sérlega frægari böndin. Vanalega svona frá 50-250 dollara (3000-15000 krónur). Þannig að maður verður svolítið að velja og hafna.
Athugasemdir
Kanada hefur náttúrlega alið upp ansi margan tónlistarmanninn ... þ.á m. uppáhaldið mitt hana Alanis Morissette og auðvitað snillinginn Bryan Adams. Ég fór á tónleika með Alanis í Stokkhólmi 1996 og Bryan Adams í Laugardalshöll 1991. Ég fór á Depeche Mode tónleika 1988 í Rose Bowl í Kaliforníu ... en flottustu tónleikar sem ég hef farið á eru Muse tónleikarnir í Laugardalshöllinni í desember 2003. Framúrskarandi frábærir! Verst að við Akureyringar fáum ekki mikið af frægum hljómsveitum hingað norður ... en hér hef ég þó séð margar íslenskar hljómsveitir - bestar hafa mér þótt Í svörtum fötum og Paparnir ...
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 16:24
Það er rétt hjá þér Doddi að margir góðir tónlistarmenn hafa komið frá Kanada.Ég hef stundum hugsað um að skrifa smá netgrein um kanadíska tónlist. Alanis Morissette er æðislegt. Ég man að þegar ég fyrst heyrði Jagged Little Pill þá varð ég að eignast diskinn. Og svo gerðist það að meira og minna allir sem ég spilaði diskinn fyrir, fóru og keyptu sitt eigið eintak. Þessi diskur fór eins og eldur um sinu. Nú á ég líka acoustic útgáfuna.
Muse er meiriháttar hljómsveit. Ég sá þá tvisvar í litlum sal hér í Vancouver og borgaði sirka þúsund krónur fyrir. Þá voru þeir að fylla íþróttahús í Evrópu og gátu rukkað helling inn.
Auður, takk. Ég steingleymdi Nelly Furtado. Ætti að bæta henni inn. Mig langar á Bjarkartónleikana en ég á að vera að spila fótbolta sama kvöld. Spurningin er hvort mig langar nægilega mikið á tónleikana til að borga 4000 krónur og sleppa leik.
Ég sá einmitt í gær að Dylan verður á Bluesfest í ár. Það væri æðislegt að koma og vera á tónleikunum. Sá líka að Edie Brickel og fleiri eiga að spila. Hver veit nema ég láti sjá mig. VIð Martin höfum ekkert rætt um sumarið.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.5.2007 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.