Sameinaða vinstri menn

Samfylkingin var stofnuð af fólki sem átti sér þann draum sameiginlegan að mynda stóra vinstri hreyfingu sem sameinaði alla vinstri menn. Það gekk ekki að sameina þá alla í einn flokk en mér finnst Samfylkingin skulda kjósendum sínum það að reyna fyrst að mynda vinstri stjórn með VG og Framsókn. Á þann hátt væru alla vega allir vinstri menn sameinaðir í ríkisstjórn (þótt miðjumenn og örfáir hægri menn flytu óvart með). Og það að Geir fái líklegast umboðið skiptir engu máli, það er hægt að undirbúa jarðveginn með óformlegum viðræðum. Er ekki  mál manna að búið hafi verið að mynda Viðeyjarstjórnina meira og minna fyrir kosningar? Það sama á við um VG; þau ættu að reyna vinstri stjórn áður en farið er af alvöru í umræður við Sjálfstæðisflokk.

Ingibjörg segir að VG hafi ekki haft neinn áhuga á að mynda stjórn með Framsókn. Já, þeir réðust á Framsókn í kosningunum en það var þegar vonin var að stjórnarandstæðan gæti myndað nýja ríkisstjórn. Og svona eru nú stjórnmálin. Nú er ljóst að það er ekki hægt að mynda stjórn án annars hvors núverandi stjórnarflokka og þá snýr málið öðru vísi við. Ég hef séð VG daðra við Sjálfstæðislokkinn, rétt eins og Samfylkingin hefur gert, en ég hef skilið á málflutningi þeirra að þeir vilji vinstri stjórn ofar öllu. Er ekki Ingibjörg bara að nota þetta sem afsökun til þeirra sem vilja ekki sjá hana í viðræðum við Sjallana? Það er miklu auðveldara að skella skuldinni á VG.

Ég held að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði betri en núverandi ríkisstjórn, en ég held ekki að það sé besti kosturinn í stöðunni. 


mbl.is Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú mátt nú ekki gleyma því á hverjum sameining vinstri manna strandaði á sínum tíma. Þú mátt heldur ekki gleyma því hver hélt R-lista samstarfinu saman. Þú mátt heldur ekki gleyma því hverjir slitu R-lista samstarfinu. Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin skulda VG ekki neitt.

Að því sögðu hefði vinstri stjórn auðvitað verið æskilegasti kosturinn, en fyrir henni er bara ekki grundvöllur.

Eiríkur (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 20:38

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Í fyrsta lagi sagði ég aldrei að Samfylking skuldaði VG neitt. Ég sagði að hún skuldaði kjósendum það að reyna fyrst vinstri stjórn. Flokkurinn lagði upp með það í kosningabaráttunni að það væri stjórnin sem þeir vildu. Kjósendur treystu því þess vegna að það væri alla vega reynt. Í öðru lagi þá er ég ekki endilega sammála þér í því að Steingrímur og félagar hafi verið ástæðan fyrir því að ekki var myndaður einn flokkur á sínum tíma. Ef þú hefur lesið bók Möggu Frímanns þá segir hún skýrt og skorinort að það hafi ekki einu sinni verið reynt að ná saman við Steingrím og þá sem voru lengst til vinstri í Alþýðubandalaginu. Hún segir að margir hafi haft þá skoðun að það borgaði sig ekki að eyða tíma í að blíðka það fólk. Sem þýðir að Steingrímur átti ekki meiri sök en þeir sem reyndu ekki að hafa hann með. Það sama átti við um fleiri innan vinstri væng Alþýðubandalagsins sem reyndu samstarf með Samfylkingu en hrökluðust á burt því ekki var á þá hlustað. Þar get ég nefnt Svavar Gestsson. En ég er hins vegar ekki að bera sakir á einn né neinn hér. Ég sagði eingöngu að mér fyndist að kjósendur ættu það skilið að vinstri flokkarnir reyndu vinstri stjórn áður en nokkuð annað væri gert. Það voru skilaboðin sem við fengum frá báðum flokkum fyrir kosningar og það er of fljótt að fara að ganga á bak orða sinna núna.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.5.2007 kl. 20:59

3 identicon

Sjálfsagt að Sjálfstæðisflokkurinn fái umboðið, því óraunhæft að tala um vinstri stjórn. Svo má ekki gleyma því að helstu skilaboð kosninganna var að Framsókn eigi að víkja frá, því yrði þessi þriggja flokka stjórn alveg jafn mikil svik gagnvart þjóðinni og það að halda áfram með óbreytta stjórn.

 Já sumir eru hræsnarar.

Geiri (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 21:00

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það er að mörgu leyti rétt hjá þér. Framsókn á það ekki skilið að halda áfram í stjórn. Kannski er ég bara of hrædd við að stjórn D og S verði önnur Viðeyjarstjórn - sem mér fannst vond stjórn.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.5.2007 kl. 21:14

5 Smámynd: Steinarsson

um að gera að halda því framm að fólk viti ekki hvernig vinstri stjórn sé það er búið að búa við þetta í reykjavík í nokkur ár og veit að það virkar ekki

Steinarsson, 18.5.2007 kl. 00:24

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég held reyndar að Reykjavíkurstjórnin hafi virkað mjög vel. Það er ekki eins og íhaldið hafi unnið stórsigur í síðustu borgarstjórnarkosningum. Þeir þurftu Framsókn með til að geta myndað meirihluta. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.5.2007 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband