Komin heim

Þá er ég komin norður fyrir landamærin á ný. Heim í litlu íbúðina mína. Ferðin heim var tiltölulega róleg en löng. Við lögðum af stað frá Lake Oswego um tuttugu mínútum yfir sjö í morgun og ég var komin heim rétt um hálf sjö í kvöld. Lestarhlutinn var notalega en rútuparturinn tiltölulega pirrandi. Það var fyrst og fremst vegna þess að fyrir framan mig sat ástfangið par sem var stanslaust að kyssast og þau gátu ekki sleikst almennilega - nei, þau þurftu að vera að smella kossum hvort á annað alla leiðina þannig að ég gat ekki sofið fyrir einhverjum bölvuðum kossahljóðum. Og nei, ég er ekki bara öfundsjúk vegna þess að mér fannst strákurinn fremur óspennandi. Þar að auki hefði ég bara kysst almennilega en ekki stundað þetta mömmukossaflens. Og til að bæta gráu ofan á svart þá svaf náunginn fyrir aftan mig megnið af leiðinni og hraut svona ógurlega. Sem sagt, hrotur fyrir aftan, kossar fyrir framan, og ég sem gleymdi iPodnum mínum í hleðslu heima. Og til að toppa söguna kom Rósa kerlingin í heimsókn um miðjan dag, aðeins fyrr en ég hafði búist við, og ég var því ekki alveg nógu vel sett með það sem til þurfti. Og ég sem vanalega er alltaf með slíka aukahluti í bakpokanum.

Síðustu dagar hafa annars verið mjög yndislegir. Á mánudagskvöldið fór ég með Joanne á ToastMasters fund og það var áhugavert. Ég kenndi einu sinni Tjáningu við MA þannig að ég er almennt hlynnt svona klúbbum. Á eftir fórum við út að borða með David sem er svona on-again-off-again kærasti Joanne. Þau eru off-again eins og er en hann hefur verið að hringja í hana upp á síðkastið þannig að hann vill greinilega vera on-again.

IMG_1228Í gær fór ég svo í dýragarðinn með Max og það var alveg stórskemmtilegt. Garðurinn er mjög fallegur og margt skemmtilegt að sjá þarna. Hápunkturinn var án efa oturinn sem við horfðum á dágóða stund. Hann synti sama hringinn aftur og aftur og megnið á bakinu. Eftir nokkra stund lét hann sig fljóta á bakinu og fór að sjúga einhvern fjandann...eitthvað langt, rautt...Guð minn góður, þetta hlýtur að vera draumur allra karlmanna...að geta sogið sitt eigið... Við roðnuðum pínulítið þegar við föttuðum hvað það var sem hann var að totta á og af og til það sem eftir er dagsins hlógum við pínulítið og hugsuðum um oturinn!

Um kvöldið fórum við út að borða með öðrum vini Joanne. Þessi heitir Ken og hann vill líka alveg vera meira en vinur. En hann er of gamall og þar að auki ekki líklegur til að vilja festa ráð sitt. Vinur hans Randy kom með líka -  myndarlegur maður en enginn virðist hafa sagt honum að karlmenn eiga alls ekki að vera með yfirvaraskegg. Skil bara ekki þessa áráttu sumra karla. Vita þeir ekki að ef maður er með skegg á það að vera báðum megin við varirnar - ekki bara fyrir ofan, ekki bara fyrir neðan. Ellen og Peter komu líka með. Þau fara allt of sjaldan út eftir að Ellen varð svona veik, en nú er hún búin að fá þennan fína hjólastól og ætti ekki að vera neitt að vandbúnaði. Við þurftum að draga þau með en svo voru  þau alveg himinlifandi yfir ferðinni.

En sem sagt, þetta var alveg hin fínasta afslöppunarferð til Oregon og ég þarft að fara aftur á djammið með henni frænku! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: mongoqueen

Þetta hefur greinilega verið hin besta ferð hjá þér  þ.e.a.s. fyrir utan rútuferðina!!

mongoqueen, 23.8.2007 kl. 09:37

2 Smámynd: Mummi Guð

...og ég sem hélt að Keiko hefði verið eini dýragarðsperrinn.

Mummi Guð, 23.8.2007 kl. 17:34

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Haha. Þetta var nú alveg bráðsmellið blogg hjá þér, Kristín.

Kossaflens getur verið þreytandi, alla vega til lengdar, og ekki hjálpar til ef eitthvað í útliti fólksins fer í taugarnar á manni. Ég hef stundum lent í þessu þegar ég er að ferðast. Manni verður stundum nett flökurt. Ég ímynda mér stundum parið í hávaðarifrildi og það getur hjálpað til.

Yfirvaraskegg eru algengari hér vestanhafs en á Íslandi. Ég held að þetta sé að hluta til einhvers konar kúrekarómantík. Burt Reynolds var til dæmis lengi með yfirvaraskegg og ég held að hann sé enn fyrirmynd ákveðinnar kynslóðar Norður Amerískra karlmanna.

Wilhelm Emilsson, 23.8.2007 kl. 22:04

4 Smámynd: Sigurjón

Burt er svalur tappi!

Hins vegar er ekkert mál að fá fólk til að hætta kossaflensi:  Bara að prumpa duglega!

Sigurjón, 24.8.2007 kl. 01:06

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Rosalega hefur þetta verið ömurlegt að vera millistykkið á milli hrotumannsins og kossasmellanna.  Úff!

Ég veit ekkert ljótara en yfirvaraskegg og toppaskegg.  Annars skil ég ekkert í þessum körlum sem eru að fela á sér andlitin með hári.  Bítsmí.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.8.2007 kl. 01:35

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Stundum finnst mér karlmenn með skegg sætir. Það hæfir sumum. En það er þá skegg sem nær hringinn í kringum munninn. Hann Martin, minn síðastverandi, var með eitt slíkt og það var bara alveg ágætt að kyssa hann (sem er eitt af aðalatriðunum).

Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.8.2007 kl. 02:07

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Sigurjón, ég vil taka það fram að ég hef ekkert á móti Burt!

Þetta er náttúrulega rosalega gott trix sem þú bendir á, en ég er ekki nægilega töff til að beita því. Maður er svoddan tepra.

Wilhelm Emilsson, 24.8.2007 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband