Ferðin til Garibaldi

Á mánudaginn fór ég í fjallgöngu með Línu, Alex og Christian, kollega Alex hér í UBC. Þetta var þakkagjörðarmánudagur og allir í fríi. Meira að segja ég sem fæ þó aldrei beinlínis frídag - eða fæ alltaf frídaga (eftir því hvernig er á það litið). 

Ferðinni var heitið að Garibaldi vatni, hér ekki langt frá Whistler skíðasvæðinu. Þetta er einn af uppáhaldsstöðum Jeremy vinar míns og við höfum lengi planað að ganga á fjall sem kallast Black Tusk. Þegar þangað er gengið fer maður fyrst að Garibaldi og síðan á Black Tusk og það er kannski þess vegna sem ég hef aldrei farið að vatninu - alltaf verið að bíða eftir Black Tusk ferðinni.

Við vorum sem sagt fjögur sem lögðum af stað upp fjallið. Þetta var ekki sérlega erfið ganga enda hæðarmunur aðeins um 800 metrar en þar sem þetta voru níu kílómetrar tók það okkur samt næstum því þrjá klukkutíma að ganga þangað. Við tókum því svo sem rólega og stoppuðum oft til að taka myndir.

Vatnið sjálft er alveg dásamlegt. Það er svo blátt og fallegt á litin og þennan dag var það hér um bil spegilslétt svo snæviþakin fjöllin spegluðust í vatninu. Það hafði rignt í marga daga á undan og byrjaði aftur að rigna í dag svo við vorum ótrúlega heppin að ná þarna einum sólardegi inn á milli. Ja, kannski ekki heppin því Lína og Alex völdu þennan dag vegna þess að spáin var best fyrir hann.

Ég veit ekki hvað ég tók margar myndir þarna. Það var erfitt að stoppa. Varð reyndar að stoppa að lokum því ég var orðin svo svöng. Svo ég tók upp kakó og samloku með norskum geitaosti og gæddi mér á þessu. Matur er alltaf góður útivið.

Þar sem við borðuðum kom lítill Gray Jay fljúgandi og settist hjá okkur. Hann var ekki vitund hræddur og kom ótrúlega nálægt. Greinilegt að einhverjir asnarnir gefa fuglunum að borða. Maður á aldrei að gefa villtum dýrum mat - það er ströng lög um það í Bresku Kólumbíu. Annað fólk sem var þarna kom að og fór að gefa fuglinum og brátt urðu þeir tveir, svo þrír og að lokum fjórir. Ég tók margar myndir af þeim enda elska ég fugla. Og Gray Jay er svo mikið krútt.

Á leiðinni til baka sá ég American Dipper sem sat á litlum tréstubb í vatninu og kafaði af og til niður í vatnið í leit að æti. Ég þekki flesta fugla sem hér finnast en hafði aldrei séð þennan áður Tók mynd af honum og sendi til Henry Davis, prófessors í deildinni minni sem veit allt um fugla. Hann þekkti fuglinn undir eins. Og ég bætti fugl í safnið.

Við tókum svolítið aðra leið heim - lengri. Það var hins vegar vel valið því sú leið lá hærra og við þurftum að ganga í gegnum snjó. Við vorum eins og börn, þetta var svo skemmtilegt. Fyrsti almennilegi snjórinn í haust (tel ekki með snjóinn sem ég gekk í gegnum í Lions göngunni - sá snjór er alltaf þar). Maður er farinn að hugsa til skíðaferða.

Eftir tuttugu kílómetra og rúmlega sex tíma göngu fannst mér ég örugglega hafa brennt af mér kalkúninn. Engum kílóum bætt við þessa þakkagjörðarhátíð. 

Fleiri myndir má sjá á Flickr síðunni minni hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aedislegar myndir Stina ;)

Rut (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 11:59

2 identicon

vá vá vá flott svæði og frábærar myndir - ætla inn á flickrið að skoða :)

Hrabba (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 23:14

3 identicon

hey erum við að tala um þessa Línu ok ok, ég kannast vel við hana hehe hún er einu ári eldri en ég og var í Glerárskóla ... ég bjó við hliðina á systur hennar um tíma ... fyndið oh heimurinn minnkar og minnkar

Hrabba (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband