Hreinlega ekkert jafnast á við íslenska nammið
30.10.2007 | 16:57
Ég borða ekki oft nammi sem er að hluta til vegna þess að hér vestanhafs er ekkert um sérlega auðugan garð að gresja. Snickers og Mars eru náttúrulega bandarískar framleiðslur og ég er mjög hrifin af mars með dökku súkkulaði, og eins KitKat með dökku súkkulaði. En það er ekki margt annað boðlegt. Þegar ég kaupi súkkulaðistykki kaupi ég svissneska súkkulaðið Lindt því Cadbury's er ekki svo gott og Hersey's er nokkurn veginn óætt. Reyndar er hægt að kaupa nammi í Bandaríkjunum sem heitir Nut Roll og það er glettilega gott. Það eru hreinlega salthnetur með hvítri fyllingu. Því miður fæst það ekki í Kanada. Við erum hins vegar með Coffee Crisp, súkkulaðikex með kaffibragði, og það fékkst lengst af ekki syðra, en nú er víst hægt að kaupa það á sumum stuðum í Bandaríkjunum.
Reyndar er að sumu leyti gott að hér er ekki gott nammi því þá borða ég minna af því. Og mér veitir ekkert af að halda áfram í heilsufæðinu.
Nei, íslenska nammið ber af. Lindu buff er reyndar alls ekki eins gott og það var þegar það var búið til á Akureyri. Og ég segi það ekki af því að ég er Akureyringur. Nei, þeir breyttu uppskriftinni. Kaffisúkkulaðið frá Lindu er líka alltaf dásamlegt. Appelsínusuðusúkkulaði frá Monu er magnað og allt rjómasúkkulaði frá Nóa Siríusi (en þó sérstaklega rúsínusúkkulaði, sem ekki er hægt að kaupa frá neinum framleiðanda hér í Kanada). Þristur er dásamlegur, Eitt sett alltaf gott, og allur lakkrís ómissandi. Þá má ekki gleyma karmellunum íslensku sem eru betri en ég hef fengið annars staðar.
Og ég ætla ekki einu sinni að byrja á því að tala um kartöfluflögur því það er ekkert eins gott og paprikustjörnur frá Stjörnusnakki.
Je minn, ég verð að hætta að hugsa um nammi. Ég er ekki einu sinni búin að borða morgunverð.
Íslenskt nammi vinsælt vestanhafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Papríkustjörnur og Beikonbugður.... svo auðvitað Ostapoppið líka! Snakk og nammi og jógúrt og bara allt saman - langbest á Íslandi! ;)
kv. Ingunn frænka
Ingunn (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 19:43
oh já nammi nammmmm ... kúlur og lakkrís (þó að það sé búið að breyta uppskriftinni) og lakkrís og lakkrís og já lakkrís oh .... þú veist örugglega um www.nammi.is ??
Hrabba (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 19:50
Aldrei að blogga um nammi á fastandi maga Stína mín, getur verið mjög, mjög hættuLETT.
Knús á þig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.10.2007 kl. 23:31
Margar Whole Foods Market-verslanir í BNA og hugsanlega í Kanada selja Nóa-Siríus rjómasúkkulaði í gamaldags smjörpappírsumbúðum. Það eru þónokkrar slíkar verslanir í Vancouver. Heimasíðan þeirra er www.wholefoodsmarket.com og þar getur þú fundið búð nálægt þér.
Halldór Elías Guðmundsson (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 00:51
Mikið er ég sammála þér! Það er byrjað að selja íslenskt nammi í Noregi, þó ekki sé úr svo miklu að moð enn. Það er hægt að kaupa Draum, Djúpar (jömmí!!), Rommý og eitthvað fleira sem ég man ekki hvað er. Og ekki fæst það allsstaðar heldur. En löngu áður en var farið að selja það hér, þá höfðu norðmenn (þ.e þeir sem voru svo stálheppnir að fá að smakka á íslenska namminu hjá mér) sérstaklega á orði hvað íslenska nammið væri gott Ég vissi hinsvegar ekki um nammi.is fyrr en núna, takk!
Helga Fanney (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 15:01
Ég held að það séu bara Whole Foods verslanirnar á austurströnd Bandaríkjanna sem selja íslenskar vörur.
Í nammi upptalningunni þinni, fannst mér þú alveg gleyma krembrauðinu. Ég varð smá sár, enda krembrauðið mitt uppáhald.
Mummi Guð, 31.10.2007 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.