Rannsókn á málskilningi með snertingu

Það er mjög sjaldgæft að í dag finnist einstaklingar án heyrnar og sjónar en að öðru leyti alheilbrigðir. Það gerðist þó á fyrstu áratugum síðustu aldar að alvarlegur sjúkdómur gat lagst á bæði þessi skilningsvit. Ég man ekki lengur hvaða sjúkdómur þetta var en hann er mjög sjaldgæfur nú. Þeir sem lentu í þessu áttu því erfitt með að skilja tungumál því þeir gátu ekki heyrt það sem sagt var og af því þeir höfðu ekki sjón gátu þeir ekki notast við táknmál. Ótrúlegt en satt, fyrir þetta fólk var þróuð hin svokallaða Tadoma aðferð þar sem viðkomandi lagði aðra höndina yfir andlitið á þeim sem hann talaði við, þannig að þumalfingur var yfir vörunum, og hinir fingurnir dreifðir yfir kinn og háls. Á þennan hátt gátu þessir einstaklingar náð ótrúlegri tækni við að skilja það sem sagt var við þá.

Þegar ég var á fyrsta ári í málvísindadeildinni hér við UBC gerðum við Diana Gibraiel, bekkjarsystir mín, verkefni, þar sem við athuguðum hvort þessi aðferð gæti hjálpað fólki sem aldrei hefði verið kennt að nota þessa aðferð. Við fengum því venjulega háskólanema sem hvorki höfðu skerta sjón né heyrn til þess að taka þátt í könnun okkar og síðan létum við þá ýmist loka augunum eða þá við gerðum þeim erfitt fyrir að heyra.

Takið eftir að við tókum ekki af þeim bæði sjón og heyrn heldur aðeins annað í einu. Það var vegna þess að við ætluðumst ekki til þess að Tadoma aðferðin kæmi í staðinn fyrir sjón eða heyrn heldur að hún gæti hjálpað til við skilning.

Við fengum spennandi niðurstöður út úr þessu og í ljós kom að allir stóðu sig betur þegar þeir settu hönd á andlit þess sem talaði. Mest kom á óvart að ef viðkomandi græddi mjög mikið á því að nota snertingu þegar sjónin var tekin frá honum þá græddi hann lítið á því ef heyrnin var tekin frá og svo öfugt. Niðurstöður voru marktækar.

Í sumar höfum við Bryan, hljóðfræðikennarinn okkar, unnið að því að gera þessar niðurstöður birtingarhæfar og við eyddum töluverðum tíma í það í haust. Við sendum greinina svo í tímarit og á föstudaginn fengum við svar um það að þeir væru hrifnir af greininni en við yrðum þó að skýra ýmsa hluti betur áður en þeir vildu birta hana.

Við fengum til þess tíu daga. Við erum búin að laga öll smáatriðin en þrennt er enn eftir. Við þurfum að gefa fleiri tölfræðilegar tölur, við þurfum aðeins að laga gröfin sem fylgja greininni og við þurfum að sýna fram á að Diana, sem var sú sem talaði í rannsókninni, hafi ekki talað hærra þegar viðföngin notuðu snertingu. Bryan tók að sér tölfræðina (sem betur fer) og ég ætla að laga myndirnar og mæla raddstyrkinn hjá Diönu. Gallinn er að það er heilmikið verk. Ég eyddi heilmiklum tíma í það að draga hljóðið út úr vídeómyndinni sem við höfðum af rannsókninni, og á morgun þarf ég svo að setjast niður og mæla raddstyrkinn hjá alla vega fjórum viðföngum, í öllum fjórum umhverfum og í að minnsta kosti 10 dæmum. Þá þarf ég bæði að mæla meðalstyrk og hæsta styrk sérhljóðs. Þetta er hvað, 4x4x10x2. Það þýðir 320 mælingar. Þá veit ég hvað ég mun gera á morgun.

Annars get ég sagt ykkur að þetta eru mjög spennandi niðurstöður hjá okkur og það verður gott að fá þær birtar. Fyrir feril minn er það líka mikilvægt því þetta yrði nefnilega önnur ritrýnda birting mín nú í haust. Ég er ánægð með það. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju med greinina. Spennandi rannsokn sem thu stodst fyrir :) Veistu hvort thad er til einhver sambaerileg rannsokn um thad ad HORFA a munn folks thegar thad talar? Eg hef nefnilega komist ad thvi ad thegar eg er ad tala utlensku sama hver hun er, tha verd eg alltaf ad horfa a munninn a theim sem talar, annars finnst mer erfidara ad skilja. Eg veit ekki hvort thetta er salfraedilegt eda thad hjalpar raunverulega ad sja munninn, en eg byd mig fram sem rannsoknarverkefni fyrir thig ef thu hefur ahuga. Er ekki orugglega beint flug fra Vancouver til Milano?

Rut (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 12:20

2 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Rannsóknin hljómar mjög spennandi og til hamingju með að fá greinina birta! :)

Gangi þér vel með allar mælingarnar á morgun! :)

Ruth Ásdísardóttir, 22.11.2007 kl. 16:15

3 identicon

vaá kúl stöff :D  Endilega láttu okkur vita í hvaða tímariti hún verður birt :)

Hrabba (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 18:14

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Gangi þér vel með þetta spennandi verkefni og til hamingju með væntanlega birtingu greinarinnar

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 22.11.2007 kl. 18:47

5 identicon

Daufblinda er vissulega sjaldgæf, en samt tilheyra mun fleiri einstaklingar þeim hópi en flestir gera sér grein fyrir. Víðast hvar í heiminum fjölgar þeim einstaklingum sem verða gamlir og um leið fjölgar mjög þeim sem missa bæði sjón og heyrn vegna aldurs. Sá hópur er því miður að verða býsna stór. Samt standa þessir svokölluðu síðdaufblindu einstaklingar mun betur að vígi en þeir sem fæðast án sjónar og heyrnar, svokallaðir daufblindfæddir, þar sem þeir til dæmis hafa talmál á valdi sínu áður en þeir missa sjón og heyrn.

Því miður er það fjöldinn allur af sjúkdómum og heilkennum sem getur valdið bæði sjónleysi og heyrnarleysi. Í því samhengi er rétt að benda á heimasíðuna hjá SENSE í Bretlandi: http://www.sense.org.uk/deafblindness/allcauses.htm

TADOMA-aðferðin er einungis ein af mörgum leiðum til samskipta við daufblinda. Fyrir áhugasama leyfi ég mér að benda á heimasíðu þeirrar stofnunar sem ég vinn hjá, en það er "Norræna menntasetrið fyrir starfsfólk sem vinnur með daufblindum" (Nordisk Uddannelsescenter for Døvblindepersonale, NUD): www.nud.dk

Þar vil ég í þessu samhengi sérstaklega benda á tvo texta eftir Riitta Lahtinen frá Finnlandi, en þeir heita: "Social-haptisk kommunikation" og "Sociala snabbesked". Þarna eru á ferðinni áhugaverðar nýjar leiðir og þróun á eldri aðferðum í samskiptum við daufblinda. Þessi "félagslegu flýtiboð" eru góð viðbót við hefðbundið snertitáknmál eins og það hefur verið notað til þessa. Textana má finna með því að velja flipann "Publikationer" og síðan "Arbejdstekster" til vinstri á síðunni. Auk þess er hægt að velja enska útgáfu heimasíðunnar og finna þar ýmsa enska texta undir "Publications". Einnig eru ýmsir textar á ensku í danska (skandínavíska) hluta síðunnar.

Ég vil einnig benda á heimasíðu Helen Keller National Center á Long Island, en þar má finna mikið magn gagnlegra upplýsinga um daufblindu: http://www.hknc.org/

Í lokin vil ég benda á heimasíðu Perkins School for the Blind í Boston, en þar má einnig finna mikið magn upplýsinga um daufblindu: http://www.perkins.pvt.k12.ma.us/index.htm

Það er alltaf ánægjulegt að sjá þegar Íslendingar láta að sér kveða á þessum vettvangi, Kristín. Ég vona því að þessar fátæklegu grunnupplýsingar komi þér að góðum notum. Gangi þér sem allra best við þín störf.

Magnús Guðnason (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 21:16

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega fyrir upplýsingarnar Magnús. Og þið hin, takk fyrir hvatninguna.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.11.2007 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband