Þegar tölvupósturinn bregst (um fótboltaraunir)

Ég er farin að treysta allt of mikið á tölvupóst og of stór hluti samskipta minna fer fram í gegnum netið. Þetta getur komið manni í vandræði því tölvupóstur er ekki eins áreiðanlegur og símtækið. Akimi, sem ég fæ vanalega far með á fótboltaleiki gat ekki leikið um helgina og ég þurfti því að finna mér annað far. Ég sendi spurn á póstkerfi liðsins míns og fékk far hjá Jen sem sagðist geta gripið mig með ef ég yrði á horninu á Granville og Broadway klukkan 8.55 á sunnudag. Ég sendi póst til baka og sagðist verða þar.

Ég var mætt á svæðið 8.45 enda strætóferðir ekki eins margar á sunnudagsmorgnum. Þarna húkti ég í kuldanum og beið og beið...og beið. Komið var fram yfir níu og ég var ekki með símann minn. Ég gat því ekki hringt í neinn. Og ég hafði ekki skrifað niður á hvaða velli við lékum þar sem ég var ekki að keyra. Tuttugu mínútur yfir níu hljóp ég því til baka í strætó og planið var að fara heim, finna heimilisfangið á vellinum (það eru hundruðir fótboltavalla í borginni) og sjá hvort ég gæti komist þangað með strætó. Ég var rétt komin inn úr dyrum þegar Leah hringdi. Hún sagðist vera á vellinum og þar væri Jen en ekki ég. Hún sagðist hafa spurt Jen af hverju ég væri ekki með henni og Jen sagist aldrei hafa fengið svar frá mér. Ég hef grun um að bréfið mitt hafi lent í spamvörninni hennar. Dave þjálfari sagði að þau þyrftu á mér að halda svo mér var sagt að hoppa upp í leigubíl og þau myndu deila með mér kostnaði. Svo ég hringdi á bíl og hálftíma síðar var ég komin á völlinn.

Staðan var 0-0 þegar ég mætti á svæðið en stuttu síðar skoruðum við mark. Ja, eiginlega skoruðu þær mark. Melissa sendi boltann inn frá hægri kanti, rétt fyrir aftan mig, en Benita og varnarmanneskja Mudslide sóttu að boltanum. Varnarmaðurinn náði boltanum en sendi hann beint í eigið mark. staðan 1-0 fyrir okkur. Við vorum stanslaust með boltann og hinar komust varla fram yfir miðju. En það gekk ekki nógu vel að skora. Markmaðurinn hjá þeim var risastór og feit og gargaði á liðið allan tímann. Við vorum skíthræddar við hana. Hún gargaði líka á dómarann sem aldrei þessu vant var alveg stórgóður. Enda kom í ljós að hann dæmir vanalega ekki fjórðu deild. Dave var skíthræddur við þennan eins marks mun. Ein mistök og þær gætu jafnað. Og við vildum alls ekki í vítaspyrnukeppni en leikir í úrslitakeppninni geta aldrei endað með jafntefli. En þetta voru óþarfa áhyggjur. Eftir stanslausa sókn skaut Jodi að markinu en varnarmaður náði að hreinsa. Markmaðurinn var beint fyrir aftan varnarmanninn en var seinni til. Boltinn fór hins vegar beint til Melissu sem skaut aftur að markinu, markmaðurinn reyndi að skipta um stefnu en hneig niður - sagðist síðar vera með krampa. Boltinn stefndi í markið en ég vissi ekki hvort einhver varnarmaður væri í nálægð og negldi boltanum því inn. Þetta var í raun Melissu mark. Ég held að boltinn hefði farið inn þótt ég hefði ekki sparkað í hann. Ég skoraði hins vegar þriðja markið eftir frábæra sendingu frá Benitu. Hún hljóp upp vinstri kantinn, lék á varnarmann og sendi boltann fyrir markið. Ég, með varnarmann á mér, kom hlaupandi inn, náði að teygja mig í boltann og setja hann í hægra hornið. Markmaðurinn, sem hafði náð sér af krampanum lagðist í grasið og grét. Ég veit ekki hvort krampinn kom aftur eða hvort hún var bara svona fúl yfir markinu. Dómarinn leit á okkur og sagði: En það var enginn nálægt henni - hvorki boltinn né manneskja! Hann hafði ekki mikla samúð með henni enda hafði hún skammast í honum allan leikinn.

En sem sagt, 3-0 og við erum komin með þrjú stig í úrslitakeppninni. Við þurfum að vera í fyrsta eða öðru sæti í riðlinum til að komast áfram.

VIð stóðum okkur annars vel í vetur - urðum í fyrsta sæti í okkar riðli í deildarkeppninni. Það hefur aldrei gerst áður. Við erum reyndar með jafnmörg stig og tvö önnur lið en fengum ekki tækifæri til að leika alla leikina. Sco mörgum leikjum var frestað vegna veðurs og ekki gafst tími til að bæta fyrir það af því að úrslitakeppnin þarf að hefjast á réttum tíma hvað sem tautar og raular.

Næstu helgi leikum við gegn liði sem aðeins tapaði einum leik í deildarkeppninni. Við höfum aldrei leikið gegn þeim áður en það er ljóst að við verðum að leika eins vel og við getum ef við eigum að eiga séns. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju med sigurinn :) Ja var ekki lifid audveldara i gamla daga thegar hlutirnir voru bara skipulagdir a einfaldan hatt og ekkert vesen med tolvuposts og sms micro-skipulagningar a sidustu stundu? Annars maeli eg med thvi ad thu setjir upp tolvupostinn thinn thannig ad thu fair kvittun fra vidtakanda thegar posturinn hefur verid medtekinn...tha geturdu verid viss um ad honum hafi ekki verid hent med viagra, viltu-verda-afriskur-milljonamaeringur og lengdu-tippid-a-ther ruslposti!

Rut (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband