Sami mannsfóturinn?

Þetta mál er auðvitað stórfurðulegt og var í blöðunum hér í Vancouver fyrir nokkrum dögum þegar þessi þriðji fótur fannst. Eins og segir í frétt moggans er ekki vitað hvort um glæp er að ræða eða ekki. Ekki hefur verið hægt að segja með vissu að fæturnir hafi verið skornir eða höggnir af. Dæmi eru um það að lík sem velkjast í sjó hlustist í sundur en ég held að þessi staðreynd með þrjá hægri fætur í íþróttaskóm númer 42 auki líkurnar á að hér sé ekki um tilviljun að ræða.

En ég vildi nú aðallega kíkja á málfræðina í þessari frétt, og nei, ég er ekki að setja út á skrift blaðamanns, aldrei þessu vant. En þegar ég las fréttina var eitthvað sem sló mig (annað en innihaldið enda var ég búin að lesa um þetta áður).

Lögregluna í Bresku Kólumbíu í Kanada rak í rogastans þegar mannsfótur fannst í fjöru í þriðja sinn á nokkrum mánuðum. Allir voru fæturnir hægri fætur, stærð 42 og klæddir í hlaupaskó. Lögregla hefur ekki getað ákvarðað hvort hún sé að rannsaka glæpi, né heldur hvort fæturnir tengist.

Ég held að það sem fékk mig til að staldra við sé ósamsamræmið í tölunni svo og tvíræðni fréttarinnar. Í fyrsta lagi má skilja þetta svo að sami fótur hafi nú fundist þrisvar sinnum enda segir að mannsfótur hafi fundist í þriðja sinn. Samkvæmt merkingarfræði gæti þetta verið svona sett upp (athugið að bloggkerfið ræður ekki við 'existential quantifier' sem er öfugt E svo ég set venjulegt E í staðinn):

Ex(fótur(x) & (EeEe'Ee'' (finnst(x,e) & (finnst(x,e') & (finnst(x,e''))))))

Þetta má lesa þetta svona: Til er X þannig að X er mannsfótur, og til eru þrír atburðir sem eru allir þannig  að X fannst

Merkingin sem blaðamaður hafði í huga er hins vegar væntanlega þessi:

ExEyEz(fótur(x) & (fótur(y) & (fótur(z) ((EeEe'Ee'' (finnst(x,e) & (finnst(y,e') & (finnst(z,e''))))))))

Sem sagt: x, y, z eru allt fætur og einn atburður er svo að x fannst, annar atburður er svo að y fannst og einn atburður er svo að z fannst.

Þegar síðari merkingin er höfð í huga þá er fleirtalan á 'allir voru fæturnir' eðlileg en ekki samkvæmt fyrstu merkingunni. Það að mér þótti þetta skrítið þegar ég las fréttina yfir bendir því til þess að ég hafi fyrst sett fyrri merkinguna í setninguna, jafnvel þótt ég hafi vitað að um þrjá mismunandi fætur hafi verið að ræða. Það er athyglisvert og segir ýmislegt um skilninginn á setningunni. Ætla ekki að fara út í það nánar.

 


mbl.is Þriðja fótinn rekur á land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

rak einmitt augun í þetta. Þeir eru oft frekar fljótfærir í greinaskrifum á mbl.

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 19.2.2008 kl. 19:17

2 identicon

Les ekki nefndin thin orugglega moggabloggid? Ef thu hefur ekki lokad hringnum med thessu, tha veit eg ekki hvad. Settu punktinn!!!

Rut (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 19:42

3 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Vá, hef ekki séð svona yrðingar síðan ég var í háskólanum.  En þetta er alveg rétt hjá þér. Spurningin er hvernig hefði verið hægt að orða þetta betur. Kannski: "Þrír mannsfætur finnast í fjöru á nokkrum mánuðum"

Svo er líka mjög fyndið að verið sé að skoða hvort fæturnir tengist

En líklega er nú bara enginn fótur fyrir þessari frétt haha

og ég skal sko finna þig í fjöru......

Þorsteinn Sverrisson, 19.2.2008 kl. 20:19

4 Smámynd: Kolbrún Kolbeinsdóttir

Til allrar hamingju eru báðir mínir fætur vel fastir við kroppinn enda nota ég hlaupaskó númer 39!

Kolbrún Kolbeinsdóttir, 20.2.2008 kl. 01:33

5 identicon

Þeir hljóta að tengjast enda allir af sömu stærð og klæddir í hlaupaskó. Ég er bara enn ekki viss hvort þeir voru allir klæddir í sama hlaupaskóinn.

Alli Már (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 09:26

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

fínar formúlur, en ég sé ekki hvernig þú færð það út að endilega sé talað umm sama fótinn. einungis að þrisvar sinnum hafi fundist fótur. einhver fótur. kannski sá sami en ekki endilega.

Brjánn Guðjónsson, 20.2.2008 kl. 21:25

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þess vegna sagði ég að setningin væri tvíræð. Hún getur bæði gefið merkinguna að um þrjá mismunandi fætur hafi verið að ræða og að um sama fótinn hafi verið að ræða þrisvar. Sem sagt, ég er sammála þér að ekki sé endilega um sama fót að ræða. Mér finnst merkingin að um einn fót sé að ræða sé samt sterkari og ég dæmi það á því að setningin sem kemur á eftir 'allir voru fæturnir' er undarleg og það er af þvi að hun vísar í síðari merkinguna. Ef síðari merkingin væri sterkari hjá mér þá hefði framhaldið verið eðlilegt.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.2.2008 kl. 22:08

8 Smámynd: Turetta Stefanía Tuborg

Hmm.. ég skil alveg hvað þú ert að meina en í seinni formúlunni sem þú setur upp finnst fótur z tvisvar

Turetta Stefanía Tuborg, 21.2.2008 kl. 16:58

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ah, í útskýringunni segi ég að z finnist tvisvar, sé það núna. Takk fyrir ábendinguna. Formúlan sjálf er hins vegar rétt því þar segir að x finnist, y finnist og z finnist. Villan er bara þar sem ég útskýri þetta.

Mun laga þetta umsvifalaust. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.2.2008 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband