Frábært hjá stelpunum

Það er alveg magnað að heyra hversu vel íslensku stelpunum gengur í hokkíinu. Aðeins tvö kvennalið eru í landinu og því má gera ráð fyrir að sirka helmingur allra hokkíkvenna á Íslandi leiki með landsliðinu. Þegar mið er tekið af þessu verður að segja að árangur þeirra er stórkostlegur. Nú er bara að vona að þær brilleri í síðasta leiknum og taki heim gullið.

Það er líka gaman að sjá að RÚV ætlar að sýna beint frá leik SA og SR á morgun. Ég ætla að reyna að horfa á byrjunina en verð svo að rjúka yfir í New Westminster því ég ætla á leik með Vancouver Whitecaps í knattspyrnunni en eins og þið vitið væntanlega er þjálfari liðsins enginn annar en Teitur Þórðarson. Planið er að hann komi við í Íslandshúsi eftir leikinn og kynnist aðeins Íslendingagenginu hér.

En aftur að hokkíinu. Það gengur ekki nógu vel hjá mínum mönnum (Vancouver Canucks) þessa dagana. Við erum um það bil að tapa fjórða leiknum í röð en áður fyrr höfðum við ekki tapað fleiri en tveim leikjum í röð. Þetta er versti mögulegi tími til að hrynja. Við fórum úr sjötta sæti niður í áttunda á einni viku og með tapinu í kvöld (sem nú er orðið staðreynd) förum við líklega niður í níunda sætið en það sæti nægir ekki til þess að komast í úrslitakeppnina. Aðeins fjórir leikir eru eftir og sem betur fer eru þeir allir á heimavelli.

Markvörðurinn okkar, sem annars er einn besti markmaður í heimi, hefur verið hreint skelfilegur undanfarna þrjá leiki. Hann hefur hleypt inn skotum sem hann á vanalega ekki í vandræðum með að verja. Ástæðan fyrir þessu er einföld - hann hefur ekki verið með hugann við leikinn. Konan hans eignaðist barn í gær og síðustu tvo leiki var hann með hugann við fæðinguna sem gat farið af stað hvenær sem var. Það sem flækti málið var að eiginkonan var í Florida og Luongo þurfti því meira en að skreppa upp á spítala um leið og hríðir hófust - hann varð að hoppa upp í einkaflugvél sem flutti hann þvert yfir landið. Hann dvaldi á spítalanum í nótt og flaug svo til Minnesota í morgun og spilaði í tapleiknum í kvöld. Þegar hann var búinn að fá á sig fjögur mörk (tíunda markið í tveim leikjum) var hann tekinn af velli og varamarkmaðurinn Sanford fór inn. Að mínu mati hefði Sanford átt að spila síðustu þrjá leiki og Luongo hefði átt að fá að vera hjá konunni allan þennan tíma. En hann vildi það ekki (Luongo þ.e. - Sanford hefði auðvitað viljað það). Og Luongo gerði samning við þjálfarann nú eftir jólin sem er þannig að Luongo fær að spila þegar hann vill spila. Og hann vildi spila.

Þetta þýðir að við eigum erfitt verk fyrir höndum. Við verðum helst að vinna alla fjóra síðustu leikina til að tryggja okkur sæti í úrslitunum. Ouch. Ég er ein taugahrúga. 


mbl.is Ísland upp í 3. deildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Vantar ykkur varamarkmann?

Róslín A. Valdemarsdóttir, 29.3.2008 kl. 02:54

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Sendu inn umsókn, aldrei að vita nema þeir hafi áhuga á íslenskri stelpu í markið. Það myndi ábyggilega hressa andrúmsloftið í sturtunum.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 29.3.2008 kl. 03:28

3 identicon

Virkilega virkilega flott hjá íslenska kvennalandsliðinu. Ég er annars alveg dottin úr öllu hokkísambandi... veit ekkert hvernig mínir menn eru að standa sig, hvort þeir komist í playoffs.

AuðurA (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 04:04

4 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Ef ég væri að flytja út myndi ég gera það, en áhugi í sturtunum hræðir mig!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 29.3.2008 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband